Rekstrargrundvöllur Íslands

Hvernig í ósköpunum gat það gerst að þessi kona gat orðið ráðherra? Það örlar ekki fyrir einföldustu skynsemi hjá henni.

Þegar eitt af stærstu fyrirtækjum landsins gefur það út að grundvöllur þess sé fallinn og eina sem gæti komið í veg fyrir lokun þess sé upptaka á raforkusamningi, segir ráðherra að ekki sé tímabært að skoða hvaða  áhrif það hefur fyrir þjóðfélagið að af þeirri lokun verði! Og þegar forsvarsmenn leita ásjár hjá ráðherra, vegna þvermóðsku forstjóra Landsvirkjunar, vísar hún þeim á dyr og segir að þarna sé um samning milli tveggja fyrirtækja að ræða. Vísar þeim í fang þess er setti snöruna um háls þeirra! Hvers vegna heldur ráðherra að leitað hafi verið til hennar? Áttar hún sig ekki á þeirri einföldu staðreynd að búið er að reyna að ná sambandi við þann sem heldur um hinn enda snörunnar?

Forsætisráðherra komst þó örlítið betur frá málinu, talaði um að skoða þyrfti samkeppnisgrundvöll stórfyrirtækja á landinu. Væntanlega á hún þar við að með því að setja málið í nefnd muni það lagast.

Það er ekki stór mál að skoða samkeppnisgrundvöll fyrirtækja, meðan tekjur eru lægri en gjöld er grundvöllurinn ekki til staðar. Svo hefur verið hjá Ísal frá því að nýr orkusamningur tók gildi við það fyrirtæki landsmanna sem selur því orkuna. Því er ljóst að grundvöllurinn er brostinn, verði ekki að gert hið bráðasta.

Frekar ætti að skoða hver rekstrargrundvöllur Íslands er, falli stóriðjan. Fyrsta fyrirtækið í fallinu verður Ísal, Elkem er skammt á hælum þess og Norðurál mun fylgja í kjölfarið. Bara við það eitt að missa Ísal mun skerða rekstrargrundvöll Íslands niður fyrir það level er afætur þjóðarinnar í 101 þola. Að ekki sé nú talað um rekstur grunnþjónustunnar. Enn verra verður ástandið þegar fleiri falla. Það er nefnilega enginn annar kaupandi af orkunni, svo einfalt sem það er!

Þá má ekki gleyma þeim sem beinlínis lifa á þessum fyrirtækjum, starfsmenn þeirra og minni fyrirtæki sem þjóna stóriðjunni. Þarna er verið að tala um fleiri þúsund manns sem munu missa sitt lífsviðurværi.

Landsvirkjun er í eigu landsmanna, Alþingi ber ábyrgð á fyrirtækinu og skipar stjórn. Stjórn þess ræður síðan forstjóra. Framkoma og framferði forstjórans ber þó ekki merki þess að um fyrirtæki landsmanna sé að ræða, hann hagar þvert á vilja eigenda, en sjálfsagt vel studdur stjórn Landsvirkjunar. Enda ekki ónýtt að hafa þar næst sér lögfræðinginn "góða" sem stjórnaði kjararáði. Þegar síðan forstjórinn og stjórnarformaðurinn verða búnir að rústa þessu gullepli landsmanna, setja það á hausinn vegna þvermóðsku við stærstu orkukaupendurna, munu þeir sjálfsagt fá væna starfslokasamninga!

Stjórnvöld verða að vakna, þau verða að grípa inní áður en lengra er haldið. Taka völdin af stjórn Landsvirkjunar og forstjóra þess. Ef lagabreytingu þarf til verksins á einfaldlega að breyta þeim lögum strax!

Við erum þegar komin með annan fótinn fram yfir bjargbrúnina. Þökk sé misvitrum forstjóra Landsvirkjunar og kjark- og getulausum ráðherrum ríkisstjórnarinnar!!


mbl.is „Hættum nú að tala þetta niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband