Dr. Patrick Moore

Dr. Patrick Moore er doktor í líffræði og var einn af stofnendum Greenpeace samtakanna.

Hér er magnað viðtal við hann, sem tekið var upp nú í janúar. Viðtalið er frekar langt, um ein klukkustund, en hverrar mínútu virði.

https://www.youtube.com/watch?v=w5nEboAQNcQ

 


Til eflingar kerfisins.

Lög um Ferðamálastofu kristalla kerfi sem búið er til í þeim eina tilgangi að viðhalda eða efla kerfið.

Í þessum lögum er tiltekið hvert hlutverk stofunnar skal vera og eftirlitsstarf. Í stuttu máli má segja að hlutverkið sé fátæklegt og eftirlitsstarfið enn fátækara, einna helst þurfa verkefni og eftirlit að vera með þeim hætti að sem minnst þurfi að gera og alls ekki að stíga fæti út í raunheima.

Jú Ferðamálastofa úthlutar leyfum til ferðasala. Til að öðlast slíkt leyfi þarf ekki mikið. Viðkomandi þarf að búa innan ESB/EES, vera lögráða, hafa skráð starfsemina hjá ríkisskattstjóra og hafa gilda tryggingu innan ESB/EES. Svo mörg voru þau orð. Ekkert spáð í getu eða trúverðugleik viðkomandi, starfsfólk hans eða búnað. Reyndar bætist við ein kvöð eftir að leyfi hefur verið gefið út og kallast það öryggisáætlun. Hún má vera á rafrænu formi og engin frekari krafa gerð um trúverðugleik þeirra áætlunar né hvernig henni er við haldið. Ekki er heldur gerð krafa um að þessi áætlun sé kynnt starfsfólki, eða það þjálfað á neinn hátt og enn síður að ferðamanninum komi hún eitthvað við.

Um sviptingu leyfis er enn færra. Í raun ekki hægt að svipta ferðasala leifi nema hann gerist brotlegur við einhver ofantalinna atriða. Ef brotið er á ferðamanninum, líf hans eða limir lagðir í hættu, varðar það ekki sviptingu leyfis. Og jafnvel þó einhver ofantalinna atriða eru brotin, hefst ákveðið ferli sem tekur nokkurn tíma að fara, áður en til lokunar getur komið.

Þessi lög eru því ekki til að þjóna ferðafólki, einungis gerð til þess eins að efla kerfið og gera það örlítið flóknara.

Krafa um tryggingu ferðasala er sjálfsögð og svo ætti einnig að vera um trúverðugleik og framkvæmdir. Öryggisáætlun ætti að vera megin grunnur undir starfsemi sem snýr að ferðum með fólk og henni þarf að viðhalda og vera starfsfólki kunn.

Frosti vill að ferðamaðurinn kaupi tryggingu fyrir björgun. Eðlilegra væri að ferðasalinn kaupi slíka tryggingu og rukki ferðamanninn. Það ferli væri mun gagnsærra og auðveldara á allan hátt. Í það minnsta þarf að breyta kerfinu gagnvart björgunarsveitum landsins. Að hver galgopi geti ætt út í hvað sem er og treyst á sjálfboðaliða til björgunar úr ófæru, getur ekki gengið til lengdar. Næg eru verkefnin þó, fyrir þessar hetjur okkar.

Geta til sviptingar leyfis á að vera sterk, þannig að ferðasalar vandi sig. Hvert það atvik sem stefnir ferðafólki í hættu ætti að varða tafarlausri sviptingu, þar til mál hefur verið rannsakað og niðurstaða fengin. Allt annað er út í hött.

Og auðvitað á sá aðili sem veitir leyfið að hafa heimild til að afturkalla það.

En Ferðamálastofa var auðvitað ekki stofnuð til að sjá um ferðamál, henni er ætlað það hlutverk að efla og viðhalda kerfinu. Þar má auðvitað ekkert útaf bregða!


mbl.is Verði skylt að kaupa björgunartryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kveðja

Jón Valur Jensson er fallin frá og votta ég ættingjum hans samúð.

 

Við í þessu samfélagi hér, á moggablogginu, þekktum öll Jón Val. Hann hafði ákveðnar skoðanir og var fylginn sér, og flutti mál sitt af rökum og festu. Einkum ritaði Jón um þau mál er hann hafði menntað sig til, en einnig um dægurmál sem hæst stóðu hverju sinni. Gaman var að lesa skrif Jóns og ljóst að okkar samfélag er mun fátækara en áður.

Hvíl í friði kæri bloggvin


Að vera alsgáður um áramót

Óska öllum lesendum þessa blogg gleðilegs árs og þakka innlitið á liðnu ári.

Að vera allsgáður og í vinnu á nýársnótt er erfiðara en margur heldur. Ekki að vinnan sé slæm eða að einhver leiðindi sæki að manni, heldur hitt að allt virðist fara úr skorðum í þjóðfélaginu. Fréttir verða undarlegar og skemmtiþættir eitthvað annað en skemmtiþættir.

Áramótaskaupið náði engu hylli þess er þetta ritar, sennilega ekki samið fyrir allsgáða. 

Þegar litið er yfir fréttir síðasta dag síðasta árs, eru þar á meðal áramótahugvekjur stjórnmálamanna. Nú ber svo við að formaður landsbyggðaflokksins þeysir um víðan völl en minnist varla orði á landsbyggðina meðan formaður flokks menntafólksins gerir ójöfnuð landsbyggðarinnar að sínu aðalsefni.

Hellst dettur manni í huga að þeir félagar hafi byrjað snemma að fagna nýju ári, kannski saman á góðum bar og ruglast á ræðum.

 


mbl.is Hvað sagði Twitter um Skaupið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband