Ríkið á nægt land undir rafstrengi

Það er auðvitað slæmt að landeigandi skuli geta stöðvað lagningu rafstrengja í jörð. En er það svo? Á því eru fleiri hliðar.

Landeigandi er jú landeigandi, en þetta eiga sumir erfitt með að skilja. Rarik hefur einhliða búið til samning sem landeigendur skulu samþykkja. Þessi samningur setur verulega kvöð á það land sem strengur er lagður um og gerir það næsta ónothæft fyrir eigandann. T.d. er ekki hægt að rækta á því skóg, illmögulegt og stundum útilokað að nýta það til túnræktar og að auki þarf landeigandinn að afsala sér með öllu yfirráðarétti um hver fer um það land. Það er skiljanlegt að sumir séu ekki tilbúnir að ganga að slíkum afar kjörum.

En það er til önnur leið, leið sem kallar ekki á breytingu laga eða reglna. Þannig hagar til að þegar vegir eru lagðir kaupir ríkið það land sem þeim þarf að tilheyra, af landeiganda. Náist ekki samningur er málið gjarnan leyst með eignaupptöku og bótum. Ríkið á því það land sem undir vegi fer og að auki 24 metra út fyrir vegkant á stofnbrautum og um 12 metra út fyrir vegkant á tengibrautum. Með því að leggja rafstrengina um þetta land, sem ríkið á, þarf ekki að semja við neinn landeiganda.

Þetta þýðir auðvitað að leggja þyrfti eitthvað lengri strengi en ella en það munar þó ekki miklu. Vegir eru jú yfirleitt lagðir sem styðstu leið. Á móti þarf Rarik ekki að eyða tíma sínum í samningagerð við landeigendur, getur einbeitt sér að lagningu rafstrengja í jörð. Auðvitað á þetta fyrst og fremst við um dreifikerfi Rarik, 66kV eða minni. Dreifikerfi Landsnets, 132kV byggðalínan og 220kV línurnar til stóriðjunnar, eru kannski örlítið flóknari. Þó er líklegt að hægt væri að færa stóran hluta af byggðalínunni, 132kV, í jörð í landi ríkisins, meðfram vegakerfinu. 

Það eru í raun þrír þættir sem raforkukerfinu stendur ógn af, mikill vindur, ísing og selta. Þegar tveir þessara þriggja þátt koma saman er nánast öruggt að að rafmagn fer af. Mikill vindur samhliða ísingu þyngir raflínur svo að staurar gefa sig og línur slitna. Selta, sem kemur samfara miklum vindi af hafi, veldur því að einangrar hætta að virka og útsláttur verður. Því má útiloka áhrif ísingar með því að setja línur í jörð, en áhrif vinds og seltu stendur eftir og þau áhrif eru oftast mun víðtækari, spennuvirki sem dreifa orkunni um stór svæði, verða óstarfshæf. Þetta sást vel í byrjun óveðursins í síðustu viku, þegar spennuvirkið í Hrútatungu sló út. Vestfjarðarlína og stór hluti Húnavatnssýslna varð rafmagnslaus. Reyndar sló þessu tengivirki ótrúlega fljótt út, nánast strax og vindur tók að aukast, löngu áður en vindur náði hámarki sínu. Það bendir til að fyrirbyggjandi viðhaldi sé ábótavant, að einangrarar virkisins hafi verið óþrifnir áður en veðrið skall á. 

Auðvitað þarf viðhald orkumannvirkja að vera gott, sér í lagi meðan kerfið er svo berskjaldað og feyskið sem nú. Þar hefur hvorki Rarik né Landsnet neina afsökun. Það er hins vegar hægt að bæta þetta. Hægt væri að byggja yfir þessi spennuvirki og hlýtur það að vera stefnan. Þar til það er klárað má hugsa sér einhverskonar skermingu frá þeirri átt sem selta er líklegust. Og auðvitað að þrífa einangrara reglulega, fyrir veturinn og yfirfara þá sérstaklega þegar von er á veðri er getur skapað hættu á mikilli seltu.

Raforkukerfið mun því ekki verða viðunandi á landinu fyrr en búið er að setja allt dreifikerfið í jörð, efla eða jafnvel tvöfalda stofnkerfið og verja spennuvirkin fyrir seltu. Þangað til þarf að stór efla fyrirbyggjandi viðhald, þannig að þetta laskaða kerfi okkar geti hangið inni sem lengst. Það er með öllu óviðunnandi að eitt spennuvirki, fyrir stóran hluta landsins, skuli slá út nánast um leið og spáð er einhverjum vindi af hafi!

Forstjóri Rarik ætti að hætta að reyna að koma sök á aðra, hana á hann sjálfur. Ríkið á nægt land um byggðir landsins til að leggja jarðstrengi, það þarf ekki að setja landeigendum einhverja afarkosti, þarf ekki einu sinni að ræða við þá!

 


mbl.is Grundvallaratriði að sama gildi fyrir alla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viku síðar

Nú er nærri vika liðin síðan kröpp lægð gekk yfir landið, með þeim afleiðingum að nærri helmingur þess missti rafmagn og stór hluti missti að auki öll samskipti við umheiminn. Og enn eru mörg heimili án rafmagns og þau sem sögð eru búin að fá tengingar, enn meira og minna sambandslaus. Illa gengur að koma lagi á kerfið og alls óvíst hvenær því líkur.

Hetjur landsins eru sannarlega hjálparsveitirnar og starfsmenn dreifikerfanna. Þeir æddu út í óveðrið jafn skjótt og bilanir hófust og gerðu það sem hægt var og eru enn að.

Þó var þessi lægð í sjálfu sér ekki svo kröpp, heldur var áttin kannski óvenjuleg, þ.e. norðan með tilbrigði til vesturs. Það er slæmt að missa rafmagnið en verra að missa á sama tíma öll samskipti við umheiminn. Fólk vissi ekki neitt, gat sig hvergi hreyft, ekki einu sinni að næsta bæ, svo klukkustundum og sólahringum skipti. Þarna brást allt sem brostið gat.

Það er sorglegt að horfa nú upp á menn koma fram í sjónvarp og reyna að varpa sök á einhvern annan. Vissulega hefur verið unnið gegn styrkingu rafkerfisins af hinum ýmsu umhverfissamtökum og vissulega hefur Landsnet þverskallast við að hlusta á íbúa þeirra svæða sem línur þess þurfa að fara um. En hvers vegna þarf að missa rafmagn af hálfu landinu, setja íbúa þess í hættu og etja síðan starfsfólki og hjálparsveitarfólki út í óvissuna, til að leysa þær deilur sem uppi eru um línulagnir. Er virkilega ekki hægt að setjast niður og finna lausnir án þess að tugþúsundum fólks sé stefnt í hættu? Sé svo er ljóst að þeir sem að málinu koma eru alls ekki hæfir til að sinna sínu starfi og er þar fyrst og fremst átt við stjórnendur Landsnets og stjórnvöld landsins.

Landsnet sér um stofnlínukerfið, byggðalínuna, Rarik er aftur með dreifikerfið. Byggðalínan og búnaður hennar er víðast hvar komin á fimmta áratug í aldri. Sá sem þetta ritar vann við lagningu hennar yfir Holtavörðuheiðina, haustið 1975. Sú lína er því orðin gömul og feyskin og þakkarvert að hún skildi standa af sér rokið á þriðjudag og miðvikudag síðustu viku. Það er ekki spurning hvort heldur hvenær sú lukka bregst og línan gefur sig í óveðri. Það var hins vegar spennuvirkið við norðurenda þessarar línu sem fyrst gaf sig, spennuvirkið við Hrútatungu. Hversu fljótt það leysti út vekur vissulega upp spurningu hvort fyrirbyggjandi viðhaldi hafi verið ábótavant, hvort að svo mikil selta hafi verið á einöngrurum þess áður en óveðrið skall á sé ástæða þess að það sló út nánast strax og fór að hvessa, með þeim afleiðingum að vesturlína, Hrútafjörður og stór hluti Húnavatnssýslu varð rafmagnslaus og flestir gsm og útvarpssendar stuttu síðar. Svipað ástand var víðar á svæði Landsnets, engu líkara en að verulega hafi skort á eðlilegt og fyrirbyggjandi viðhald. Það er auðvitað stórmál, í ljósi þess hversu gamalt og lélegt þetta kerfi er orðið. Þar er ekki hægt að skýla sér á bak við að ekki hafi fengist leifi til lagninga á nýjum línum. Meðan svo háttar er enn frekari ástæða þess að fyrirbyggjandi viðhald sé eins gott og hægt er.

Rarik hefur vissulega gert nokkuð átak í að koma dreifikerfi sínu í jörð. Það gengur þó enn hægt og með sama hraða mun því ekki ljúka fyrr en eftir 15-20 ár og er það með öllu óviðunnandi. Þá er ámælisvert hvernig staðið hefur verið að þessu verkefni. Á sumum stöðum hefur nánast heilu sveitunum verið fært rafmagn úr loftlínu í jörð. Þó hafa verið skildir eftir einstakir kaflar. Dæmi eru þess að á um 40km langri leið, þar sem rafmagn var fært í jörð, voru fyrstu 15km frá spennuvirki enn skildir eftir sem loftlína og hún gaf sig. Þetta er svipað og að skrifa bók en sleppa fyrstu köflunum hennar!

Ríkisútvarpið, útvarp allra landsmann, brást 100%. Var svo sem varla við öðru að búast, en það vekur enn sterkari hugsun um tilverurétt þeirrar stofnunar. Ekki einungis brást sendikerfi ruv, sem saman stendur af fjölda FM senda auk tveggja langbylgjusenda, heldur brást fréttaflutningurinn með öllu. FM endarnir duttu nánast strax út er rafmagnið gaf sig. Langbylgjusendingar hafa verið skertar svo mikið yfir landinu að stór hluti hættusvæðisins náði ekki sendingum þaðan. En í sjálfu sér breytti þetta litlu, þar sem fréttaflutningurinn var í mýflugumynd. Það fólk sem sat í köldum húsum sínum, meðan stórhríðin gekk úti, var því ekki að missa af miklu. Það vissi það þó ekki. Við hin, sem vorum sunnan heiða og höfðum áhyggjur af ættingjum og afkomendum fyrir norðan, þurftum að leita annarra leiða en ruv, til að afla upplýsinga. Þar var heimasíða Rarik einna best og má vissulega þakka þar stöðugum upplýsingum um ástandið og áætlanir til bóta. Ekki hefði verið flókið fyrir ruv að lesa þær upplýsingar upp jafn skjótt og þær bárust, þó ekki væri nema fyrir þá sem voru svo heppnir að ná langbylgjunni. Það var ekki fyrr en sveitastjórnir norðan heiða gagnrýndu ruv, sem eitthvað fór að gerast í fréttaflutningnum. Þó ekki meira en svo að fréttamenn stofnunarinnar stóðu einhversstaðar í skjóli undir húsvegg í stærstu byggðarkjörnunum og fluttu fréttir þaðan, aðalega um það sem gerðist í götunni við hliðina á þeim!!

Og auðvitað fór það svo að sumir vanþroskuðustu þingmennirnir okkar ætluðu að nýta sér þetta til að fá prik. Það var þó fljótlega slegið á putta þessara manna, enda er enginn stjórnmálaflokkur undanskilinn í þessu máli. Ráðherrar skruppu norður og forsætisráðherra komst í stuð er hún fann lurk til að berja á sökudólgnum, ísingunni. Nú sitja ráðherrar sveittir við að reyna að finna sem flest orð yfir hvað þeir huga sér að gera, sem væntanlega verður ekki neitt. Skipuð hefur verið nefnd um málið og kannski má vænta niðurstöðum hennar einhverntíman í framtíðinni. Heyrst hefur að menn vilji fjölga vararafstöðvum. Kannski mætti þá skoða hvers vegna þeim var fækkað og hver eða hverjir tóku þær ákvarðanir!

Vararafstöðvar leysa þó lítinn vanda og í raun ættu þær einungis að vera á stofnunum sem eru háðar rafmagni, eins og heilsugæslustöðvum, svo starfsfólk þar þurfi ekki hugsa um sjúklingana með því að vera með vasaljós á hausnum. En það er þó ekki nóg að fjölga þessum rafstöðvum, það þarf að festa þær tryggilega svo ekki sé hægt að selja þær aftur! Að ætla að leysa vandann að öðru leiti með vararafstöðvum er auðvitað algerlega óraunhæft. Hægt er að hugsa sér að einhverjar stórar rafstöðvar gætu leyst vanda einstakra byggðarkjarna, um stuttan tíma, en sveitir landsins verða jafn illa settar, nema auðvitað að ætlunin sé að deila út litlum rafstöðvum á hvern bæ.

Eina lausnin er því að efla sjálft dreifikerfið. Setja aukinn þunga í að jarðsetja rafkerfi sveitanna og bæta við byggðalínuna. Þá þarf að klára það sem aldrei hefur verið klárað, en það er hringtenging þannig að hægt sé að keyra rafmagn í báðar áttir. Þetta voru upphaflegu áætlanir byggðalínukerfisins en virðist sem það hafi einhvertímann síðustu hálfa öld verið skilið útundan. Verja þarf spennuvirkin, þannig að þau verði ekki eins viðkvæm fyrir veðri og saltmengun. Þetta eru auðvitað aðgerðir sem ekki verða gerðar í hvelli, en hægt er að flýta málinu. En fyrst af öllu þarf að auka fyrirbyggjandi viðhald, þrífa einangrara spennuvirkjanna reglulega og sjá til þess að þeir séu eins viðbúnir að takast á við stórviðri og hægt er. Áhættugreina línukerfi landsins og sjá til þess að nægur mannskapur og efni til viðgerða sé nægt á þeim stöðum sem teljast í mestri hættu. Þannig má takmarka skaðann og halda uppi þjónustu lengur en ella.

Varðandi grunnþjónustu fjarskipta þá er það svo að þau virka vel meðan rafmagn helst. Aldrei verður þó hægt að útiloka rafmagnsleysi, þó takmarka megi það. Því þarf að auka byrgðir varaafls við síma og útvarpssenda. Kannski þarf alþingi að koma að málinu, með reglusetningu um lágmarks varaafl þessara senda. Einnig mætti hugsa sér að lagasetning um að ef rafmarksleysi nái einhverjum ákveðnum tíma, t.d. 8klst, sé viðkomandi flutningsaðili raforkunnar skildugur til að greiða notanda bætur. Það mun sannarlega gefa þessum fyrirtækjum smá spark til að standa sig betur.

 


mbl.is Högg kom á kerfið þegar tengivirki datt út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær ætlar fólk að vakna?

Umræðan um hlýnun loftlags og orsakir og afleiðingar þess virðist meira eiga heima í skáldsögum en raunveruleikanum. Kannski af þeirri ástæðu sem skáld eru svo hrifin af þessari umræðu.

Enginn efast um að loftlag á hnettinum hefur hlýnað frá þeim tíma er kaldast var, um nokkur þúsund ára skeið. Hvort sú hlýnun muni halda áfram eða hvort toppnum er náð, mun framtíðin skera úr um. Í það minnsta er vart mælanleg hlýnun síðasta áratug og reyndar farið kólnandi á sumum stöðum hnattarins.

Um afleiðingar þessarar hlýnunar þarf ekki að deila. Gróðurþekja hefur aukist, sérstaklega á þeim svæðum sem voru komin að mörkum undir lok litlu ísaldar, en einnig hefur gróður aukist á svæðum sem skilgreind hafa verið sem eyðimerkur. Skapast það fyrst og fremst af þeirri augljósu ástæðu að við hlýnun loftlags eykst raki í loftinu. Sá raki skilar sér síðan sem rigning, einnig á þau svæði sem þurrust eru. Því hefur gróðurþekja aukist verulega frá upphafi tuttugustu aldar. Mælingar gervihnatta, sem hófust undir lok sjötta áratugarins, staðfesta þetta svo ekki verði um villst. Hlýni enn frekar, ætti þessi þróun að aukast enn frekar, mannkyn til góðs. Ef aftur kólnar, munum við fara í sama horfið. Gróður mun aftur minnka og hungur aukast.

Mestar deilur eru um orsakir þessarar hlýnunar. Þær eru sjálfsagt fjölmargar en af einhverjum ástæðum hefur verið einblínt á einn þátt, co2 í andrúmslofti. Þessi skýring er þó langsótt og í raun með ólíkindum hvað fólk gleypir við þeirri skýringu, vitandi að loftslag er flóknara en svo að einn þáttur, sem vigtar mjög lítið, geti verið sökudólgurinn, eða blessunin, eftir því hvernig á málið er litið. Eitt liggur þó kristaltært fyrir, viðmiðunarpunktur mælinga er rangur. Að það hitastig sem var á jörðinni við lok litlu ísaldar skuli vera heilagur sannleikur er auðvitað fásinna. Nær væri að taka meðaltal hita yfir nokkur þúsund ár og reikna út hlýnun eða kólnun loftlags út frá því. Þegar við mælum hitastig líkama okkar er viðmiðunin meðaltal hita mannslíkamans, ekki sá hiti sem lægstur hefur mælst í lifandi manni.

Eins og áður sagði, þá hefur af einhverjum ástæðum verið valið að saka magn co2 í andrúmslofti um meinta hlýnun. Ástæðuna má kannski rekja til þess að fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, Al nokkur Gore, kom með þessa skýringu. Bar þar fyrir sig línurit sem sannaði þetta. Þó er ljóst að ekkert beint samhengi er þarna á milli, auk þess sem skiptar skoðanir eru um orsök og afleiðingu, hvort co2 valdi hlýnun eða hvort hlýnun valdi auknu co2, þó síðari skýringin sé þó mun skynsamlegri á allan hátt. Eitt hafa menn þó átt erfitt með að útskýra, en það er þróun hitastigs og losun co2 á síðustu öld. Alla öldina var nánast línuleg aukning co2, meðan hitastig hækkað mjög hratt fram undir 1940, lækkaði þá skart aftur fram undir 1980, hækkaði aftur mjög hratt næstu tvo til þrjá áratugi og hefur nánast staðið í stað síðan. Þetta misræmi milli hitaaukningar og aukningu á losun co2 hefur vafist nokkuð fyrir þeim sem tala fyrir þeirri skýringu að co2 sé aðal sökunautur. Nú hafa hins vegar spekingar NOOA og NASA leyst þennan vanda, með því einfaldlega að jafna línuritið út. Enginn gæti útskrifast úr háskóla með slíkum hætti.

Stjórnvöld út um allan heim, ekki síst hér á landi, hafa lagt ofurafl á minnkun co2 í loftslagi. Telja sig þar með vera að "bjarga heiminum".  Aðgerðirnar eru hins vegar handahófskenndar og í flestum tilfellum felast þær í auknum sköttum eða einhverju sem mælist með peningum. Engin sjáanleg merki eru um að þetta fólk hagi sér í samræmi við sinn boðskap, en boðar fjárútlát á alla aðra sem ekki bæta sitt ráð. Verslað er með svokallaða mengunarkvóta, þvert og endilangt, án þess þó að mengunin minnki nokkuð. Skattar eru lagðir á þá sem ekki eiga þess kost að ferðast á "vistvænan" hátt og enn frekari skattar boðaðir. Allt leiðir þetta að einu og aðeins einu, frekari skerðingu lífskjara án nokkurra áhrifa á loftslagið.

Þegar maður vill síðan skoða tölulegar staðreyndir um málið, þ.e. hversu mikið Ísland losar af þessari lofttegund, sem sumir hafa skilgreint sem baneitrað en er í raun grundvöllur alls lífs, rekur maður sig á vegg.

Samkvæmt skýrslu stjórnarráðsins er losun Íslands á co2 ígildi um 2,9 miljónum tonna. Af því eru ígildistonn vegna orku, þ.e. eldsneyti og annað í þeim dúr, 1,8 milljón.  Til samanburðar losar Katla um 6,6 miljón ígildistonn á hverju ári, samkvæmt síðustu mælingum og Landsvirkjun 8,8 milljón ígildistonn vegna sölu á losunarkvóta. Þarna fer greinilega ekki saman hljóð og mynd, svo vitlaust sem þetta er. Látum vera þó losun eldfjalla sé haldið frá þessum upplýsingum, þó vissulega sú losun ætti að skipta máli í umræðunni. Hitt er aftur undarlegra að eitt fyrirtæki hér á landi skuli geta selt losunarheimildir erlendis, án þess að það komi fram í bókhaldi stjórnarráðsins. Þetta er auðvitað galið!

Ekki er neinn vafi á að þeir sem þessar losunarheimildir kaupa skrá það í sínar bækur, sem skilað er til viðkomandi lands. Til þess er jú leikurinn gerður, eða hvað? Hvað verður þá um sjálfa mengunina? Gufar hún þá bara upp? Þetta er ein af þeim snilldarlausnum sem ESB kom fram með, enda hefur losun co2 í Evrópu aldrei verið meiri en nú, jafnvel þó íslenskt fyrirtæki selji þeim losunarkvóta sem er rúmlega þrisvar sinnum það magn losunar sem stjórnarráðið telur landsmenn losa!

Hvenær ætlar fólk að vakna? Hvers vegna er þjóð, sem telur sig vera þokkalega vitiborin, svo auðkeypt?

 


mbl.is Bann við notkun svartolíu í landhelgi Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband