Landráð?

Það er undarleg sýn sem ráðherra hefur á fullveldi landa, eða stjórnarskrá. Að fela sig bakvið það að um "leiðréttingu á innleiðingu" sé að ræða er vægast sagt fráleitt.

EES samningurinn var gerður við Efnahagsbandalag Evrópu, var fyrst og fremst viðskiptasamningur. Síðan þá hefur orðið mikil eðlisbreyting á samstarfi Evrópuþjóða. Í stað Efnahagsbandalags er komið Evrópusamband. Eðlið orðið breytt og samstarf þessara þjóða orðið mun pólitískara en það var er EES samningurinn var samþykktur á Alþingi, með minnsta mögulega meirihluta.

Mesta eðlisbreytingin var í byrjun desember 2010, er Lissabonsáttmálinn var samþykktur. Sá sáttmáli lagði grunnin að enn frekara sjálfstæði ESB frá aðildarlöndum þess. Sambandið fékk þá ráðherra á ýmsum sviðum, s.s. utanríkismálum og aðild að stofnunum Sameinuðu þjóðanna, sem hvert annað þjóðríki.

Segja má að þegar þessi eðlisbreyting varð á Efnahagsbandalagi Evrópu og það varð að Evrópusambandi, hafi EES samningurinn fallið úr gildi. Í það minnsta hefði átt að endurskoða hann í samræmi við breytingu á EB yfir í ESB.

Allt frá upphafi samþykktar okkar í EES hefur hallað á okkar hlut í því samstarfi. Það var þó ekki fyrr en eðlisbreytingin úr EB yfir í ESB, sem fyrst fór að verða mikill halli þar á. Áður var það svo að hluti síðasta dags Alþingis, hverju sinni, fór í að samþykkja tilskipanir frá EB, en nú tekur daga að samþykkja þessar tilskipanir, í lok hvers þings. Þær eru bornar fram á færibandi og sjaldnast nokkur umræða um þær. Fæstir þingmenn hafa hugmynd um hvað þeir eru að samþykkja.

Nú er það svo að allir samningar færa hvorum samningsaðila eitthvað gott, þó láta þurfi undan í öðrum málum. Svo er einnig varðandi EES samninginn. Hann er ekki alvondur þó áhöld hafi verið um gildi hans gagnvart stjórnarskrá þegar hann var samþykktur. Í dag þarf hins vegar enginn að efast um að ýmsar tilskipanir sem Alþingi hefur samþykkt, höggva svo nærri stjórnarskránni að ekki verður við unað. Þegar hoggið er að stjórnarskrá ríkis er verið að veikja sjálfstæði þess.

Við eigum auðvitað að eiga góð samskipti við aðrar þjóðir Evrópu, bæði þeirra er eru innan sem utan ESB. Við eigum hins vegar aldrei að láta slíkt samstarf vega að okkar eigin sjálfstæði. Þegar svo er komið að tilskipanir eru samþykktar án umræðu. á Alþingi, er ekki lengur hægt að tala um sjálfstæði þjóðarinnar.

Því þarf að óska eftir upptöku EES samningsins, koma honum í það horf er hann var hugsaður, viðskiptasamning. Að slíta sundur viðskiptatengsls frá stjórnmálatengslum. Þeir stjórnmálamenn sem ekki átta sig á þeirri staðreynd hvert komið er, eiga ekkert erindi á Alþingi. Þeir munu aldrei standa vörð lands og þjóða, eins og þeim ber. Það er landráðafólk.


mbl.is Hvorki vegið að stjórnarskrá né fullveldi framselt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er enginn feluleikur að um sé að ræða leiðréttingu á rangri innleiðingu, heldur er það einfaldlega staðreynd að innleiðing bókunar 35 í íslensk lög um EES hefur verið ófullnægjandi frá byrjun og það hefur Hæstiréttur Íslands ítrekað staðfest.

EES-samningurinn er ekki eingöngu viðskiptasamningur heldur hefur hann þá sérstöðu að færa einstaklingum og lögaðilum á svæðinu ýmis réttindi. Fyrir einstaklinga eru þau réttindi ekki síst mikilvægust á sviði neytendaverndar Þessu fylgir svo sjálfstætt réttarkerfi sem er sérstaks eðlis, því það tekur tillit til fullveldis aðildarríkjanna.

Svo má hafa skoðun á því hvort EES sé gott eða slæmt.

Eins og oftast má þar finna bæði gott og slæmt.

Guðmundur Ásgeirsson, 5.4.2023 kl. 01:11

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins hefur ítrekað verið þverbrotin af núverandi ríkisstjórn. Þetta frumvarp VERÐUR að stöðva með öllum tiltækum ráðum! 

Júlíus Valsson, 5.4.2023 kl. 09:21

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Þegar innleiðing reglugerða ESB í íslensk lög er farin að bitna á lagalegum rétti einstaklinga hér á landi þá opnast sá möguleiki að höfða mál gegn einstökum ráðherrum. Menn bíða í startholunum...

Júlíus Valsson, 5.4.2023 kl. 09:25

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Júlíus Valsson.

Röng innleiðing bókunar 35 við EES-samninginn hefur ekki "bitnað" á lagalegum rétti einstaklinga hér á landi heldur þvert á móti komið í veg fyrir að sá réttur nái fram að ganga.

Fyrir það er hægt að krefja íslenska ríkið um skaðabætur.

Frumvarpið sem er ætlað að leiðrétta hina röngu innleiðingu fer ekki í bága við stjórnarskrá heldur gætir þess að löggjafarvaldið sé eins og hingað til í höndum Alþingis. Það þarf nauðsynlega að samþykkja til að uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands og koma í veg fyrir að áfram fari einstaklingar á mis við réttindi sín með tilheyrandi skaðabótabótaskyldu ríkisins.

Guðmundur Ásgeirsson, 5.4.2023 kl. 16:12

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Guðmundur

1957 tók Rómarsáttmálinn gildi og til varð Efnahagsbandalag Evrópu, EB, var áður Kola og Stálbandalag. 1993 er Maastricht sáttmálinn samþykktur og Evrópusambandið verður til, ESB. 2009 tekur Lissabonsáttmálinn gildi og völd ESB aukin verulega. Í raun má segja að það sé fyrsta alvöru skrefið af sjálfstæði ESB frá aðildarlöndum sínum.

EES samningurinn tekur gildi 1992, meðan Rómarsáttmálinn var við líði. Því má segja að EES samningurinn hafi verið gerður við EB en ekki ESB. Upptaka samningsins átt auðvitað að fara fram við þá eðlisbreytingu á samstarfi þeirra ríkja er tilheyrðu EB, þ.e. þegar EB færist yfir í ESB. Enn frekari ástæða var til upptöku samningsins þegar Lissabonsáttmálinn tók gildi.

Vissulega er hægt að segja að EES samningurinn gefi okkur ýmis réttindi, enda kemur fram í pistli mínum að ég tel hann ekki alvondan. Mörg þeirra réttinda hefði vel mátt taka upp í íslensk lög, án aðildar að EES en önnur kannski ekki. Það er hinsvegar það jafnvægi sem slíkir samningar hafa, sem skipta mestu máli, að sem jafnast halli á báða eða sem jafnast báðir aðilar hagnast. Þetta jafnvægi hefur raskast verulega, okkur í óhag.

Varðandi bókun 35 segir í skýrslu Stefáns M Stefánssonar, frá 1998, meðal annars:

"Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra milli EES-reglna sem
komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-
ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur
gildi í þeim tilvikum.“

Þarna er EES ríkjum sett sjálfsvald um upptöku bókunar 35, eða réttara að segja að slík upptaka þurfi ekki að fara fram fyrr en ágreiningur um túlkun laga á grundvelli EES samningsins verða.

Þeir sem fylgdust með stjórnmálum í upphafi tíunda áratug síðustu aldar, einkum þó umræðunni um EES samninginn, vita hversu tæpt stóð að sá samningur fengi samþykki Alþingis. Þar kom einna hellst til ótti við framsal valds, með tilheyrandi veikingu sjálfstæðis okkar. Umræðan var oft á tíðum hörð. Til að ná minnsta mögulega meirihluta Alþingis á samþykkt samningsins var því lofað að staðið yrði fast á sjálfstæði okkar.

Ekki er fráleitt, þar sem innleiðing á bókun 35 var loðin í samningnum, að það hafi leitt til þess að Alþingi hefur ekki enn þorað að klára það mál, þó í raun þessi bókun hafi gildi, þar sem Hæstiréttur samþykkir hana. Í dag er öldin önnur. Fækkar sífellt í hópi þeirra er voru samtíða þessari pólitísku orrahríð, í undanfara samþykkt EES samningsins. Þá er sjálfstæði okkar minna metið af yngra fólki en því eldra. Utanríkisráðherra var til dæmis ekki nema 5 ára er samningurinn var samþykktur og margir þeirra sem láta hátt jafnvel ekki fæddir á þeim tíma.

Sé svo að nauðsynlegt þykir að innleiða bókun 35 segir það eitt að einhver lög, komin eða væntanleg, munu valda hér það miklum titringi að ganga verði frá málinu formlega. Það vedur hugarangri þeirra sem unna sjálfstæði lands og þjóðar.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 5.4.2023 kl. 16:14

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Svo má auðvitað spyrja sig, til hvers þurfum við Alþingi ef það hefur ekki vald til að setja hér lög, þjóðinni til farsældar. Þá má allt eins setja á stofn einhverja afgreiðslustofnun, sem stimplar það sem okkur er fært erlendis frá. Spara þannig mikinn kostnað við kosningar, réttarhöld að loknum þeim og kannski það sem mestu skiptir, óheyrilegum kostnaði við rekstur Alþingis og öllum því aðstoðarfólki sem þar starfar.

Og allir ánægðir?!

Gunnar Heiðarsson, 5.4.2023 kl. 16:32

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Guðmundur Ásgeirsson Fjömiðlafrumvarpið stríðir gegn stjórnarskránni. Ritskoðun og takmörkun framboði á efni t.d. ljósvakamiðla bitnar á einstaklingum og þá er viðkomandi ráðherra ábyrgur fyrir skaðanum.  

Júlíus Valsson, 6.4.2023 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband