Það er dimmt yfir Reykjavík

Það þarf ekki hámenntaða menn til að átta sig á því að ekki skapast rykmengun af umferð þegar götur eru ýmist undirlagðar saltpækli eða klakabrynjaðar, eins og gatnakerfi borgarinnar er nú um stundir. Því kom borgarstjóri eins og skrattinn úr sauðaleggnum, þegar hann tjáði alþjóð að nagladekk væri sökudólgur þeirrar mengunar er leggst yfir borgina þegar vindurinn tekur sér smá frí. Þessi mengun er hrein útblástursmengun bíla með sprengimótor.

Það vekur hins vegar upp nokkuð stóra spurningu. Hvers vegna er þessi ógurlega mengun í borginni, þegar rafbílum fjölgar sem aldrei fyrr og mengun frá eldsneytisbílum minnkar  með hverju árinu sökum tækninýjunga? Getur verið að sú ákvörðun borgarstjórnar að hægja á umferð, hafi þar eitthvað að segja? 

Það er augljóst að bíll sem ekur á 30 km hraða er lengur milli staða en sá er ekur á 50 km hraða. Hvort bíll er á 30 eða 50 breytir litlu um mengun per tíma. Vélin gengur á svipuðum hraða, einungis gírkassinn breytist. Er í lægri gír þegar hægt er ekið. Því er ljóst að með því að hægja á umferð, eykst mengun.

Þó má einnig velta fyrir sér hversu mikil aukning á mengun svokölluð þétting byggðar hefur. Niðurbrot eldra húsnæðis, flutningur þess burt af svæðinu, mokstur fyrir nýjum grunni og akstur burt með það efni, flutningur á möl til að fylla aftur upp þá holu og jöfnun og þjöppun þess, kallar á óhemju mikla umferð stórra flutningabíla og fjölda vinnuvéla. Þá tekur við uppsteyping hins nýja stórhýsis með akstri fjölda steypubíla. Allt er þetta gert í grónum og byggðum hverfum, með tilheyrandi töfum á öllum stigum. Allt þetta veldur gífurlegri mengun, margfalt meiri en ef byggt er í nýjum hverfum. 

Hvort þessa miklu mengun megi rekja til ákvarðana borgarstjórnar, skal ósagt látið. Hitt er ljóst að rafbílum hefur fjölgað og nýrri eldsneytisbílar eru jafnt og þétt að útrýma eldri og mengunarmeiri bílum. 

Svo getum við, þegar vora fer og götur þorna, rifist um hvor er meiri sökudólgur varðandi rykmengun, nagladekkin eða einstakur og heimsfrægur sóðaskapur borgarstjórnar.


mbl.is Ekki vegryk heldur útblástur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo virðast þessar mengunarmælingar vera algjör húmbúkk vísindi. Það eru aðeins teknar mælingar af einum mæli við Grensásveg sem er svo heppilega staðsettur fyrir nýmarxistanna að vera við gríðarmikla umferð sem oft er nánast stopp.

Það eru fjölmargir aðrir mælar á höfuðborgarsvæðinu, tíu talsins og ætti ekki frekar að taka meðaltal af þeim eða að meirihluti þeirra fari yfir mörkin samtímis? En nei,nei, það hentar ekki áróðrinum hjá activistunum á RÚV, Umhverfisstofnum, sumum talsmönnum Landspítalans og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Þetta minnir ótrúlega mikið á kjötbökumálið í Borgarnesi. Þar sem aðeins var tekið eitt sýni sem gekk frá fyrirtækinu dauðu. Ekki þóttu þessi vinnubrögð standast fyrir dómi og voru ríkisstofnanirnar gerðar afturreka með þessi vinnubrögð sín.

En einn mengunarmælir við Grensásveg virðist duga fyrir allar mengunarmælingar á höfuðborgarsvæðinu.

Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 9.1.2023 kl. 21:35

2 Smámynd: Loncexter

Mengun mundi STÓRMINNKA ef hraðahindrunum væri fækkað stórlega.

Einnig ef hringtorgum yrði fjölgað.

Loncexter, 10.1.2023 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband