Þjóðernissinninn Ég

Það er alveg sama hvernig á þetta mál er litið, það er útilokað fyrir Verslunarskólann að afsaka það. Þá skiptir engu máli hvort glæran er gömul eða ný, henni var varpað upp á vegg fyrir nemendur Verslunarskólans. Það kallast innræting og ekkert annað. Hvað halda kennarar skólans annars að þeirra verkefni sé, annað en að koma kennsluefni sínu inn í hugarheim nemenda?

En skoðum aðeins þessa mynd. Þarna eru Adolf Hitler, Benító Mussólíní og svo Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hvað eiga þessir menn sameiginlegt? Akkúrat ekki neitt. Tveir þeirra einræðisherra og glæpamenn og sá þriðji þingmaður og um stuttan tíma forsætisráðherra Ísland.

Myndin sett saman og varpað á vegg fyrir nemendur í stjórnmálafræði, til að skapa umræðu um þjóðernisstefnu, segir skólastjórinn. Hvernig er eiginlega þjóðernisstefna skilgreind í þessum skóla? Hvað eiga Hitler og Mussolini skylt við þjóðernisstefnu? Einræðisherra getur aldrei orðið þjóðernissinni, hann hugsar það eitt að halda völdum, með öllum ráðum. Fórnar jafnvel þjóð sinni í þeim tilgangi. Hvernig er hægt að skilgreina slíka menn sem þjóðernissinna? Jafnvel Sigmundur Davíð kallast vart þjóðernissinni, þó hann sé kannski næstur þeirri stefnu af þeim íslensku þingmönnum sem nú sitja Alþingi. Flestir aðrir kikna í hnjánum og roðna þegar þeir eru ávarpaðir á erlenda tungu og eru tilbúnir að fórna bæði landi og þjóð fyrir það eitt að fá að snerta hönd þeirra er þannig tala. Þar skiptir einu hvort um stórklikkaða einræðisherra er að ræða eða ekki.

Það væri fróðlegt að vita hvernig þjóðernisstefna er kennd í skólum landsins í dag, sér í lagi Verslunarskólanum. Mér var kennt að þjóðerniskennd væri eitthvað sem tengdist því að þykja vænt um land sitt og þjóð, vilja standa vörð um þá eign. Er það glæpamennska? Eru það einræðistilburðir? Eða er kannski allt tal sem ekki þóknast ESB þjóðernistal?

Það er einn þjóðernissinni sem af ber í íslenskri sögu og sá maður var til langs tíma dáður af þjóðinni og skólar landsins, einkum á hærra menntastigi, héldu nafni hans á lofti. Mikil hátíð haldin á þeirra vegum á þeim degi er við kennum við hann. Þessi maður hét Jón Sigurðsson, sá er manna ötulast vann að sjálfstæði lands okkar og því að við gætum talist þjóð en ekki hjáleiga. Nú má helst ekki nefna hans nafn, án þess að vera kallaður þjóðernissinni og ekki má heldur hampa þjófánanum, án þess að fá sama stimpil.

Kallist þetta þjóðernisstefna þá er ég stoltur þjóðernissinni.

Þjóðernisstefna er ekki og á ekki að vera neikvætt hugtak, hún er jákvætt hugtak sem gerir þjóð að þjóð.


mbl.is „Enginn pólitískur áróður í skólanum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Gunnar, góður pistill ég lýsi mig þjóðernissinna með þér og er sammála því að Sigmundur er á mörkunum með að teljast þjóðhollur rétt eins og allt góða fólkið sem lætur röndóttan glóbalinn blakta hæðst jafnvel á sjálfan 17. júní.

Góða fólkið er komið í vörn vegna fasista stimpilsins sem glóballinn hefur skaffað því, og það er engin afsökun að myndbirting kennarans í Verslunarskólanum sé ekkert nýtt, -ef eitthvað er þá er það mun alvarlegra mál.

Magnús Sigurðsson, 11.1.2023 kl. 13:33

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk fyrir þetta Magnús, við erum þá alla vega tveir.

Kveðja af Skaganum

Gunnar Heiðarsson, 11.1.2023 kl. 14:20

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Eins og bent hefur verið á, þá er hægt að búa til marga svona lista, sem gætu hugsanlega orðið umræðuefni í stjórnmálafræðitímum í framhaldsskólum landsins.

Þekktir listamenn: Adolf Hitler og Megas.

Þekktir stjórnmálamenn af vinstri vængnum: Jósef Stalín, Pol Pot og Katrín Jakobsdóttir.

Þekktar grænmetisætur (og reyndar listamenn, vill svo til): Adolf Hitler og Paul McCartney.

Ég tek fram að ég sé fátt sameiginlegt með þessum persónum á þessum listum, en kannski er þetta fræðandi og uppbyggjandi umræða í kennslustundum að mati umrædds kennara (og skólastjórans) í VÍ. Þeim er þá velkomið að nota þetta efni sér að endurgjaldslausu.

Aumar eru eftiráskýringar skólastýrunnar, að þetta sé bara í þessu fína af því það er a.m.k. ár síðan þetta gerðist. Ærumeiðandi ummæli eða umfjöllun fyrnist ekki, nema beðist sé afsökunar á umræddri umfjöllun.

Theódór Norðkvist, 11.1.2023 kl. 18:51

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Theódór

Ekki er ég viss um að Kata yrði kát ef hún yrði sett við hlið Pol Pot, alveg sama á hvaða forsendum það væri. Enn óhressari held ég hún yrði ef slíkt væri gert fyrir framan nemendur í framhaldsskóla. Að skapa umræður má gera á fleiri og eðlilegri vegu en því að varpa á vegg myndum af glæpamönnum og setja við hlið þeirra íslenska einstaklinga.

Þá er klárt mál að íslenskir fjölmiðlar væru fullir af fréttum um þetta mál, ef það sneri að mynd af Kötu og Pol Pot. Krafan um afsögn kennarans og jafnvel skólastjórans væri þá hávær.

Gunnar Heiðarsson, 12.1.2023 kl. 07:19

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þakka svar, sammála.

Theódór Norðkvist, 12.1.2023 kl. 10:02

6 identicon

Mikið er ég sammála þessari greiningu. Að mínu mati er  hún sorgleg þessi viðleitni dagsins í dag að gera þjóðernishyggju að einhverju ljótu.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 12.1.2023 kl. 17:41

7 identicon

https://timarit.is/files/25107494

Vagn (IP-tala skráð) 12.1.2023 kl. 21:07

8 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Æ já, alltaf gaman að spegla söguna og fortíðina í ljósi nútímans, Vagn.

Þetta gamla ljósrit minnir mann á margt.

Það dæmir hvorki þjóðernissinna á Íslandi í nútímanum né í fortíðinni, því hvorugur hópurinn er sekur um að setja fólk í gasklefa eða neitt slíkt.

Í fyrsta lagi: Flokkur Hitlers í Þýzkalandi hafði á sér gott orðspor hjá langflestum nema miklum og hörðum kommúnistum eins og Steini Steinarr, sem reif niður fána þeirra eins og frægt er orðið. Sögurnar um fjöldamorðin komu síðar, eftir stríðslok, nema meðal fáeinna, og hatursfullra vinstrimanna sem trúðu slíkum kjaftasögum, sem því miður reyndust sannar.

Í öðru lagi: Íslendingum yzt til hægri var ekki tamt að þýða heitið beint og kalla sig:"Þjóðernisverkamannajafnaðarmannaflokkur Íslands". Það hefur þótt of langt og óþjált.

Þess vegna er þetta gamla orð notað enn sem hefur margar merkingar: Þjóðernissinni.

En kommúnisti þýðir ekki það sama eftir því um hvaða aðila er að ræða. Ekki heldur nazisti eða rasisti. Það eru jú meginatriði sameiginleg ef menn játast undir slíkt, en á okkar tímum einstaklingshyggjunnar er fólk mjög áhugasamt um að vera ósammála öðrum.

Þessi gamla tímaritsgrein sannar ekki að Gunnar Heiðarsson sé nazisti enda skilgreinir hann það sjálfur hvað honum finnst felast í hugtakinu þjóðernissinni.

Hakakrossmerkið hefur nú verið notað af ýmsum og lengi, meðal annars hreyfingum tengdum búddisma og Þórshamarinn er talinn af sumum vera svona.

Ungu mennirnir sem skrifuðu þessa tímaritsgrein 1934 eru ekki einu sinni gamlir menn eins og meðlimir í Miðflokknum eða Íslenzku þjóðfylkingunni. Þeir voru af manngerð sem trúði á framtíðina og nýjungar, sama manngerð og er í Pírötum núna, eða Samfylkingunni, enda "jafnaðarmannaflokkur" hluti af nafni flokksins á þýzku.

Vinstrimenn ná völdum með því að vekja samvizkubit hjá hægrimönnum sem eru frekar hlynntir þjóðerniskennd. Þeir nota alla veika punkta, og þetta er veikasti punkturinn, halda þeir, vegna innrætingar í þá átt frá 1945. 

Þannig gleymist það góða sem fylgir þjóðerniskenndinni, eins og líforka, lífsgleði, samheldni, náungakærleikur.

 

Ingólfur Sigurðsson, 12.1.2023 kl. 22:37

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er alltaf gaman að skoða gamlar myndir Vagn. Ef þú hefðir haft rænu á að lesa pistil minn, hefðir þú kannski séð hug minn til þýskra nasista og höfuðglæpamann þeirra, Aldofs Hitlers.

"Hvað eiga Hitler og Mussolini skylt við þjóðernisstefnu? Einræðisherra getur aldrei orðið þjóðernissinni, hann hugsar það eitt að halda völdum, með öllum ráðum. Fórnar jafnvel þjóð sinni í þeim tilgangi. Hvernig er hægt að skilgreina slíka menn sem þjóðernissinna?"

Eins og fram kemur í þessari setningu minni, þá á nasismi ekkert skylt við þjóðernisstefnu. Ljósmynd af grein skrifuð í blað á Íslandi, fyrir síðar heimstyrjöld, af mönnum sem stálu orðinu þjóðernissinni í sínum pólitíska leik, breytir þar engu. Nasismi átti mun frekar skylt við kommúnisma á þeim árum er Hitler komst til valda og reyndar alla hans stjórntíð, rétt eins og nafn þeirra segir. Þeir áttu það sameiginlegt, Adolf og Stalín að ráðast gegn eigin þjóð og stráfella hana. Það kallast seint þjóðernisstefna, þó vissulega margir "höfðingjar" kommúnismans hafi hugnast slík velferð, bæði fyrr og síðar. Marga mætti nefna í því sambandi, eins og til dæmis Pol Pot.

Það er alltaf gott að gefa sér tíma til að lesa greinar, áður en þær eru gagnrýndar, Vagn.

Gunnar Heiðarsson, 12.1.2023 kl. 23:56

10 identicon

Ég geri ráð fyrir að kennarinn hafi verið að nota stöðluðu merkingu orðsins og almenna notkun í nærri öld frekar en þá merkingu sem þú telur orðið hafa. En þú virðist þurfa að gefa orðum nýja merkingu, til dæmis eru þjóðerniskennd og þjóðernisstefna ekki það sama þó þú látir eins og svo sé.

Vagn (IP-tala skráð) 13.1.2023 kl. 01:59

11 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Neikvæð merking orðsins þjóðerniskennd er tiltölulega ný til komin og tengin þess við nasisma. Það hlálega er þó að sumir telja enn neikvæðara að tengja þetta orð við hægri stefnu og tala þá gjarnan um öfga hægri stefnu.

Þú getur alveg ímyndað þér hvaðan sú túlkun kemur. Hún kemur frá sama ranni og þeim er vilja tengja Alþjóðlegan sósíalisma (nasista) við hægri stefnu. Einnig hafa þau öfl sem vilja afnema þjóðríki verið dugleg við að gera merkingu þjóðerniskenndar neikvæða.

Gunnar Heiðarsson, 13.1.2023 kl. 06:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband