Vindorka og mengun
19.9.2022 | 18:26
Það er flestum ljóst að vindorka er fjarri því að vera mengunarfrí. Fyrir utan augljósa sjónmengun og hávaðamengun frá vindmillum er vitað að spaðar þeirra eyðast ótrúlega fljótt og að olían sem notuð er á spennana mengast af geislavirkni. Þá er vitað að mikið rask á landi fylgir vindmillum og þau landspjöll eru ekki afturkræf. Þetta er sú mengun sem mest hefur verið rædd opinberlega, en lítið talað um þá mengun sem er þó hættulegust og ein og sér ætti að leiða til þess að öllum hugmyndum um vindmillur ætti að slá strax út af borðinu, bæði hér á landi sem og erlendis. Þarna erum við að tala um SF6 eða brennisteinshexaflúorið.
Brennistenshexaflúoríð SF6, eða sulfur hexafluorid upp á erlenda tungu, er litlaust, lyktarlaust og algerlega ósýnileg gastegund. Gas þetta hefur þann eiginleika að vera einstaklega heppilegt til að kæla niður stóra rafmagnsrofa og er notað til þess. Nú hefur orðið mikil aukning á þessu gasi í mælingum í andrúmslofti Þýskalands og er sú mengun fyrst og fremst rakin til vindmilla. Þó vissulega þetta gas sé einnig notað í öðrum orkuverum, er ljóst að vegna þess hversu óstabílar vindmillur eru, eru oft að stöðva og starta, verður mun meiri mengun frá þeim en orkuverum sem eru stabílli í orkuframleiðslu. Þá kemur endingatími orkuveranna þarna einnig inní, þar sem eyða þarf gasinu þegar orkuframleiðslu er hætt. Endingatími vindorkuvera er einungis talin um 20 ár, meðan vatnsorkuver geta endast meira en mannsævi.
SF6 er gastegund sem er talið hafa sterkustu gróðurhúsaáhrif allra lofttegunda á jörðinni, 23.000 sinnum meiri áhrif en co2. Reyndar telur IPCC efnið vera 27.000 sinnum öflugra. Hvert eitt kíló sem sleppur út í andrúmsloftið af brennisteinshexaflúoríði jafngildir því losun á 23 - 27 tonnum af co2. Og það tekur einungis 3000 ár fyrir gasið að eyðast eða brotna niður!
ESB vildi banna notkun á SF6, en það var lagst hart gegn því, einkum af vindmillueigendum. Að lokum náðist samþykki um bann við notkun þess, í nýjum búnaði eftir árið 2030. Siemens telur sig hafa leyst vandann, en sú lausn er dýr. Því er ljóst að SF6 mun verða notað þar til bannið tekur gildi, með tilheyrandi mengun fyrir lofthjúp jarðar. Og meðan svo er, er erfitt að átta sig á hagnaðnum við beislun vindsins. Að minnsta kosti er ljóst að hagur lofthjúpsins versnar, þó hugsanlega einhverjir gróðapungar nái að fylla vasa sína.
Eins og áður segir hefur orðið umtalsverð aukning af SF6 í andrúmsloftinu í Þýskalandi. Sjálfsagt víðar, en þar vantar mælingar, bæði fyrir og eftir vindmilluæðið. Hér á landi eru sjálfsagt engar mælingar til á þessu efni í andrúmsloftinu. Eftirlitskylda um meðferð á brennisteinshexaflúoríði er í molum um allan heim. Það er vitað hversu mikið af því er framleitt og selt á hverju ári, það er einnig vitað hversu miklu SF6 er komið til eyðingar. Þarna á milli er mikið gap, mun meira framleitt en eytt. Það segir að mikið magn af brennisteinshexaflúoríði hefur sloppið út í andrúmsloftið, með tilheyrandi mengun lofthjúpsins. Í Þýskalandi berast böndin að vindorkuverum.
Sem betur fer hefur okkur hér á landi tekist að halda aftur af byggingu stórra vindmillugarða. Einungis eitt sveitarfélag hefur breytt skipulagi til handa vindbarónum, en það er Dalabyggð. Önnur sveitarfélög hafa ýmist hummað nálið fram af sér eða segjast ætla að bíða leiðsagnar stjórnvalda. Þá er virkjanasvæðið fyrir ofan Búrfell klárt til slíkrar uppbyggingar, enda þegar skipulagt sem slíkt. Það má alveg koma fram að einn ráðherrann tengist áformum um vindmillur í Dalabyggð, eða réttara sagt eiginkona hans og faðir hans. Kannski er það skýring þess að það sveitarfélag, eitt íslenskra sveitarfélaga, hefur glapist til að breyta skipulagi fyrir vindbarónana.
En nú er ljóst að þeir aðilar sem að áformum um byggingu vindmilla hér á landi, eru teknir að ókyrrast. Inn um lúguna hjá okkur íbúum á vesturlandi kom einblöðungur, tilkynning um fundarboð. Að þeim fundi standa EMOrka, Qair, Zephyr og Grjótháls, auk þess sem Norðurál hefur látið undan að setja nafn sitt á fundarboðið. Dagskráin er einföld, fjórir erindrekar munu halda ræður yfir þeim sem mæta. Þetta verður sannkölluð messa þar sem gestir eiga að meðtaka boðskapinn og auðvitað er ekki gert ráð fyrir fyrirspurnum kirkjugesta.
Þarna sameinast helstu erlendu vindbarónarnir í því að reyna að siða sauðsvartan almúgann!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:37 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þennan stórfróðlega pistil.
Ég hef setið tvo trúboðsfundi fyrir vindmilluæðinu þar sem fullyrt hefur verið að hljóðið sem ég heyrði á ferð um Jótland og hefur verið meðal þess sem hefur ergt fólkið þar, hafi verið ímydun, því að vindmyllurnar hafi ekki hærra en kæliskápur!
Birt mynd til að sanna að sjónmengun sé nær engin, en sú mynd var tekin beint ofan frá og lóðrétt niður og spaðarnir því nær ósýnilegir!
Ómar Ragnarsson, 19.9.2022 kl. 21:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.