Tommustokkur Seðlabankans

Nýjasta útspil Seðlabankans er sem bensín á eld komandi kjarabaráttu. Hækkun stýrivaxta kemur launafólki verst, en bankarnir fitna enn meira. Það er fátt sem skerðir laun hins almenna borgara meira en hækkun stýrivaxta.

Verðbólga hér á landi er ekki svo há, ekki ef notaður er sami tommustokkur og löndin sem við viljum bera okkur samanvið nota. Mælt með þeim tommustokk er verðbólga á Íslandi ekki nema 6,4%, eða sú næst lægsta í gjörvallri Evrópu, einungis Sviss með lægri verðbólgu. Meðal verðbólga ríkja ESB, mælt með þessum sama tommustokk, er 9,8%. Hins vegar er til önnur verðbólgumæling hér á landi, aðferð sem hvergi annarstaðar þekkist. Samkvæmt henni mælist verðbólga hér 9,9%, eða 3,5% hærri en raunveruleg verðbólga og 0,01% hærri en meðaltalsverðbólga ESB ríkja. Ástæða þessarar aðferðar, til verðbólgumælingar hér á landi, er að til langs tíma voru nærri öll lán til húsnæðiskaupa tengd þessari mælingu. Nú hin síðari ár hefur fólk átt kost á óverðtryggðum lán til slíkra kaupa, en þá eru vextir gjarnan fljótandi, þ.e. fylgja breytingum á stýrivöxtum Seðlabankans. Þetta tryggir bankana og því ekki undarlegt að hagnaður þeirra sé ævintýralegur.

Nánast öll þessi 6,4% raunverðbólga sem er hér á landi skapast vegna hærri aðkaupa til landsins, sem eins og allir vita skapast af stríðinu í Úkraínu en þó mest vegna sjálfskipaðs orkuskorts í Evrópu, sökum rangrar orkustefnu ESB. Einhver smáhluti þessarar verðbólgu er sökum þess að fólk hefur verið að nota sparnað sinn til eigin nota. Hin 3,5% sem eru heimatilbúin í Svörtuloftum, koma til vegna skorts á íbúðahúsnæði.

Hækkun stýrivaxta mun því lítið gagnast til að lækka verðbólguna hjá okkur. Hærri vextir hér munu ekki slá á verð á vörum erlendis, hærri vextir hér hafa lítið að segja gegn því að fólk noti sinn sparnað til eigin not og kannski það mikilvægasta í þessu öllu, hærri vextir hér á landi munu ekki leiða til þess að stórkostlegur skortur á húsnæði leysist.

En bankarnir fitna sem aldrei fyrr og launafólkinu blæðir. Það er stutt í að við förum að heyra sögur af fólki sem borið er út á götu, í boði bankanna. Sömu sögur og þær sem voru svo átakanlegar í kjölfar Hrunsins.

 

Hvers vegna í ósköpunum má ekki nota sömu mælistiku á verðbólguna hér á landi og notuð er allstaðar annarsstaðar. Af hverju þarf að búa til einhvern sér íslenskan mælistokk til þessarar mælingar!


mbl.is Hvers virði eiga krónurnar að vera?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Seðlabankinn bregst við verðbólgu af völdum hækkandi húsnæðiskostnaðar, með því að hækka húsnæðiskostnað enn meira. Eins gott að seðlabankinn er ekki slökkvilið, því þá væri flest brunnið sem brunnið getur.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.8.2022 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband