Bankarán og pólitískt nef
11.4.2022 | 13:31
Í skjóli nætur var stór hluti eigna ríkisins í Íslandsbanka seldur. Hvernig staðið var að sölunni hefur verið gagnrýnt. Þar eru tvö atriði sem standa uppúr, verðlagningin á hlutabréfunum og val á kaupendum. Nú vilja sumir ráðherrar þvo hendur sínar af þessum gjörning. Vandséð er hvernig þeim mun takast sá þvottur. Ekki er hægt að sjá lagaleg rök fyrir því a' láta gjörninginn ganga til baka, enda sumir "fagfjárfestar" þegar búnir að leysa út sinn hagnað af kaupunum, með því að selja bréfin þriðja aðila.
Í fyrstu minnti þessi gjörningur bankasýslunnar nokkuð á árin fyrir hrun, en þegar fjármálaráðherra, í trássi við bankasýsluna, opinberaði kaupendahópinn rak mann bókstaflega í rogastans. Þarna voru samankomnir fyrrum bankaræningjar landsins, er settu landið bókstaflega á hausinn fyrir einum og hálfum áratug. Menn sem höfðu og hafa sjálfsagt enn, ítök í flesta stjórnmálaflokka landsins. Þar eru fáir undantaldir, þó almenningur vilji gjarnan spyrða Sjálfstæðisflokk við þessa menn. Þá má alveg minna á að einn helst andstæðingur þess flokks, til áratuga, var einn af afkastameiri bankaræningjum fyrir hrun og hans nafn poppar upp á þessum lista yfir kaupin nú.
En aftur að sjálfri sölunni. Þegar Alþingi samþykkti sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka voru leiðbeiningar þingsins vægast sagt litlar. Þó voru umræður nokkrar um málið, en á endanum var fjármálaráðherra nánast falið einræði um hvernig að þessu skyldi staðið. Nokkuð hefur vafist fyrir ráðherranum aðferðarfræðin, fyrst vegna þess að talið var of nærri kosningum til að framkvæma verkið, flokkur hans gæti misst atkvæði. Síðan eftir kosningar og BB var áfram fjármálaráðherra, fór hann að hreifa málinu. Strax kom í ljós að hvorki þingið né þjóðin var á því að selja strax. Ekkert lægi á auk þess sem ekki væri ljóst hvernig standa ætti að sölunni.
BB var þarna kominn í vanda. Mjög var legið á honum að koma málinu af stað, af þeim sem sáu sér þarna leik á borði. Þá var bankasýslan mjög áfjáð í að klára málið. Leikmaður veit auðvitað ekki hvað fram fer á fundum ríkisstjórnarinnar en ljóst er að þar var ekki eining um söluna, jafnvel þó hún hafi verið ítrekuð í stjórnarsáttmálanum. Því fóru að heyrast frá ráðherra ýmsar skýringar um hvernig standa skildi að þessari sölu. Í fyrsta lagi átti að bjóða hlutabréfin út, í öðru lagi var fallið frá dreifðri eignaraðild og velja skyldi svokallaða fagfjárfesta til kaupanna, fjárfesta sem væru að hugsa um kaupin til lengri tíma.
Fjármálaráðherra tók síðan af skarið og fól bankasýslunni að hefja undirbúning sölunnar. Lítið heyrðist um tíma af málinu, en svo bárust óvæntar fregnir af því að salan hefði farið fram, á einni nóttu. Seldur hafði verið 22,5% af heildareign bankans og að verðið var 117 krónur á hlut, nokkuð undir markaðsverði. Strax þarna varð ljóst að eitthvað var ekki að ganga upp í þessu dæmi. Að hægt skuli vera að selja 22,5% í banka á einni nóttu er útaf fyrir sig ótrúlegt. Þá var einnig séð að um töluvert undirverð var að ræða.
Upphófst nú mikil gagnrýni á söluna, réttilega. Ekki einungis að verðið væri undir markaðsverði, heldur reyndist útilokað að fá að vita hverjir kaupendur voru. Þegar svo BB ákvað að opinbera lista yfir kaupendur, í trássi við bankasýsluna, var eins og þyrmdi yfir mann. Þarna voru helstu aðalleikarar hrunsins komnir, ljóslifandi. Það fyrsta sem manni datt í hug hvað það væri sem skilgreindi fagfjárfesti frá öðrum fjárfestum. Er skilyrði að fjárfestir þurfi að svíkja, stela, vera dæmdur um fjársvik eða eitthvað í þeim dúr til að geta kallast fagfjárfestir? Eða er kannski bara nóg að vera "vinur" réttra aðila? Á listanum voru menn sem höfðu fengið dóma fyrir fjársvik og jafnvel voru þarna menn sem enn eru í meðferð dómstóla!
Í viðtali við fjölmiðla hélt starfsmaður bankasýslunnar því fram að ekki hefði komið krafa frá ráðherra um að kanna hvort bjóðendur væru heiðarlegir, eða hvort þeir hefðu gerst brotlegir við lög. Hvers konar fáviska er þetta hjá manninum?! Í hvaða heimi býr slíkt fólk sem lætur þannig orð frá sér? Bankasýslunni er falið að selja eign landsmanna, upp á upphæð sem almenningur á erfitt með að setja í samhengi og stofnunin telur sig ekki þurfa að kanna bakgrunn kaupenda!
Öll atburðarás þessarar sölu er hrein skelfing. Þetta er í þriðja sinn sem ríkið selur banka sína og klárlega sú allra skelfilegust, sér í lagi vegna þess að við höfum söguna til að leiðbeina okkur.
Ef við greinum þetta örlítið, út frá því sem ráðherra sagði fyrir söluna. Hlutur ríkisins er boðin út. Þegar eitthvað er boðið út mætti ætla að tilvonandi kaupendur bjóði í hlutinn og sá sem hæst býður hljóti hnossið, svo fremi hann uppfylli kröfur til kaupenda. Þarna ákveður hins vegar seljandi verðið fyrirfram og að auki setur það lægra en markaðsvirði. Þetta er því ekki útboð heldur bein sala. Í öðru lagi talaði ráðherra um að valdir yrðu fagfjárfestar, að það myndi tryggja langa eigu þeirra í bankanum. Þegar listinn var opinberaður kom hins vegar í ljós að yfir 40% sölunnar féll til einkafjárfesta. Lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og erlendir langtímasjóðir, allt sjóðir sem reikna má með að séu að fjárfestar til lengri tíma, fengu einungis tæp 60%. Síðan hefur komið í ljós að innan þess hóps sem kallast erlendir langtímasjóðir, eru bara alls ekki neinir langtímasjóðir, heldir sjóðir sem spila spákaupmennsku frá degi til dags. Því má ætla að langtímafjárfestar í þessu útboði séu mun færri en ætlað er, jafnvel undir 50%. Þá hefur einnig komið í ljós að margir þeirra einkafjárfesta er kauptu í bankanum hafa þegar tekið út sinn hagnað af sölunni.
Það sem þó kemur mest á óvart varðandi þessa sölu í bankanum, er hversu pólitískt nef fjárnálaráðherra er gjörsamlega kol stíflað. Það hefur legið fyrir lengi að lítil sátt er um sölu á eignum ríkisins í bönkunum. Þar kennir sagan okkur. Því var sölunni frestað á síðasta kjörtímabili, taldist of skammt til kosninga til að offra þannig atkvæðaveiðum. Nú eru einungis örfáar vikur til næstu kosninga. BB hefði mátt vita að salan yrði gagnrýnd, jafnvel þó sú skelfing sem nú blasir við hefði ekki orðið. Því er með ólíkindum að hann skuli færa vinstriöflunum þetta beitta vopn, skömmu fyrir borgarstjórnarkosningar. Dagur hlýtur að kætast.
Það er ljóst að Íslandsbanka var rænt. Þar ber bankasýslan auðvitað stærstu ábyrgð. Framkvæmdin var þeirra og fjarri því sem um var rætt af yfirmanni þeirra, fjármálaráðherra. Auk þess sem bankasýslan hleypir inn í söluna dæmdum fjárglæframönnum, jafnvel mönnum sem enn eru í meðferð dómstóla. Fjármálaráðherra ber einnig mikla ábyrgð. Hann stóð ekki vaktina fyrir þjóðina, eins og honum ber. Hann virðist ekki hafa farið yfir málið áður en hann gaf bankasýslunni vald til að rita undir söluna. Reyndar vandséð að ráðherra hafi heimild til að útdeila slíku valdi til embættismanna. Ráðherra hlýtur að þurfa að rita eigin hendi undir sölu eigna ríkisins upp á tugi milljarða króna.
Aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar bera sömu ábyrgð og fjárnálaráðherra. Þeir geta gasprað, en ábyrgðina bera þeir.
Það er gott að vera bara fávís kjósandi. Að þurfa enga ábyrgð að bera á því að sumum sé hyglað -- nema auðvitað að borga fyrir herlegheitin!
Óeining í ríkisstjórn um bankasölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Það má líka líta á að 60% hafi farið til fagfjárfesta
40% sé dreift eignarhald - 184 kaupendur
Hvað er "rétt" verð á hlutabréfum
Hver vill selja og hver vill kaupa
Hvaða magn
Eins og ég skil þetta þá þurfa ósköp fá hlutabréf að skipta um eigendur til að nýtt hlutabréfaverð sé skráð sem rétt verð
Grímur Kjartansson, 11.4.2022 kl. 19:14
Snilldar pistill.
Tek undir allt sem þú segir.
En því miður er BB að takast að eðileggja
sjálfstæðisflokkinn. Einn af þeim lélegustu
formönnum sem flokkurinn hefur haft.
Sorglegt en satt.
Sigurður Kristján Hjaltested, 12.4.2022 kl. 09:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.