Boð vesturvelda til Pútíns

Ástandið í Úkraínu er skelfilegt! Fyrir okkur Frónbúa, sem höfum aldrei lifað við þá ógn að vera í raunverulegu stríði, er útilokað að gera sér í hugarlund hvernig fólkinu í Úkraínu líður. Í landi þar sem engu er líkara en heimsbyggðin hafi snúið baki við.

Aldrei hélt ég að ég myndi vitna í orð Eiríks Bergmanns, eða vera honum sammála. Hann komst þó nokkuð vel að orði í fréttum á Stöð 2 í gærkvöldi, fangaði í raun sannleikann í einni setningu:

„Það má segja að Vesturlönd hafi hreinlega sent boðsbréf til Kremlar og boðið Rússa velkomna að taka yfir Úkraínu. Bandaríkin og flest önnur ríki Nato hafa lýst því yfir að Rússum verði ekki mætt með hervaldi inni í Úkraínu.“

Einhverjar efnahagsþvinganir hafa lítið að segja og alls ekkert nú. Slíkar aðgerðir skila sér ekki fyrr en eftir nokkurn tíma og bitna þá mest á þeim er síst skildi, almenningi þess lands er þær eru höfðaðar gegn. Það verður búið að fórna mögum mannslífum áður en fyrsta rúblan tapast úr vasa Pútín, vegna þeirra aðgerða, þ.e. ef vesturlönd geta þá yfir höfuð komið sér saman um einhverjar aðgerðir. Varðandi viðskipti Rússa við vesturlönd má segja að eina sem verulega skiptir þá máli sé sala á olíu og gasi til Evrópu, en auðvitað á ekki að loka fyrir þau viðskipti, þar eru hagsmunir vestanmegin of stórir, sér í lagi í hjarta ESB, Þýskalandi.

Fyrir okkur Íslendinga skipta viðskiptaþvinganir við Rússa akkúrat engu máli. Þau viðskipti voru lögð af eftir töku Rússa á Krím og hafa lítið aukist eftir það. Það eina sem við getum gert, herlaus þjóðin, er að vísa sendiherra Rússa úr landi. En nei, hér er honum bara hampað og látinn bulla áróður Pútíns í sjónvarpi!

Viðbrögð vesturvelda eru vægast sagt vonbrigði og ef þau telja að með þessu séu þau að minnka skaðann, er slíkt mikill misskilningur. Pútín er rétt að byrja. Reyndar má segja að ESB sé orðið svo háð Rússum að þeir geti lítið gert og vissulega mun þetta afskiptaleysi vernda þá hagsmuni eitthvað, eða þar til Pútin lætur næst reiða til höggs. Hann sér vanmátt ESB og aumingjaskap Bidens.

Það á að gera sömu mistök og gerð voru undir lok fjórða áratugar síðustu aldar. Sleppa brjálæðingnum lausum smá stund í von um að hann fari aftur í bæli sitt. Það hafa brjálæðingar aldrei gert!

 


mbl.is Segir íbúðabyggðir nú skotspón Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Gunnar ég hjó eftir þessu sama hjá Eiríki á Vísi í gærkvöldi, og segi það sama; aldrei hélt ég að ég ætti eftir að verða honum sammála. 

Magnús Sigurðsson, 25.2.2022 kl. 08:39

2 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Líklega verður blásið burtu allt raus um umhverfissjónarmið og notkun jarðefnaeldsneyti og það verður settur fullur kraftur í að opna öll kjarnorkuver aftur og ný kjarnorkuver verða byggð, því eitthvað verður Evrópa að gera til að uppfylla orkuþörf sinna samfélaga.

Eggert Guðmundsson, 25.2.2022 kl. 09:48

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta gæti reynst þungur róður Eggert. Reyndar hafa Frakkar farið fram á við ESB að kjarnorka verði skilgreind sem vistvæn. Vandinn er bara að peningamaskínan sem búið er að gera kringum þetta rugl er orðin svo sterk og að auki er heil kynslóð fólks sem hefur verið alin upp í þeirri trú að mannskepnan geti ráðið veðurfarinu, er að koma inn í stjórnmálin.

Gunnar Heiðarsson, 25.2.2022 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband