Til hvers að skera sauðinn, ef ekki á að éta hann?

Það er að verða nokkuð ljóst að Alþingi mun samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að hér skuli 3. orkupakki ESB taka gildi. Hafi þeir þingmenn sem leggja blessun sína á þessa aðför ráðherrans að lýðræði okkar skömm fyrir.

Málflutningur þeirra sem vilja samþykkja orkupakka 3 eru fyrst og fremst byggð á einu atriði, persónum þeirra sem á móti eru. Framanaf voru þetta einu rök landsölufólksins, fullyrt að engin hætta væri af samningnum, að vald yrði ekki að neinu leyti flutt úr landi. Þegar ljóst var að þessu svokölluðu rök stóðust ekki, þegar ljóst var að um afsal valds var að ræða og ráðamenn gátu ekki lengur dulið það fyrir þjóðinni, voru settir fram fyrirvarar. Þar með viðurkenndu stjórnvöld málflutning þeirra sem á móti voru. En fyrirvarar við tilskipanir frá ESB hafa aldrei haldið og munu aldrei halda. Einungis tilskipunin sjálf, með kostum og göllum virkar. Þetta hefur margoft verið reynt. Enginn hefur getað bent á fyrirvar sem hafi haldið, þ.e. fyrirvarar sem gerður er við þegar samþykkta tilskipun frá ESB. Ef breyta þarf einhverju þarf að breyta sjálfri tilskipuninni.

Ljóshundur verður lagður til meginlandsins, um það þarf ekkert að efast. Hugmyndir ráðamanna um að einhver fyrirvari við tilskipuninni muni þar einhverju breyta eru barnalegar. Til hvers að skera sauðinn ef ekki á að éta hann, til hvers að samþykkja orkupakka 3 ef ekki á að hagnast á honum? Sá hagnaður mun þó einungis falla á annan veginn; til þeirra sem að strengnum sjálfum standa, til þeirra sem framleiða orkuna fyrir strenginn og til þeirra sem taka við orkunni frá strengnum. Við, hinn almenni Íslendingur munum einungis sjá tap og það af stærðargráðu sem engum gæti dottið til hugar. Rekstrargrundvelli flestra fyrirtækja verður fórnað. Og ekki skal nokkur láta sér detta til hugar að einn strengur verði látinn duga. Tveir eru lágmark, þó ekki sé nema vegna afhendingaröryggis. Þegar síðan gróðasjónarmiðum er bætt við mun fjöldi strengja miðast við getu okkar lands til að framleiða orku. Þar mun engu verða eirt og ekkert skilið undan. Baráttu Sigríðar í Brattholti mun því að engu verða gerð, að baráttan um ásælni erlendra afla yfir auðlindum okkar, sem hófst með baráttu um Gullfoss, sé að fullu töpuð!

Teikn eru skýr, búið er að skoða rekstrargrunn sæstrengs, búið er að hanna framkvæmdina og það sem til þarf og ESB hefur sett þennan streng í forgang hjá sér. Erlendir auðjöfrar sniglast um landið eins og gráir kettir í leit að hentugum virkjanakostum og landsvæðum fyrir vindmilluskóga. Ekki eru þeir að spá í að framleiða rafmagn fyrir okkur mölbúana, þeir horfa yfir hafið.

Það er reyndar magnað að nokkur skuli láta sér detta til hugar að ætla að framleiða rafmagn með vindmillum, sem ætlað er til notkunar í 1000 km fjarlægð. Jafnvel þó hægt væri að flytja þá orku eftir landi alla leið, dytti engum slíkt í hug, hvað þá ef þarf að fara yfir úfið útaf. Vindur blæs jú um allan heim og styrkur vindmillna liggur í að hægt er að framleiða rafmagn nálægt notanda, að hægt er að minnka til muna það tap á orku sem flutningur þess leiðir af sér. Kannski væri þarna verk fyrir þá fréttamenn sem vilja hengja "rannsóknar" við nafnbót sína, til skrauts. Að rannsaka hvers vegna erlendir aðilar séu svo áfram um að framleiða hér orku með vindmillum ætlaða til flutninga langar leiðir. Getur verið að andstaðan gegn vindmillum sé orðin svo víðtæk, þar sem stærstu skógar að þeim eru, að það þyki nauðsynlegt að koma óskapnaðnum, sem lengst frá notanda?

Og talandi um orkutap, þá er lítið rætt um þá miklu orku sem þarf að framleiða hér á landi til þess eins að henda í hafið í formi orkutaps gegnum strenginn. Sú umframframleiðsla sem forstjóri Landsvirkjunar er svo tíðrætt um en fáir finna, mun verða léttvæg í þeim samanburði. Ef slík umframorka er til, þá á auðvitað að nýta hana hér á landi, t.d. til garðyrkju eða bræðsluverksmiðja.

Orkutilskipun 3 fer gegn stjórnarskrá, um það þarf ekki að deila. Fyrirvara stjórnvalda munu þar engu breyta. Í ofanálag hefur heyrst að ástæða ráðherra að flytja málið sem þingsályktun sé til þess ætluð að komast framhjá valdi forseta. Þarna er verið að leika hættulegan leik. Höfnun tilskipunarinnar af Alþingi gefur ESB heimild til að fella niður aðrar fyrri samþykktir Alþingis um sama efnisflokk, í þessu tilviki að orkumál verði ekki lengur hluti af EES samningnum. Um þetta þarf þó að semja milli EES og ESB. Samþykki hins vegar Alþingi tilskipunina, en forseti vísar lögum henni tengdri til þjóðarinnar, mun koma upp önnur og verri staða. Þá verður sjálfur EES samningurinn undir, ekki einungis sá hluti er snýr að orkumálum.

Þegar horft er á rök með og móti þessari tilskipun kemur nokkuð glögglega í ljós hversu víðáttu vitlaust það er að samþykkja tilskipun um orkupakka 3. Þeir sem eru á móti samþykktinni hafa einkum nýtt sjálfa tilskipunina sem gagn í sinni rökfærslu og fengið til þess verks færustu menn á sviði Evrópuréttar. Hinir sem samþykkir eru tilskipuninni hafa hins vegar fallið í þá gröf að hlaupa í manninn, í stað boltans. Það er ljótur leikur. Sumir þeirra sem mest hafa mælt með og skrifað um samþykkt tilskipunarinnar hafa beinna hagsmuna að gæta, fyrir sig eða sína fjölskyldu. Hjá öðrum eru ekki jafn skýr tengls, en þau hljóta þó að vera til staðar. Annað er ekki í boði, því einungis heimska mun þá skýra þeirra framferði. Og svo eru það auðvitað ESB sinnarnir. Hjá þeim gilda ekki rök, einungis nóg að pappírinn komi frá Brussel. Því fólki verður aldrei snúið.

Þá er rétt að benda á þá einföldu staðreynd, sem ætti að vera öllum ljós, að jafnvel þó svokallaðir fyrirvarar ríkisstjórnarinnar héldu, þá dugir það bara alls ekki. Þessari ríkisstjórn sem nú situr er vart treystandi til að standa í lappirnar þegar ættingjar sækja að. Síðan kemur ný ríkisstjórn og enginn veit hvernig hún verður skipuð. Miðað við hvernig kjörnir fulltrúar hafa gert leik að því að hundsa niðurstöður kosninga og setja saman stjórnir þvert á niðurstöðu kosninga, má búast við öllu, jafnvel því að ESB sinnar nái völdum. Þá eru fyrirvarar lítils virði!

Ég ætla rétt að vona að kosningin um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra verði með nafnakalli. Listinn um landsölufólkið mun þá verða varðveittur og reglulega opinberaður!!


mbl.is Tókust á um fjarveru Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Góður og ítarlegur pistill Gunnar.

Ég tók mér það bessaleyfi að vitna í hann á annarri síðu því erfitt er að orða kjarna málsins um haldleysi fyrirvara en þú gerir hér að ofan.

Vona að þér sé sama, en allavega búið og gert.

Annars fer þessi pistill í möppu kennda við orkupakkann, innan um eðalpistla eins og Bjarni Jónsson hefur reglulega skrifað.

Hafðu þökk fyrir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.4.2019 kl. 15:29

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ómar

Ef það er eitthvað sem slysast til að koma frá mér í baráttunni, er sjálfsagt að nota það.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 9.4.2019 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband