Túkallinn frá ömmu

Þvílíkt happ fyrir ríkisstjórnina að ung kona skyldi mæta á Klausturbar og nenna að sitja þar í fjóra klukkutíma til að taka upp fyllerísröfl nokkurra þingmanna, þar sem tveir þeirra urðu orðljótir. Annar þeirra þingmanna gengdi þá stöðu formanns samgöngunefndar og þurfti nú að yfirgefa það embætti. Við formennskunni tók fyrrverandi samgönguráðherra og höfundur þeirrar vegskattahugmynda sem núverandi samgönguráðherra andmælti harðlega fyrir síðustu kosningar en var síðan fljótur að samþykkja eftir að hafa fíflað kjósendur. Þessi upptaka á Klausturbar ætlar því að verða afdrifarík fyrir þjóðina.

Ekki líður sá dagur að þessi nýorðni formaður samgöngunefndar fái ekki heiðurssess í fjölmiðlum, þar sem hann heldur uppi látlausum áróðri fyrir vegsköttum, svo miklum að einn daginn las ég að sjálfur væri ég orðinn þeim hliðhollur. Sem betur fer fyrir sálarlíf mitt, þá var ég ekki orðinn svo forfallinn, heldur hafði bæjarstjórinn minn bara sýnt þessari tillögu áhuga. Engan annan hef ég fundið í mínu bæjarfélagi sem er sama sinnis og bæjarstjórinn, nema auðvitað nokkrir Framsóknarmenn, sem fylgja sínum formanni til heljar, þurfi þess.

Það er hins vegar hvernig málflutningur þessa nýorðna formanns samgöngunefndar sem kemur á óvart. Annað hvort er maðurinn svona víðáttu heimskur eða hann telur þjóðina heimska. Hvort heldur er, þá er ekki sæmandi þingmanni að flytja mál með þeim hætti er hann gerir. Þar talar hann eins og þriggja ára barn, sem ætlar að kaupa allt í heiminum fyrir túkallinn sem amma gaf því.

En hvað eru vegskattar? Enn sem komið er virðist enginn vita um hvað málið snýst, ekki annað en að þeir eigi að gera alla vegi betri, tvöfaldanir helstu leiða munu koma eins og ekkert sé, vegstyttingar verða svo örar að erfitt mun verða að rata um landið, einbreiðar brýr hverfa sem dögg fyrir sólu, malarvegir munu heyra sögunni til, jafnvel áður en gjaldtaka hefst og gott ef ekki verður bara borað gegnum öll fjöll sem fyrirfinnast á landinu. Ef málflutningur nýorðins formanns samgöngunefndar eru tekinn gildur, eru þetta svokallaðir vegskattar. Fyrir trúgjarna er þetta auðvitað hrein draumsýn!!

Ekkert hefur þó verið útfært hvar né hvernig skuli innheimta þessa skatta, ekkert gefið út hverjar tekjur ríkissjóðs skuli verða af þeim og enn síður hversu mikið landsmenn muni borga.

Talað er með óljósum hætti einhverskonar myndavéla rukkun á skattinum og að "stofnbrautir" verði skattlagðar. Ekkert hvaða stofnbrautir, hvort þarna er verið að tala um stofnbrautir ríkissjóðs innan sveitarfélaga eða utan, hvort menn megi búast við að verða rukkaðir oft á sömu leið, t.d. hringveginum. Hvort Akureyringur sem ætlar til Keflavíkur þurfi kannski að greiða allt að tíu sinnum skatt á leiðinni!

Ríkið ætlar auðvitað að fá einhverja X upphæð í sinn sjóð, en til að svo megi verða mun fólkið í landinu þurfa að borga XX til ríkissjóðs. Umsýslukostnaður, sem ríkisstjórnin hefur með öllu látið ógert að reikna, er töluverður. Kaup, uppsetning og viðhald myndavéla er hreint ekki ókeypis og svo þarf auðvitað vel mannaða skrifstofu til að lesa úr því sem frá kerfinu kemur og sjá um innheimtuna.

Málið er allt vanreifað og alls ekki klárt til samþykktar. Muni Alþingi samþykkja þetta í upphafi nýs árs er ljóst að verið er að gefa út óútfylltan víxil, sem síðan landsmenn þurfa að greiða. Virðing Alþingis er ekki með þeim hætti að því sé treystandi fyrir slíkum víxli. Þá þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að þeir fjármunir sem þarna eiga að innheimtast með nýjum skatti, mun fráleitt allir fara til vegabóta, ekki frekar en þau gjöld sem sett hafa verið í eldsneytið í sama tilgangi. Það eru engir sem greiða eins mikið til ríkissjóðs en einmitt bíleigendur, langt umfram þann kostnað sem ríkissjóður þarf að leggja til og þarna skal hoggið enn frekar í sama knérunn!!

Þá má ekki gleyma þeirri stóru staðreynd að landsbyggðafólk verður harðast fyrir þessum skatti. Í því Íslandi sem við lifum í dag er staðan með þeim hætti að heilsuþjónusta hefur að mestu færst til höfuðborgarinnar og því þarf það fólk að sækja slíka þjónustu að stæðstum hluta þangað. Þá mun auðvitað aukinn skattur á bílaumferð valda því að vöruverð mun hækka enn frekar á landsbyggðinni og er það nógu hátt fyrir. Fyrirtæki út á landi munu svo standa enn verr að vígi, þegar aukinn skattur leggst á flutning vöru þeirra á markað. Það mun leggja mörg fyrirtæki.

Enginn efast um að með fjölgun rafbíla mun skattheimtu ríkissjóðs til vegamála minnka. Þann vanda á þó ekki að færa á þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki nýtt sér þá tækni. Þann vanda á að leysa með því að setja einhverskonar vegskatt á rafbíla, eins og þegar er gert á bíla sem nota eldsneyti. Vöruflutningar verða seint stundaðir með rafbílum, a.m.k. meðan tæknin er ekki meiri en nú er.

Hitt mætti alveg skoða, að skipta út skatti á eldsneyti og færa yfir á ekna kílómetra. Að allir borguðu ákveðinn skatt af akstri en ekki eldsneyti. Ekki þegar ekið er eftir ákveðnum vegum, heldur eftir eknum kílómetrum.

Tvísköttun vegna þessa málefnis, eins og stjórnvöld ætla sér með vegsköttum, má aldrei verða.

Skattlagning sem mismunar fólki eftir búsetu má heldur aldrei verða.

Túkallinn sem nýorðinn formaður samgöngunefndar ætlar að fá frá ömmu sinni, mun ekki duga honum til að kaupa allt í heiminum!!

 

 

 

 


mbl.is Veggjöld samþykkt eftir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þakka góðan pistil Gunnar. Kosningaloforð forystu Sjálfstæðisflokksins voru greinilega hinar örgustu öfugmælavísur, enda settar fram af laumukrötum.

 Góðar stundir, með jólakveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 17.12.2018 kl. 15:34

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég tel að raunástæðan fyrir þessum aukna vilja til á setja á vegtolla sé einmitt að þá verða öll farartæki sem nota jarðefnalestneyti skattlögð út af markaðnum í einu skrefi. Þetta er líklega munnlegur hluti af D-VG stjórnarsáttmálanum.

Skýrt og vel fram sett Gunnar, takk.

Guðmundur Jónsson, 19.12.2018 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband