Í fréttum er þetta helst:
4.3.2018 | 21:44
Fullnæging læknar þig, fimm fæðutegundir sem gera þig fallegri, stellingin lýsir sambandinu, karamellur sem bráðna í munni, lifðu á skyndibita og 300 áfengum drykkjum á viku, geggjaðar beyglur með kanil og hlynsýrópi, kartöflur við baugum .......
Þetta er ekki neitt grín, heldur helstu fréttir dagsins á pressan.is. Stærstu fréttir þessa miðils, síðustu daga, eru þó alveg örugglega; glímir hundurinn þinn við kvíða og píkuhárkollur eru heitasta trendið í dag! Þetta eru auðvitað þvílíkar stórfréttir sem bráðnauðsynlegt er að hvert mannsbarn á Íslandi fá að vita! Merkilegt að Píratar eða Samfylking skuli ekki vera búnir að taka þessi mál upp á Alþingi!!
Aðrir fréttamiðlar eru lítt skárri. Þar ríður smámennskan húsum sem aldrei fyrr. Flesta daga dregur fréttastofa ruv aðra fréttamiðla á eftir sér í galdrabrennuleit. Nú um helgina var smá hlé gert á brennufréttir, meðan allir þessir fréttamiðlar voru uppfullir af landsfundi þriggja þingmanna stjórnmálaflokks og jafnvel mogganum þótti stórfrétt að formaður þess flokks skildi ná kosningu um áframhaldandi formennsku. Hann var að vísu einn í framboði en fékk þó öll greidd atkvæði! Ekki kom fram hversu margir greiddu atkvæði, hvort það voru 2, 4 eða kannski eitthvað fleiri.
Svo rammt kvað að fréttaflutningi frá landsfundi þessa örflokks, að um tíma hélt maður að fjölmiðlar myndu ekki hafa pláss fyrir skrautsýningu ruv, í boði kjósenda, að kvöldi laugardags. Sú von brást reyndar.
ACER
Enginn, ekki einn einasti fjölmiðill fjallar þó um eitthvað stærsta mál sem fyrir þjóðinni liggur, þessa dagana, ACER. Þarna er verið að tala um fullgildingu tilskipunar ESB um þriðja hluta raforkusáttmála sambandsins. Það liggur fyrir Alþingi að taka afstöðu til þeirrar tilskipunar, nú á vordögum. Engin umræða hefur farið fram um óskapnaðinn, enginn fréttamiðill fjallar um hann og stjórnmálamenn eru þögulir sem gröfin, þ.e. ef þeir hafa þá einhverja hugmynd um hvað málið snýst!
Kotmennskan og undirlægjuháttur íslenskra fréttamanna er þvílíkur að þeim er fyrirmunað að fjalla um alvöru málefni. Eru fastir í smámennskunni og því að rembast við að koma höggi á einstaklinga, bæði hér heima sem og erlendis, auk þess að fræða fólk um helstu tískufyrirbæri eins og píkuhárkollur. Á meðan er þögnin um stóru málin ærandi! Og ekki eru þingmenn skárri. Þar er kjarkleysið algjört, láta teyma sig á asnaeyrum af kotpennum fjölmiðla!!
Þann 1. mars kom hingað til lands Norskur stjórnmálamaður, Katherine Kleveland, formaður "Nei til EU" þar í landi. Hún hélt erindi á fundi Heimsýnar, þá um kvöldið. Enginn fjölmiðill hefur enn fjallað um það erindi hennar, en m.a. kom hún þar inn á ACER og hvernig umræðan um það mál, ásamt EES samningnum almennt, er háttað í okkar forna fósturlandi. Þar eystra er vitund almennings almennt nokkuð góð um ACER og afleiðingar þess samnings fyrir Norðmenn, enda bæði fjölmiðlar og stjórnmálamenn þar nokkuð stærri en kollegar þeirra hér á landi. Því hefur umræðan um þetta mál verið opin og upplýsandi, meðal Norðmanna. Auðvitað er þröngur hópur kratískra afla þar í landi sem öfunda íslenska stjórnmálamenn fyrir hversu vel þeim tekst að halda þekkingu um þetta mál frá Íslendingum.
Á haustdögum var gerð könnun meðal Norðmanna um afstöðu til ACER og sögðust 70% þeirra sem afstöðu tóku, vera andvígir aðild Noregs að samþykkt þriðja hluta raforkusáttmála ESB, ACER. Þetta sýnir að þekking Norðmanna á málinu er nokkur, meðan einungis örfáar sálir hér á landi vita um hvað málið snýst.
Í stuttu máli snýst þriðju hluti raforkusáttmála ESB um að stofnað verði svokölluð Orkustofnun ESB, ACER. Þessi stofnun mun hafa aðsetur í Slóveníu og mun fá öll völd um orkumál innan ESB og þeirra ríkja EFTA innan EES sem samþykkja tilskipunina. Reyndar er ekki annað í boði af hálfu ESB en að samþykkja og gæti því farið svo að segja þurfi upp EES samningnum, beint eða eftir dóm EFTA dómstólsins, til að losna frá þessari tilskipun.
Eins og áður segir, þá mun ACER fá full yfirráð yfir allri orku innan þeirra ríkja sem að stofnuninni standa, hvað skuli virkjað, hvert sú orka skuli fara, hvernig tengingar skuli verða milli landa (sæstrengur), hvernig kostnaði við dreifikerfið muni skiptast og síðast en ekki síst, hvert orkuverð skuli vera í hverju landi fyrir sig. Reyndar er þegar til leiðbeinandi reglur ESB um það síðastnefnda er segja til um hámarks verðmun frá hæsta orkuverði innan sambandsins. Hvert ríki mun hins vegar áfram eiga orkuverin sín, en engu ráða hvernig þau verða rekin. Náttúruvernd mun eiga sín lítils og ef ACER dettur í hug að láta okkur Íslendinga virkja Gullfoss, mun Alþingi eða þjóðin ekkert hafa um það að segja.
Það er ljóst að orkuverð hér á landi mun hækka verulega. Mun sú hækkun liggja á bilinu frá tíföldun upp í sextíuföldun!! Mun fara eftir því hversu miklum kostnaði við sæstreng og rekstur hans verði lagt á þjóðina, auk kostnaðar við tengingar hér innanlands við þann streng. Hugsanlega gætu orkufyrirtækin hagnast eitthvað á þessari breytingu. Þann hagnað má þó ekki nýta til niðurgreiðslu orkuverðs hér heima, við því er strangt bann. Þann hagnað skal nota til frekari uppbyggingar orkuvera og tenginga við aðra markaði. Mun þá verða stutt í streng nr2, 3, 4 .....
Það er ljóst að hér er um eitthvað allra stærsta mál sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir, sennilega frá stofnun lýðveldisins. Þeir einir sem mælt geta því bót eru þeir sem á einhvern hátt geta hagnast persónulega á ósköpunum, auk auðvitað þeirra sem teljast til sértrúarsafnaðar ESB aðildar. Fyrir þá er ekkert of gott fyrir ESB!
Fari illa mun landið okkar verða óbyggjanlegt innan fárra áratuga. Það væri hugguleg gjöf frá okkur sem nú njótum kosta okkar fagra og gjöfula lands, til afkomenda okkar, á sjálfu eitthundrað ára afmæli fullveldisins!!
Forgangsmál að bæta velferð almennings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Umhverfismál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 21:50 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er allt útskýrt með Lögmáli léttvægisins, Gunnar. Eftir því sem mál er mikilvægara,flóknara og dýrkeyptara þeim mun minna vægi fær það í umræðunni. The Law of Triviality var skilgreint af Parkinson sem:
“The time spent on any item of the agenda will be in inverse proportion to the sum [of money] involved.”
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.3.2018 kl. 22:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.