Þórhildur talar mikið en segir ekki neitt

Einhvernveginn er ég nú svo einfaldur að ég hélt að stjórnmálaflokkarnir myndu nota það gullna tækifæri sem RUV býður nú uppá, til að reyna að auka sitt fylgi. Að flokkarnir myndu senda sitt besta fólk í þessa þætti, fólk sem vissi hvað það væri að tala um.

Annað hvort brást þetta hjá Lýðræðisvaktinni, eða þeir hafa einfaldlega ekki upp á betra að bjóða. Í þáttinn sendu þeir fyrrverandi þingmann sem þekktastur er fyrir að tala mikið um lítið og stóð þessi fyrrum þingmaður svo sannarlega undir því orði. Hún talaði mikið, en efnið stóð á sér. Verst var þó hversu illa að sér konan virtist vera í flestum málum sem fyrir hana voru lögð.

Eins og gefur að skilja var hennar hugðarefni ný stjórnarskrá, enda flokkur hennar stofnaður um það málefni, fyrst og fremst. Þar talaði hún um hina vondu stjórnarandstöðu, sem ekki væri hægt að koma tauti við, en sleppti að nefna þátt ríkisstjórnarinnar í þessu klúðri. Eitt sagði hún þó að viti og það var að þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar á tillögum stjórnlagaráðs hefðu verið nauðsynlegar. Það skildi þó ekki vera að fleiri breytingar væru nauðsynlegar?

Það sló mann þó mest hversu fáfróð þessi fulltrúi Lýðræðisvaktarinnar var þegar kom að öðrum málum og að hún teldi að flest þeirra mætti leysa með þessari nýju stjórnarskrá. Fáfræðin kom skýrt fram þegar vandi heimila var ræddur, heilbrigðismálin og uppbygging atvinnulífs, auk þess sem hún er enn trú sinni sannfæringu að háir skattar gefi ríkisjóð auknar tekjur.

Um vanda heimilanna þá vildi hún auðvitað leysa hann, einhvernveginn, einhverntímann. Þegar hún var spurð um stefnu flokksins um að færa lánin aftur til 2008, hvað það kostaði og hvernig það skildi framkvæmt, varð lítið um svör. Talaði um nýja stjórnarskrá og auðlindagjald sem einhverja töfralausn. Þetta lýsir vel hversu gjörsamlega þessi manneskja er utangátta um þennan vanda og umfang hans. Til að auðlindagjald geti leyst hann þarf það að hækka svo gífurlega að brúttótekjur útgerðar næðu vart að standa undir þeim skatti. Þó vildi hún ekki hækka auðlindagjaldið meira en svo að útgerðir réðu við það. Kannski Þórhildur ætti að kynna sér hvernig auðlindagjaldið sem þegar er lagt á útgerðina er að fara með hana, sérstaklega meðalstór og minni útgerðarfyrirtæki. Það þurfti ekki neina stjórnarskrárbreytingu til að leggja þann skatt á og samkvæmt hennar eigin orðum hlýtur hún að berjast fyrir lækkun hans, ef hún kemst á þing.

Heilbrigðiskerfið vill Lýðræðisvaktin laga, einhverntímann, einhvernveginn. Endurskipulagning var töfraorðið þar. Hellst var að heyra á Þórhildi að einhversstaðar innan þessa kerfis lægju einhverjir óhemjumiklir peningar ónotaðir, sem mætti taka til notkunnar. Hún gerir sér ekki grein fyrir því að heilbrigðiskerfið er svo aðkreppt að ekki ein króna liggur þar ónotuð. Hugmynd hennar um að efla heilsugæslur og sjúkrahús út um landið og létta með því á Landspítalanum, var góð. En það þarf fjármagn til og það mikið. Ekki hafði hún neina lausn á þeim vanda. Þó vandinn byrtist í lélegu húsnæði, úrsérgengnum tækjum og flótta starfsfólks spítalanna, er það byrtingarmynd vandans. Rótin liggur í fjárskorti. T.d. hefði sá rúmi milljarður sem notaður var til stjórnarskráævintýrisins getað komið sér vel innan heilbrigðiskerfisins. Sama má segja um þá tugi milljarða sem ríkisstjórnin hefur lagt til ýmissa annara gælumála.

Þó keyrði um þverbak þegar Þórhildur fór að tala um atvinnuuppbygginguna. Þar var hún greinilega komin svo langt út fyrir sitt vit, að sorglegt var að horfa uppá. Hún vill enga stóriðju, enda eingöngu glæpamenn sem að henni standa, sem ekki vilja greiða skatta. Lítil fyriirtæki hugnast henni best. Þórhildur ætti að skoða þessi mál betur áður en hún opnar munn sinn aftur um þau. Sannað hefur verið að bullið sem ákveðinn þingmaður VG kom til fréttastofu RUV um meint skattsvik stóriðjunnar var stormur í vatnsglasi og að þessi fyrirtæki borga hæðstu skatta til ríkissjóðs allra fyrirtækja landsins, utan bankanna. Þá ætti Þórhildur að kynna sér hversu mörg lítil fyrirtæki eiga sína afkomu á þjónustu við stóriðjuna í landinu. Hún gæti t.d. kannað hversu margir vinna hjá þeim fyirtækjum sem þjóna þau tvö stóriðjufyrirtæki sem starfa á Grundartanga. Á svæðinu eru á annan tug lítilla þjónustufyrirtækja sem þjóna þessi tvö stóriðjufyrirtæki, þar að auki er fjöldi lítilla fyrirtækja sem ekki hafa staðsetningu á Grundartanga en eiga sína tilveru að öllu leiti undir þjónustu við þessi tvö stóriðjufyrirtæki. Þúsundir fólks á sína afkomu undir þessum þjónustufyrirtækjum. Þó tiltölulega fáir starfi beint í stóriðjunni, er fjöldinn sem hana þjónar mikill, bæði beint og óbeint. Því gefur stóriðjan af sér fjölda lítilla fyrirtækja, svona fyrirtæki eins og Þórhildur vill.

Þórhildur kann að tala, um það efast enginn, enda leikstjóri. Það er þó nokkur munur á því að setja upp leikrit eða stjórna landi. Annars vegar er verið að leika sér með ímyndunaraflið og sannleikurinn þar ekki heilagur, en í hinu tilfellinu er um að ræða kaldann raunveruleikann.

Forystusætið - Lýðræðisvaktin

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gunnar svona miðað við hvernig alþingi hefur verið rekið undanfarið, er það þá ekki einmitt leikstjóra sem vantar þar inn?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.4.2013 kl. 10:20

2 identicon

Fór það í pirrurnar á þér að hún gaf ekki upp andstöðu við EB? Hún vill að þjóðin ráði. Vilt þú það ekki?

Og hún útskýrði mjög vel að fjármagn til góðra verka ætti að sækja til kvótakónganna! Var það sárt?

Birna Sig (IP-tala skráð) 4.4.2013 kl. 10:34

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ásthildur. Það má vissulega til sannsvegar færa að Alþingi hafi mynnt einna helst á leikhús síðustu ár, leikhús fáráðnleikans.

En einmitt kannski vegna þess ætti þjóðin ekki að ýta undir þann fáráðnleik með því að kjósa góðann leikstjóra, sem hefur sýnt að hún á lítið erindi í stjórnmál.

Það er kannski kominn tími til að breyta Alþingi úr leikhúsi yfir í þá stofnun sem því er ætlað.

Gunnar Heiðarsson, 4.4.2013 kl. 11:42

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég tók eftir því að hún benti og vitnaði í stefnuskrá SL og sagði "þetta" og jafnvel þeirra.  Ef ég á að vera alvarleg þá vantaði einlægnina, hún fór með "þetta" eins og lærða rullu, vissulega vel af sér vikið, en þó rak hana stundum í vörðurnar og hikstaði, en var síðan fljót að breiða yfir allt, því hún er jú eftir allt saman frábær leikhúsmanneskja. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.4.2013 kl. 11:52

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Birna, það var meðvituð ákvörðun hjá mér að ræða ekki um ESB í þessum pistli, enda það mál einskonar tabú innan Lýðræðisvaktarinnar. Þar hefur verið tekin sú ákvörðun að ræða hellst ekki þetta málefni, en öllum gefið frjálst að tjá sína skoðun. Þetta segir að flokkurinn sem slíkur hefur enga stefnu í ESB og tjáning einstakra fulltrúa hans um það mál alfarið þeirra persónulega skoðun, óháð flokknum. Þetta staðfesti Þórhildur í þættinum í gær.

En úr því þú minnist á þetta málefni er sjálfsagt að hamra örlítið á lyklaborðið um það, þ.e. skoðun Þórhildar sjálfrar á því.

Þessi boðberi lýðræðis vill ekki leifa þjóðinni að ráða hvort haldið verður áfram ferli sem þjóðin fékk ekki að ákveða hvort yrði hafin. Fjær lýðræðinu er vart hægt að komast. Þá bennti Þórhildur réttilega á að ný stjórnarskrá tryggir að engir samningar við erlenda aðila geta tekið gildi nema með samþykki þjóðarinnar. Það sem hún gleymdi að nefna er að sama plagg gefur tiltölulega litlum hluta þjóðarinnar heimild til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu og víst er að ef stjórnarskrá hefði gengið í gegn á þessu þingi og næsta samþykkt hana, hefði strax verið efnt til undirskriftasöfnunar um kosningu þess hvort halda ætti þessu ferli áfram.

Ef lýðræðisvaktin vill standa undir nafni á hún auðvitað að boða lýðræðislega aðkomu þjóðarinnar að ESB málinu, með bindandi kosningu um hvort halda skuli áfram viðræðum. Það er ekki í anda lýðræðis að bíða eftir samning sem þjóðin hefur aldrei beðið um!

Kannski þú ættir að lesa pistilinn aftur, en þar kem ég örlítið inná það sem Þórhildur nefndi um auðlindaskattinn og hugsanlega ættir þú að horfa aftur á þáttinn og fylgjast vel með hvernig hún talar um það mál. Tengill við þáttinn er neðst á bloggi mínu. Í stuttu máli ætlaði hún að skattleggja hlunnindin en þó ekki meira en svo að sjávarútvegur skaðaðist ekki af. Nú þegar hafa meðalstór og lítil fyrirtæki í sjávarútvegi beðið mikinn skaða af þessari skattlagningu, svo vart er meira þangað að sækja. Fjöldi sjómanna hefur misst sína atvinnu, vegna endurskipulagningar meðalstórra sjávarútvegfyrirtækja, vegna skattsins. Litlu fyrirtækin hafa ekki getu til endurskipulagningar, þau fara einfaldlega á hausinn. Þegar hafa margir litlir útgerðamenn lagt upp laupanna.

Og látlausar árásir gegn íslenskum sjávarútvegi er vissulega sár. Þetta er okkar líflína, okkar lifibrauð. Þeir sem vilja koma þessum atvinnuvegi á það level að hann verði háður ríkisstyrkjum, eins og víðast í kringum okkur, ekki síst innan ESB, ættu að skammast sín. Það fólk þekkir ekki raunveruleikann, heldur býr í draumaheimi.

Ekki á ég þó neinna hagsmuna að gæta, er hvorki útgerðamaður né sjómaður, heldur aumur verkamaður sem þarf að draga fram lífið á lágmarkslaunum. Einu kynni mín af sjómennsku er þegar ég var sem háseti á grásleppu nokkur vor, seint á síðustu öld. Ég geri mér þó grein fyrir því hvernig peningar verða til og hvað það er sem gefur okkur það sem við þó höfum. Sjálfbær sjávarútvegur á þar stæðstann þátt.

Það er skrítinn lýðræðisást sem vill bæði leggja af stóriðju og sjávarútveg, tvo af stæðstu þáttum gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar!

Gunnar Heiðarsson, 4.4.2013 kl. 12:16

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þórhildur er frábær leikhúsmanneskja Ásthildur og sjálfsagt góður leikstjóri. Það er rétt hjá þer að engu var líkara en hún væri að fara með rullu í leikriti, í þessum þætti.

Gunnar Heiðarsson, 4.4.2013 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband