Sigur Framsóknar er staðreynd

Framsóknarflokkur heldur áfram að bæta við sig fylgi í skoðanakönnunum. Þetta eru þó einungis skoðanakannanir og alls óvíst enn hvað kemur upp úr kjörkössunum.

Það er vandmeðfarin slík fylgisaukning sem Framsókn hefur fengið síðustu vikur og auðvelt að glutra henni niður. En jafnvel þó flokkurinn tapi nokkru af því fylgi sem hann hefur nú, mun sigurinn samt vera staðreynd. Ekki bara í fjölgun þingmanna, heldur frekar vegna þess að flokknum hefur tekist að koma einu hellsta máli þjóðarinnar í forgang stjórnmálaumræðunnar, vanda heimila landsins. Þennan sigur verður ekki hafður af Framsóknarflokknum, jafnvel þó fylgi hans í kosningum verði mun minna en skoðanakannanir gefa tilefni til að ætla. Svo gæti hitt líka skeð að flokkurinn haldi áfram að auka fylgi sitt og fái jafnvel enn meira fylgi í kosningum en skoðanakannanir nú gefa til kynna. Þá yrði sigur flokksins tvöfaldur.

Það var frekar neyðarlegt að sjá frambjóðendur annara framboða í sjónvarpinu í gærkvöldi. Allir vilja auðvitað núna hjálpa heimilunum, bara ekki strax og helst ekki öllum. Vinstri flokkarnir vilja halda áfram misréttinu og láta suma fá aðstoð en ekki aðra. Sjálfstæðisflokkur er með einhverjar hugmyndir um lækkun skatta, sem er auðvitað bráð nauðsynleg en kemur ekkert við leiðréttingu þess óréttis sem stökkbreyting lána hafa valdið. Það var einna helst að Hægri grænir leggðu eitthvað fram af viti.

Engum tókst þó að færa rök fyrir því að stefna Framsóknar gengi ekki upp. Einungis orð lituð af kjarkleysi sem heyrðust frá þessu fólki. Bjarni talaði um fugl í skógi og taldi sig hafa þar sterk rök. Ef vandinn við að framkvæma stefnu Framsóknar er ekki stærri en það, ætti ekki að vefjast fyrir mönnum að ráðast í hana. Niðurstaðan var einfaldlega sú að enginn virtist hafa kjark til að ræða þetta mál af viti nema Sigmundur Davíð og Guðmundur Franklín.

Vandi heimila landsins er vissulega mál málanna og í raun ætti þetta mál að vera eina mál kosninganna í vor. Ef ekki verður fundin lausn á þessum vanda, skipta önnu mál engu. Þá breytir engu hvort viðræðum við ESB verður haldið áfram, skiptir engu hvort við fáum nýja stjórnarskrá, skiptir engu hvort skattar hækka eða lækka. Þá þarf heldur ekkert að spá í hvernig við getum bætt þann skaða sem núverandi stjórnvöld hafa unnið á heilbrigðiskerfi landsins. Ef ekkert verður gert í vanda heimila landsins mun landið einfaldlega fara á hausinn og það fyrir næstu jól. Einfaldara getur þetta ekki verið, né skelfilegra. Því er vandi heimila sá vandi sem þarf fyrst og fremst að laga. Þegar því er lokið er hægt að fara að hugsa að uppbyggingu landsins, huga að því hvernig það tjón sem heilbrigðiskerfið hefur orðið fyrir verði bætt, huga að því hvernig best skuli staðið að því að ljúka stjórnarskrármálinu. Þá væri jafnvel hægt að fara að spá í hvort þjóðin vilji halda áfram viðræðum við ESB um aðild. En fyrst af öllu þarf að laga vanda heimila landsins. Það er grunnurinn undir allt annað.

Það er ljóst hvað það kostar að leiðrétta skuldir heimila landsins. Enn hefur enginn þorað að reikna út hvað það kostar okkur að gera það ekki, enda erfitt að reikna út þjóðargjaldþrot.

Sá kostnaður sem til fellur vegna þessarar leiðréttingar er vissulega hár, en ennþá er þetta einungis bókhaldsatriði, þ.e. hækkun höfuðstóls lána vegna verðtryggingar er einungis rafpeningar. Engin mynt hefur orðið til vegna þessa og engin mynnt farið um hendur fólks. Það sama er að segja um þann gróða sem bankarnir hafa fengið vegna þessa. Sá gróði er einungis bókhaldslegur. Enginn hefur fengið krónu að láni frá bönkunum vegna þessarar hækkunnar höfuðstóls lána. Því er þetta einungis bókhaldslegt atriði, bókhaldsleg skekkja. Því ætti ekki að vera erfitt að leiðrétta þessa skekkju. Enga krónu þurfa bankarnir að leggja fram, einungis að færa gróða sinn nær raunveruleikanum. Eftir sem áður væri gróði þeirra vel ásættanlegur.

Þetta mun hins vegar breytast verulega eftir að samið hefur verið við kröfuhafa. Þá verður þessi bókhaldshagnaður að beinhörðum peningum sem greiða þarf með gjaldeyri sem ekki er til. Þá mun þetta gervifjármagn verða að raunverulegu fjármagni og það sem verra, allt flytjast úr landi.

Hugmyndir Guðmundar Franklín voru vissulega áhugaverðar, sérstaklega þar sem þær hafa verið reyndar með góðum árangri. Þær fela hins vegar í sér nokkra áhættu. Ef allt gengur upp munu þær ekki kosta ríkissjóð neitt, en ef eitthvað kemur uppá gæti nokkur kostnaður orðið til, kostnaður sem sækja verður í sameiginlegann sjóð okkar. Því er sú tillaga frekar til vara, ef ekki gengur að semja við hrægammasjóðina í tíma. Einnig væri hægt að hugsa sér hans tillögu sem fyrsta skref, þá mætti vinda sér í þetta verkefni fljótt og vel, strax að loknum kosningum. Þá þyrfti ekki að flýta viðræðum við hrægammasjóðina eins mikið og hugsanlega mætti með því ná hagstæðari samningum fyrir okkur. Afrakstur þeirra samninga má svo nota til að afskrifa þann millifærslusjóð sem stofnaður væri í Seðlabankanum.

En jafnvel þó ekki væri neitt að sækja til hrægammasjóðanna og jafnvel þó sú tillaga Guðmundar Franklín væri ófær og þessa peninga þyrfti að sækja til þjóðarinnar, ætti fólk að spyrja sig hversu virði sjálfstæðið er. Fólk ætti að spyrja sig þeirrar spurningar hvort sá kostnaður sem fellur til við lausn þess vanda sem að þjóðinni steðjar sé of hár, þegar ljóst er að öðrum kosti mun þjóðin fara í gjaldþrot. Það þótti ekki mikið að leggja 400 milljarða til endurreysnar fjármálastofnanna, það þótti ekki mikið þó nærri 1.000 milljarðar væru afskrifaðar hjá fámennum hóp góðborgara þessa lands. Getur verið að einhverjum þyki þá mikið að leggja til um 200 milljarða til að forða þjóðargjaldþroti?

Sumir tala um svartsýnisröfl þegar þessar staðreyndir eru reifaðar. Þeir sem þannig tala átta sig ekki á hvað er í gangi, hvað er að ske. Ef við lítum framhjá öllu óréttinu, þar sem sérvaldir hafa fengið upp undir 1.000 milljarða í afskriftir, ef við horfum framhjá því órétti að einn hópur í þjóðfélaginu hefur þurft að bera sínar burgðar að fullu, meðan aðrir hafa ýmist fengið ríflegar afskriftir eða haft getu til að færa sínar byrgðar yfir á aðra, eins og verslun og þjónusta og horfum einungis á þær staðreyndir sem við blasa. Þá liggur fyrir að þúsundir heimila í landinu, sem hingað til hafa staðið í skilum með sín lán, eru nú komin að krossgötum. Þessi heimili hafa nýtt allan sinn sparnað til að greiða af sínum stökkbreyttu lánum, nú er það fé uppurið. Fyrir þeim liggur að velja hvort að borga skuli áfram af þessum stökkbreyttulánum eða kaupa mat fyrir börnin sín. Það er ekki lengur hægt að gera hvortveggja.

Þegar svo við bætist sú staðreynd að sparnaður þessa fólks sem það lagði í sína íbúð er horfin og orðin eign þessara banka sem rukka tvöfalda afborgun þess sem svörtustu spár gerðu ráð fyrir við lántökuna, er dæmið orðið ansi vonlaust. Fólk sér ekki að það muni nokkurntímann getað náð þeim sparnaði sínum aftur, eða eignast þá íbúð sem það hafði lagt sinn ævisparnað í.

Þetta eru raunverulegu staðreyndirnar, sem eiga við um þúsundir fjölskyldna þessa lands. Þessar fjölskyldur eru þó ekki inni í neinum hagtölum um fólk í vanda, þar sem það hefur getað staðið í skilum fram til þessa. Þegar þessar þúsundir fjölskyldna setjast niður og leggja dæmið fyrir sig mun verða einsýnt hverri niðurstöðu flestir munu komast að. Þetta fólk mun velja börn sín umfram bankann, það mun velja að fórna þeirri eign sem það á ekki lengur og fara í gjaldþrot, með von um að geta byrjað aftur frá grunni. Margt af þessu fólki er það ungt enn að það sér hag í þeirri lausn, aðrir eru eldri en hafa einfaldlega ekki val.

Þegar þessi holskefla skellur á bankakerfinu, þegar þúsundir fjölskyldna bætast við þann hóp sem þegar er talinn í vanda, mun bankakerfið hrynja. Staða ríkissjóðs er með þeim hætti að stjórnvöld gætu ekkert gert, akkúrat ekki neitt og þjóðargjaldþrot mun dynja yfir.

Hrægammasjóðirnir, sem hafa yfir fjármunum þjóðarinnar að ráða, ásamt systur sinni lífeyrissjóðunum, mun þá hafa land og þjóð í hendi sér. Þá mun ekki verða horft til réttlætis fyrir þjóðin, heldur mun mammon ráða för. Þá verður hæstbjóðanda selt landið, með kostum þess og göllum.

Þessi staða er hættulega nálægt okkur, mun nær en margur heldur. Svo nærri að hugsanlega mun ekki gefast tími til lausna. Eina von okkar er að það fólk sem nú bíður milli vonar og ótta, fái þau skilaboð strax eftir kosningar, að ný ríkisstjórn ætli að sýna þann kjark að bjarga landinu. Þá gæti verið að nægjanlega margir bíði nógu lengi til að landinu verði bjargað.

Finni fólk aftur á móti einhverja hræðslu hjá nýrri ríkisstjórn, hræðslu við hrægammasjóðina og systur þeirra, mun fólk kasta teningnum. Eftir það verður ekki við neitt ráðið.

Þjóðin er fólkið. Þeir sem ekki hafa kjark til að standa að baki þjóð sinni, eiga ekkert erindi á Alþingi.

Sú staðreynd að Framsóknarflokk hefur tekist að koma umræðunni yfir á vitrænt plan, að ræða raunverulegan vanda þjóðarinnar er stæðsti sigur sem nokkur stjórnmálaflokkur hefur unnið og sýnir þann kjark sem frambjóðendur þess flokks búa yfir! Eftir slíkann sigur skiptir í raun engu hvað kemur upp úr kjörkössunum, sigurinn er staðreynd.

Þeir sem vilja kjark og þor á Alþingi kjósa Framsóknarflokk, þeir sem kjósa Samfylkingu eða VG eru að kjósa yfir þjóðin áður óþekkta eymd og þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokk skilja ekki raunverulegann vanda þjóðarinnar.

Það er því mikilvægt að fólk hugsi sig vel um þegar það gengur inn í kjörklefann. Niðurstaða næstu kosninga mun skilja á milli feigs og ófeigs þjóðarinnar!

 


mbl.is Framsókn fengi 10 þingmenn í NA- og S-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband