Voðinn er vís

Hvort tillögur Framsóknarflokks eru raunhæfar eða ekki, er ljóst að stjórnvöldum hefur mistekist með öllu að hjálpa þjóð sinni. Því ættu þau að taka fegins hendi hverri þeirri tillögu sem boðin er og skoða hana nánar. Það er ljóst hvert stefnir ef ekkert er gert!

Staðreyndirnar tala sínu máli og staðreyndir segja okkur að stjórnvöld hafa brugðist með öllu. Þeir sem höfðu gengistryggð og ólögleg lán urðu að leita til dómstóla til að fá sín mál leiðrétt. Nokkuð hefur gengið þar, dómar fallið, en vandinn er að bæði stjórnvöld og lánastofnanir trassast við að viðurkenna þessa dóma. Stjórnvöld jafnvel gengið svo langt að setja lög gegn þessum dómum og lánastofnanir þylja í sífellu "þetta á ekki við um okkar lán".

Það er enn nokkuð í land með að þessar leiðréttingar nái fram að ganga, jafnvel þó fjölmargir dómar hafi fallið og allir á einn veg. Svo er alveg eftir að láta einhverja svara til saka fyrir þessi lögbrot. Það er útilokað að lánastofnanirnar sjálfar hafi ákveðið að lána gengistryggð lán, þar hljóta einhverjir einstaklingar að liggja að baki og þeir hljóta að þurfa að svara fyrir það.

Það eru aftur þeir sem eru með verðtryggðu lánin sem engar leiðréttingar hafa fengið og nú svo komið að sjálf verðtryggingin er komin fyrir dómstóla. Hver niðurstaða þeirra dóma verður er ekki séð núna, en ljóst að fæstir munu halda út, fjárhagslega, að bíða eftir þeim. Flestir verða komnir á hausinn löngu áður en sú niðurstaða fæst.

Það er ljóst að flestir þeirra sem nú eru að komast í vanda, eru fólk sem fór varlega fyrir hrun, fólk sem sýndi ábyrgð í sinni fjárfestingu. Flest átti það stórann hlut í sinni eign og flest var með afborgunarbyrgði sem auðvelt var að standa við. Lánsetti sig hóflega, í samræmi við eign og tekjur.

En það ræður enginn við þá gífurlegu breytingu sem varð á högum fólks þegar einkabankarnir hrundu. Laun flestra lækkuðu mikið, bæði vegna skerts vinnutíma og einnig vegna þess að það féll í flestum tilfellum niður á strípaða taxta. Ekki óalgengt að lækkun launa vegna þessara þátta væri um eða yfir 20%. Verðtryggðu lánin hækkuðu hins vegar mikið og sú hækkun er komin til með að vera föst á þeim, þar til þau hafa verið greidd upp. Hækkun afborgana af þessum lánum um helming, er ekki óalgeng.

Verðlag hefur hækkað mikið, um 40% frá hruni, þá sérstaklega á allri nauðsynjavöru, eldsneyti hefur meir en tvöfaldast, gjaldskrár fyrirtækja ríkis og bæja hækka eins enginn sé morgundagurinn og stjórnvöld hafa sýnt einstakt hugmyndaflug í skattlagningum. Svona væri hægt að telja áfram. Allt þetta hefur gert skekkjunna það mikla að útilokað er að nokkur venjulegur maður ráði við slíka breytingu.

Það er ljóst að fjölskylda sem var í góðum málum fyrir hrun, skuldaði tiltölulega lítið, með afborgunarbyrgði sem auðvelt var að standa við, átti hlut í sinni íbúð og safnaði sér auklífeyri, er nú í þeirri stöðu að eiga varla fyrir mat, er búin að missa alla sína eign í íbúðinni og hefur klárað séreignasparnaðinn sinn. Þetta fólk stendur nú frammi fyrir þeirri bláköldu staðreynd að velja milli þess að halda áfram að borga af sínum stökkbreyttu lánum, eða kaupa mat fyrir sig og sína. Svo einföld er þessi staðreynd!

Þarna er ég að fjalla um þá sem voru svo heppnir að halda vinnu, sem voru svo séðir að reisa sér ekki burðarás um öxl og þeir sem eru svo heiðarlegir að borga af sínum skuldbindingum, jafnvel þó þeir séu með því að nota allan sinn ævisparnað og í raun að setja sig í hættu með að geta lifað af í ellinni!

Aðrir eru verr settir.

Þessi hópur sem ég tek fyrir eru stæðsti hluti þjóðarinnar og þegar þeir ekki geta lengur staðið í skilum, er sjálf þjóðin í hættu. Bankarnir munu falla og þjóðin með. Hinir erlendu vogunarsjóðir sem Steingrímur gaf tvo banka af þeim þrem stæðstu sem til voru í landinu, munu soga til sín allt fé ur þeim og eymdin verða enn meiri.

Það er því mikilvægt að skoða alla möguleika sem bjóðast, sama hversu fólki finnst þeir vitlausir og jafnvel þó þeir komi frá Framsóknarflokk. Skoða þá og meta hvort þeir geti komið í veg fyrir þá skelfingu sem blasir við þjóðinni. Verði ekkert að gert, mun allt fara á versta veg, fyrr en seinna.

Við verðum að gera okkur grein fyrir þeirri staðreynd að fá lönd í heiminum búa jafn vel og Ísland, varðandi möguleika til að þróast og verða öflugt. Auður landsins á öllum sviðum er gífurlegur. Við búum nú við kreppu sem skapaðist af heimskreppunni. Hér varð hún öllu verri vegna þess að missindismenn höfðu náð tökum á öllu hagkerfinu okkar. Hvernig núverandi stjórnvöld hafa haldið á spilunum hefur svo lengt þessa kreppu hjá okkur og jafnvel dýpkað hana. Það er deginum ljósara að nægir eru til að taka við landinu okkar. Fjárglæfrafyrirtækin bíða í ofvæni eftir að ná því til sín, til að soga allann auð úr því. Þar ráða skammtímasjónarmiðin og skjótfenginn gróði ríkjum!

Framundan er þröskuldur, nokkuð hár þröskuldur, sem þarf að komast yfir. Það nægir ekki að koma fjármálakerfinu yfir þann þröskuld, heldur verður þjóðin að fylgja á eftir. Takist það eru okkur allir vegir færir, en það þarf virkilega að fara að vinna að því strax.

Þjóðin er að gefast upp og fari svo er voðinn vís.

 


mbl.is Framsókn sendi björgunarteymi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein hjá þér Gunnar. Þú lýsir ástandinu afar vel, sem er eins og þú segir orðið grafalvarlegt, og stjórnvöld virðast ekki hafa nokkurn áhuga eða kannski vit til að takast á við það..

Sigurbjörg Kristmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2013 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband