Næstu kosningar verða um ESB

Næstu kosningar munu snúast um ESB aðlögunarferlið, hvort sem einhver samningur verður kominn eða ekki. Það er óumflýjanlegt. Þetta er staðreynd sem flestir VG liðar eru farnir að átta sig á, þó Árni Þór vilji trúa öðru.

Í þeim kosningum mun VG þurfa að svara fyrir sinn þátt í þessu ferli, svara fyrir það hvers vegna eini flokkurinn sem var með yfirlýsta stefnu um að EKKI yrði gengið til samninga um ESB aðild, skuli hafa svikið það loforð, strax við stjórnarmyndun. Svara fyrir það hvers vegna flokkurinn stóð að því að kljúfa þjóðina í tvær fylkingar, á þeim tíma sem svo mikilvægt var að sameina hana!

En það eru fleiri en VG sem þurfa að skýra sína stefnu. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa báðir samþykkt innan sinna raða að Íslandi sé best borgið utan ESB. Þessi samþykkt hefur þó ekki náð til allra þingmanna þessara flokka, þar eru enn þingmenn sem vilja leika sér að eldinum. Meðan það fólk er í boði sem þingmannsefni fyrir þá flokka, er ekki hægt að treysta þeim. Þessir flokkar, eða öllu heldur þingmenn þeirra, verða að koma skýrt fram, þeir verða að gefa skýrt út hvort þeir hyggist fara að stefnu flokkana í þessu máli, eða hvort þeir ætli að halda áfram dufli sínu við ESB.

Þau nýju framboð sem fram hafa komið og kosningabandalög, eru flest eða öll á því að klára aðlögunarferlið.

Það verður því úr vöndu að ráða í næstu kosningum. Það liggur ljóst fyrir að vinstriflokkarnir og nýju framboðin, sem reyndar eru einnig flest skilgreind til vinstri, vilja öll klára aðlögunarferlið og fá einhvern samning til að kjósa um í óbundinni kosningu.

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru báðir með klára stefnu um að draga til baka umsóknina og láta landsmenn kjósa um áframhaldið. En það er ekki nóg, meðan einstaka þingmenn þessara flokka geta ekki sætt sig við stefnu þeirra. Meðan svo er, er ekki hægt að treysta því að sú leið verði farin. Það er auðvitað út í hött að fólk sem ekki getur eða vill fara að vilja meirihluta flokksmanna, skuli komast að sem fulltrúar flokkanna á Alþingi. Sá sem ekki getur eða vill fara að meirihlutasamþykkt flokks síns, á ekki að bjóða sig til trúnaðarstarfa. Þeir eiga þá að leita til þeirra flokka sem eru þeim nær í hugsun og stefnu og bjóða þeim sína starfskrafta.

Hvort sem samningur verður kominn eða ekki, munu næstu kosningar snúast um aðlögunarferlið að ESB. Þetta er stæðsta mál sem komið hefur fyrir þjóðina frá lýðveldisstofnun. Þetta er um það hvort við viljum halda áfram sem lýðveldi, eða hvort við viljum spyrða okkur við ESB og fórna lýðveldinu.

Eins og staðan er í dag eru engir skýrir kostir. Annarsvegar höfum við klára stefnu um að halda áfram aðlögun þar til samningur fæst og hinsvegar tvo flokka sem segjast vilja stöðva ferlið en er með fólk innan sinna raða sem er ekki tilbúið til að fylgja stefnu flokkana. Ef það fólk fær brautargengi sem væntanlegir þingmenn þessara flokka eftir kosningar, munu vinstri afturhaldsöflin halda völdum, með aðstoð hinna nýju framboða.

Þá mun sjálfstæði þjóðarinnar verða fórnað á altari ESB!!

 


mbl.is Árni Þór: Óraunhæf krafa Ögmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband