96% þjóðarinnar vill einungis fá 2,5% launahækkun !!

Gylfi Arnbjörnsson er duglegur að flytja mál vinar síns, Vilhjálms Egilssonar.

Þessir menn komu sér saman um þá hugmynd Vilhjálms að hér skuli ráða sameiginleg launastefna og að hækkun launa skuli miða við getu þeirra fyrirtækja sem verst standa í dag. Vissulega góð hugmynd, en eingöngu fyrir eigendur fyrirtækjanna. Fyrir launafólk er þetta skelfing!!

Það eru þó ekki allir formenn stéttarfélaga sammála þessu rugli og vilja meina að að þau fyrirtæki sem geta borgað hærri laun, fái að gera það. Það eru einkum þau fyrirtæki sem eru í útflutningsgeiranum sem hafa burði tl að borga betur í dag, vegna gengis krónunnar og hækkana á erlendum mörkuðum. Innan þessa fyrirtækja er öll stóriðjan og öll fiskvinnslan, auk þeirra fyrirtækja sem þau þjóna. 

Í umræðunni hafa þeir félagar Gylfi A og Vilhjálmur E spurt þeirrar undarlegu spurningar hvort laun þessa fólks ætti þá að lækka ef gengi krónunnar hækkar! Vægast sagt undarleg spurning, sérstaklega af hálfu Gylfa!

Skoðum aðeins söguna. Hvað skeði við hrun bankanna? Fyrir hrun voru launþegar á hinum almenna vinnumarkaði á launum sem var ekki í neinum tengslum við kjarasamninga, allir voru yfirborgaðir á einn eða annan hátt, miðað við þá. Þegar hrunið reið yfir var fyrsta verk atvinnurekenda að lækka laun þessa fólks niður á taxta, að auki voru starfshlutföll í mörgum tilfellum lækkað og stór hluti fólks missti vinnuna. Því er spurning Vilhjálms E svolítið undarleg, þegar hans umbjóðendur hafa einmitt verð að fara þá leið sem hann spyr um!!

Verktakabransinn hrundi fyrst. Hvaða vinnuvélastjórnandi var á launum upp á 172,000 á mánuðu fyrir hrun? Enginn, nema kannski nokkrir réttindalausir útlendingar, enginn Íslendingur lét bjóða sér slík laun! Þessi upphæð er þó nálægt þeim taxta sem þessir menn áttu að vera á, á þessum tíma. Við hrunið þurftu menn samt að sætta sig við þessi laun, þeir sem á annað borð héldu vinnu!

Varðandi útflutningsiðnaðinn, sem stóð frekar illa á þessum tíma vegna stöðu krónunnar, var einungis um að ræða taxtalaun, engar yfirborganir á neinn hátt. Eftir hrun varð starfsumhverfi þessara fyrirtækja mun skárra og raka þau flest inn gróða núna. Enn eru þó launþegar þeirra á strípuðum taxtalaunum.

Því má segja að þeim félögum Gylfa A og Vilhjálmi E þyki allt í lagi að fyrirtæki geri vel við sína starfsmenn þegar vel gengur hjá þeim, en að ekki megi festa slíkt á blað. Útflutningsgeirinn er þó undarþeginn þessu leyfi þeirra!!

En hvaða fyrirtæki eru það sem illa standa hér á landi? Ég nefndi verktakageirann, hann hefur einfaldlega verið þurkaður út og sú litla starfsemi sem enn er þar í gangi, er rekin með bullandi tapi. Þökk sé stjórnvöldum! Byggingariðnaður er einnig nánast útþurkaður. Þau fyrirtæki sem þessum geirum þjóna eru einnig illa sett.

Varðandi verslun og þjónustu eru fyrirtæki mjög misjafnlega sett. Sum standa illa en önnur betur, flest hafa þó hækkað sínar gjaldskrár til móts við það tap sem þau hafa orðið fyrir. Öll fyrirtæki sem þjóna útflutningsgeiranum ættu að vera í nokkuð góðum málum. Þar má til dæmis telja járniðnaðinn, þó að vísu slippstöðvar séu sumar illa settar. Það er þó ekki hruninu að kenna heldur því að útgerðamenn hafa tekið þá stefnu að halda ekki við flotanum, heldur keyra hann áfram án viðhalds. Þetta er tímabundinn vandi sem af augljósum ástæðum mun leysast. Það er takmarkaður tími sem þessi stefna útgerðarfyrirtækjanna getur gengur upp!

Að öðru leyti er vandi verslunar og þjónustu einkum þeim félögum Gylfa A og Vilhjálmi E að kenna, vegna þeirra stefnu undanfarin ár að launataxtar skuli vera lágir. Ekki var vilji til að hækka þá til samræmis við raunveruleg laun þegar vel gekk. Vandi verslunar og þjónustu væri minni í dag ef það hefði verið gert, þá gæti launafólk í dag nýtt sér þessa þjónustu, þrátt fyrir allar þær hækkanir sem þessi geiri hefur óhikað lagt á sína verðskrá! Og enn ætla þessir menn að auka vanda þessa geira!!

Rikið er vissulega illa sett. Þó mætti áætla að það hefði borð fyrir báru í launahækkunum. Þegar það hefur getu til að leggja 18 miljarða í einn sparisjóð, til að tryggja innistæður tiltölulega fárra einstaklinga, þegar það hefur getu til að greiða 26 miljarða til ólögvarðrar fjárkröfu erlendra stórþjóða, þegar það hefur getu til að henda ótilteknum miljörðum í ESB viðræður og þegar það hefur getu til að kasta miljörðum í gæluverkefni ráðherra, ætti það að hafa getu til að hækka laun starfsmanna sinna!! Enda hefur verið sleginn  tónninn hjá ríkinu með hækkun laun dómara!! Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að ríkið græðir mest á almennum launahækkunum!! Það er varlegt að áætla að af hverri krónu sem ríkið greiðir sínu fólki í laun, skili 50 aurar sér strax til baka og síðan aðrir 25 aurar eftir ýmsum krókaleiðum!

Verslun og þjónusta hefur markvisst hækkað sínar gjaldskrár, ríki hækkar skatta sem aldrei fyrr og leggur að auki nýja skatta á launafólkið, skatta sem bitna beint á pyngju þeirra. Það er erfitt að reikna út hverjar skerðingar launafólkið hefur orðið fyrir eftir hrun, þar sem nánast daglega eru fréttir af hækkunum og skattaálögum. Því er útreiknað tap í dag orðið úrelt á morgun! Þó má áætla að tapið standi nálægt 12 - 15% í dag. Þetta er sú hækkun sem þarf til þess eins að leiðrétta tap launafólks.

Ef menn vilja vera réttsýnir og taka vel á þeim fyrirtækjum sem illa standa væri ekki óraunhæft að fara fram á hækkun launa um helming þessa, eða 6 - 7%. Að þetta yrði notað sem grunnur fyrir þau fyrirtæki sem verst standa. Önnur fyrirtæki ættu að hækka laun sinna launþega um það tap sem þeir hafa orðið fyrir, það ættu lang flest fyrirtæki að geta. Síðan á að leyfa þeim fyrirtækjum sem eru í útflutningi að verðlauna sína starfsmenn eitthvað umfram það, að verðlauna því fólki sem sætti sig við strípaða launataxta þegar annað fólk í landinu naut góðs af "góðærinu".

Tillögur félaganna Gylfa og Vilhjálms eru þó upp á 2,5% launahækkun!! 96% þjóðarinnar segist vera sammála samræmdri launastefnu, en hversu margir þeirra vita í raun að sú stefna mun gefa þeim 2,5% launahækkun, þegar þeir hafa þurft að taka á sig skerðingar upp á allt að 15%!! Það kom alla vega ekki fram í könnuninni að fólk væri að kjósa um 2,5% launahækkun!!

Tökum eitt dæmi, fyrirtæki A og fyrirtæki B. Fyrirtæki A er vel rekið og sýnir gróða en fyrirtæki B stendur illa, hugsanlega vegna offjárfestingar eða lélegrar stjórnunar. Geta B til hækkunar launa er einungis 2,5%, annars er orðið tvísýnt um rekstur þess. Því er samið upp á 2,5% launahækkun fyrir bæði fyrirtækin, jafnvel þó A hafi hæglega getað hækkað laun sinna starfsmanna um 12 - 15%, og jafnvel átt eftir gróða. Hvað réttlæti er í slíkri stefnu? Hvers vegna eiga starfsmenn A að líða fyrir rekstur B? Hvers vegna má A ekki veita sínum starfsmönnum hlut í sínum gróða? Hvers vegna má A ekki gera sitt fyrirtæki eftirsóttara sem vinnustað og fá þá hugsanlega hæfara fólk til vinnu? Hvers vegna má fyrirtækið A ekki stuðla að aukinni framleiðni hjá sér?

Það sér hver hugsandi maður hvert "samræmd launastefna" mun leiða okkur. Hún er vissulega til hagsbóta fyrir fyrirtæki landsins, en einungis til mjög skamms tíma. Þetta er eins og að pissa í skó sinn, ylurinn er ágætur fyrst en síðan er kuldinn enn meiri en áður! Fyrir launafólk er þetta hins vegar  einungis til hins verra, allt frá upphafi!!

Þeir félagar hafa sagt að hærri laun leiði til aukinnar verðbólgu. Sami gamli frasinn sem dreginn er upp við hverja einustu samninga! Það eru ekki launahækkanir sem skapa verðbólgu, það eru hækkanir á vörum og þjónustu sem það gera, ásamt geigvænlegri skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Við lifum þegar við bullandi verðbólgu, hún er aðeins falin!! Hækkanir launa leiða til þess eins að fólk getur þá hugsanlega staðið við sínar skuldbindingar og á fyrir mat og nauðsynjum! Aðrar eru afleiðingar launahækkana ekki.

Ég hef ekkert minnst á bankana í þessu bloggi og ætla ekki að gera. Þó vil ég benda á þá staðreynd að þeir hafa fengið fært á silfurfati allar eigur landsmanna. Þetta hafa þeir fengið í boði stjórnvalda og á Gylfi Arnbjörnson einnig stóran þátt í þeim gjörningi!!

Þá hef ég ekki talað um áreiðanleika þessarar könnunar, ég vil trúa því að þeir sem framkvæma slíkar kannanir láti ekki kaupa sig. Þó hlýtur maður að vera svolítið efins þegar 96% landsmanna segist vilja fá aðeins 2,5% launahækkun. Þetta minnir óneitanlega á það sem í gangi var í ráðstjórnarríkjunum, meðan þau voru til. Einnig fer nokkur hrollur um mann þegar skoðað hver það er sem að þessari skoðanakönnu stendur. Ég endurtek þó að ég vil ekki trúa því að þeir sem slíkar kannanir gera séu falir.

 

 


mbl.is ASÍ: Nær allir vilja sameiginlega launastefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Gunnar" Hvernig lýst þér á þessa prósentu hækkun? En ekki krónutölu hækkun??

Eyjólfur G Svavarsson, 22.2.2011 kl. 00:32

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Menn hafa lengi deilt um hvort sé betra, krónutöluhækkun eða prósentuhækkun. Fyrir hvoru tveggja er hægt að færa rök.

Sjálfur tel ég prósentuhækkun eðlilegri. Ástæðan er einföld, ef alltaf er samið um krónutöluhækkun fyrir alla, þá enda allir á sömu launum, óháð menntun eða ábyrgð. Ég á þá vissulega við þá sem eru á "eðlilegum" launum, ekki sjálftökufólkið sem borgar sér ofurlaun.

Það er ljóst að ef ekki er einhver munur á launum eftir eðli starfa og menntun starfsfólks mun enginn vilja vinna við sóðaleg eða hættuleg störf og enginn fer þá að eyða fjórum árum ævi sinnar í að læra iðnnám.

Menn verða að fá umbunað fyrir sína menntun. Ég veit að þetta hljómar kannski undarlega þegar staðreyndin er að störf í heilbrigðisgeiranum eru með þeim lægst launuðu hér á landi, þó að baki liggi fjögurra til átta ára nám! Hugsanlega má þó rekja þann vanda til þeirrar stefnu sem gilt hefur innan þess geira undanfarin ár um kjarabætur. Þar hefur einmitt verið farin leið krónutöluhækkunnar eða afbrigði hennar.

Þegar konan mín lauk námi sem sjúkraliði hafði hún áður unnið sem gangastúlka á dvalarheimili. Eftir námið hækkaði hún verulega í launum. Nú er hinsvegar staðan sú að gangastúlkan er orðin henni jöfn í launum. Til hvers þá að vera að leggja á sig aukið nám?

Gunnar Heiðarsson, 22.2.2011 kl. 03:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband