Færsluflokkur: Evrópumál

Vindorka og op3

Ég hef ritað nokkrar greinar um ásókn erlendra aðila til að byggja vindorkuver á Íslandi, enda málið stórt á alla vegu. En það verður ekki rætt um þessa ásókn erlendra aðila án þess að nefna einnig orkupakka ESB. Það er nauðsynlegt fyrir þessa erlendu aðila að rjúfa einangrun Íslands frá orkumarkaði Evrópu. Forsendur fyrir byggingu slíkra risamannvirkja liggja auðvitað í því að geta fengið sem mest fyrir orkuna.

Til hliðsjónar þessum pistli hef ég tekið skýrslu er unnin var fyrir stjórnvöld um op3, áður en hann var samþykktur á Alþingi, höfundar Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson. Það sorglega er að stjórnvöld og stór hluti þingmanna nenntu ekki að lesa þá skýrslu. Hefðu þeir haft dug til að vinna sína vinnu, værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum í dag.

Orkupakkar ESB eru nú orðnir þrír, sá fyrsti tók gildi 1999 og fjallaði fyrst og fremst um gagnsæi í viðskiptum með orku. Annar orkupakkinn tók gildi 2003 og hann fjallaði einkum um framleiðslu, flutning og dreifingu, auk þess aðskilnað þessara þátta.

Orkupakki 3 tók gildi 2009, samþykktur af Alþingi vorið 2019. Þessi pakki skiptist niður í tvær tilskipanir og þrjár reglugerðir. Við samþykkt þeirra áskildi Alþingi að þessar tilskipanir og reglugerðir yrðu að íslenskum lögum. Maður veltir hins vegar svolítið fyrir sér hvernig hægt er að taka upp lög hér á landi, sem koma frá erlendum aðilum og samþykkt af Alþingi með einfaldri þinsályktunartillögu.

Af þessum fimm tilskipunum og reglugerðum eru það þrjár sem fjalla um raforku og tvær um gas og eldsneyti. Það eru þessar þrjár sem fjalla um raforku sem skipta okkur máli;

Tilskipun 2009/72/EB, sameiginlegar reglur um innrimarkað raforku.

Reglugerð 713/2009 samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, ACER.

Reglugerð 714/2009 raforkuviðskipti yfir landamæri.

Það eru einkum þær tvær síðarnefndu sem skipta máli, vald ACER og viðskipi yfir landamæri.

ACER er ný stofnun innan ESB, sem sér um stýringu orkuflæðis um sameiginlegt orkunet aðildarríkjanna. Þessi stofnun hefur einnig vald til að heimila lagningu tenginga milli landa, 8. grein 713/2009.

Í skýrslu Friðriks og Stefáns er komist að þeirri niðurstöðu að 8. grein 713/2009 samrýmist vart stjórnarskrá Íslands. Sér í lagi vegna þess að við samþykkt EES samningsins hér á landi, hafi verið gengið eins nærri stjórnarskrá og hugsast gat og síðan hefur fjöldi laga verið tekin upp sem enn frekar gekk á hana. Þó telja þeir að þessi 8. grein reglugerðarinnar gangi það langt að um brot á stjórnarskrá sé að ræða. Þarna er erlendri stofnun fært vald til ákvarðanatöku sem hefur víðtæk áhrif á íbúa okkar lands. Þ.e. færir erlendri stofnun vald til ákvörðunar um tengingu landsins við meginland Evrópu og stýringu orkunnar um þann streng.

Við samþykkt þingsályktunartillögu á Alþingi, vorið 2019, um op3, setti orkumálaráðherra fyrirvara við hana, um að Alþingi réði hvort slíkur strengur yrði lagður. Orðalagið á þessum fyrirvara minnir hellst á samþykkt í ungmennafélagi, svo almenn var hún. Ekki var nefnt hvaða grein fyrirvarinn átti við og í raun ljóst að hann var skrifaður í fússi, til að sætta flokksfélaga.

En slíkur fyrir segir ekkert, hvort heldur hann er vel eða illa orðaður. Friðrik og Stefán rekja hvernig og hvar slíkir fyrirvarar fást í samskiptum EES við ESB. Þá má einungis fá þegar sameiginlega EES nefndin fjallar um málið. Það er þar sem hugsanlega er hægt að ná fram fyrirvörum, þ.e. ef EES nefndin kemur sér saman um að fara í slíkar viðræður við ESB. Þeir taka skýrt fram að við samþykkt reglugerðarinnar eru íslensk stjórnvöld búin að samþykkja hana, með öllum kostum og göllum.

Það liggur því ljóst fyrir að ef einhverjum dettur til hugar að leggja hingað sæstreng getur Alþingi ekkert sagt. Málið er sótt til umboðsmanns ACER á Íslandi, Orkustofnunar, sem samkvæmt reglugerð 713/2009 heyrir að öllu leyti undir ACER. Verði tafir þar mun ACER yfirtaka málið og það fer fyrir ESA, sem lítið getur sagt. Ísland samþykkti jú viðkomandi reglugerð án þess að fá fyrirvar samkvæmt starfsreglum EES/ESB samningsins. Hámarkstími til lausnar málsins eru 6 mánuðir. ACER getur hins vegar heimilað framkvæmdir áður en málsmeðferð líkur.

Ásókn erlendra aðila til að byggja hér vindorkuver byggir á þessu. Það sér hver heilvita maður að enginn færi að leggja peninga sína til slíkra framkvæmda þar sem orkuverð er lægst, nema því aðeins þeir viti sem er að Ísland muni tengjast erlendum orkumarkaði, með tilheyrandi hækkun á orkuverði hér á landi.

Reglugerð 714/2009 fjallar um raforkuviðskipti yfir landamæri. Þar er ACER fært allt vald til stjórnunar á orkuflæðinu. Við munum áfram eiga orkuna en ráðum litlu hvernig henni er ráðstafað. Þessi reglugerð skiptir okkur litlu meðan ekki er sæstrengur en mun taka öll völd um leið og slíkur strengur verður lagður.

Talsmenn þessara erlendu aðila, er vilja leggja landið okkar undir risastórar vindtúrbínur, hafa sagt að þeir ætli ekki að selja orkuna úr landi. Þeir hafa líka sagt að orkan gefi okkur svo og svo mikla auðsæld. Það er auðvelt að lofa einhverju sem ekki þarf að standa við. Þeir ráða ekkert hvert orkan fer efir að þeir keyra hana inn á landsnetið og þó vissulega orka geti skapað atvinnutækifæri, verður verð hennar að vera viðráðanlegt. Eftir að sæstrengur hefur verið lagður er engin hætta á að nokkurt fyrirtæki vilji starfa hér á landi.

Einu heiðarlegu erlendu fjármálamennirnir í þessum bransa eru þeir sem vilja leggja fiskimiðin okkar undir vindorkuver. Þeir hafa ætíð sagt að þeirra ætlun væri að leggja sæstrengi, í fleirtölu. Meir um það síðar.


Íslenskir lukkuriddarar fyrir erlenda vindbaróna

Mætti á fund í vikunni, þar sem umræðuefnið var vindorka. Bar hann yfirskriftina "Vindmillur fyrir hverja? til hvers?"

Þetta var fróðlegur fundur en frummælendur voru Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi þingmaður og Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur. Erindi þeirra voru bæði fróðleg og vöktu upp ýmsar spurningar. Vonandi að áframhald verði á fundum þessa hóps, enda ljóst að áhugi fyrir málefninu fer vaxandi.

Það er erfitt að sjá hver kostur við vindorku á Íslandi er, ef frá er skilinn hugsanlegur ávinningur þeirra erlendu aðila er að þeim virkjanahugmyndum standa. Og þó er enn erfiðara að átta sig á hvers vegna erlendir fjármálamenn, sem vilja ávaxta sitt fé í orkuframleiðslu, velja að koma hingað til lands í þeim tilgangi. Orkuverð hér á landi er með því lægsta sem þekkist í Evrópu, meðan orkuverð á meginlandinu er í hæstu hæðum. Fjármálamenn vilja jú ávaxta sitt fé og leita ætíð bestu leiða til þess. Því liggur beinast við fyrir þessa menn,  vilji þeir fjárfesta í vindorku, að gera það á meginlandinu. Miðað við kostnað í peningum talið, er ljóst að lítill ef einhver ágóði fellur til þeirra hér á landi, meðan ljóst er að veski þeirra gætu bólgnað verulega ef þeir nýttu sinn pening þar sem orkuverð er margfalt hærra. Þarna er eitthvað stór undarlegt í gangi.

Nokkur atriði geta leitt til skýringa á þessu. Í fyrsta lagi gæti verið á íslensku lukkuriddararnir séu að nýta sér þessa erlendu vindbaróna, sér til hagsbóta. Í öðru lagi gæti verið að þessir erlendu vindbarónar viti að stutt sé í lagningu sæstrengs til landsins og að orkuverð hér fari á sama plan og á meginlandinu, telji auðveldara að fífla íslenska sveitarstjórnarmenn en þá erlendu, sem þekkja orðið til vindmilla og þeirra ókosta. Í þriðja lagi gæti verið að þessir erlendu vindbarónar, í samstarfi við íslensku lukkuriddarana, telji að styrkjakerfi ESB muni hjálpa þeim við uppbygginguna, þannig að þeir þurfi bara að hugsa um ágóðann. Hverjar sem ástæður þessara fjármálamanna er, þá er ljóst að kostnaður við vindorkuver er ekki bara mældur í peningum.

Vindorkuver eru í eðli sínu mjög áberandi. Reyndar gera lukkuriddarar vindbarónanna lítið úr þeim þætti, tala gjarnan um vindlundi, vindskóga og svo framvegis. Eðlilegast er að kalla þessi fyrirbæri réttu nafni, orkuver. Þetta eru orkuver og ekkert annað, með öllu því sem slíkum iðnaði fylgir. Vindorkuver eru þó sú mynd orkuvera sem verst er fyrir landið og fyrir okkur Íslendinga er fátt verðmætara en landið okkar. Þetta ber hverjum stjórnmálamanni að standa vörð um, hvort heldur er í sveitarstjórnar- eða landsmálapólitík. Þetta ber hverju mannsbarni á Íslandi að standa vörð um! Það eru því ekki krónur og aurar sem eiga að ráða för í ákvörðunum um hvort hér eigi að virkja vindinn, heldur náttúran okkar. Hún er það sem við eigum og henni ber okkur skilda að skila svo hreinni sem hugsast getur til komandi kynslóða.

Í máli Bjarna kom m.a. fram að landþörf vindorkuver er mikil, að flatarmáli. Ef rennslisvirkjun er sett á gildið 1.0, það er að 1.0 er gildi fyrir ákveðna orkueiningu, er landnotkun vatnsorkuvers með miðlunarlóni 1.67 á sömu orkueiningu. Jarðgufuvirkjun er með landnotkun 5.0 á þá orkueiningu en til að framleiða sama magn orku úr vindi er landnotkun 16.7. Það er s.s. 16.7 meiri þörf á landi til framleiðslu ákveðinnar einingar að orku en rennslisvirkjun þarf og 10 sinnum meira land til virkjana á vindi en þarf til virkjana á vatni með uppistöðulóni. Þetta eru svo hrópandi tölur að engu tali tekur. Fullt Hálslón er 57 km2. Til að virkja vind til jafns við Kárahnjúkavirkjun þarf því 520 km2!. Fyrirhuguð Hvammsvirkjun verður með 4 km2 lóni, að stórum hluta þar sem áin rennur nú þegar. Það þarf því 40 km2 á þurru landi til að virkja vind til samræmis við Hvammsvirkjun. Þarna er einungis talað um flatarmálið. Lón er í sjálfu sér ekki mikil sjónmengun, þó vissulega sé sárt að missa land undir vatn. Í sumum tilfellum getur það fegrað umhverfið og innan ekki margra ára er það lón orðið að hluta landslagsins. Það myndi sennilega fáir verða hrifnir af því ef Þingvallavatn yrði fært til sömu stærðar og það var fyrir virkjun þess. Vindmillur eru hins vegar eitthvað sem aldrei mun falla að landslaginu, sér í lagi þegar um þær hæðir þeirra er að ræða sem hugmyndir eru um,, um og yfir 200 metrana. Í umhverfisáætlun Zephyr sem það sendi umhverfisstofnun, fyrir vindorkuver á Brekkukambi (650metra hár), er gert ráð fyrir að vindmillur geti orðið 246 metra háar. Svona til að sjá aðeins samhengið þá er Hallgrímskirkjuturn 74.5 metrar á hæð.

Íslensku lukkuriddarar erlendu vindbarónana tala mikið um nauðsyn þess að auka raforkuframleiðslu hér á landi, svo markmiðum stjórnvalda í loftlagsmálum verði náð. Það er rétt, ef þeim markmiðum skal náð, án þess að skerða lífskjör landsmanna, þarf að virkja meira. En hvers vegna í ósköpunum ættum við að velja þar versta kostinn?! Er einhver glóra í því að fórna stórum hluta landsins undir vindorkuver, með öllum þeim göllum sem þeim fylgja, meðan enn eru nægir kostir til vatns- og gufuvirkjana? Ég er enginn talsmaður þess að sökkva landinu undir vatn, en í samanburði við vindorkuna er sá kostur þó mun skárri. Orkuskipti kalla á meiri raforku, til að halda uppi lífskjörum okkar þarf meiri raforku og vegna fjölgunar landsmanna þarf aukna raforku. Meðan nægir viðunandi kostir til vatns- og gufuvirkjana eru fyrir hendi, á ekki einu sinni að horfa til vindorkunnar. Þá umræðu eigum við ekki að þurfa að taka fyrr en þrengja fer að öðrum kostum. Hugsanlega er þá komin einhver tækni sem gerir með öllu óþarft að hugleiða vindorkuna, nú eða einhver kostur til virkjunar hennar án þess að reisa þurfi risa vindmillur á miklu landsvæði.

20221012_204257

 

Það er tvennt sem fólk ætti að hugleiða, svona í alvöru. Hvers vegna velja erlendir fjármálamenn Ísland til vindorkubygginga, þegar ljóst er að þeir fá mun meiri ávöxtun á sitt20221012_204257 fé með því að byggja slík orkuver á meginlandi. Og hvers vegna ætti að velja versta kostinn við aukna framleiðslu á raforku í landinu.

 

 


Vestanvindur

Maður er hugsi, verulega hugsi. Hvers vegna erum við ekki búin að byggja vindmillur á hvern hól í landinu? Samkvæmt messu trúfélagsins Vestanvindur, þá væri allt svo bjart hjá okkur og smjör dræpi af hverju strái. En svo hugar maður; jú það eru vindmillur víða, ekki síst í Evrópu. Þó er orkuverð þar í hæstu hæðum. Og þegar litið er yfir prestana í trúfélaginu, þá sér maður nokkur kunnugleg andlit, frá því fyrir Hrun. Og svo má ekki gleyma þeirri staðreynd að við erum svo heimsk og vitlaus hér á Íslandi að slíkar vindmillur verða ekki byggðar nema af erlendum aðilum. Það var okkur alla vega tjáð af prestunum í messunni er trúfélagið hélt yfir okkur hérna á Skaganum.

Þessir erlendu aðilar eru franska fyrirtækið Qair, norska fyrirtækið Zephyr, ítalskt fyrirtæki sem kallar sig EM orka hér á landi og Grjótháls en í gögnum um hugmyndir þess fyrirtækis er einungis nefnt að um erlenda aðila sé að ræða. Auk þess kemur Norðurál að þessu verkefni vindbarónanna, þó óljóst sé með hvaða hætti það er. Fátt kom fram á messunni um það. Það eitt að þessir erlendu aðilar hafi tekið saman höndum vekur undrun og spurning hvað samkeppnisstofnum segir við því. Þetta eru jú aðilar sem hafa áform um að framleiða hérna orku, til sölu hér á landi. Eru væntanlega að fara í samkeppni um kaupendur hennar, eða hvað?

Það var margt undarlegt sem kom fram á messunni. Ekki get ég talið upp allt ruglið sem okkur var fært, en ætla að drepa niður á einstök atriði. það var m.a. talið hversu mikla atvinnu þetta skapaði, talað um að á framkvæmdatíma myndu hátt í eitt þúsund manns fá vinnu og að þeim loknum yrðu til í landinu allt að tvöþúsund og fimm hundruð störf. Af þeim yrðu allt að hundrað og fimmtíu vel launuð bein störf við stýringu vindmillana, er gæfu nærsamfélaginu góðar útsvarstekjur. Víst er að á byggingatíma mun mönnun verða að mestu erlendir "sérfræðingar" þ.e. ódýrasta vinnuafl sem finnst. Eins og fram kom á fundinum kunna Íslendingar ekki að byggja vindmillur. Stýring vindmillanna mun ekki fara fram í þeim héruðum sem þeim er ætlað að rísa, heldur verður þeim stýrt frá höfuðborginni. Reyndar má allt eins stýr þeim frá Indlandi, ef því er að skipta. Rúsínan í pylsuendanum er svo öll störfin sem ætlað er að þessi áform öll skili svo til frambúðar, þ.e. hér á vesturlandi. Eins og fram kom hjá fyrrverandi rektor eins af háskólum okkar, var þar notuð nýtísku aðferð við útreikninginn. Skoðað var hversu mikla orku Norðurál notar, í þá tölu var deilt þeim fjöldann er vinna hjá fyrirtækinu, bæði beint og óbeint og síðan var sú niðurstaða margfölduð með þeirri orku er vindorkuverunum er mögulegt að framleiða! Út úr þessum reikningum komust prestarnir að því að hér myndi verða um 2.250 störf, jafnvel mun meira! Þetta er auðvitað einstök aðferð og sjálfsagt ekki verri en hver önnur, enda algerlega óljóst hversu mörg eða hvort yfirleitt einhver störf verða hér til. Hins vegar er hægt með svona reiknikúnstum að fá út miklar tekjur fyrir samfélagið, Að á 25 ára rekstrartíma vindorkuveranna, muni tekjur samfélagsins verða nærri 25 milljörðum króna og af því er sveitarfélögum ætlað  um 7.5 milljarðar, eða rúmlega 300 milljónir árlega. Þetta er vissulega biti sem freistar, þ.e. ef engar efasemdir eru um forsendurnar. Þar má þó í fyrsta lagi nefna aðferðafræðina við útreikninginn en einnig að notuð er hámarks geta vindorkuveranna. Fleira þarf varla til að átta sig á að þarna er um hreina snákaolíu að ræða!

Franska fyrirtækið Qair er með vindorkuver vítt og breitt um Evrópu. Nú vill þetta fyrirtæki nema land hér og hefur fengið ekki minni snilling en Tryggva Herbertsson til að predika sinn málstað hér á landi. Enn eru áform þess fyrirtækis einungis um tvö vindorkuver hér á vesturlandi, í og við Hrútafjörðinn, þó annað þeirra teljist til Dalabyggðar. Hins vegar eru áform þessa fyrirtækis hér á landi mun stærri, eru nánast búin að leggja allt landið undir sig. Nefni einungis tvö særstu þeirra vindorkuvera sem eru í pípum Qair hér á landi, á Melrakkasléttu og í landi Grímsstaða í Meðallandssveit. Þá hefur fyrirtækið nefnt að það hyggist byggja vetnisverksmiðju að Grundartanga, til að nýta hluta þeirrar orku er þeir hyggjast framleiða. Þær hugmyndir eru þó skammt á veg komnar, ekki enn búið að ganga frá landleigu, hvað þá annað. Það er einna helst að sjá að þau áform séu fyrst og fremst ætluð til að liðka fyrir leyfum fyrir vindmillu áformin.

Norska fyrirtækið Zephyr er einnig öflugt í vindmillum erlendis, einkum þó á norðurlöndum. Það fyrirtæki vill einnig nema land hér, feta í fótspor víkinganna. Talsmaður þess hér á landi er enginn annar en Ketill Sigurjónsson, einn heitasti aðdáandi landsins á sæstreng til útlanda. Það var nokkur söknuður af því að hann skyldi ekki sjá sér fært að mæta á messuna á Akranesi, lét rektorinn fyrrverandi tala þar sínu máli. Þar hefði verið hægt að spyrja Ketil að því hvað kom honum til að ljúga að þjóðinni í sjónvarpi, þegar hann sagði vindmillur á Brekkukambi ættu að vera 200 metra háar og að hægt yrði að lækka þær niður í 150 metra með því að fjölga þeim. Þó kemur fram í skipulagsáætlun sem Zephyr lét gera fyrir sig og afhenti Skipulagsstofnun, að vindmillurnar ættu að vera 247 metra háar og hægt að lækka þær niður í 200 metra með því að fjölga þeim. Hvergi í gögnum Zephyr til Skipulagsstofnunar er minnst á að þær gætu orðið 150 metra háar! Ljóst er að hagkvæmni vindmilla liggur í stærð þeirra, þannig að hæstu hugmyndir um vindmillur eru ætíð lágmarkshæðir. Hver er trúverðugleiki manna sem ljúga blákalt að þjóðinni?

Ítalska fyrirtækið EM orka segist vera búið að vinna alla undirbúningsvinnu fyrir vindorkuveri í Garpsdal, eða öllu heldur upp á fjallinu þar fyrir ofan. Þetta segjast þeir vera búnir að vinna í sátt við samfélagið, jafnvel þó alls engin sátt sé á svæðinu um málið, Hugsanlega hafa þeir náð sátt við sveitastjórnir um málið, með loforðum um einhverjar tekjur sem svo aldrei verða að veruleika og hugsanlega eru þeir í sambandi við einhverja burtflutta landeigendur þar vestra, með sömu loforðum. Í öllu falli er sáttin grunn, ef hún er einhver.

Eins og áður segir þá er erfitt að finna raunverulega eigendur að Grjótháls verkefninu. Einungis nefnt að þar liggi erlendir aðilar að baki. Þessir erlendu eigendur eru a.m.k. nokkuð klókir, láta ábúendur þeirra tveggja jarða sem þar eru undir vera sína talsmenn. En jafnvel þó þeir eiga við sína sveitunga, hefur þeim ekki tekist að ná sátt um verkefnið, enda aðrir og tryggari hagsmunir þar í húfi, þ.e. laxveiði.

Fram kom í messunni að ætlun þessara vindbaróna er að framleiða meira en 2.000Mw af orku, bara hér á vesturlandi. Þetta er vissulega nokkuð magn. Sem dæmi er ætlað að Hvalsárvirkjun framleiði 50Mw.  Segjum sem svo að þetta gangi eftir, hvað á þá að gera þegar dettur á logn á vesturlandi og þessi rúmlega 2.000Mw detta úr framleiðslu. Er aðkoma Norðuráls kannski sú að taka slíka skelli? Því miður, þó það fyrirtæki væri tilbúið að vera dempari fyrir vindbarónana er það bara tæknilegur ómöguleiki. Eina stóriðjan sem gæti orðið slíkur dempari er Elkem, en orkunotkun þess segði lítið upp í þessi 2.000Mw. Skellurinn mun lenda á almenningi og fyrirtækjum landsins, með skömmtunum og hærra orkuverði! Og ekki þurfa þeir að spá í hvað kostar að tengja orkuverin við raforkukerfið. Samkvæmt op3 ber landsneti að tengja öll orkuver við kerfið, án kostnaðar fyrir orkuframleiðandann. Sá kostnaður leggst á kaupendur orkunnar.

Þegar litið er yfir þann hóp sem að þessum áætlunum stendur, Hrunhöfunda, sæstrengstalsmenn og ESB sinna, er ljóst að þeir eru ekki með hugann við okkur mörlandann, þó þeir lofi öllu fögru. Þeir horfa til sæstrengs til Evrópu, enda verð á orku þar eitthvað sem eftir er að slægjast. Lágt orkuverð hér a landi freistar þeirra ekki!

Fyrsta skrefið er að fá leyfi til að framleiða orkuna, þá er hægt að sýna fram á að ofgnótt orku sé hér til. Eftirleikurinn er þá auðveldur. Þar sem Alþingi samþykkti op3 þarf ekki meira til en að óskað verði eftir leifi til að leggja slíkan streng. Málið fer þá fyrir ACER, sem að sjálfsögðu samþykkir erindið fljótt, enda þegar í áformum þess að Ísland tengist meginlandinu með rafstreng. Alþingi mun þar ekkert hafa að segja, nema auðvitað að stimpla á pappírana. Þá eru vindbarónarnir á grænni grein en lífskjör hér a landi munu færast aftur um aldir!


mbl.is Tugmilljarða tekjur af vindorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er betra að vakna og pissa en...

Það er betra að vakna og pissa en pissa og vakna. Stjórnmálamenn í Noregi eru nú vaknaðir við þá ónotatilfinningu að hafa migið undir, meðan þeir íslensku liggja enn í hlandi sínu.

Orkupakki 3 frá ESB, sem EES löndum var ætlað að samþykkja, fékk mikla gagnrýni. Lærðir menn með þekkingu á málinu, vöruðu eindregið þjóðþingin við að samþykkja þennan orkupakka, bentu á að sjálfræði þjóðanna yrði skert verulega varðandi orkumál. Nú hefur þetta sannast í Noregi, en enn erum við ótengd meginlandinu, þó sumir sjái þar einhverjar ofsýnir. Íslenskir stjórnmálamenn láta sig enn dreyma, liggjandi í hlandi sínu!

Vissulega er það svo að ríkin eiga enn sínar orkulindir og dreifikerfi. Noregur á m.a.s. strengina er tengja landið við meginland Evrópu. Það dugir þó ekki til, því Noregur ræður ekki lengur hvert né hversu mikla orku skuli selja. Þar er undirstofnun ESB, ACER með öll völd. Í þeirri orkukrísu sem skollin er á meginlandinu og menn vilja kenna við stríðið í Úkraínu, þó auðvitað hún stafi fyrt og fremst af rangri orkustefnu ESB, hefur sambandið nýtt þessa undirstofnun sína til að totta eins mikla orku frá Noregi og hugsast getur. Ástandið í Noregi er því orðið vægast sagt skelfilegt. Verð á orkunni hefur tífaldast og það sem skelfir þó meira er að Noregur er að fara inn í veturinn með hálf tóm miðlunarlónin. Það stefnir því í mikinn orkuskort er líður á veturinn og eina leiðin fyrir þá verður að kaupa orku af sveltandi orkumarkaði meginlandsins. Eitthvað mun sú orka kosta! Ekki víst að norski olíusjóðurinn dugi þá lengi til niðurgreiðslna á raforkunni.

Enn sleppum við hér á landi. Það eru þó vissulega blikur á lofti. Einkum er tvennt sem gæti breytt þessari stöðu okkar og orkuverð hér farið í hæstu hæðir. Fyrst er auðvitað að nefna sæstreng til meginlandsins, en enn eru menn að halda þeirri hugmynd uppi hér á landi. Afstaða ESB í því máli er skýr, enda slíkur sæstrengur inn í þeirra plönum og verið lengi.

Hitt atriðið er aðild Íslands að ESB. Síðast í dag voru nokkrir stjórnmálaflokkar að boða inngöngu í sambandið. Þeir fara auðvitað öðrum orðum að þeirri tillögu sinni, vilja "skoða samning" og velja svo. Það er eins og þetta fólk sé ekki með öllum mjalla. Það er ekki um neinn samning að ræða, einungis hversu hratt og vel okkur tekst að aðlaga okkur að lögum og reglum ESB. Þáverandi utanríkisráðherra var minntur rækilega á þetta á fréttamannafundi með Stefáni Fule, eins og sést í þessu myndbandi. Það eru engar undanþágur frá lögum og reglum ESB. Fyrir samþykkt Lissabonsamningsins var hægt að fá frest á aðlögun minniháttar mála, en þó einungis til skamms tíma. Eftir að hann tók gildi, í byrjun desember árið 2010, var slíkum frestum úthýst.

Viðræður um aðild eru því einungis um hversu vel gengur að aðlagast hverjum kafla þeirra og að lokinni aðlögun er viðkomandi kafla lokað með samþykki viðræðunefndar ESB. Eftir að aðlögun allra kafla er lokið og þeir samþykktir af sambandinu, fara þeir til samþykktar allra aðildarþjóðanna. Eftir samþykkt þeirra er umsóknarland hæft til aðildar í ESB, enda búið að aðlaga stjórnkerfið, lögin og reglurnar, að fullu að lögum og reglum ESB. Þessa aðferðarfæði er svo oft búið að segja að allir landsmenn ættu að þekkja hana. Það er ekki verið að semja um eitt né neitt, einungis að uppfylla kröfur sambandsins til aðildar.

Hitt liggur ljóst fyrir að ef landráðamönnum tekst það ætlunarverk að koma landinu undir stjórn ESB, þurfum við ekki lengur að spá neitt í orkumál hér á landi, né neitt annað. Þá mun hver einasta lækjarspræna verða virkjuð, allir hverir landsins beislaðir og vindmilluófreskjur reistar á hverjum hól! Og öll orkan flutt með sæstrengjum til meginlandsins.


Hausar fjúka

Það verður ekki annað sagt en að Pútín er duglegur að losa sig við andstæðinga sína, jafnt innan sem utan landamæranna. Minnir nokkuð á ástandið í Rússlandi á árunum fyrir seinni heimstyrjöldina, þegar Stalín lét sem mest að sér kveða innan eigin landamæra. Geðveikin hjá honum var slík að þegar Þjóðverjar réðust inn í Rússland var Stalín búinn að farga flestum reyndum herforingjum sínum og stóð uppi með höfuðlausan her.

Pútín hefur einnig verið duglegur að farga sínum herforingjum, en virðist þó leggja meiri áherslu á að losa sig við þá sem gætu ógnað honum á viðskiptasviðinu. Í dag eru það jú peningar sem stjórna.

Annars þyrfti sá fréttamaður er skrifar viðhengda frétt aðeins að rifja upp stærðfræðikunnáttu sína. Hann segir Nosov hafa fallið í febrúar síðastliðinn, 41 árs að aldri, fæddan 1978?!


mbl.is Fannst látinn á eyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara ef það hentar mér

"Bara ef það hentar mér" sungu Stuðmenn um árið. Þessi setning kom upp í hugann er ég las frétt á visir.is, um nýja túlkun ESB á orkugjöfum. Nú telst orka sem unnin er með gasi eða kjarnorku til grænnar orku.

ESB hefur verið duglegt að setja fram hinar ýmsu kvaðir á íbúa aðildarlanda sinna. Reyndar smitast þetta út fyrir ESB, því EES samningurinn virðist vera spyrtur við flestar kvaðir ESB. Loftlagsmál hafa verið fyrirferðarmikil í þessari herferð sambandsins gegn þegnum sínum. Þar hefur offorsið verið slíkt að það sem sannarlega er undirstaða lífs á jörðinni er nú skilgreint sem eitruð lofttegund, þ.e. co2. 

Það er vissulega af hinu góða að berjast gegn mengun, hvaða nafni sem hún nefnist. En þá þarf að skilgreina hvað er mengun og hvað ekki. Co2 er til dæmis ekki mengun, heldur grundvöllur lífs á jörðinni, enda hefur alla jarðsöguna verið hærra hlutfall Co2 í andrúmslofti en nú. Hins vegar er klárlega hægt að tala um mengun í útblæstri, bæði bíla en þó einkum frá verksmiðjum. Reyndar eru flest mannanna verk mengunarvaldur, þó andardrátturinn sé það ekki, jafnvel þó fátt sé eins mikil uppspretta Co2 en einmitt hann. Samhliða því að fólksfjöldi jarðar hefur nærri áttfaldast frá lokum nítjándu aldar til dagsins í dag, er ljóst að mengun frá fólki hefur stór aukist. Gegn því þarf að sporna.

Undir lok tuttugustu aldar kom fáviss fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna fram með þá bábilju að Co2 væri valdur þess að hlýnað hafi á jörðinni. Vitnaði hann m.a. í tilraun sem gerð hafði verið í lokuðu tilraunaglasi, nærri öld áður. Einnig vitnaði hann í borkjarnarannsóknir vísindamanna. Loftslag jarðar er flóknara en svo að hægt sé að koma öllum breytum þess fyrir í tilraunaglasi. Og jafnvel þó vísindamenn hafi reynt af mætti að benda þessum fyrrverandi varaforseta á að þó leitni væri milli magns Co2 í andrúmslofti og hitastig þess, þá væru mun meiri líkur á að hlýnun leiddi til aukinnar losunar á Co2, frekar en hitt. En það var ekki hlustað á vísindamenn, varaforsetinn hafði talað. Brátt var svo komið að fáir þorðu að mótmæla hinum nýju fræðum, enda hætta á að missa vinnuna. Fræðunum var því kastað fyrir hina nýju trú!

Reyndar var bæði hitastig jarðar og magn Co2 í andrúmslofti í sögulegu lágmarki, undir lok nítjándu aldar, svo lágu að líf á jörðinni var komið í hættu. Jörðin stóð á þröskuldi ísaldar. 

En aftur að fréttinni frá ESB. Vegna stefnu sambandsins í þessum málum var ljóst að til tíðinda myndi draga, fyrr en seinna. Orkuskortur var farinn að segja til sín löngu áður en Pútín réðst inn í Úkraínu. Covid var þá kennt um. Covid jók þó ekki eftirspurn eftir orku, þvert á móti minnkaði orkunotkun meðan á faraldrinum stóð. Hins vegar jókst hún aftur eftir að hjólin fóru að snúast aftur, þó ekki mikið meira en áður hafði verið. Orkan var hins vegar ekki til staðar, rétt eins og ráðamenn gerðu ráð fyrir að covid ástand yrði eilíft. ESB hafði einblínt á framleiðslu vind- og sólarorku. Orkugjafar sem útilokað er að treyst á sem stabíla orkugjafa. Þá er ljóst að fáar aðferðir til orkuframleiðslu eru meira mengandi en einmitt vindorkan, jafnvel þó einungis sé þar talin einn mengunarvaldur af mörgum, örplastmengun.

En nú er ESB sem sagt búið að skilgreina gas og kjarnorku sem græna orku. Það er vissulega gott. Áður var gas skilgreint sem grá orka. En það er fleira skrítið sem frá ESB hefur komið, eins og skilgreining þess á að tjákurl skuli skilgreint sem græn orka. Þetta getur átt við þegar trjákurl sem fellur til við timburframleiðslu, einkum í nánd við orkuverin, er nýtt til orkuframleiðslu í stað þess að urða það. En þegar raunveruleikinn er sá að skógar eru hoggnir í stórum stíl, vítt um heimsbyggðina og trén kurluð niður, flutt í skip með stórum flutningabílum og siglt með það um heimsins höf til Evrópu, svo framleiða megi þar orku, er ljóst að fátt umhverfisvænt er hægt að finna í þeim leik!

Vonandi verður þessi nýja tilskipan ESB, jafnvel þó hún minni á lagið sem Stuðmenn fluttu, til þess að vindmilluævintýrin taki enda. Eitt lítið kjarnorkuver getur framleitt stöðuga orku sem tæki þúsundir vindmilla að framleiða, þegar vindur blæs!

 


Maður skammast sín

Það er hreint með ólíkindum að enn skuli finnast fólk á Íslandi sem mærir voðaverk Pútíns í Úkraínu. Þar er gripið til ýmissa hrútskýringa, til að réttlæta þessi voðaverk.

Áhugi Úkraínu á að ganga í ESB er ein röksemdarfærslan. Hvað þarf Rússland að óttast þó Úkraína gangi í ESB? ESB er ekki hernaðarbandalag, einungis efnahagsbandalag. Þetta sést best á því að Finnar og Svíar, sem eru innan ESB, gera ekki ráð fyrir mikilli hjálp þaðan, þegar Pútín snýr sér að þeim. Því hafa þeir nú talað um að sækja um aðild að NATO.

NATO er varnarbandalag. Það hefur aldrei sýnt neina tilburði til innrásar í Rússland. Hins vegar hefur bandalagið horft til þess að setja upp sterkari varnir gegn því að Rússar geti ráðist inn í vestari hluta Evrópu. Þetta hafa menn gagnrýnt gegnum tíðina þannig að minna hefur orðið úr slíkum vörnum. Saga dagsins segir okkur þó að þessi vilji til aukinna varna er síst ofmetinn.

Flest Evrópuríki Varsjárbandalagsins sóttu um aðild að ESB við fall Sovéts og sum þeirra einnig um aðild að NATO. Úkraína varð eftir á þeim tíma, enda leppstjórn Rússa þar við völd framanaf. Þegar íbúum Úkraínu tókst að kasta þeirri leppstjórn af sér var farið að tala um aðild að ESB. Hugmyndir um aðild að NATO komu síðar. Þetta var kringum 2014 og svöruðu Rússar með því að innlima Krímskaga og senda málaliða sína inn í austurhéruð Úkraínu. Her Úkraínu tók til varna í austurhéruðunum en hefur látið Krímskagann vera. Áttu auðvitað að sækja þangað líka.

Því hafa Rússar og Úkraína nú átt í stríði í átta ár og árangur Rússa þar vægast sagt lítill. Í febrúar síðastliðinn gerði síðan Pútín alsherjarárás inn í Úkraínu.

Það eru fátækleg rök að Rússum hafi staðið hætta af því að Úkraína sækti um aðild að ESB og reynda einnig þó sótt væri um aðild að NATO. Ekki frekar en að Eystrasaltsríkin eru bæði í ESB og NATO. Rússum stóð engin ógn af því, en aftur gerði það möguleika Pútíns til að endurheimta gamla Sovétið nokkuð erfiðara fyrir, en það hefur verið markmið hans frá því honum voru færð völd yfir Rússlandi.

Enn aumari eru skýringar Pútíns, sem jafnvel sumir hér á landi taka undir, um að nauðsynlegt sé að afnasistavæða Úkraínu. Um það þarf ekki að hafa mörg orð, svo fádæma vitlaust sem það er.

Það sem kemur manni þó kannski mest á óvart í umræðunni hér á landi er að margir málsvarar Pútíns í stríðinu eru einmitt þeir sem hingað til hafa komið fram sem málsvarar frelsis. Þetta fólk, sumt hvert, er tilbúið til að trúa áróðursvél Pútíns, tilbúið til að trú manni sem setur ritskoðun í land sitt og skirrist ekki við að fangelsa þá sem fara á svig við þá ritskoðun. Þetta fólk hér á landi, sem þykist málsvarar frelsis, réttlætir með öllum hugsanlegum ráðum innrás Pútíns inn í Úkraínu, reynir að réttlæta ofbeldið sem þar viðhefst og viðbjóðinn. Það er með öllu útilokað að réttlæta innrás eins ríkis á annað.

Úkraína hefur ekki stundað hernað gegn Rússlandi, hefur einungis tekið til varna gegn málaliðum og hermönnum þeirra 2014 og varist allsherjarinnrás Rússa nú í vetur. Það er því aumt að til sé fólk hér á landi sem réttlætir ofbeldi Rússa.

Að mæla gagn þjóð sem ver sig gegn innrásarher er eitthvað það aumasta sem finnst í fari hvers manns! Maður skammast sín fyrir að til sé fólk hér á landi sem er þannig þenkjandi!


mbl.is Ógnarverk Rússa í Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarkleysi vestrænna stjórnmálamanna

Mikið óskaplega hlýtur þetta nú hlýjað íbúum Úkraínu um hjartarætur, sérstaklega þeim er berjast fyrir lífi sínu í Mariopol. Og auðvitað hlýtur Pútín vera brjálaður yfir þessari ákvörðun, að banna Zetuna.   Þvílík hræsni sem þetta er! Kjarkur vestrænna stjórnmálamanna skorar ekki hátt!

Ég hef sagt það áður og segi það enn að mannfallið í Úkraínu má að öllu leyti skrifa á kjarkleysi vestrænna stjórnmálamanna. Þeir óttast Pútín! Það vantar hins vegar ekki samstarfsmáttinn þegar verið er að ráðast inn í lönd einhversstaðar "langtíburtistan". Þá eru NATO og UN samstíga og safna liði. Hins vegar fellur samstaðan fyrir kjarkleysinu þegar um er að ræða að verja bakgarðinn.

Strax við upphaf innrásar Pútíns í Úkraínu var ljóst að eitthvað stórkostlegt var að í hernaðarmætti þessa stórveldis. Strax fór að bera á vandamálum innan rússneska hersins, sér í lagi landhersins. Loftherinn virtist eitthvað betri en fyrst og fremst hefur eyðileggingarmáttur og morðin á þegnum sjálfstæðrar þjóðar, stafað af eldflaugaárásum, oftast af rússneskri grund. Til að verjast þeim árásum hefur her Úkraínu fá tól. Landher Úkraínu er hins vegar vel sambærilegur landher Rússa, jafnvel betri. Þetta hefði átt að auka kjark vestrænna stjórnmálamanna, hefði jafnvel átt að gefa þeim kjark til að senda eitthvað öflugri vopn en haglabyssur og hergögn sem voru orðin ónýt vegna lélegrar geymslu. Hugsanlega hefði þetta átt að gefa vestrænum stjórnmálamönnum kjark til að stöðva Pútín í eitt skipti fyrir öll, með beinni hernaðaríhlutun, svona a la  langtíburtistan.

En því er ekki að heilsa. Kjarkurinn leyfir ekki slíka "dirfsku", kjarkurinn leyfir einungis einhverjar efnahagsþvinganir, þó ekki meiri en svo að valdar vestrænar þjóðir beri ekki skaða af. Svo þegar eitthvert gamalmennið óvart hugsar upphátt, eru þau orð samstundis leiðrétt, til að skaprauna nú ekki Pútín. Þetta er nú allur kjarkurinn og á meðan blæðir heilli þjóð!

Þúsundir manna, kvenna og barna hafa goldið þetta kjarkleysi vestrænna stjórnmálamanna, með lífi sínu og enn fleiri munu falla, verði ekki gripið til róttækra aðgerða strax! Það er einfaldlega ekki í boði að láta einhvern brjálaðan einræðisherra drepa fólk, hvort heldur eigin þegna eða þegna annarrar sjálfstæðrar þjóðar.

 

 

 


mbl.is Zetan bönnuð í hluta Þýskalands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úkraína er að falla og heimsfriðurinn með

Það er orðið ljóst að Pútin mun ná yfirráðum yfir Úkraínu, með samþykki hinna svokölluðu "frjálsu" ríkja. Lítið er gert til hjálpar, einhverjum skotfærum komið áleiðis og viðskiptaþvinganir settar á en þess þó gætt að öflugustu ríki ESB tapi sem minnstu vegna þeirra. Það hjálpar íbúum Úkraínu lítið og Pútín mun yfirtaka landið á næstu dögum.

En hvað svo? Halda ráðamenn þessara svokölluðu "frjálsra" ríkja að hann mun láta það duga, að hann muni stoppa þar?

Hundur sem hefur fundið blóðbragð leitar sífellt að meira blóði. Hann er einungis stoppaður á einn hátt!


mbl.is Forsetafrúin: „Svona lítur Úkraína út núna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðja heimstyrjöldin?

Ástandið í heiminum er farið að minna illilega á það sem gerðist í upphafi seinni heimstyrjaldar. Lönd eru hernumin í nafni þess hvert tungumál er talað innan þeirra. Landamæri eru vanvirt og farið með heri yfir. Aldrei datt þó Hitler í hug að kalla heri sína friðargæsluliða, jafnvel þó hann hefði haft áróðursmeistara sinn sér við hlið. Sennilega vegna þess að það hugtak var vart til á þeim tíma. Þar hefur Pútín vissulega forskot.

Enn skuggalegra er að nú virðist vera að myndast enn meiri vinskapur milli Pútíns og Xi Jinping, forseta Kína. Kína hefur einnig sýnt heri sína og virðist tilbúinn til alls. Hefur þegar svikið öll loforð um sjálfstæði Hong Kong og er farinn að sýna enn frekari tilburði til að yfirtaka Taívan. Þessi leikur Pútín blæs sjálfsagt enn frekar í þau segl Xi.

Hvort við erum komin á þann stað að ekki verður aftur snúið, er ekki gott að segja. Þó verður að segja eins og er að viðbrögð vesturlanda bjóða ekki beinlínis upp á bjartsýni. Þau líkjast einna helst sneypuför  Chamberlain, sem hann kallaði "friðarviðræður", eftir að Hitler hafði lagt undir sig Rínarlöndin, Austurríki og Sudethéruð Tékkóslóvakíu. Pútín er búinn að taka Krím og austurhéruð Úkraínu, en mun hann stoppa þar? Hann er þegar farinn að tala um löndin fyrir botni Eystrasalts. Þau eru reyndar komin í NATO, þannig að erfiðara er fyrir hann að sækja þangað, en ekki ætti að útiloka þann möguleika. Og vesturlönd ætla að beita efnahagsþvingunum, sniðnum að ákveðnum stórríkjum Evrópu, eins og vanalega.  Það er eins og að skvetta vatni á gæs, sér í lagi ef Pútín og Xi taka höndum saman.

Menn geta vissulega deilt um og velt fyrir sér hvers vegna þessi staða er komin upp nú. Talað er um að Pútín þyki vesturlönd vera farin að færa sig freklega upp á skaftið, jafnvel svo að hann telji Rússlandi ógnað. Það má til sanns vegar færa, en það eru jú íbúar þessara landa sem eiga að eiga síðasta orðið, ekki nágrannar þeirra, hvort heldur er til austurs eða vesturs. Og víst er að íbúar Úkraínu vilja fæstir fara aftur undir ægivald rússneska björnsins, fengu nóg af því á Sovét tímanum. Þetta er ekki ósvipuð rök og Hitler hafði, en hann taldi Versalasamninginn vera ógn og beinlínis móðgun við Þýskaland. Þessar vangaveltur skipta þó litlu úr því sem komið er.

Hvort við erum að horfa upp á upphaf þriðju heimstyrjaldar skal ósagt látið, en þeir atburðir sem nú hafa orðið og viðbrögð hins frjálsa heims við þeim, bjóða vart upp á bjartsýni.

 


mbl.is Pútín varar við hærra matvælaverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband