Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hroki ráðherra

Það er með ólíkindum hvernig ráðherra talar. Fyrir það fyrsta þá segir hann að um afléttingu fyrirvara sé að ræða, í öðru lagi heldur hann því fram að hægt sé að samþykkja orkupakkann en jafnframt að framkvæmd hans sé hafnað og í þriðja lagi vísar hann til álit sérfróðra manna máli sínu til stuðnings. Allt er þetta rangt! Menn hafa verið álitnir veikir í höfðinu af minna rugli en þessu!!

Fyrir það fyrsta þá getur ekki verið um neina afléttingu að ræða, einungis samþykki eða höfnun Alþingis. Væri um afléttingu að ræða þá er ljóst að búið er að færa vald frá Alþingi til embættismanna og ekki man ég til að Alþingi hafi gert slíkt, enda stæðist það ekki stjórnarskrá. Allar tilskipanir þurfa samþykki Alþingis, sama hvað embættismenn, jafnvel með samþykki ráðherra, gera eða skrifa undir. Að tala um afléttingu er því einungis orðsrúð til þess eins ætlað að gera minna úr málinu en efni standa til!

Í öðru lagi er það hámark fáviskunnar að bera fram fyrir alþjóð að hægt sé að samþykkja tilskipun frá ESB en fresta framkvæmd hennar. Þetta er þvílíkur hroki að engu tali tekur. Annað hvort er tilskipun samþykkt eða henni hafnað. Þegar maður selur húsið sitt getur maður ekki bara búið þar áfram, "þar til síðar".

Í þriðja lagi vísar ráðherra til umsagnar ákveðinna sérfræðinga um málið. Þarna gengur ráðherra lengra í lítilsvirðingu sinni á þjóðinni en áður. Þessar álitgerðir eru opinberar og stór hluti þjóðarinnar hefur kynnt sér þær. Í greinargerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar er bent á tvær leiðir. Fyrri kosturinn er að hafna tilskipuninni og mun málið þá færast aftur til EES nefndarinnar. Þar gætum við reynt að fá undanþágur eftir lögformlegri leið, undanþága sem stenst dómstól EFTA. Þessi leið er nokkuð örugg og lögformlega örugg. Hinn kosturinn er að samþykkja tilskipunina með fyrirvara. Þessi leið er hins vegar óörugg og lögformlega slæm. Þar gætu hvort heldur eftirlitsstofnun EFTA, nú eða hvaða einstaklingur sem telur að fyrirvarinn skaði sig, sótt málið fyrir EFTA dómstólnum. Fari málið fyrir þann dómstól, á hann þann eina kost að dæma samkvæmt efni tilskipunarinnar, sem Alþingi hefur þá samþykkt. Þetta áréttaði annar höfundur umsagnarinnar í fjölmiðlum í gær.

Það er því einungis ein leið fær í þessu máli, að hafna tilskipuninni. Málið mun þá fara til baka til EES nefndarinnar, eins og fram kemur í álitgerð SMS og FÁF. Þar höfum við hugsanlega möguleika á að ná fram varanlegum fyrirvörum sem stæðust dómstól EFTA. Að öðrum kosti er hægt að hafna samstarfi við ESB um orkumál og munu þá fyrri orkupakkar væntanlega falla úr gildi. Ekki að nein eftirsjá sé af þeim, en ef við teljum eitthvað innan þeirra henta okkur er hægt að láta þær greinar standa áfram sem lög hér innanlands.

Þegar maður hélt að maður væri búinn að upplifa allt það slæma við pólitík, hvernig hér var staðið að verki í endurreisn eftir hrun, hvernig þá var vegið að þjóðinni af stjórnmálastéttinni á alla vegu, hvernig Alþingi hagaði sér í Icesave málinu og var gert afturreka með og hvernig stjórnarherrar hafa heygst á því að standa vörð þjóðarinnar, koma núverandi stjórnvöld og ætla að toppa allar slæmar gerðir fortíðar með því að fórna gullepli okkar, orkunni! Sjálfstæði þjóðarinnar lagt að veði!!

Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að grunnurinn undir bankahrunið var jú frelsi í flutningi fjármagns milli landa, þ.e. afleiðing EES samningsins. Þetta setti landið á hausinn og einungis með kjark fárra manna sem tókst að halda sjálfstæði þjóðarinnar, fyrst með samþykkt neyðarlaga og síðan aðkomu þjóðarinnar að Icesave. Það stóð þó tæpt, mjög tæpt.

Sú gerð sem ráðamenn nú standa að, fórn orkunnar, er þó mun svartara en hrun bankakerfisins og afleiðingar þess. Ef við missum orkuna, þá er sjálfstæðið farið. Ef þingmenn í dag eru slíkar landeyður að þeir hafi ekki kjark til að stoppa málið nú, er ljóst að mikið þarf að gerast til að hægt verði að beita eina vopninu sem eftir verður, til að endurheimta fullveldi þjóðarinnar, uppsögn EES samningsins.

 


mbl.is Innleidd að fullu en gildistöku frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagaleg vissa

Fyrir þann sem ekki hefur kynnt sér þá álitsgerð sem unnin var af Friðrik Árna Friðrikssyni, landsréttarlögmanni og Stefáni Má Stefánssyni, prófessor, fyrir ríkisstjórnina og fjallaði um orkupakka 3, kemur þessi viðhengda frétt kannski nokkuð á óvart. Málflutningur stjórnvalda um orkupakkann hefur verið á nokkuð öðru plani en fram kemur í þessu viðtali við annan höfund skýrslunnar. Þó hafa stjórnvöld ávallt vísað til hennar í sínum rökstuðningi. Það er erfitt annað en að halda því fram að þar hafi íslensk stjórnvöld tekið meðvitaða ákvörðun um að ljúga að þjóðinni. Ekki viljum við trúa að ráðherrar séu ólæsir!

Í þessu viðtali við Friðrik Árna, nefnir hann að engin lagaleg óvissa sé til staðar ef tilskipuninni verður hafnað. Þá fari í gang þekkt ferli þar sem endirinn verður í öllu falli okkur hagstæður. Annað hvort mun tilskipuninni verða breytt okkur í hag eða við höfnum henni að fullu.

Hitt er annað að landsréttarlögmaðurinn telur að lagaleg óvissa geti skapast ef farin er sú leið sem stjórnvöld hafa valið. Í raun er engin óvissa þar í gangi, heldur nær víst að það mun valda okkur tjóni. Málið mun sannarlega lenda fyrir eftirlitsstofnun EFTA og síðan EFTA dómstólnum. Sá dómstóll getur einungis dæmt á einn veg, eftir sjálfri tilskipuninni. Íslensk lög eru ekki gild fyrir EFTA dómstólnum og handsal stjórnmálamanna hefur ekkert gildi þar heldur. Því er ljóst að dómstóllinn mun dæma þeim í hag sem óskar þess að tilskipunin skuli gilda á öllum sviðum hér á landi. Fyrirvarar eða íslensk lög munu þar engu breyta, ekki frekar en handsal utanríkisráðherra við einhvern mann innan kerfis ESB sem er umboðslaus frá kjósendum. Öllum ætti að vera þetta ljóst eftir nýlegan dómstól EFTA dómstólsins gegn Íslandi.

Það er því sama hvor leiðin er valin, sú sem ráðunautar ríkisstjórnarinnar mæla með eða hin sem svo þessi sama ríkisstjórn velur. Vissan er ætíð til staðar, niðurstaðan hins vegar mjög ólík. Annars vegar er um að ræða leið þar sem vissan um að sjálfstæði þjóðarinnar verður virt og hins vegar leið þar sem því er fórnað. Stjórnvöld velja vísvitandi að fara síðari leiðina!!


mbl.is Felur í sér lagalega óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert er Alþingi komið?

 

Sá misskilningur virðist vera í gangi að með því að bera samþykkt tilskipunar ESB um orkupakka 3 upp sem þingsályktun, þá megi komast framhjá aðkomu forsetans að málinu. Að þá verði að sækja á forseta að vísa lögum tengdum þessum pakka til þjóðarinnar. Sjálfur hélt ég svo vera, þegar ég skrifaði síðasta pistil, enda horfði ég þá einungis til 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Þegar betur er að gáð fjalla tvær aðrar greinar stjórnarskrárinnar um aðkomu forseta að ákvörðunum Alþingis, greinar 16 og 19.

16. gr.
Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti.
Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.

19. gr.
Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.

Þarna er skýrt tekið fram að samþykki forseta þarf fyrir lögum sem sett eru á Alþingi en einnig mikilvægum stjórnarráðsathöfnum og stjórnarerindum. Varla er hægt að hugsa sér mikilvægari stjórnarráðstöfun en framsal orkuauðlinda okkar. Fyrirvarar breyta þar engu, afsalið er jafn gilt.

Ef það er svo að ráðamenn þjóðarinnar eru farnir að velja málum leiðir gegnum Alþingi sem þeir telji að dugi til að komast hjá eina varnagla þjóðarinnar, er illa farið. Ef stjórnarherrarnir ætla sér að fá samþykki fyrir þingsályktun um orkupakka 3, án samþykkis forseta, eru þeir ekki einungis að brjóta stjórnarskrá með því að fórna sameign þjóðarinnar, heldur er framkvæmdin sjálf brot á stjórnarskrá!

Hvert er þá Alþingi okkar, sjálft löggjafavaldið, komið?!


mbl.is Beiti synjunarvaldi gegn orkupakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers að skera sauðinn, ef ekki á að éta hann?

Það er að verða nokkuð ljóst að Alþingi mun samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að hér skuli 3. orkupakki ESB taka gildi. Hafi þeir þingmenn sem leggja blessun sína á þessa aðför ráðherrans að lýðræði okkar skömm fyrir.

Málflutningur þeirra sem vilja samþykkja orkupakka 3 eru fyrst og fremst byggð á einu atriði, persónum þeirra sem á móti eru. Framanaf voru þetta einu rök landsölufólksins, fullyrt að engin hætta væri af samningnum, að vald yrði ekki að neinu leyti flutt úr landi. Þegar ljóst var að þessu svokölluðu rök stóðust ekki, þegar ljóst var að um afsal valds var að ræða og ráðamenn gátu ekki lengur dulið það fyrir þjóðinni, voru settir fram fyrirvarar. Þar með viðurkenndu stjórnvöld málflutning þeirra sem á móti voru. En fyrirvarar við tilskipanir frá ESB hafa aldrei haldið og munu aldrei halda. Einungis tilskipunin sjálf, með kostum og göllum virkar. Þetta hefur margoft verið reynt. Enginn hefur getað bent á fyrirvar sem hafi haldið, þ.e. fyrirvarar sem gerður er við þegar samþykkta tilskipun frá ESB. Ef breyta þarf einhverju þarf að breyta sjálfri tilskipuninni.

Ljóshundur verður lagður til meginlandsins, um það þarf ekkert að efast. Hugmyndir ráðamanna um að einhver fyrirvari við tilskipuninni muni þar einhverju breyta eru barnalegar. Til hvers að skera sauðinn ef ekki á að éta hann, til hvers að samþykkja orkupakka 3 ef ekki á að hagnast á honum? Sá hagnaður mun þó einungis falla á annan veginn; til þeirra sem að strengnum sjálfum standa, til þeirra sem framleiða orkuna fyrir strenginn og til þeirra sem taka við orkunni frá strengnum. Við, hinn almenni Íslendingur munum einungis sjá tap og það af stærðargráðu sem engum gæti dottið til hugar. Rekstrargrundvelli flestra fyrirtækja verður fórnað. Og ekki skal nokkur láta sér detta til hugar að einn strengur verði látinn duga. Tveir eru lágmark, þó ekki sé nema vegna afhendingaröryggis. Þegar síðan gróðasjónarmiðum er bætt við mun fjöldi strengja miðast við getu okkar lands til að framleiða orku. Þar mun engu verða eirt og ekkert skilið undan. Baráttu Sigríðar í Brattholti mun því að engu verða gerð, að baráttan um ásælni erlendra afla yfir auðlindum okkar, sem hófst með baráttu um Gullfoss, sé að fullu töpuð!

Teikn eru skýr, búið er að skoða rekstrargrunn sæstrengs, búið er að hanna framkvæmdina og það sem til þarf og ESB hefur sett þennan streng í forgang hjá sér. Erlendir auðjöfrar sniglast um landið eins og gráir kettir í leit að hentugum virkjanakostum og landsvæðum fyrir vindmilluskóga. Ekki eru þeir að spá í að framleiða rafmagn fyrir okkur mölbúana, þeir horfa yfir hafið.

Það er reyndar magnað að nokkur skuli láta sér detta til hugar að ætla að framleiða rafmagn með vindmillum, sem ætlað er til notkunar í 1000 km fjarlægð. Jafnvel þó hægt væri að flytja þá orku eftir landi alla leið, dytti engum slíkt í hug, hvað þá ef þarf að fara yfir úfið útaf. Vindur blæs jú um allan heim og styrkur vindmillna liggur í að hægt er að framleiða rafmagn nálægt notanda, að hægt er að minnka til muna það tap á orku sem flutningur þess leiðir af sér. Kannski væri þarna verk fyrir þá fréttamenn sem vilja hengja "rannsóknar" við nafnbót sína, til skrauts. Að rannsaka hvers vegna erlendir aðilar séu svo áfram um að framleiða hér orku með vindmillum ætlaða til flutninga langar leiðir. Getur verið að andstaðan gegn vindmillum sé orðin svo víðtæk, þar sem stærstu skógar að þeim eru, að það þyki nauðsynlegt að koma óskapnaðnum, sem lengst frá notanda?

Og talandi um orkutap, þá er lítið rætt um þá miklu orku sem þarf að framleiða hér á landi til þess eins að henda í hafið í formi orkutaps gegnum strenginn. Sú umframframleiðsla sem forstjóri Landsvirkjunar er svo tíðrætt um en fáir finna, mun verða léttvæg í þeim samanburði. Ef slík umframorka er til, þá á auðvitað að nýta hana hér á landi, t.d. til garðyrkju eða bræðsluverksmiðja.

Orkutilskipun 3 fer gegn stjórnarskrá, um það þarf ekki að deila. Fyrirvara stjórnvalda munu þar engu breyta. Í ofanálag hefur heyrst að ástæða ráðherra að flytja málið sem þingsályktun sé til þess ætluð að komast framhjá valdi forseta. Þarna er verið að leika hættulegan leik. Höfnun tilskipunarinnar af Alþingi gefur ESB heimild til að fella niður aðrar fyrri samþykktir Alþingis um sama efnisflokk, í þessu tilviki að orkumál verði ekki lengur hluti af EES samningnum. Um þetta þarf þó að semja milli EES og ESB. Samþykki hins vegar Alþingi tilskipunina, en forseti vísar lögum henni tengdri til þjóðarinnar, mun koma upp önnur og verri staða. Þá verður sjálfur EES samningurinn undir, ekki einungis sá hluti er snýr að orkumálum.

Þegar horft er á rök með og móti þessari tilskipun kemur nokkuð glögglega í ljós hversu víðáttu vitlaust það er að samþykkja tilskipun um orkupakka 3. Þeir sem eru á móti samþykktinni hafa einkum nýtt sjálfa tilskipunina sem gagn í sinni rökfærslu og fengið til þess verks færustu menn á sviði Evrópuréttar. Hinir sem samþykkir eru tilskipuninni hafa hins vegar fallið í þá gröf að hlaupa í manninn, í stað boltans. Það er ljótur leikur. Sumir þeirra sem mest hafa mælt með og skrifað um samþykkt tilskipunarinnar hafa beinna hagsmuna að gæta, fyrir sig eða sína fjölskyldu. Hjá öðrum eru ekki jafn skýr tengls, en þau hljóta þó að vera til staðar. Annað er ekki í boði, því einungis heimska mun þá skýra þeirra framferði. Og svo eru það auðvitað ESB sinnarnir. Hjá þeim gilda ekki rök, einungis nóg að pappírinn komi frá Brussel. Því fólki verður aldrei snúið.

Þá er rétt að benda á þá einföldu staðreynd, sem ætti að vera öllum ljós, að jafnvel þó svokallaðir fyrirvarar ríkisstjórnarinnar héldu, þá dugir það bara alls ekki. Þessari ríkisstjórn sem nú situr er vart treystandi til að standa í lappirnar þegar ættingjar sækja að. Síðan kemur ný ríkisstjórn og enginn veit hvernig hún verður skipuð. Miðað við hvernig kjörnir fulltrúar hafa gert leik að því að hundsa niðurstöður kosninga og setja saman stjórnir þvert á niðurstöðu kosninga, má búast við öllu, jafnvel því að ESB sinnar nái völdum. Þá eru fyrirvarar lítils virði!

Ég ætla rétt að vona að kosningin um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra verði með nafnakalli. Listinn um landsölufólkið mun þá verða varðveittur og reglulega opinberaður!!


mbl.is Tókust á um fjarveru Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vá er

Kannski má segja að tilkoma WOW hafi gert líf okkar betra, kannski ekki. Þetta er í raun getgáta sem enginn getur svarað. Margir vilja þó halda þessu á lofti og lofa Skúla fyrir.

Hitt er ljóst að sé svo, hafi tilkoma WOW aukið hagvöxt, lækkað verðbólgu, aukið kaupmátt og aukið vinnu, var þá til innstæða fyrir þeim bótum?

Fyrir hrun var gósentíð hér á landi, gengið svo hagstætt neysluþjóðinni að annað eins hafði aldrei þekkst og hingað flæddu gámaskipin full af vörum sem við í raun höfðum engar forsendur eða efni á að kaupa. Svo mikill var innflutningurinn að flutningafyrirtækin stóðu í ströngu við að finna pláss fyrir alla gámana. Bankarnir skekktu hér hagkerfið með blekkingum og skaðinn varð gríðarlegur. Kannski má segja það sama um WOW, þó það sé mun minna að umfangi, kannski má segja það sama um fleiri fyrirtæki sem rekin eru með duldu tapi árum saman.

Ég er ekki að segja að við eigum að setja hér upp einhverskonar lögreglu, að stjórna eigi stærð fyrirtækja á einhvern hátt eða velja hverjir megi og hverjir ekki.

Hitt verðum við að skoða, hvernig hægt sé að stjórna hér hagkerfinu án stórra áfalla, áfalla sem bitna ætið á þeim sem minnst mega sín og eiga allra minnstu sök á því hvernig fer.

Eitt af því er að fylgjast með rekstri fyrirtækja, sér í lagi þeirra sem stærri eru og grípa inní áður en illa fer. Að koma því svo fyrir með einhverjum hætti að einstaklingur eða lítill hópur fólks geti ekki keyrt sín fyrirtæki í botnlaust tap og jafnvel haldið þeim á floti þannig um lengri tíma, með tilheyrandi skaða fyrir okkur sem þjóð.

Rekstur fyrirtækja er auðvitað ekkert auðveldur, stundum koma áföll og illa gengur um einhvern tíma en svo byrtir upp og úr rætist. Þetta er eðlilegt, oftar en ekki er erfitt að spá um það ókomna. En þegar fyrirtæki sem rekið er með miklu tapi ár eftir ár er ljóst að eitthvað stórt er að. Þegar við það bætist að viðkomandi fyrirtæki er rekið á þeim grunni að bjóða þjónustu sína á þeim verðum sem lægst eru hverju sinni, er ljóst að margra ára tap getur aldrei unnist upp.

Varðandi WOW, sem var rekið sem einkafyrirtæki og því reikningar þess ekki eins opnir og ef um hlutafélag væri að ræðas, var kannski erfitt að fylgjast með hversu mikið og stórt tapið var, eða hver skuldasöfnun þess var. Hitt má ljóst vera að mörg teikn voru á lofti um mikla erfiðleika.

Þegar flugfélag er komið í margra mánaða skuld með lendingagjöld er ljóst að illa er komið. Þegar flugfélag skuldar leigu á grunnbúnaði sínum, flugvéluunum, er ljóst að eitthvað stórt er að. Þó eru fyrstu og sterkustu merki þess að fyrirtæki er komið í alvarlegann vanda þegar það er farið að skulda lögbundin gjöld starfsmanna sinna. Öll þessi teikn hafa legið á borðinu um langann tíma hjá WOW air og því átt að vera fyrir löngu ljóst að þar voru mjög alvarlegir hlutir í gangi. Þegar við bætist að þetta fyrirtæki byggir sína tilveru á að bjóða lægstu fargjöld milli staða, má hverjum vera ljóst að ekki yrði snúið til baka. Að útilokað yrði að fyrirtækið gæti nokkurn tímann rétt sig af.

Það er því nánast hlægilegt í skelfingunni að nú komi hver stjórnmálamaðurinn og spekingurinn og lýsi því yfir að hér hafi eitthvað óvænt og alvarlegt skeð. Vissulega alvarlegt, en fráleitt óvænt. Mörg fyrirtæki eru farin að boða uppsagnir, sum vegna sannanlegs taps við fall WOW air, sum til þess eins að tryggja sína eigendur. Svo eru fyrirtæki sem virðast ætla að nýta þá stöðu sem upp er komin og kenna henni um samdrátt, samanber byggingafyrirtækið sem nú boðar uppsögn vegna falls flugfélags! Og stjórnmálamenn baða sig í sviðsljósinu og boða neyðarfundi af miklum krafti, eins og slíkir fundir geti eitthvað gert. Skaðinn er skeður!

Stígandi lukka er best. Að byggja hana á bólu hefur aldrei gengið. Þetta sáum við í bankaævintýrinu, þar til það ævitýri varð að skelfingu og þetta sjáum við í WOW, þó enn sé eftir að sjá hversu stór skelfingin verður.

Hitt er borðleggjandi að höfundur þessa falls munu ekki þurfa að bera mikla ábyrgð, ekki frekar en höfundar bankahrunsins. Skaðinn mun lenda á öðrum. Starfsfólk WOW air mun verða verst úti en fjárhagslega tapið mun lenda á heimilum landsins. Þar mun engu breyta hvort einhver tengsl þau heimili hafa átt við WOW eða ekki.

Skúli heldur bar upp í Hvalfjörð og hreiðrar um síg á óðali sínu.

 

 

 


mbl.is Neyðarfundur vegna WOW air
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu

Skúla virðist hafa tekist að reka tréflís í gatið á skektunni, í von um að takast að róa í land áður en hún óhjákvæmilega sekkur.

Það verður að segjast eins og er að Skúli er nokkuð sleipur í viðskiptum. Eftir að hafa kafsiglt einu flugfélagi tekst honum að fá hluta kröfuhafa til að breyta skuldum í hlutabréf. Síðan er ætlunin að selja rest. Sjálfur mun Skúli væntanlega labba frá þessu óskaddaður en hinir nýju hluthafar þurfa að bera skaðann. Fyrirtækinu verður ekki bjargað, dauðastríðið einungis lengt.

Það er annars magnað hvað einum manni getur tekist að valda miklum skaða. Hvað eitt lítið flugfélag getur haft áhrif á kjör margra einstaklinga, sem jafnvel aldrei hafa komið nálægt vélum þess flugfélags eða haft nokkur afskipti af því á nokkurn hátt.

Samkvæmt fréttum mun verða verðbólguskot, ef WOW með sínar skuldir verður látið rúlla. Slíkt verðbólguskot mun þó ekki hafa áhrif á fjármagnskerfið í landinu, heldur fyrst og fremst það fólk sem er að reyna að koma yfir sig þaki, eignast íbúð. Það fólk mun bera allan þunga af þeim skaða sem einn maður hefur valdið.

WOW skuldar rúma 20 milljarða. Sagt er að verðbólgan geti farið upp í 6% við fall fyrirtækisins. Gangi það eftir munu skuldir heimila landsins hækka rúma 50 milljarða. Þannig að fjármagnsöflin munu græða um 30 milljarða á þessu!

Þetta er hreint út ótrúlegt, svo ekki sé meira sagt. Hvernig í ósköpunum er þetta hægt?

Þetta sýnir hversu arfavitlaus verðtrygging lána er. Þar breytir engu hversu ábyrgir lántakendur eru, hversu duglegir þeir eru að standa við sínar skuldbindingar eða hversu gott veð liggur að baki lánum. Einn maður, fullur að uppskrúfuðum loftdraumum, knúinn áfram af óstjórnlegu egói, getur rústað lífi fjölskyldna landsins á einu bretti.

Ég hélt að eitthvað hefði mátt læra af hruninu!!


mbl.is „Erum að vinna þetta mjög hratt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er erfitt að vera Vestlendingur

Það er erfitt að vera fæddur uppalinn og búandi á Vesturlandi um þessar mundir og liggur við að maður skammist sín fyrir það. Héðan eru ættaðir tveir ráðherrar og annar þeirra þingmaður kjördæmisins. Þessir ráðherrar eru Guðlaugur Þór Þórðarson, ættaður og uppalinn í Borgarnesi og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, þingmaður Norð-Vesturkjördæmis og uppalin á Akranesi. Þessir tveir ráðherrar bera þungann af því að svíkja land og þjóð með því að koma yfirráðum yfir orku okkar og náttúru undir vald ESB.

Bæði tala þau mikinn um að ekki sé verið að flytja vald úr landi. Engin rök eða staðreyndir flytja þau þjóðinni um að svo sé, nefna eingöngu einhverja skoðun sem enginn fær að sjá. Væntanlega eiga þau þar við álit þeirra lögfræðinga sem enn fylgja þeim að málum, lögfræðinga sem hafa verið kveðnir í kútinn af færustu sérfræðingum í Evrópurétti.

Enn hefur hvorugt þeirra rökstutt hvers vegna við eigum að taka tilskipun ESB um orkupakka 3 upp. Eru hætt að bera við þeirri vitleysu að okkur sé skylt að samþykkja af því einhverjir embættismenn hafi skrifað undir. Allir vita að svo er alls ekki, enda væri þá til lítils að halda úti Alþingi, væri nóg að hafa einhvern starfsmann hjá Póstinum með stimpil. Þar gæti hann bara stimplað tilskipanir ESB jafn skjótt og þær berast til landsins.

Þetta er farið að minna skuggalega á Icesave málið, enda sömu öfl sem mæla fyrir þessum pakka og vildu að við samþykktum Icesave samningana.

Það er akkúrat ekki neitt í þessum pakka sem er til góða fyrir þjóðina. Hins vegar má tína margt til sem slæmt er fyrir okkur. Þetta vita þessir ráðherrar en kjósa að skella skollaeyrum yfir því. Allt frá upphafi hafa þau haldið því fram að engin hætta væri á að rafstrengur yrði lagður til annarra landa þó tilskipunin yrði samþykkt. Þetta viðurkenna þau að sé rangt, þar sem nú skal setja fyrirvara á tilskipunina um að það muni verða í valdi Alþingis að samþykkja slíkan streng.

Vandinn er að slíkir fyrirvarar hafa aldrei haldið gagnvart tilskipunum ESB eða samskiptum við sambandið, svona yfirleitt. Því er  þessi fyrirvari jafn mikils virði og pappírinn sem hangir við klósettskálar landsmanna. 

Ef upp kemur sú staða að erlent fyrirtæki óskar þess að leggja streng og Alþingi hafnar því, snýr þetta fyrirtæki sér beint til ESA. Þar mun verða reynt að koma viti fyrir íslenska ráðamenn og ef það ekki dugir mun málið fara fyrir EFTA dómstólinn. Hann á ekki annarra kosta völ en að dæma samkvæmt lögum. Undanþágur gilda ekki fyrir þeim dómstól, hafa aldrei gert og munu aldrei gera. Þurfum ekki annað en að hugsa nokkra mánuði aftur í tímann, til dóms varðandi frystingu á kjöti sem flutt er til landsins. Landbúnaður er utan lögsögu EFTA dómstólsins, en vegna þess að gerður var samningur um innflutning á kjöti frá löndum ESB, fyrir nokkrum árum, samningur sem hafði bókun um að allt kjöt skildi vera fryst, dæmdi þessi dómstóll samt í málinu og horfði einungis til samningsins, ekki bókunarinnar.

Hitt er aftur verra, að ef til valda komast flokkar eins og Viðreisn og Samfylking, er ljóst að umsækjandi þarf ekki að fara með málið fyrir dómstóla, slík umsókn um sæstreng yrði samþykkt með lófaklappi á Alþingi!

Það liggur fyrir að IceLink er kominn á forgangslista ESB um millilandatengingu. Það liggur fyrir að erlent fyrirtæki hefur kastað miklum fjármunum í rannsóknir og þróun á sæstreng milli Íslands og Bretlands (Írlands ef af BREXIT verður). Þetta fyrirtæki vill fá eitthvað fyrir sinn snúð, þannig að búast má við umsókn fáum dögum eftir að Alþingi hefur afgreitt þennan pakka.

En það er fleira sem skeður. Orkupakki 2 lagði á öll lönd að markaðsvæða verð orku, þ.,e. öll orka átti að vera boðin á uppboðsmarkaði. Þetta var val og við íslendingar höfum ekki enn tekið upp það kerfi. Orkupakki 3 skildar öll orka skuli seljast á slíkum markaði. Þetta mun strax leiða til hærra orkuverðs og í raun geta orkufyrirtækin þá stjórnað verðinu með skömmtun á markaðinn, sér í lagi hér á landi meðan við erum ekki tengd. Á svo litlum markaði sem hér er, er útilokað að neytendur geti þar einhverju ráðið. Eftir að strengurinn kemur mun síðan orkuverð stökkbreytast, verða svo hátt að flest eða öll fyrirtæki landsins leggja upp laupana, landið verður óbyggilegt.

Eitt enn má nefna og kannski er þar skýringin á hegðun þeirra Kolbrúnar, Guðlaugs og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokks. Strax eftir samþykkt pakkans mun koma bréf frá Brussel þar sem stjórnvöldum verður tilkynnt að það standist ekki að allur eignahlutur Landsvirkjunar sé í höndum ríkisins og tveggja sveitarfélaga. Fyrirtækið skuli einkavætt á evrópska efnahagssvæðinu.

Orkupakki 3 fjallar fyrst og fremst um flæði orkunnar milli landa og miðstýringu þess. Vetrarpakkinn, þ.e. orkupakki 4 er kominn á lokastig innan kerfis ESB. Hann mun fjalla um stýringu á framleiðslu orkunnar. Ef pakki 3 verður samþykktur er erfitt að sjá að ráðamenn hér á landi hafi kjark til að hafna pakka 4.

Þá mun landið fyrst fara að blæða. En kannski gerir það ekkert til, landið verður hvort eð er komið í eyði.

Kjarkleysi og aumingjaskapur ráðamanna er með einsdæmum. Þó hafa þeir eitthvað sterkasta vopn sem nokkur stjórnmálamaður getur haft, til að hafna þessum ólánspakka, sjálfa grasrót sinna flokka. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samþykktu á sínum landsfundum að hafna orkupakka 3. Það er hreint með ólíkindum að þingmenn þessara flokka ætli að ganga svo freklega gegn grasrótinni til þess eins að þóknast einhverjum fjármálaöflum.

Einungis eru til tvær skýringar á slíkri hegðun, fádæma heimska eða að vel sé borgað fyrir viðvikið. Sjái einhver aðra skýringu á hegðun þessa fólks þætti mér gaman að fá að heyra hana.

Það er erfitt að trúa því fram að á Alþingi og í ráðherrastólum sitji fádæma heimskt fólk.

 


Svei þeim öllum

Hlutverk stjórnvalda er að jafna hagsveiflur. Í því felst að draga saman seglin í ríkisrekstri þegar hagkerfið hitnar og auka útlát þegar það kólnar. Þetta er eitt ef megin verkefnum stjórnvalda í hverju ríki til að jafna hagsveiflur og gera fólki og fyrirtækjum auðveldara með að lifa.

Hér á landi hefur þessu gjarnan verið öfugt farið og því oft á tíðum sem hagsveiflur hér hafa verið mun stærri og valdið meiri skaða en í löndunum kringum okkur. Einhæft hagkerfi mest alla síðustu öld var síðan enn frekari valdur þessa. En nú er hagkerfið sterkara, með fleiri grunnstoðum. Því ætti að vera auðveldara að halda því stöðugu. Frumforsenda þess er þó að stjórnvöld vinni sína vinnu. Minnkandi tekjum ríkissjóðs eiga stjórnvöld ekki að mæta með því að draga saman fé til framkvæmda eða til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, heldur með því að minnka eigið bákn. Ekki er að sjá að nokkur skortur sé á fjármagni þegar kemur að því að belgja út utanríkisþjónustuna eða þegar fjölga skal aðstoðarmönnum þingmanna, svo dæmi séu tekin.

Undanfarna áratugi hefur verið nokkuð gert af því að færa verkefni frá ríki yfir til sveitarfélaga. Oftast hafa sveitarfélög farið halloka í þeim skiptum, en ríkissjóður hagnast.

Eitt af slíkum verkefnum er þjónusta við aldraða. Undir hatti sveitarfélaga var að byggja og reka dvalarheimili fyrir aldraða og víðast hvar gekk þetta ágætlega. Mörg dvalarheimili voru mjög vel rekin og íbúar bjuggu áhyggjulaust við góða þjónustu, sín síðustu æviár. Ríkið sá um hjúkrun þess fólk sem ekki gat lengur bjargað sér og fór sú þjónusta fram á sjúkrahúsum vítt og breitt um landið. Þetta fyrirkomulag gekk vel og allir ánægðir og á sumum smærri sjúkrahúsum landsins var þetta nánast grundvöllur rekstrar þeirra.

Upp úr síðustu aldamótum, þegar græðgisvæðingin herjaði á landsmenn af mikilli hörku, datt einhverjum snilling í hug að þetta væri allt of dýrt fyrir ríkið, hefur sennilega komist í tölvu með exelforriti. Farið var í þá vinnu að semja við sveitarfélögin um að þau tækju yfir hjúkrun aldraðra. Þetta skyldi gert með því að sveitarfélög gætu fengið aukið fjármagn frá ríkinu fyrir hvert rými sem þau breyttu úr dvalarrými yfir í sjúkrarými, á þeim dvalarheimilum sem þau hefðu yfir að ráða. Á þetta stukku sveitarstjórnarmenn, sá meiri peninga en gleymdu þeirri staðreynd að rekstur sjúkrarýmis er mun dýrari en rekstur dvalarrýmis.

Afleiðing þessa varð sú að rekstur dvalarheimila gengur mjög illa og á sumum stöðum er reksturinn ósjálfbær. Jafnvel dvalarheimili sem rekin voru með sóma ná nú vart endum saman. Álag á starfsfólk hefur aukist fram úr hófi, enda var ekki reiknað með fjölgun þess við þessa breytingu. Enn er reynt að hlúa að sjúklingum eftir besta hætti, en jafnvel þar er farið að verða brestur á, á sumum heimilum. Greiðslur úr jöfnunarsjóð eru eini grundvöllur þess að ekki er búið að loka flestum dvalarheimilum landsins.

Á sumum sjúkrahúsum standa heilu hæðirnar auðar, öðrum hefur verið lokað. Hagnaður þeirra af breytingunni var minni en enginn. Rekstrargrundvöllur minni sjúkrahúsa á landsbyggðinni nánast hvarf með þessari breytingu og sífellt meiri þjónusta var lögð niður. Æ oftar þarf landsbyggðafólk að sækja lækninga á höfuðborgarsvæðið.

Fá eða engin úrræði eru lengur til fyrir þá sem vilja eyða efri árum áhyggjulaust á dvalarheimilum. Þangað inn fer enginn lengur nema hann liggi fyrir dauðanum. Aldraðir verða því að búa heima, oftar en ekki í allt of stóru og dýru húsnæði og bíða þess að heilsan sé orðin nægilega léleg, hellst rúmliggjandi, til að komast í áhyggjuleysið sem dvalarheimili aldraðra var ætlað að mæta.

Og nú þegar sumum þykir hagkerfið vera að kólna, eru stjórnarherrar svo uppþornaðir og skyni skroppnir að þeim dettur ekkert annað í hug en að skerða enn frekar kjör og aðstæður aldraðra. Hafa gert aldraða að einhverri jöfnu í exelforriti.

Svei þeim öllum!!

 


mbl.is Kólnandi hagkerfi ástæða skerðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynnt undir verkföllum

Í hvaða heimi býr ríkisstjórnin? Stundum er talað um að stjórnmálamenn lifi í fílabeinsturni, en þetta er mun alvarlegra. Úr slíkum turni ætti að sjást til jarðar. Stjórnvöld virðast hins vegar vera algerlega aflokuð í sínum heimi, sjá ekkert og skilja ekkert!

Að loknum fundi þar sem tillögur að aðkomu stjórnvalda til að liðka fyrir lausn kjarasamninga voru kynntar, fundi sem sumum formönnum stéttarfélaga var svo ofboðið að þeir gengu af fundi, koma stjórnvöld með enn eitt útspilið gegn lausn þess vanda sem þau ættu að vera að vinna að lausn á. Frystingu persónuafsláttar.

Og ástæðan sem gefin er af aðstoðarmenni fjármálaráðherra er "til þess að stöðva skattaskrið" og telur það vera kröfu launþega. Persónuafsláttur er ekki skattur, heldur afsláttur á skatti. Hvernig í helvítinu getur frysting slíks afsláttar stöðvað skattaskrið. Maður efast hreinlega um að allt sé í lagi í kolli þessa fólks!!

Síðast þegar persónuafsláttur var frystur var þegar vinstristjórnin sat, 2009 - 2013. Enn hafa launþegar ekki fengið þann skaða leiðréttan. Nú á að endurtaka leikinn með tilheyrandi tjóni fyrir launafólk, sér í lagi þá sem höllustum fæti standa.

Það er ljóst og hefur verið lengi, að stjórnvöld skilja ekki vandann og rót hans. Rótin liggur í ákvörðun kjararáðs, haustið 2016 og því höfrungahlaupi sem sú ákvörðun hefur leitt meðal efstu laga launþega, nú síðast með hækkun launa bankastjóra Landsbankans. Þó ótrúlegt sé og erfitt fyrir stjórnmálastéttina að skilja, þá kunna launþegar að lesa. Þeir horfa uppá þetta óréttlæti.

Vandinn liggur í því að stór hluti launafólks þarf að láta sér líka laun sem ekki duga til framfærslu, þó ríkið telji sig geta skattlagt þau hungurlaun. Það fólk má leitabrauðmolanna eftir að borð hefur verið þurrkað og gólf sópað!!

Þetta skilningsleysi stjórnvalda, framganga á fundi með fulltrúum launþega og síðan boðun frystingu persónuafsláttar, mun einungis vera sem bensín á eld verkfalla. Stjórnvöld eiga að vinna að hag þjóðarinnar, ekki eymd hennar. Þau eiga að vinna að lausn deilunnar, ekki að kynda undir hana.

Það er engu líkara en að sú ríkisstjórn sem nú situr sé orðin leið á setunni og vinni að því hörðum höndum að gera landið stjórnlaust. Að hún sé að fara að slíta stjórnarsamstarfinu og ætli að boða til kosninga.

Vonandi skoða þá kjósendur ummæli stjórnmálamanna á Alþingi, skoði hversu trúverðugir þingmenn eru og skoði hverjir hafa staðið á sínu þegar þeir hafa verið með stjórn landsins á sinni könnu. Úthluti sínu atkvæði síðan samkvæmt því. 

 


mbl.is Persónuafsláttur frystur í þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæfur þingmaður

Það er rangt hjá þingmanninum að stjórnvöld eigi ekki aðild að kjarasamningum. Fyrir það fyrsta þá er stór hluti launafólks á launum hjá ríkinu og kjarasamningar þess renna senn út. Það sem samið er um í almennu kjarasamningunum mun verða leiðandi fyrir starfsfólk ríkisins. Ríkið á að koma þar inn með aðgerðir sem stuðlað geti að kjarasamningum sem ekki kollvarpa hagkerfinu.

Í öðru lagi þá er eini tími launafólks til að fá leiðréttingar eða bætur sinna kjara, þegar samningar eru lausir. Kjör þess ráðast ekki að launum einum saman, heldur spilar þar stórt skattar og álögur, sér í lagi hér á landi þar sem skattar eru með því mesta sem þekkist. Þó ríkið eigi ekki beinan aðgang að kjaraviðræðum, er þetta eini tími launafólk til að ná eyrum stjórnvalda, svo hlustað sé. Því er það klárt að ríkið getur ekki fríað sig frá kjarasamningum, eins og þingmaðurinn heldur fram.

Þá heldur þingmaðurinn því fram að kjörnir fulltrúar Alþingis séu þeir einu sem með stjórn landsins eigi að fara. Þeir séu kosnir af þjóðinni. Þingmen eru kjörnir út á loforð sín fyrir kosningar, loforð sem þeir eru ótrúlega fljótir að gleyma. Eitt hellst hlutverk þingmanna og stjórnvalda er að hugsa um hag þjóðarinnar og auka hagsæld hennar. Þar vegur þyngst að halda sveiflum hagkerfisins eins litlum og hægt er. Aðkoma að kjarasamningum, til að koma í veg fyrir verkföll og að samningar leiði til sem minnstra sveiflna, er vissulega hlutverk stjórnvalda. Svo hefur ætið verið, þó á stundum stjórnöld hafi sofið hellst til of lengi.

Það lýsir fávisku og barnaskap þeirra sem halda því fram að stéttarfélög séu með einhverjar hótanir í garð stjórnvalda. Stjórnvöld hafa verið í viðræðum við deiluaðila, eins og þeim ber og það eina sem stéttarfélögin fara fram á er að nú verði gengið til verka. Samninganefndir launþega og atvinnurekenda hafa unnið sína vinnu, nú er komið að lokapunktinum. Þetta eru ekki hótanir, heldur einungis sagðar staðreyndir. Náist ekki að loka samningum mun skella á verkfall. Málið er ekki flókið!

Hins vegar er það ekki beint merki um skynsemi, þegar þingmaður úr stjórnarflokki talar með þeim hætti sem Bryndís Haraldsdóttir gerir, tal sem vissulega má skilja sem hótun, ef ekki lægi fyrir sú staðreynd að hún hefur einungis eitt atkvæði af 63 á Alþingi og er ekki beinn aðili að þeim viðræðum sem nú fara fram.

Verkföll eru mesta böl sem nokkur þjóð verður fyrir. Til þeirra er ekki stofnað af leik, einungis neyð. Stjórnvöld spila stórann þátt í að koma í veg fyrir að verkföll skelli, enda lendir það oftast á þeim að leysa þann vanda eftir að í óefni er komið.

Þeir þingmenn sem halda að eitthvað annað lögmál ríki, þekkja ekki söguna, eru fastir í fílabeinsturni og alls ekki hæfir í starfi!!

 


mbl.is Verkalýðsfélög stýra ekki landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband