Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Formenn sperra sig
1.9.2021 | 00:51
Ég glaptist til að horfa á formenn stjórnmálaflokkanna sperra sig í sjónvarpinu. Þeim tíma hefði betur verið varið í annað.
En maður verður jú að vera upplýstur, það eru víst að koma kosningar svo betra er kannski að vita hvar maður á að setja X á seðlinum. Eftir þennan þátt er maður lítt betri í kollinum á því sviði, froðusnakkið með eindæmum milli þess sem gamalgróin loforð voru flutt, loforð sem svo gleymast daginn eftir kosningar en dregin aftur upp úr hattinum þegar þær næstu nálgast.
Það sem þó kom kannski mest á óvart var hvernig formaður Viðreisnar opinberaði fákunnáttu sína og það um eina málið sem sá stjórnmálaflokkur var stofnaður um, ESB. Hún ætlar að semja við ESB um aðild Íslands að sambandinu! Það veit hvert mannsbarn, sem eitthvað hefur kynnt sér sambandið, að umsóknarríki semja ekki um aðild, enda slíkt óframkvæmanlegt fyrir ESB. Það er útilokað fyrir ESB að semja við umsóknarríki, þar sem lög þess ná yfir 27 lönd. Það þyrfti þá að breyta lögum í hverju aðildarríki til að þóknast umsóknarríkinu. Það sér hver maður að það gengur einfaldlega ekki upp. Því er skýrt í Lissabonsáttmálanum að umsóknarríki verði að aðlaga sig að lögum og reglum ESB, vilji það inngöngu. Einungis hægt að semja um hversu langan tíma sú aðlögun þurfi að taka. Það er magnað að fólk sem hefur slíka tröllatrú á ESB skuli ekki einu sinni gera sér grein fyrir einföldum staðreyndum, eða þekkja Lissabonsáttmálann, sem er einskonar stjórnarskrá sambandsins.
Þar sem formaður Viðreisnar hefur haldið því fram að aldrei muni verða gefið eftir í sjávarútvegsmálum, getur hún gleymt frekari viðræðum við ESB um inngöngu Íslands. Hún þarf ekki annað en að spyrja það fólk sem var við stjórnvölin þegar síðustu viðræður sigldu í strand, sumarið 2012, á hverju hafi strandað!
Ef einhver formaður sýndi þarna yfirvegun var það formaður Miðflokksins. Hann þurfti ekki að hækka róminn eins og hinir.
![]() |
Peningum ausið út í loftið í loftslagsmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Kosningar
30.8.2021 | 09:02
Nú líður að kosningum. Við Íslendingar erum svo heppin að fá að velja það fólk sem stjórnar landinu, þ.e. löggjafavaldið. Framkvæmdavaldið skipast hins vegar eftirá, þegar kosningum er lokið. Það þarf ekki endilega að endurspegla vilja kjósenda og mörg dæmi þess að menn sem jafnvel rétt skriðu inn á Alþingi, fái digra ráðherrastöðu. En við fáum þó að kjósa til Alþingis, það er alls ekki sjálfgefið og einungis fengið með sjálfstæði þjóðarinnar.
Flestir flokkar og framboð hafa nú opinberað sínar stefnur. Umræðan er hins vegar nokkuð flöt ennþá og snýst fyrst og fremst um ýmis froðumál líðandi stundar. Lítið er talað um það sem máli skiptir fyrir okkur sem sjálfstæða þjóð.
Lítið sem ekkert er rætt um brýn innanlandsmál, s.s. orkumál. Hvernig við eigum að halda þar á málum og þá ekki síst hvort samþykkja eigi orkupakka 4 frá ESB eða sæstreng sem virðist nú vera kominn á fulla ferð aftur. Þetta er eitt brýnasta mál dagsins í dag.
Lítið er rætt um þá bylgju erlendra aðila sem eru að leggja landið undir sig og þar á ég ekki við ólöglega innflytjendur, heldur kaupsýslumenn sem eru að kaupa upp landið til að eignast laxveiðiár, kaupa upp heiðarnar til að byggja þar risastóra vindmilluskóga og kaupa upp firðina kringum landið til laxeldis. Þetta er ein af þeim ógnum sem okkur steðjar hætta af, þó frambjóðendur til Alþingis þegi.
Fleira mætti nefna sem ógnar sjálfstæði okkar þjóðar, eins og t.d. EES samningurinn. Í formálanum hér fyrir ofan nefni ég hvað við séum heppin að fá að kjósa okkur löggjafaþing. Sú heppni súrnar þó aðeins þegar staða Alþingis er orðin þannig að í stað löggjafar er þar að stórum hluta tekið á móti tilskipunum erlendis frá og þær stimplaðar sem lög. Hvert er þá sjálfstæðið okkar komið?
Sjálfstæðisflokkur ætlar að efla loftlagsvarnir, væntanlega með aukinni skattheimtu. Það virðist eina verkfærið. Að öðru leyti reynir flokkurinn að vísa til fornar frægðar, sem löngu er fallin. Ekkert er þarna minnst á orkumál eða op4, ekkert minnst á erlenda auðjöfra sem eru að leggja landið undir sig og ekkert á framtíð EES samningsins.
VG ætlar að efla atvinnulífið í landinu. Auk þess leggur flokkurinn mikla áherslu á loftlagsvarnir fyrir jörðina en einnig skal hér tekinn stór hluti landsins og friðaður. Ætlar að gera það ómögulega. Ekkert er minnst á op4, erlenda landtökumenn eða EES/ESB.
Framsókn er eins og Framsókn er, svona eins og haustlauf sem er við það að detta af grein sinni. Þar á bæ tala menn um að fjárfesta í fólki. Ekkert nánar um það nema kannski að láta það borga veggjöld. Ekkert minnist þessi flokkur þó á þau mál sem ógna sjálfstæði þjóðarinnar. Ekki einu sinni minnst á landbúnað!
Samfylkingin vill ganga í ESB og taka upp evru. Orkumálum og landsyfirráðum má fórna til að ná því takmarki. EES samninginn þarf ekki að ræða í þeirra huga, enda fellur hann úr gildi þegar við erum orðin aðilar að ESB.
Um Viðreisn má hafa sömu orð og yfir Samfylkingu. Auðvitað eru rætur þessara flokka sitt úr hvorri áttinni, Viðreisn á sínar rætur til Sjálfstæðisflokks, til hægri, meðan rætur Samfylkingar liggja til vinstri. ESB er þó sameiginlegt áhugamál þessara flokka og þar sem þetta er í raun eina mál þeirra, má sannarlega kalla þá sitthvora hliðina á sama peningnum. En auðvitað þurfa þessir tveir flokkar ekki að spá í framtíð Íslands eða hvernig hér skal skipa málum. Eftir inngöngu í ESB munum við bara gera eins og okkur er sagt.
Píratar, já píratar. Ég veit eiginlega ekki hvað skal segja. Þeim hefur tekist að halda sér á þing í nokkur kjörtímabil, jafnvel þó þeir hafi enga eiginlega stefnu. Fylgja bara deginum í dag. Fortíð og framtíð er þeim framandi. Sjálfstæði þjóðarinnar eða málefni því tengt er ekki inn á borði Pírata. Hins vegar hafa nokkrir duglegir þingmenn komið frá Pírötum og slíka menn er ágætt að hafa á þingi, svona með.
Flokkur fólksins hefur sett baráttu fyrir aldraða og öryrkja í forgang. Þannig fólk þarf einnig á Alþingi. Þessi flokkur tjáir sig hins vegar lítið um afstöðu sína til þeirra mála er varðar þau mál er ógna sjálfstæði okkar. Það er slæmt fyrir kjósendur.
Jafnvel Miðflokkurinn, sem á sínar rætur að rekja til icesave, hefur verið ansi slappur að ræða málefnin sem mestu skiptir. Verk þeirra segja okkur hins vegar hvar þeir liggja í þessum málaflokkum, en það þarf að minna kjósendur á þau verk. Að koma fram með málefni sem fáir virðast skilja, jafnvel þó það sé gott, gaf flokkurinn fjölmiðlum og öðrum flokkum tækifæri til að mistúlka það á alla vegu og gera erfiðara fyrir frambjóðendur að halda uppi merki flokksins. Miðflokkurinn á að halda sig við sínar rætur og ræða þau málefni sem hann hefur verið duglegastur að vinna að á Alþingi, mál sem snúa að sjálfstæði þjóðarinnar. Að vísu er einstaka frambjóðandi duglegur að halda þessu merki flokksins á lofti, en það er eins og vanti einhvern samhug milli frambjóðenda hans. Kannski var sú breyting sem gerð var á frambjóðendum ekki að öllu leiti flokknum til góða, kannski er hann farinn að stefna í þá átt, sem hann hefur gagnrýnt fram til þessa, að verða einskonar kerfisflokkur.
Sósíalistaflokkurinn er tímaskekkja. Ekki aðeins málefnaleg tilurð hans heldur ekki síður hvernig til hans var stofnað. Það er búið að reyna sósíalískt stjórnarfar í meira en eina öld, vítt og breitt um heiminn. Það hefur allstaðar og alltaf endað með skelfingu.
Að kjósa hefur afleiðingu. Kjósendur hafa vald. Þegar því valdi beitt, er nauðsynlegt að vita hvað skiptir máli og hvað ekki. Við kjósum fyrir okkur sjálf, ekki aðra!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Vandi VG
29.8.2021 | 07:39
Stjórnarflokkarnir þrír héldu hver og einn sinn flokksfund í gær og kynntu sínar stefnur. Magnað var að heyra formenn þessara flokka tjá sig í fréttum eftir þá fundi. Þeir sigldu þar milli skers og báru og reyndu að koma sínum málum á framfæri, án þess að styggja samstarfsflokkana. Bjarni talaði um aukna sókn í umhverfismálum, meðan Kata talar um aukna sókn í atvinnulífinu. Hún minnist hins vegar lítið á umhverfismálin, lætur Bjarna og auðvitað varaformann VG um þau mál. Og hugur varaformannsins er skýr þar, reyndar fátt annað sem hann talar um.
En vandi VG er stór, sennilega sá flokkur sem erfiðast á um þessar mundir. Umhverfismál eru kjósendum þess flokks hugleikin og er það auðvitað gott og gilt. En það er erfitt að samræma alþjóðlega loftlagsvernd og innanlands umhverfisvernd. Til að auka þátt okkar í loftlagsvernd jarðar þurfum við að virkja sem mest má og nýta þá orku til framleiðslu hinna ýmissa þarfa er jarðarbúar þurfa. Að færa þá framleiðslu frá því að vera olíu eða kolakynnt yfir í rafkynnta, með hreinni raforku. En þetta samrýmist ekki hugsjón VG, þar sem þar á bæ má hellst ekki virkja eina einustu lækjarsprænu.
Þennan vanda verður VG að yfirstíga vilji þeir láta kalla sig alvöru stjórnmálaflokk. Annað hvort horfa þeir vítt og leita lausna fyrir alla jarðarbúa, nú eða hitt að þeir horfa bara á tær sér og loka fyrir að hægt sé að framleiða hreina orku hér á landi. Það er algjör ómöguleiki að gera hvoru tveggja.
Eftir fréttir gærdagsins er ljóst að Sjálfstæðisflokkur er genginn lengra til vinstri en nokkurn tíma áður og að VG er farinn að teygja sig lengra til hægri en mörgum flokksfélaganum þykir gott. Að venju dinglar Framsókn eins og lauf í vindi, haustlauf.
![]() |
Velsæld og tækifæri með félagslegum áherslum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Loftslag
22.8.2021 | 00:55
Engum blöðum er um það að fletta að það hefur hlýnað hér á skerinu okkar síðustu áratugi. Þeir sem muna veðurfarið á áttunda áratug síðustu alda og reyndar nokkuð fram á þann níunda, kætast yfir þessari breytingu í veðri. Minni snjór, hlýrri vetur og jafnvel sumstaðar hlýrri sumur er eitthvað sem flestir ættu að gleðjast yfir. Hvað veldur er erfitt að segja til um, en varla er þar að kenna co2 einu um. Sjálfsagt á mannskepnan einhvern þátt í þessari hlýnun.
Nú telja sumir að ég hafi glatað þeirri litlu glóru sem til var, enda slík "hamfarahlýnun" bara af hinu slæma. IPCC segir það. Segir reyndar líka að þetta sé allt manninum að kenna og samkvæmt fréttastofu ruv má ætla að þar séu Íslendingar helsti sökudólgurinn. Beri höfuð og herðar yfir allar aðrar þjóðir í því að hita upp andrúmsloft jarðar! Hvorki meira né minna!
Nýjasta skýrsla IPCC var opinberuð um daginn, upp á rétt um 4000 blaðsíður. Ekkert nýtt kom þar fram, nánast samhljóða skýrslunni í fyrra, árið þar á undan og árið þar á undan og... Á heimasíðu IPCC sést að þegar er hafist handa við skýrsluna fyrir árið 2022 og gera má ráð fyrir að hún verði samhljóða þeirri sem nú var opinberuð. Skemmst er frá því að segja að erfiðlega gengur fyrir IPCC að láta spádómana rætast. Enda er enn notast við sama spáforrit, enn notaðar sömu forsendur og því verður niðurstaðan jafn vitlaus og áður.
Það þarf svo sem ekki neinn snilling til að átta sig á að losun co2 af mannavöldum getur ekki verið sá þáttur sem mestu ræður. Magn co2 í andrúmslofti hefur aukist úr um 300 ppg í um 400 ppg. Þetta gerir aukningu um rúm 30%. Losun co2 af mannavöldum er talin vera nálægt 3% af heildarlosun í andrúmsloftið. Það sér því hver maður að þarna spilar eitthvað annað inn í, sennilega það nærtækasta, hlýnun jarðar. Þegar hlýnar minnkar sífreri í jörðu og við það sleppur gífurlegt magn af gösum út í andrúmsloftið. Því er líklegra að að losun co2 sé afleiðing hlýnunar en ekki orsök.
En aftur að fréttastofu ruv. Hún hefur sannarlega svarað kalli viðhlæjendur sinna í pólitík og berst nú á hæl og hnakka við gera skýrslu IPCC að kosningamáli hér. Síðasta "fréttin" þeirra fjallar um hversu miklir umhverfissóðar Íslendingar eru og vísar þar til skýrslu frá ESB, því heilaga fyrirbæri!
Það er þó margt að athuga við þá frétt. Sem von er þá notast ESB við þá aðferð að reikna mengun á haus í viðkomandi landi. Ef mengun er ástæða hnattrænnar hlýnunar á auðvitað að reikna mengun hvers lands á það landsvæði sem það ræður yfir, ekki fjölda íbúa. Við sem búum í stóru landi, sem að stórum hluta er óbyggilegt, getum aldrei komist nærri öðrum þjóðum í samanburði ESB. Það er einfaldlega útilokað. Þetta er því ekki frétt heldur áróður. Í öðru lagi er talið til gróðurleysi sem okkar sök. Gróðurleysi stafar af því að síðustu aldir voru þær köldustu frá síðustu ísöld, en nú stendur það væntanlega til bóta, með hlýnun. Losun vegna landnotkunar er þarna líka talin okkar sök, þó hún sé til þess eins að framleiða matvæli. Magn vegna þessa er stórlega ofmetið, enda stuðst við spálíkön að mestu, ekki mælingar. Þá er ljóst að aðrar þjóðir telja þetta ekki með, a.m.k. ekki Svíþjóð, miðað við það magn af heildarlosun sem þeir gefa upp.
Hvers kyns mengun er auðvitað af hinu slæma og koma á böndum á hana. Það kemur þó ekkert hlýnun jarðar við. Þar eru aðrir hlutir sem við ráðum lítið við, sem ráða för. Og jafnvel þó maður legði trúnað á að losun mannsins á co2 sé sökudólgurinn, er útilokað að hægt sé að minnka það um það magn sem þá þarf. Jafnvel þó við færum aftur um tvær aldir í þróuninni, fórnuðum öllum tölvum, símum og öllu því sem gerir líf okkar að því sem það er, myndi það ekki duga. En það má samt alveg koma böndum á almenna mengun jarðar.
Eitt er það sem enginn hefur nefnt, en er þó örugglega mun viðsjárverðara fyrir jörðina en öll önnur mengun mannsins, en það er svokallað Starlink. Þetta fyrirbæri er ætlað að tengja saman alnetið gegnum gervitungl og er hugarsmiðja Elon Musk. Hann ætlar að senda 45.000 gervitungl á sporbraut um jörðu, mun nær en önnur gervitungl eru, eða einungis í um 550 km hæð og munu ferðast þar á 28.000 km/klst. Þessi gervitungl hafa líftíma upp á 3 til 5 ár, en þá þarf að senda annað til skiptanna. Það tekur um 10 ár fyrir þau að falla til jarðar og vonast menn þá til að þau brenni upp. Gerist það ekki erum við vægast sagt í slæmum málum! Þetta segir að senda þarf 10 - 11.000 gervitungl upp á hverju ári og eftir tíu ár má búast við að jafn mikill fjöldi falli til jarðar. Það verður sannarlega sjónarspil! Á þeim tíma munu um eða yfir 100.000 gervitungl sveima um himingeiminn, í einungis 550 km hæð. Þetta er þá einungis á vegum Elon Musk. Heyrst hefur að Kínverjar séu að skoða þessa leið, einnig ýmsar aðrar þjóðir. Þá gæti fjöldinn orðið ævintýralegur.
Hvaða áhrif þetta hefur á jörðina veit enginn. Enn er einungis verið að tala um hversu slæm áhrif þetta hefur á stjörnuskoðun frá jörðu, einstaka menn velta fyrir sér hvort geimferðir leggist af vegna þessa, þar sem ekki verði komist gegnum þetta net. En hvað með áhrif á jörðina? Mun þetta net gervitungla virka sem gardína fyrir sólina til jarðar? Eða mun þetta net gervitungla virka sem spegill til endurvörpunnar sólarljóss af jörðu? Mun kólna? Mun hlýna?
Ef eitthvað mannlegt ógnar jörðinni er það Starlink og sambærileg fyrirbæri frá fleiri þjóðum.
Saga mannsins á jörðinni er stutt. Talið að Homo sapines hafi komið fram fyrir um 200.000 árum. Risaeðlurnar ríktu á jörðinni í 160 milljónir ára. Víst er að við munum hverfa af yfirborði jarðar fyrr en flestar aðrar skepnur. Því verður ekki forðað. Þau svokölluð hlýindi sem nú eru sögð ógna jörðinni eru ekki meiri en svo að enn er með því kaldasta á jörðu. Það viðmið sem notast er við, undir lok litlu ísaldar, segir flest sem segja þarf. Engu að síður þurfum við að ganga vel um jörðina.
Stjórnmálamenn telja sitt hlutverk að breyta veðurfari á jörðinni. Til þess notast þeir við skattlagningu. Ef eitthvað er fáránlegt er það að ætla að kaupa sér annað veður en náttúran vill. Hlutverk stjórnmálamanna er að vinna að þeim bótum sem þarf til að takast á við þann vanda sem veðurfarsbreytingar valda. Slíkar breytingar hafa ætið verið og munu áfram verða. Það er ekkert eitt loftslag rétt á jörðinni, það segir sagan okkur. Jörðin hefur frosið póla á milli, hlýnað svo að regnskógar hafa náð til póla hennar og allt þar á milli. Slíkar sveiflur hafa verið nokkrar, þó reyndar einungis tvisvar hafi jörðin frosið alveg póla á milli. Í jarðsögulegu tilliti lifum við eitt kaldasta skeið frá síðustu ísöld, á kaldasta hlýskeiði jarðar.
Við skulum því ekki óttast hlýnun, færi að kólna væri tilefni til ótta!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Og lánin okkar hækka
14.8.2021 | 07:26
Reykjavíkurborg hefur tekið ákvörðun um að hækka bílastæðagjöld um 375%, bara rétt sí svona, með einu pennastriki. Reyndar þurfa þeir sem aka á hreinum rafbílum ekki að greiða nema helming á við hina, en þeir fengu jú ókeypis stæði áður. Kann ekki að reikna út prósentuhækkun frá núlli, en víst er að hækkun frá núlli upp í 15.000 krónur er veruleg hækkun, hvernig sem á það er litið.
Því er haldið fram að þessi ákvörðun sé liður í að flýta orkuskiptum, en það sér hvert mannsbarn að þarna er borgin einungis að seilast enn frekar í vasa borgarbúa, í örvæntingar tilraun til að afla fjár í galtóman borgarsjóð. Stjórnleysi vinstriflokkanna síðustu áratugi í borginni er búin að koma henni á vonarvöl. Þessi skattur mun leggjast þyngst á þá sem minnst mega sín, fjölskyldur sem minni fjárráð hafa. Þeir ríkari, sem geta leift sér að aka á nýjum rafbílum sleppa betur.
Þá mun þetta einnig leggjast á efnaminni fjölskyldur gegnum húsnæðislánin, þar sem þessi hækkun mun hafa áhrif til aukinnar verðbólgu, með þeim afleiðingum að verðtryggð lán hækka og í kjölfar þess vextir óseðjandi bankakerfisins. Þetta mun hafa áhrif út fyrir borgarmörkin og því misvitrir borgarfulltrúar þarna að taka ákvörðun sem mun hækka lán okkar landsbyggðafólks. Hélt satt að segja að viðværum laus frá þessu vinstra gengi sem sett hefur borgarsjóð á hausinn, en maður er víst hvergi hólpinn frá þeirri óværu!
![]() |
Bílastæðakort hækka úr 8.000 í 30.000 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ég var svo heppinn að lenda á spítala
9.8.2021 | 09:11
Fyrir nokkrum árum var ég svo heppinn að lenda á spítala. Auðvitað lá heppnin ekki í veikindum mínum, heldur því að þarna kynntist ég starfsfólki spítalans, allt frá læknum niður í hlaupafólkið sem trillaði manni í hjólastól þvers og kruss um stofnunina í hinar og þessar rannsóknir. Allt var þetta starfsfólk frábært. Hins vega kynntist ég ekkert þeim fjölmörgu stjórnendum stofnunarinnar.
Ekki var ég var við þann skort á fjármagni sem þá, eins og nú, var mikið rætt í fjölmiðlum, ekki fyrr en ég gat farið að staulast fram á gang og sá að þar var fullt af rúmum með sjúklinga. Þá sá ég að ekki var allt með felldu. Starfsfólkið sinnti þeim af sömu kostgæfni og okkur hinum, sem vorum svo heppin að fá að liggja inn á stofu.
Þessi óvæntu kynni mín af heilbrigðiskerfinu voru mér nokkuð framandi, enda fram til þess tíma verið laus við að þurfa að sækja á náðir þess. Eftir þessa upplifun hef ég hins vegar verið nokkuð háður þessu kerfi og alltaf fengið frábæra þjónustu. Ég hef reyndar oftar en ekki séð að álag á starfasfólk er meira en góðu hófi gegnir, en það sést þó ekki í samskiptum þess við sjúklinga.
Heilbrigðiskerfið er svelt af fjármagni, um það þarf ekki að efast. Vissulega má ýmislegt laga í stjórnun spítalans og sjálfsagt væri hægt að reka hann með mun færri stjórnendum. Það er erfitt að sjá að stofnun sem telur 600 sjúkrarými þurfi 300 stjórnendur. En jafnvel þó vel yrði tekið til í stjórnunnin þarf heilbrigðiskerfið aukið fjármagn.
Eftir hrunið sögðust stjórnvöld ætla að standa vörð heilbrigðiskerfisins, eins og kostur væri. Því miður þurfti þó að skerða til þess fjármagn, einfaldlega vegna þess að það var ekki til. En var svo, var ekkert fjármagn til?
![]() |
Spítalinn ráði við næstu bylgju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dulbúin yfirlýsing?
23.7.2021 | 16:47
Enn á ný sýna ráðherrar og ríkisstjórn hvað þau eru föst í sínum fílabeinsturni. Tekin er á leigu 32 manna flugvél til að ferja þrjá ráðherra þvert yfir landið. Vissulega eru sumir ráðherrar nokkuð massamiklir og aðrir miklir inn í sér, en rúmlega tíu sæti fyrir hvern er vel í lagt!
Það er til hugbúnaður til að halda fundi gegnum veraldarvefinn, kallaður fjarfundabúnaðar. Þessi tækni er orðin nokkuð algeng hér á landi, enda þægindi hennar ótvíræð. Hægt er að taka þátt fundi hvar sem er í heiminum með snjallsímanum einum saman. Þessa tækni þekkja sumir ráðherrar, enda verið duglegir að auglýsa fundarsetur sínar gegnum slíkan búnað, við margt af mestu fyrirmennum heimsbyggðarinnar. Ástæða vinsælda þessa hugbúnaðar er auðvitað covid og þær takmarkanir á ferðalög sem því hefur fylgt.
En það ber annað við hjá ríkisstjórninni okkar, þar er bara hringt og pöntuð flugvél, þurfi ráðherrar að tala saman. Reyndar magnað að ekki skyldi bara verið kallað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar, til viðviksins.
Það er einkum tvennt sem kemur í hugann við lestur fréttarinnar, hvað mikið kolefnisspor þessir þrír ráðherrar skilja eftir sig vegna fundarins og hitt hvort þessir þrír ráðherrar eru að gefa einhverskonar yfirlýsingu með athæfi sínu. Vitað er að tveir þeirra eru og hafa verið á móti öllum takmörkunum til varnar covid. Þriðji dinglar bara með síðasta ræðumanni.
Vildi svo heppilega til að aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru einmitt staddir á Egilstöðum þegar fundarstaður var ákveðinn, eða þurftu þeir kannski að keyra langar leiðir til fundarins?
Það er auðvitað eðlilegt að ráðherrar ferðist um landið í sínu fríi og ekkert um það að segja. Hins vegar, þegar halda þarf fund í skyndi, er eðlilegt að nýta þá tækni sem til er. Fjarfund hefði verið hægt að halda strax og ráðherrar höfðu farið yfir tillögur sóttvarnarlæknis. Þannig mátti eyða óvissu sem margir standa frammi fyrir, mun fyrr, spara peninga við leigutöku á flugvél og minnka óþarfa kolefnisspor.
Ég held að ríkisstjórnin ætti að skammast sín!
![]() |
Ríkisstjórnin tók þotu á leigu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Kófið og skussarnir
14.4.2021 | 00:06
Þeir sem vita hvernig er að lenda í dimmu hríðarkófi, vita hversu auðvelt er að missa áttir og villast. Þá er gott að vera í hóp með einhverjum sem þekkir vel staðhætti. Það er oft eina vonin til að komast út úr kófinu. En auðvitað eru alltaf einhverjir skussar sem ekki treysta þeim staðkunnuga og æða sjálfir út í loftið. Þeir villast, stundum með skelfilegum afleiðingum.
Nú, í rúmt ár, höfum við verið í kófi af skæðri alheimssótt. Við erum svo heppin að hafa góðan leiðsögumann, sem vísar okkur veginn. Því miður eru skussarnir til, sem vilja fara aðrar leiðir. Þeir skussar eru orðnir áttavilltir og vita ekki hvert skal halda. Vonandi fer ekki illa fyrir þeim.
Sóttvarnarlæknir er án efa einn fárra manna hér á landi sem þekkir best til sóttvarna. Þess vegna var hann ráðinn í embættið, en ekki einhver lögfræðingur eða þingmaður. Sú ráðning byggðist á þekkingu læknisins. Auðvitað eru fleiri læknar sem hafa svipaða og jafnvel meiri þekkingu á þessum málum, en til þeirra heyrist ekki. Það bendir til að þeir séu sóttvarnalækni sammála.
Ráðning til embættis sóttvarnalæknis byggir á þekkingu viðkomandi til málaflokksins. Þar kemur pólitík ekkert að málum og enn síður einhver erlend öfl sem samsæriskenningarfólk telur vera að yfirtaka heiminn, að málum.
Sem betur fer hefur stjórnvöldum að mestu tekist að fara að ráðum sóttvarnarlæknis, þó ekki alveg. Í fyrra sumar, eftir að sóttin hafði verið kveðin niður hér á landi, voru landamæri opnuð að hluta. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Veiran spratt upp sem aldrei fyrr, fjöldi fólks lagðist á spítala og sumir glötuðu lífinu. Aftur tókst að kveða veiruna niður hér á landi, eftir nokkurra mánaða baráttu landsmanna. Enn á ný var farin sú leið að opna landamærin, þó nú væru takmarkanir öllu meiri en áður. Og enn á ný fór veiran af stað. Er ráðafólki þjóðarinnar algerlega ómögulegt að læra af fyrri mistökum?!
Nú er staðan þó öllu verri en áður og ljóst að leiðsögn sóttvarnarlæknis á erfiðara með að komast gegnum ríkisstjórnina. Það er nefnilega komið í ljós að innan hennar eru áttavilltir skussar!
Við búum á eyju, höfum engin landamæri á landi. Því eru möguleikar okkar til að verjast veirunni betri en flestra annarra þjóða. En það þarf kjark stjórnvalda til.
Þann kjark skortir!
![]() |
Stærri skref í afléttingum til umræðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hvað er nauðungarvistun?
5.4.2021 | 15:42
Er ekki rétt að byrja á byrjuninni og fá skilgreiningu á því hvað nauðungarvistun er, áður en hlaupið er með mál fyrir dómstóla? Einhvern veginn hefði maður haldið að slíkt ætti ekki að vefjast fyrir lögfræðingum, en greinilega virðist það þó vera.
Fram hefur komið, oftar en einu sinni, að starfsfólk sóttvarnarhótels meini engum að yfirgefa hótelið. Hins vegar er fólki þá bent á að slíkt sé brot á sóttvarnarlögum og málið tilkynnt til lögreglu. Hvernig í ósköpunum er þá hægt að tala um vist á hótelinu sem nauðungarvistun? Fólk hefur val, því er ekki haldið nauðugu.
Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að um nokkuð langt skeið hafa gilt reglur um að fólk sem kemur erlendis frá þurfi að fara í tvöfalda skimun og vera í einangrun á milli þeirra. Þar hefur ekkert breyst. Það eina sem hefur breyst er að sökum þess að sífellt hefur færst í aukanna að fólk brjóti þessa sóttkví, hefur verið ákveðið að vista fólk á sérstöku hóteli, við komuna til landsins. Þetta er þó ekki nein nauðungarvistun, þar sem fólki er ekki meinað að yfirgefa hótelið. Þeir sem það velja munu hins vegar eiga á hættu sektir vegna brota á sóttvarnarlögum. Þar hefur ekkert breyst, einungis auðveldara að fylgjast með hverjir fremja slík brot.
Ekki verður því annað séð en að fólk fari fyrir dómstóla til að freista þess að fá afnumin lög sem gera því erfiðara að brjóta lögin.
Hvert erum við eiginlega komin, þegar lögfræðingar og stjórnmálamenn taka þátt í slíkri ósvinnu?
![]() |
Ekki eðlilegur málshraði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hvers vegna?
4.4.2021 | 01:21
Fjölmiðlar hafa verið duglegir að fjalla um nýjar sótvarnarreglur, þar sem hverjum þeim er kemur til landsins frá svokölluðum eldrauðum löndum er skylt að dvelja á hóteli fyrstu fimm dagana eftir komu til landsins. Mest hefur farið fyrir umræðu þeirra er telja þetta lögbrot, minna sagt frá sjónarmiðum hinna, sem vilja fá að lifa sem næst eðlilegu lífi hér innanlands.
Í þessari umræðu er gjarnan talað um frelsissviptingu. Hver er sú svipting? Í meðfylgjandi frétt kemur fram að starfsfólk sóttvarnarhótelsins geti ekki og megi ekki stöðva för þeirra sem út vilja ganga. Hins vegar mun slíkt verða tilkynnt til lögreglu. Því er vart um frelsissviptingu að ræða.
Um nokkurt skeið hafa verið reglur um sóttkví við komuna til landsins, en fólki treyst til að halda hana. Því miður hefur fólk ekki staðið undir því trausti og því er komið sem komið er. Þá vaknar óneitanlega upp sú spurning hvort það fólk sem telur sig vera haldið nauðugu, tilheyri þá ekki einmitt þeim hóp sem brást trausti sóttvarnaryfirvalda, að það hafi bara alls ekki ætlað að halda þá sóttkví sem þó var til staðar þegar það yfirgaf landið.
Réttur fólks til að tjá sig er auðvitað óumdeildur. Fjölmiðlar ættu hins vegar að gæta þess að flytja mál beggja aðila, líka þeirra sem telja ekki nægjanlega langt gengið. Sumir þingmenn hafa farið mikinn og einstaka lögfræðingar bakka þá upp, í frasanum um að um lögbrot sé að ræða, jafnvel brot á stjórnarskrá. Þegar heimsfaraldur geisar ber sóttvarnalækni að leiðbeina stjórnvöldum um varnir landsins, til að lágmarka smit hér innanlands. Stjórnvöldum ber eftir bestu getu að verja landsmenn. Til þess eru sóttvarnarlög. Nú þekki ég ekki þann lagabálk til hlítar, en til að hann virki hlýtur hann að vera ansi sterkur og jafnvel fara á svig við önnur lög landsins. Þá hljóta sóttvarnarlög að vera sterkari. Annars væri lítið gagn af þeim.
Réttur landsmanna til að veirunni sé haldið utan landsteinanna eftir bestu getu er að engu gerður hjá þeim sem taka hanskann upp fyrir þeim sem telja sóttvarnir óþarfar, eða of miklar. Sá réttur, bæði lagalegur og stjórnarskrárlegur, hlýtur að vega meira en þeirra sem velja að ferðast um heiminn á tímum heimsfaraldrar. Þeir sem velja slík ferðalög eiga að gjalda fyrir, ekki hinir sem heima sitja og halda allar þær takmarkanir sem settar eru.
Veiran kemur erlendis frá. Átti upptök sín í Kína og hefur þaðan ferðast um allan heim. Hér á landi tókst fljótlega að ná tökum á ástandinu. Síðan var ákveðið að gefa eftir á landamærunum, að heimila för hingað til lands, en nota einskonar litakóða til að ákvarða hvort fólk væri heimilt að koma beint inn í landið, eða hvort það skyldi sæta sóttkví. Allir vita hvernig fór, veiran náði nýju flugi, með andláti fjölda einstaklinga. Landið lamaðist aftur og fólk og fyrirtæki áttu um sárt að binda. Nú er aftur búið að opna landið, sami litakóði notaður, þó einn ráðherrann sé reyndar búinn að skilgreina rauð svæði í tvo flokka, rauð og eldrauð. Eini munurinn er að þeir sem koma frá mest sýktu svæðunum þurfa að gista á ákveðnu hóteli fyrstu fimm dagana á landinu. Ástæðan er augljós og kemur fram hér fyrr ofan. Eftir stendur að fólk frá gulum svæðum, þar sem farsóttin er enn á fullu og eftir orðanna hljóðan ráðherra einnig þeir sem koma frá rauðum svæðum, geta gengið óhindrað inn í landið. En ráðherra talaði um að einungis fólk frá eldrauðum svæðum þyrfti að sæta sóttkví. Það er því verið að opna enn frekar á komu veirunnar til landsins, jafn skjótt og faraldur minnkar í einhverjum löndum. Í fyrrasumar vor sum lönd þar sem veiran geisaði af krafti, skilgreind sem gul svæði. Hættan nú er söm og þá. Mun þetta leiða til enn fleiri dauðsfalla af völdum veirunnar hér á landi?
Sumir spekingar halda því fram að covid sé eins og hver önnur flensa og benda á tölur um dauðsföll því til staðfestingar. Sem betur fer eru dauðsföll hér á landi ekki í líkingu við hvernig ástandið er víðast erlendis. En það ber fyrst og fremst að þakka sóttvörnum hér á landi og góðri þátttöku fjöldans. Hins vegar er ljóst að í þau skipti sem veiran hefur náð flugi hér, hefur það haft alvarlegar afleiðingar, sjúkrahús yfirfyllst og fólk dáði. Margt af því fólki sem smitaðist á enn í stríði við afleiðingarnar, mörgum mánuðum síðar. Hvernig ástandið væri hér á landi ef ekki hefði tekist að lágmarka veiruna, veit enginn. Líklegt er þó að þá værum við í svipuðum sporum og víða erlendis, þar sem tugir og hundruðir þúsunda fólks hefur þurft að láta í minnipokann, með lífi sínu.
Lög og stjórnarskrá eiga við alla landsmenn, ekki bara örfáa. Lagalegur réttur heildarinnar hlýtur að vera meiri en lagalegur réttur fárra.
Eftir stendur: Hvers vegna velja fjölmiðlar að fjalla einhliða um þá nauðsynlegu ákvörðun að halda fólki á hóteli í fimm daga? Hvers vegna er ekki fjallað um rétt okkar hinna, um að allt sé gert sem mögulegt er til að halda veirunni utan landsteinanna?
![]() |
Telja sóttvarnalög og stjórnarskrá brotna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)