Kófið og skussarnir

Þeir sem vita hvernig er að lenda í dimmu hríðarkófi, vita hversu auðvelt er að missa áttir og villast. Þá er gott að vera í hóp með einhverjum sem þekkir vel staðhætti. Það er oft eina vonin til að komast út úr kófinu. En auðvitað eru alltaf einhverjir skussar sem ekki treysta þeim staðkunnuga og æða sjálfir út í loftið. Þeir villast, stundum með skelfilegum afleiðingum.

Nú, í rúmt ár, höfum við verið í kófi af skæðri alheimssótt. Við erum svo heppin að hafa góðan leiðsögumann, sem vísar okkur veginn. Því miður eru skussarnir til, sem vilja fara aðrar leiðir. Þeir skussar eru orðnir áttavilltir og vita ekki hvert skal halda. Vonandi fer ekki illa fyrir þeim.

Sóttvarnarlæknir er án efa einn fárra manna hér á landi sem þekkir best til sóttvarna. Þess vegna var hann ráðinn í embættið, en ekki einhver lögfræðingur eða þingmaður. Sú ráðning byggðist á þekkingu læknisins. Auðvitað eru fleiri læknar sem hafa svipaða og jafnvel meiri þekkingu á þessum málum, en til þeirra heyrist ekki. Það bendir til að þeir séu sóttvarnalækni sammála.

Ráðning til embættis sóttvarnalæknis byggir á þekkingu viðkomandi til málaflokksins. Þar kemur pólitík ekkert að málum og enn síður einhver erlend öfl sem samsæriskenningarfólk telur vera að yfirtaka heiminn, að málum.

Sem betur fer hefur stjórnvöldum að mestu tekist að fara að ráðum sóttvarnarlæknis, þó ekki alveg. Í fyrra sumar, eftir að sóttin hafði verið kveðin niður hér á landi, voru landamæri opnuð að hluta. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Veiran spratt upp sem aldrei fyrr, fjöldi fólks lagðist á spítala og sumir glötuðu lífinu. Aftur tókst að kveða veiruna niður hér á landi, eftir nokkurra mánaða baráttu landsmanna. Enn á ný var farin sú leið að opna landamærin, þó nú væru takmarkanir öllu meiri en áður. Og enn á ný fór veiran af stað. Er ráðafólki þjóðarinnar algerlega ómögulegt að læra af fyrri mistökum?!

Nú er staðan þó öllu verri en áður og ljóst að leiðsögn sóttvarnarlæknis á erfiðara með að komast gegnum ríkisstjórnina. Það er nefnilega komið í ljós að innan hennar eru áttavilltir skussar!

Við búum á eyju, höfum engin landamæri á landi. Því eru möguleikar okkar til að verjast veirunni betri en flestra annarra þjóða. En það þarf kjark stjórnvalda til.

Þann kjark skortir!


mbl.is Stærri skref í afléttingum til umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hvað skyldu þeir hræðast við það að loka landinu með slagbrand? Finnst þó líklegra að ráðherraliðið yrði hreint ekki sammála í þeirri aðgerð.Ég gef mér að þeir séu hræddir við fjölveldið ESB, en íslenska þjóðin gæti hrætt þau meðan svo stutt er til kosninga, þeir gefa þá aftur á  garðinn og nú heil gulrótabúnt.

Helga Kristjánsdóttir, 14.4.2021 kl. 01:37

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Gunnar, þú ert væntanlega að tala um ökuherma, eða svo kölluð spálíkön latínusamfélagsins við kófinu.

Eina leiðin til að rata í raunveruleikanum er að hafa augun opin eins og þú veist væntanlega manna best.

Nú þegar hefur dúrað í meira en heilt ár þá sést að kófið er aðallega í líkaninu og smitrakningunni.

Láttu ekki misvitra leiðtoga stela frá þér sumrinu og sólinni, bestu kveðjur.

Magnús Sigurðsson, 14.4.2021 kl. 06:18

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Eins og mælt úr mínu nefni Gunnar, og glaður er ég að sjá að fólk lesi þennan pistil þinn.

Hann er bara svo sannur og heill.

Vissulega er ekki allir andans menn sammála, sem bendir aðeins til eins, að andinn lifir meðal vor.

Ég slæ pistla mína og athugasemdir á tvær tölvur, þessi er aðal, þegar fjölmennið er aðeins oftast ég og kötturinn. Margt peistað og búkmarkða, man varla brot af því.  En uppi á lofti er vinnutölva sem gripið er í, og þar er ekki margt á tækjastiku hennar, en hlutfallslega eru pistlar þínir þar algengastir.

Svona til að minna mig á um hvað sóttvarnir snúast á hófsömu mannamáli.

Takk fyrir þennan pistil þinn Gunnar, sem og svo marga aðra.

Þú ert með þetta, slíkt er gæfa fyrir okkur annars ágætu þjóð.

Magnús, þúsund ótímabæra andláta (snarað yfir á íslenskan raunveruleik), þrátt fyrir margra mánaða sóttvarnalokana, er ekki kóf sem mælt er aðallega í líkama og smitrakningu.

Og í þeim löndum veit enginn hve mörg þúsund hefðu dáið, ef ekki hefði verið lokað, vissulega of seint fyrir þessa þúsund, en bjargaði mörg þúsund.

Slíkt er ekki léttvægt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.4.2021 kl. 12:59

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er líklega rétt hjá þér Helga, óttinn er sennilega mestur við ESB. Íslenskir stjórnmálamenn hafa aldrei óttast sína kjósendur, enda sína kosningar að slíkur ótti er óþarfur.

Gunnar Heiðarsson, 14.4.2021 kl. 15:46

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Magnús minn, það geisar alheimssótt og þeir sem afneita þeirri staðreynd er sannarlega áttavilltir. Við höfum sloppið nokkuð vel hér á landi, miðað við flest önnur lönd og má þar þakka þeim aðgerðum sem hér hafa verið viðhafðar og vilja flestra íbúanna til að fylgja þeim.

Það þarf hins vegar lítið útaf að bregða til að ástandið yrði óstjórnlegt, eins og víða hefur skeð erlendis. Þá gæti komið upp sú staða sem t.d. kom upp á Ítalíu, að velja þurfi hvaða fólk fá læknisaðstoð. Að fólk yfir ákveðnum aldri og fólk með undirliggjandi sjúkdóma, verði bara sent heim aftur, til að deyja drottni sínum.

Gunnar Heiðarsson, 14.4.2021 kl. 15:51

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk fyrir innlitið Ómar og hlý orð.

Kveðja af Skaganum

Gunnar Heiðarsson, 14.4.2021 kl. 15:54

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gunnar minn, ég ætlaði nú alls ekki að hræða þig, -nóg er nú samt.

Þegar hver pistlarnir hérna á blogginu fjallar orðið um hvernig réttast sé að afnema almenn mannréttindi án dóms og laga vegna dauðsfalla skráningar sem geisar Langtíburtukistan, finnst mér rétt að leggja orð í belg.

En ég ætlaði nú reyndar bara ráðleggja þér að láta ekki sólina og sumarið fara fram hjá þér eitt árið enn í kófinu.

Magnús Sigurðsson, 14.4.2021 kl. 16:29

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég mun njóta sumars og sólar Magnús, engin hætta á öðru.

Kveðja af Skaganum

Gunnar Heiðarsson, 14.4.2021 kl. 18:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband