Móðgun við landsmenn
26.3.2023 | 17:02
Þegar talað er um kollefnishlutleysi er ætíð átt við að notkun jarðefnaeldsneytis skuli hætt. Það er auðvitað göfugt markmið að minnka notkun jarðefnaeldsneytis, enda mengun frá nýtingu þess nokkur. Öll mengun er slæm og ber að vinna að minnkun hennar eftir mætti. En það má þó ekki kosta aðra og verri mengun, má ekki kosta hvað sem er. Einhverra hluta vegna er það þó svo að einblínt er á eina tegund mengunar og jafnvel hvatt til stórfelldrar mengunar á öðrum sviðum, til þess eins að minnka þennan eina þátt. Slíkt leiðir einungis til glötunar. Rörsýni hefur sjaldn þótt vænleg.
Látum liggja á milli hluta deilur manna um hlýnun jarðar og áhrif co2 á hana. Hitt eru allir sammála um að mengun, hverju nafni sem hún nefnist, er slæm fyrir jarðarkringluna. Þegar horft er til þess að mannfjöldi á jörðinni er nánast kominn yfir þolmörk hennar, en mannfjöldi hefur aukist frá einum milljarði í upphafi tuttugustu aldar í átta milljarða í dag, er ljóst að verkefnið er ærið og krefjandi.
Við hér á Íslandi eru heppin, eigum gnógt af orku og fjölda kosta til að auka okkar orkuframleiðslu. Vatnsorkan er auðvitað sú allra hreinust og vandséð að hægt sé að framleiða hreinni orku. Gufuaflsvirkjanir eru einnig taldar nokkuð hreinar, þó að vísu nokkur brennisteinsmengun sé frá þeim. Hvort sú mengun aukist við að virkja orku úr gufunni, eða flæðir annar jafnt og þétt upp úr jörðinni, hef ég svo sem ekki þekkingu á. Hitt er kannski verra að tæplega er hægt að tala um sjálfbærni í virkjun gufuaflsins, a.m.k. ekki eins og að því er staðið í dag. Ofnýting gufunar er þekkt.
Og nú vilja sumir nefna vindinn sem hreina orku. Vissulega má segja að vindurinn er hrein orka, rétt eins og vatnið. Og gnægð er af vindi í heiminum, þarf ekkert að leita til Íslands eftir honum. Það er aftur þegar kemur að því að virkja þá hreinu orku, sem málið vandast. Þá er hreinleikinn fljótur að fjúka út í veðrið. Reyndar má segja að virkjun vindsins sé næst olíukynntum orkuverum í hreinleika, utan þess að mengun olíuvera er nokkuð einsleit meðan mengun frá vindorkuverum er ansi fjölbreytt og mun hættulegri. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að t.d. spaðar vindtúrbína eru úr plasti og plast er unnið úr olíu. Rímar ekki beinlínis saman við að hætta allri notkun jarðefnaeldsneytis.
En hver er þessi mikla mengun frá vindorkuverum. Að frátaldri fagurfræðinni, en hún er auðvitað persónubundin. Það sem einum þykir fagurt þykir öðrum ljótt. Vel getur verið að einhver sjái fegurð í vindorkuverum, þar sem saman koma allt að 100 vindtúrbínur, yfir 200 metrar á hæð og vildu gjarnan sjá sem flest slík orkuver, er ljóst að flestum ofbýður slík sýn.
Fyrir utan fagurfræðina má nefna að fyrir hverja vindtúrbínu þarf gríðarlegt magn af steypustáli auk þess sem stál er í sjálfu mastrinu. Til að framleiða stál þarf jarðefnaeldsneyti. Fyrir hverja vindtúrbínu þarf gífurlegt magn af steypu, til að halda þessum túrbínum á réttum stað og í réttri stöðu. Hver sökkull þarf að vera a.m.k. 30 metrar í þvermál og a.m.k. 4 metra þykkur, samkvæmt upplýsingum vindtúrbínuframleiðenda. Fólk er í dag hvatt til að byggja hús sín úr timbri vegna þess að steypa sé svo ofsalega mengandi fyrir andrúmsloftið.
Eins og áður segir eru spaðar þessara túrbína gerðir úr trefjaplasti og líftími þeirra talinn vera 10 ár. Það þarf því a.m.k. tvo ganga af spöðum á hverja túrbínu, á líftíma hennar. Reyndar er þessi líftími fundinn af reynslu annarra þjóða, þar sem vindtúrbínur eru bæði minni og og umhverfi betra. Hver líftími þeirra verður á fjöllum Íslands er ekki vitað en það er þó vitað að vindurinn hefur verið duglegur að slípa steina á kollum íslenskra fjalla. Og hvað er það sem veldur þessum stutta líftíma spaðanna? Jú, svarið við því er einfalt, þeir eyðast upp. Plastið í þeim eyðst og fýkur út í loftið. Fyrst sem svifryk en þegar slit þeirra nær ákveðnu marki fara að fljúga stærri plasthlutir af spöðunum. Við erum látin borga auka skatt ef við dirfumst að kaupa plastpoka í kjörbúðinni.
Auk þessa má nefna ýmsa aðra mengun frá vindorkuverum. Í Evrópu er farið að mælast óvenjulega mikið magn af gastegund sem kallast Sulphur hexafluoride, eða SF6. Gastegund þessi er notuð til einangrunar og kælinga í rafbúnaði og þessi aukna mengun er rakin til vindorkuvera. Hættan á losun þess er einkum þar sem stöðugleiki orkuframleiðslu er lítill, minni hætta þar sem stöðugleikinn er mikill, eins og í vatnsorkuverum. Talið er að sloppið hafi út í andrúmsloftið, frá vindtúrbínum, árið 2018, yfir 9000 tonn af þessari gastegund, sem svara til um 44 milljónum einkabíla eða að brennt hafi verið 103 milljón tonnum af kolum! SF6 gas er 23.500 sinnum hættulegra en co2, fyrir andrúmsloftið. Eyðingartími SF6 er talinn vera 3.200 ár!
Þá má nefna aðra og minni mengun frá vindorkuverum, s.s. olíumengun, en fyrir hverja vindtúrbínu þarf töluvert magn af olíu, á gíra hennar, til kælingar rafals og á spenna. Algengt er að þessa olía sleppi út og mengi jarðveginn umhverfis þær. Þetta gerist bæði þegar olíuskipti fara fram en einnig á búnaður til að bila. Hljóðmengun, sem sumir vilja gera lítið úr en hefur valdið kvölum hjá þeim sem hafa fengið slík mannvirki nærri sínum húsum. Skuggaflökt, eitthvað sem Gestapó þótti eitt sinn tilvalið til pyntingar á föngum sínum. Mikið jarðrask á byggingatíma, sem vandséð er að verði nokkurn tíma bætt í viðkvæmri íslenskri náttúru, margfalt verri en nokkur utanvegaakstur. Svona mætti lengi telja.
Það er því vandséð að nokkur geti mælt vindorkuverum bót, að minnsta kosti ekki ef hagur náttúru og loftlags á að vera til staðar. Ef engum öðrum kosti er til að dreifa, má segja að vindorkan sé hugsanlega réttlætanleg, umfram kolakynnt orkuver. Að öðrum kosti á ekki að horfa þennan kost til orkuframleiðslu.
Þegar svo er komið að öllum meðulum megi beita, til að minnka losun á co2, jafnvel menga margfalt meira, mengun sem er margfalt verri fyrir andrúmsloftið, er eitthvað stórkostlegt að.
Í viðtengdri frétt heldur forstjóri Landsnets því fram að tvöfalda þurfi raforkuframleiðslu í landinu. Engir útreikningar eða forsendur eru þó lagðar fram. Hvernig forstjórinn, sem stjórnar jú því fyrirtæki sem flytur orkuna um landið, ætlar að koma þeirri orku milli staða, þegar ekki einu sinni er hægt skammlaust að flytja þá orku sem þegar er framleidd hér, til notenda, er vandséð. Hann heldur því fram að virkja þurfi vindinn, framleiða með vindorku 2.500 MW. Þá þarf uppsett afl vindorkuvera að vera að lágmarki 5-6.000 MW, miðað við betri nýtingatíma en þekkist! Þetta gerir yfir 1.000 vindtúrbínur af þeirri stærð sem flestar hugmyndir eru um hér á landi! Og til að jafna álag frá 6.000 MW vindorku þarf jafn mikla eða meiri vatnsorku. Þar með fýkur út í vindinn hagkvæmni vatnsorkuveranna, en hún byggist fyrst og fremst á stöðugleika framleiðslunnar. Reyndar gefur forstjórinn í skyn að hægt sé að jafna þessa notkun á hinum endanum, þ.e. að salan geti fylgt sveiflum vindsins. Að halda því fram, jafnvel þó undir rós sé, að einhver sé tilbúinn að byggja hér upp einhvern iðnað sem þarf að reka eftir því hvernig vindur blæs, er ekki bara barnalegt, heldur beinlínis móðgun við landsmenn.
Hvernig er hægt að taka svona fólk trúanlegt!
![]() |
Gæti þurft að tvöfalda raforkuframleiðsluna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Röng mælistika
23.3.2023 | 09:13
Hvers vegna er ekki notuð sama mælistika hér á landi og notuð er í okkar samanburðarlöndum, við mælingu verðbólgu? Það er til samræmd mæling verðbólgu sem öll lönd Evrópu nota, nema Ísland. Þó erum við að bera okkur saman við þessi lönd á flestum sviðum. Hvernig er hægt að bera saman verðbólgu ef ekki er notuð sama mælistika?
Nú mælist verðbólga hér á landi 10,2%, ekki alveg hæsta verðbólga í Evrópu en mjög nærri því. Ef sama mælistika er notuð hér og þar ytra, mælist verðbólga hins vegar ekki nema 8,8% og við komin á það plan að vera með nánast meðaltalsverðbólgu í Evrópu. Í Svíþjóð mælist hún 9,7% og í Noregi mælist verðbólgan 8,3%. Hins vegar eru stýrivextir í Svíþjóð einungis 3% og í Noregi 2,75%. Hér á landi eru stýrivextir hins vegar 7,5% og samkvæmt ummælum seðlabankastjóra munu þeir hækka enn frekar. Stefna þá í að verða hærri en verðbólgan mælist, samkvæmt samræmdri mælistiku. Þetta er auðvitað glórulaust.
Þessi sér íslenska mæling á verðbólgu er auðvitað arfur þess tíma er öll lán til húsnæðiskaupa voru verðtryggð. Þetta leiðir til þess að enginn hagur er af því að taka vaxtalán, jafnvel hættulegt. Afborganir slíkra lána er fljót að fara yfir greiðslugetu fólks, þegar vextir stökkbreytast. Því verður að afnema þessa sér íslensku aðferð við mælingu verðbólgu og taka upp sömu mælistiku og okkar samanburðarlönd nota. Mælistiku sem er talin gild og góð um alla Evrópu, utan Íslands. Einungis þannig er hægt að tryggja að fólk sem tekur lán í góðri trú, miðað við efnahag, geti staðið skil þeirra. Einungis þannig mun verða hægt að afnema verðtryggingu lána, sem einnig er sér íslensk.
Það er einstakt að stjórnmálamenn vilji ætíð mála skrattann á vegginn, að gera meira úr hlutum en tilefni er til. Vissulega er 8,8% verðbólga slæm en 10,2% er margfalt verri. Eins og áður segir er 8,8% verðbólga nærri meðaltalsverðbólgu Evrópuríkja. Það er engin krísa að geta haldið Íslandi nærri meðaltalsverðbólgu Evrópuríkja, reyndar bara ágætis afrek, miðað við ástandið í heiminum. En, nei, íslenskir stjórnmálamenn vilja mála ástandið enn verra. Mætti halda að þeir væru illa haldnir af "Stokkhólmseinkenni".
Fyrir nokkrum dögum hvatti seðlabankastjóri fjármagnseigendur til að mótmæla á götum úti, þar sem raun innvextir væru í mínus. Reyndar man ég ekki til að hafa nokkurn tíman fengið raunvexti af innistæðu og er þó kominn á efri ár. Ástæða þess að maður geymir nokkrar krónur í banka er ekki til að ávaxta þær, keldur til að minnka skaðann af því að hafa þær undir koddanum. Að fá einhverja vexti í stað engra. Þetta var náttúrulega svo absúrd hjá seðlabankastjóra að engu tali tekur. Ef hann hugsar sé að hækka stýrivexti svo að innlánsvextir banka verði jákvæðir, þarf hann að hækka þá nokkuð ríflega, þar sem vaxtamunur bankanna er mjög mikill. Hefur ætíð verið mikill en hin síðari ár keyrt úr hófi fram. Þetta mun auðvitað leiða til þess að öll útlán bankanna falla í vanskil, þar sem enginn getur borgað af lánum sínum. Afleiðingin er að bankarnir sjálfir falla. Hvað þá um innistæðurnar, með háu vöxtunum?
Bankastjóri seðlabankans segist vera í einkabaráttu við verðbólguna. Því þurfi hann að hækka vexti og mun hækka þá þar til verðbólgu lægir. Það mun sennilega verða seint, enda hækkun stýrivaxta sem fóður fyrir verðbólgudrauginn. Hækkun vaxta leiðir af sér að flest fyrirtæki verða að hækka verð á sinni vöru eða þjónustu. Flest fyrirtæki eru háð lánsfé, skammtímalánum eða lánum til til lengri tíma.
Þá eru auðvitað flest heimili landsins skuldsett, sum mikið önnur minna. Lán til húsnæðiskaupa eru þar umfangsmest. Hækki vextir svo að fólk geti ekki staðið skil á sínum lánum, mun verðbólga auðvitað lækka, lækka svo að við förum beinustu leið í kreppu!
Ég viðurkenni að seðlabankastjóri hefur það lögbundna hlutverk að halda verðbólgu niðri. Til þess hefur hann ýmis verkfæri. Hann virðist þó hafa einstakt dálæti á einu þeirra, hækkun stýrivaxta. Annað verkfæri væri þó sennilega enn betra, að auka bindiskyldu bankanna. Það leiðir til þess að bankar draga úr útlánum. Aðgerð sem ekki kemur í bakið á fólki, heldur hefur það val.
Það er eitt atriði sem ég get ekki með nokkru móti skilið og útilokað er að geti haft áhrif á verðbólguna, en það er hækkun vaxta á þegar tekin lán. Hækkun vaxta á lán sem fólk sækist eftir er aftur skiljanlegt. Hækkun vaxta á þegar tekin lán, lán sem fólk tekur í góðri trú og samkvæmt sinni greiðslugetu, munu einungis leiða til greiðslufalls. Hækkun lána á ótekin lán gefa lántaka val og mun að öllum líkindum draga úr verðbólgu.
Seðlabankastjóri starfar samkvæmt lögum. Þau lög eru sett á Alþingi. Það er því stjórnmálamanna að grípa í taumana þegar í óefni stefnir. Svo er nú. Annað tveggja fer seðlabankastjóri offari eða hitt að hann fer eftir lögum. Líklega er síðari kosturinn réttur og þá þarf að breyta lögunum. Annað getur ekki gengið.
En fyrst og fremst þarf að breyta mælistikunni, að færa hana til samræmis við það sem aðrar þjóðir nota. Einungis þannig er hægt að tala vitrænt um verðbólgu hér á landi og haga aðgerðum samkvæmt því.
![]() |
Algjört forgangsmál að ná verðbólgu niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Matvælaöryggið
22.3.2023 | 08:22
"Að Ísland verði sjálfbært í matvælaframleiðslu". Hversu oft höfum við ekki heyrt þennan frasa frá stjórnmálamönnum? Sér í lagi þegar þeir telja einhverja bændur heyra til. Þá hefur þessi frasi verið vinsæll í undanfara kosninga.
En það kostar að framleiða mat. Tvær leiðir eru til að fá þann kostnað greiddan, úr vösum þeirra er neyta matarins eða hin leiðin, sem flestar vestrænar þjóðir nota, að greiða niður framleiðslukostnaðinn og tollvarnir gegn innflutningi. Það er augljóst að ef neytendur eigi að greiða allan kostnað við matvælaframleiðsluna þarf að hækka laun verulega. Því má segja að þær niðurgreiðslur til matvælaframleiðslu, er vestræn ríki hafa valið, sé til þess gerðar að halda launakostnaði almennings niðri. Inn í þetta spilar svo byggðastefna, en sumar þjóðir líta hana ekki síður mikilvæga en að halda niðri launakostnaði. Fyrir bóndann sjálfan skiptir ekki máli hvaðan aurarnir koma, svo fremi hann geti rekið bú sitt.
Erlendis þykir sjálfsagt og eðlilegt að halda innlendri matvælaframleiðslu þannig að ætíð sé til lágmarks matvæli í landinu. Að ætíð sé framleitt meira en þörf er á og litið svo á að umframframleiðslan sé fórnarkostnaður, jafnvel þó lítið fáist fyrir þá framleiðslu. Þetta skapast auðvitað vegna þeirrar staðreyndar að langan tíma tekur að ala skepnur upp í sláturstærð og því útilokað að framleiða nákvæmlega það sem markaðurinn þarf hverju sinni.
Hér á landi hafa verið öfl sem vinna gegn þessari stefnu og svo komið nú að bændum fækkar verulega. Niðurgreiðslur til matvælaframleiðslu hafa minnkað að raungildi meira hér á landi en í nokkru öðru vestrænu ríki, síðustu áratugina. Tollvernd, sem aðrar þjóðir beita í stórum stíl, t.d. nánast útilokað að flytja matvæli til ESB ríkja eða Bandaríkjanna, þykir af hinu illa hér á landi. Þar hefur verslunin farið fremst í flokki, enda sér hún sér hag í því.
Að óbreyttu mun landbúnaður leggjast af hér á landi, fyrr en síðar. Þá er víst að aðrar þjóðir séu ekki tilbúnar að niðurgreiða þau matvæli sem við þurfum, að upp komi sú staða að við verðum að borga raunverð fyrir öll matvæli. Hætt er við að þá þurfi að hækka laun hér nokkuð. Það er staðreynd að kostnaður við matvælaframleiðslu hér á landi er hærri en erlendis, en sá kostnaðarauki er þó ekki meiri en svo að flutningur yfir hafið mun sennilega eyða honum, með tilheyrandi kolefnislosun og ekki má heldur gleyma álagningu sísvangrar verslunarinnar.
Ef stjórnmálamenn meina eitthvað með þeim frasa sem fram kemur í upphafi þessa pistils, þurfa þeir að fara að vinna að málinu, ekki síðar en strax. Þar hafa þeir tvo kosti, að gera ekkert og gefa innflutning frjálsan, eða hitt að auka niðurgreiðslur og herða tollvarnir gegn innflutningi matvæla. Ef fyrri kosturinn er valinn er það ávísun á mikla hækkun á matvælum, stór aukinn launakostnað og að stærsti hluti landsins leggist í eyði. Seinni kosturinn býður hins vegar upp á matvælaöryggi, lágat matvælaverð og blómlega byggð um landið.
Þetta þarf að gerast strax. Bændum hefur fækkað gífurlega síðustu ár og mun fækka mikið ef fram fer sem horfir. Þeir sem eftir standa hafa reynt að stækka við sig bústofninn, eftir getu. Það virðist þó vera að það sé sama hversu stórann bústofn menn hafa, útilokað er að láta búin borga sig.
Í viðhengdri frétt nefnir Steinþór að afurðastöðvar séu of margar í landinu og nefnir sem dæmi að í Danmörku sjái tvær slíkar um alla slátrun svína þar í landi. Ekki ætla ég að dæma þessi orð forstjórans, en bendi á að litlar einingar eru stundum hagkvæmari í rekstri en stórar. Meðan sláturhúsin voru mörg og smá var afkoma bænda af smáum búum vel viðunandi. Það væri gaman ef hann gæti nefn hvernig þetta snýr að sauðfjárslátrun í Noregi, en þar þykir stórt bú, sem ber sig að fullu, með einungis 300 vetrarfóðraðar ær. Hér á landi er virðist sama hversu margt vetrarfóðrað fé menn halda, jafnvel þrisvar til fjórum sinnum fleira, útilokað er að láta það borga sig.
Fyrir skömmu gerði ASÍ könnum á kostnaði "matarkörfunnar". Kom í ljós að matvæli hafi hækkað nokkuð. Ekki kom fram í fréttum hvernig skipting þessarar hækkunar var, með tilliti til innlendra og innfluttra matvæla. Hér fara fjölmiðlar hamförum þegar lambakjötið hækkar um einhverjar krónur, en enginn segir neitt þegar kókópuffs, séríos eða önnur innflutt matvæli hækki um tugi prósenta. Það væri einnig veglegt verkefni fyrir ASÍ að skoða hversu stór hluti af launum fer til kaupa á innlendum atvælum og bera saman við hvernig sú þróun hefur verið síðustu þrjá til fjóra áratugi. Það væri sannarlega fróðleg lesning.
![]() |
Stefnir í kjötskort á innlendum markaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eitt stykki fjall: 150 milljónir. Takk
15.3.2023 | 00:44
Enn er landið okkar selt úr landi. Hvenær kemur að því að erlendir auðmenn eiga allt landið okkar?
Bærinn Horn í Skorradal hefur verið seldur erlendum auðjöfri á eitthundrað og fimmtíu milljónir króna. Hæsti tindur Skarðsheiðar og eitt fegursta fjallið í þeim fjallgarði, Skessuhorn, tilheyrir jörðinni Horni og því komið í eigu erlends auðjöfurs. Verðmiðinn er ekki hár, a.m.k. ekki miðað við þær framkvæmdir sem þessi erlendi aðili hyggst gera á hinni íslensku jörð sinni. Hyggst byggja þar smá sumarhús, 1000 fermetra. Það er auðvitað svo lítið að vart er hægt að hýsa þar gesti, svo hann hyggst einnig byggja 700 fermetra gestakofa. Minna má það auðvitað ekki vera.
Fyrir nokkru var sett bann á sölu á landi til erlends auðjöfurs. Ástæðan var að hann var kínverskur og því ekki innan EES/ESB samningsins, en eins og allir vita þá afsöluðum við sjálfstæði okkar yfir landinu til þjóða EES/ESB við undirritun þess samnings. Aðrir íbúar heimsbyggðarinnar eru ekki gjaldgengir hér á landi, nema auðvitað þeir séu alveg ofboðslega ríkir! Svo virðist vera með þennan nýríka Ameríkana.
Breskur lávarður náði að eignast nokkuð stórann hlut af Íslandi, meðan Bretland var enn undir ESB. Nú þykja Bretar ekki gjaldgengir til landakaupa hér, nema auðvitað þeir séu ofboðslega ríkir. Þar kemur BREXIT þeim í koll.
Fleiri dæmi um landakaup erlendra aðila hér á landi má nefna, bæði manna innan og utan EES/ESB. Sumir kaupa hér land í þeim tilgangi að flytja það beinlínis yfir hafið, bæði sanda og fjöll. Einungis þeim kínverska var hafnað. Auðvitað var það hrein mismunun og skal setja þá út af sakramentinu sem að þeirri aðför að austurlenskri menningu stóðu.
Og svo eru það allir hinir, frakkarnir, norðmennirnir og aðrir þeir sem vilja bæði kaupa hér lönd en einnig leigja, undir vindtúrbínur af stærstu gerð. Þeir eru flestir innan EES/ESB þannig að þeir þurfa ekki að óttast neinar kvaðir og þurfa ekki einu sinni að eiga neina peninga. Þar nægir fagurgalinn og snákaolían. Það eina sem enn stendur í vegi þeirra er íslenskt regluverk eða skortur á því. En fjármálaráðherra er búinn að gefa út að því verði kippt í liðinn, hið snarasta. Að allar reglur og öll lög sem standa í vegi þeirra verði löguð til og ef einhver lög eða reglur vantar verður það einnig lagað. Ekkert má standa í vegi fyrir því að erlendir aðilar nái að græða hér á landi. Það gætu nefnilega fallið einhverjir molar af borði þeirra, í "réttar" hendur.
Fulltrúar okkar á Alþingi, þessir sem við kjósum til að stýra hér landi og þjóð og þiggja laun sín úr okkar vösum, virðast allir sammála um að einhver bönd þurfi að setja á kaup erlendra auðjöfra á landinu okkar. En jafnvel þó samstaðan sé um nauðsyn þessa, virðist sama samstaðan ríkja um að gera ekki neitt í málinu. Horfa bara á landið okkar hverfa undir yfirráð erlendra auðjöfra eða jafnvel horfa á það flutt í skip og yfir hafið!
Aumingjaskapur þingmanna er algjör. Meðan þetta stendur yfir er rifist á Alþingi um dægurmál facebook og tvitter. Þar eru allir á kafi í smámálunum en þora ekki að taka á því sem skiptir máli. Þora ekki að standa vörð um land og þjóð. Það er spurning hvenær landið missir að endanlega sjálfstæði sitt, hvenær Alþingi verði sett af og landinu stjórnað alfarið af erlendum auðjöfrum.
Að Ísland verði nýlenda erlendra auðjöfra!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Erfiðara að komast til Tene
5.3.2023 | 20:55
Þetta er vissulega stórt hagsmunamál fyrir Ísland, en fjarri því að vera það stærsta. Lang stærsta hagsmunamál Íslands, eftir að EES samningurinn var samþykktur, er auðvitað sú ákvörðun Alþingis að taka þátt í orkustefnu ESB. Þar var stærsti naglinn negldur með samþykkt orkupakka 3 og svo virðist sem verið sé að negla enn stærri nagla varðandi orkupakka 4, bakvið tjöldin. En einnig má nefna önnur stór mál, sem eru stærri en þetta, s.s. Icesave samninginn, sem Alþingi samþykkti tvisvar en þjóðin hafnaði jafn oft.
En auðvitað væri slæmt ef flug skerðist til og frá landinu. Reyndar virðist, samkvæmt fréttum, þetta fyrst og fremst snúa að millilendingum flugvéla yfir hafið. Það bitnar á flugfélögum, sem eru ekki burðug fyrir. Skelfilegra væri þó ef þetta gerði erfiðara fyrir landann að komast til Tene, eða fyrir stjórnmálamenn að hoppa út um allan heim í tíma og ótíma.
![]() |
Stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Uppvakningur
5.3.2023 | 00:06
Það síðasta sem þjóðin þarf er uppvakning ríkisstjórnar Samfylkingar. Síðasta tilraun slíkrar ríkisstjórnar ætti að vera öllu hugsandi fólki til aðvörunar. Það breytir litlu þó pakkinn sé settur í nýjar umbúðir, innihaldið er enn það sama.
Það er ekki nema einn áratugur frá því er síðasta ríkisstjórn Samfylkingar hrökklaðist frá völdum, með skömm. Við lá að kjósendur höfnuðu alfarið tilvist þess flokks, en hann náði að tóra, því miður. Nú er teflt fram nýjum formanni, frambærilegum en með fortíð á fjarmálasviðinu. Fortíð sem flestum öðrum væri talið ófært að taka þátt í landsmálapólitíkinni. Og nú dúkkar upp nýtt merki fyrir flokkinn. Slíkum töfrabrögðum hafa stjórnmálaflokkar áður beitt. Oftast endast þau stutt, enda töfrabrögð sjaldnast til árangurs í raunheimum.
Samfylking hefur stjórnað höfuðborginni um allt of langt skeið, jafnvel þó kjósendur borgarinnar hafi hafnað flokknum í síðustu þrem sveitastjórnarkosningum. Borgin er komin á vonarvöl vegna þeirrar stjórnunar og ætti það að vera næg ástæða til að staldra við.
Það skiptir nefnilega ekki máli hvort um er að ræða Dag eða Kristrúnu, það skiptir heldur ekki máli hvernig merki flokkar bera. Það sem skiptir máli eru verk stjórnmálaflokka og innræti þeirra. Þar hefur lítið breyst innan Samfylkingar.
Það hafa ekki margar ríkisstjórnir fengið á sig viðurnefnið "Helferðarstjórn".
![]() |
Búa sig undir að leiða næstu ríkisstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skammgóður vermir
3.3.2023 | 07:37
Á dögunum var FM mastur rúv á Eiðum fellt. Mastrið var 220 metra hátt og sást víða, einkum er skyggja tók, en þá mátti sjá ljósblikkið efst á því. Margur Héraðsbúinn fagnaði þessu og taldi mastrið hafa haft truflandi áhrif á líf þeirra og tilveru.
En vermirinn verður kannski skammur. Til stendur að reisa allt að 90 vindtúrbínur í landi Klaustursels. Hver þeirra verður heldur hærri en hið fallna mastur og á toppi hverrar þeirra verður blikkandi ljós. Þá munu þessar vindtúrbínur hafa spaða sem slaga hátt í eitt hundrað metra að lengd, þrjú stykki á hverri, sem snúast þegar vind hreyfir. Þetta mun yfirgnæfa allt þar eystra, kannski mesta sjónmengunin einmitt af Héraðinu.
Í stað þess að Héraðsbúar leggi leið sína að mastri og hlusti á stagvíra þess syngja í vindinum, munu íbúar héraðsins getað dundað sér við að tína upp dauða fugla umhverfis Klausturselið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)