Eru austfirðingar gengnir af göflunum?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins er mikil grein um vindorkuver í Fljótsdal. Auðvitað er þetta kallað vindmillugarður, þó fyrirbrigðið eigi ekki neitt skylt við vindmillur og því síður garð. Þetta eru risavaxnar vindtúrbínur og um er að ræða orkuver af stærri gerðinni.

Samkvæmt greininni er ekki um neinn ágreining að ræða um þessa vegferð, í héraðinu og því fyllilega hægt að spyrja hvort Héraðsbúar séu gjörsamlega gengnir af göflunum. Reyndar trúi ég ekki að slík samstaða sé um verkið sem segir í þessari grein, þó vissulega einhverjir landeigendur séu auðkeyptir á sitt land, að ekki sé nú talað um svokallaða "vettvangsferð" sem þeim var gefin, til Spánar.

Þessi svokallaða vettvangsferð þeirra virðist hafa verið vel valin að vindbarónunum. Samkvæmt mynd sem fylgir greininni hefur fólkinu verið sýndar vindtúrbínur af smærri gerðinni, úreltar túrbínur. Að auki virðist sem þær séu reistar í eyðimörk, ekki á frjósömu landi eins og tíðkast hér á landi, ekki síst á frjósömum heiðum Fljótsdalsins. Að sjá af þessum myndum er um að ræða vindtúrbínur með aflgetu á milli 1 og 2 MW, meðan áætlað er að reisa vindtúrbínur með aflgetu yfir 6MW í þessu orkuveri þar eystra. 2MW vindtúrbína losar 100 metra hæð, meðan 6MW vindtúrbína getur farið yfir 300 metra hæð. Þarna er himinn og haf á milli. Reyndar verður að segjast eins og er að sennilega er erfitt að finna vindorkuver erlendis, af þeirri stærðargráðu sem ætlað er að byggja á Fljótsdalsheiðinni, hvort heldur er stærð vindtúrbína eða fjölda þeirra. Leifi fyrir slíkum risamannvirkjum fást ekki þar yrta. Menn ættu aðeins að velta fyrir sér áhuga erlendra fjármálamanna á Íslandi í þessu skyni.

Eins og áður segir er áætlað að reisa þarna vindtúrbínur með aflgetu upp á 6MW og þær eiga að vera alls 58 stykki! Það er ekki neitt smá landflæmi sem þarf fyrir slíkt orkuver. Aflgeta orkuversins á að vera 350 MW, eða ca. hálf Kárahnjúkavirkjun, eða vel rúmlega tvær Sigölduvirkjanir, svo dæmi séu tekin. Þarna eru svo risavaxnar stærðir í gangi að það nær ekki nokkurri átt. Í ofanálag eru áætlanir þeirra sem að þessu orkuveri standa, að nýting þess verði 45%. Það er einhver besta nýting sem sést hefur í vindorkuveri og þó hafa enn engar rannsóknir farið fram um vindafar á svæðinu. Vel er þó þekkt sú veðurblíða sem oft gengur þarna yfir.

Samhliða þessu og það sem þessir aðilar leggja megin áherslu á er bygging rafeldsneytisverksmiðju niður á fjörðum. Þar er áætlað að vinna rafeldsneyti og úr aukaafurð þess mætti byggja áburðarverksmiðju. Sá böggull fylgir þó skammrifi að þessi verksmiðjuáform verða ekki að veruleika nema þetta risastóra vindorkuver verði reyst. Halda þessir menn að fólk, svona almennt, sé fávíst? Þó þeim takist, með fagurgala og Spánarferðum að plata einhverja landeigendur þar eystra, þíðir lítið að bera svona þvætting á borð þjóðarinnar. Að halda því fram að erlendir fjármálamenn vilji ekki fjárfesta hér í stóriðju nema að um ótrygga orku sé að ræða er fásinna. Að það sé sett fram sem skilyrði af þeirra hálfu. Hvað ætla þeir að gera þegar margrómað góðviðrið  brestur á þarna? Ætla þeir bara að stoppa alla framleiðsluna og bíða þar til vindur blæs?! Þvílíku og öðru eins bulli hefur fáum tekist að halda fram.

Auðvitað er þessi svokallaða rafeldsneytisverksmiðja einungis rúsínan í málflutningi þessara manna, til þess eins ætluð að liðka fyrir samþykki á risastóru vindorkuveri. Það vita allir sem vilja vita, að þeir aðilar sem vilja byggja vindorkuver á hverjum hól hér á landi, eru ekki að því til að nýta þá orku innanlands. Það eitt að verð orkunnar hér er mjög lágt, meðan orkuverð á meginlandinu er í hæstu hæðum, segir manni hvert þeir stefna. Þeir ætla sér að fá sæstreng, annað er ekki í boði. Einungis þannig geta þessir fjármálamenn ávaxtað fé sitt. Orkupakki 3 opnaði á þann möguleika.

Þessi bull málflutningur er svo gjörsamlega út í hött að engin skáldsaga slær honum við. Þeim er vorkunn sem trúa þessu, en því miður virðist flest vera falt fyrir örfáa skildinga og ekki verra að fá ferð til Spánar í kaupbæti! Smá aurar og ferðalag virðist geta látið ágætis fólk tapa glórunni.

 

Bændablaðið

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband