Barnagælur og hafís

Nú, þegar veturinn virðist ætla að sýna sig, eftir einmuna veðurblíðu þetta haustið, er kannski rétt að minnast alvöru vetrarhörku.

Árið 1866 rak mikinn hafís að landinu og lagði firði og flóa. Manngengt var á ís frá Reykjavík upp á Kjalarnes.

Árið 1881 var mikill frostavetur og hafís mikill við landið. Flesta flóa og firði lagði. Hafísinn rak fyrst að norðurlandi en síðan niður með austfjörðum og allt til Eyrarbakka. Manngengt á ís frá Reykjavík upp á Akranes.

Árið 1887 rekur allmikinn hafís að norðurlandi og síðan niður með austfjörðum. Flóa og firði leggur  á þessu svæði.

Árið 1888 er mikið kuldaár, með hafís við norður og austurland. Höfnin í Vestmannaeyjum lokast af lagnaðarís.

1902 rekur hafís að norður og austurlandi. Lagnaðarís náði allt að 4 mílur út frá Reyðarfirði.

Árið 1918, kallað frostaveturinn mikli. Hafís rak að norður og austurlandi og mikill lagnaðarís um allt land. Firðir og flóar víðast lagðir með öllu. Breiðafjörður allur undir ís og manngengt frá Reykjavík upp á Akranes.

Eftir þetta tekur að hlýa nokkuð hratt, allt fram undir miðja öldina, en þá tók að kólna aftur, uns það kuldaskeið náði hámarki á árunum 1965 til 1970. Eftir það tóka aftur að hlýna.

Þó hafíslaust hafi verið að mestu sum árin á seinni hluta  19. aldar og fyrstu tveim áratugum þeirrar tuttugustu, voru sumur köld. Örfár undantekningar eru auðvitað til á því, en heilt yfir var veðurfar mjög kalt á þessum tíma. Þar sem veðurmælingar ná ekki mikið aftar, er einmitt þetta kuldatímabil notað sem grunnur að allri umræðu um hlýnun jarðar. Þó er vitað að slíkar sveiflur í veðurfari sem urðu á síðustu öld, hafa margoft komið fram áður. Jafnvel þó einungis sé skoðað tímabil mannsins á Íslandi, má sjá jafn miklar og jafnvel hraðari sveiflur en við lifum nú. Það má einnig sjá að slíkar sveiflur geta orðið mjög hraðar, hvort heldur er til kólnunar eða hlýnunar.

Það er ekkert sem kalla má kjör hitastig jarðar. Hitastigið er sveiflukennt og við því lítið að gera nema reyna að lifa við það. Hitastigið á seinnihluta nítjándu aldar var mun kaldara en það er í dag, um það er ekki neinum blöðum að fletta. Í annálum má lesa um nokkur hlýindi á fyrripart 19. aldar, þó eiginlegar staðreyndir séu kannski ekki til. Vitað er að samkvæmt mælingum var mjög heitt hér á landi um miðja síðustu öld og aftur nokkuð kalt undir lok áttunda aratugar þeirrar aldar. Nú er hlýtt en þó ekki hlýrra en svo að áður hefur hlýnað svo hér ´+a landi, frá því það byggðist. Þessi hlýindi eru hins vegar mikil þegar mið er tekið af hafísárunum.

Eitt er þó alveg víst að kuldinn er verri en hitinn, þegar horft er til búskilyrða. Á hafísárunum var nánast óbyggilegt hér á landi og hefði ekki þurft miklu meiri kulda til að byggð hefði lagst alveg af. Fjórðungur þjóðarinnar flutti brott af landinu á seinnihluta 19. alda. Í dag væri það sem að tæplega 100.000 manns myndi flýja land vegna veðurfars. Aftur flúði fjöldi fólks land undir lok áttunda áratugs síðustu aldar. Menn kenna þar um efnahagsástæðum, en hvers vegna versnuðu þær?

Það er ljótt að hræða börn. Þetta hefur mannkyni þó tekist einkanlega vel gegnum aldirnar. Hér á landi voru jólasveinar hrekkjóttir og grýla át börn. Þessu var haldið að börnum um langa hríð, auk auðvitað þeirra risa sem í fjöllunum bjuggu. Eftir miðja síðustu öld tók ný ógn við, vissulega sannarleg ógn, kjarnorkusprengjan. Það var miskunnarlaust notað á börnin og þeim haldið í ógn óttans. Þó lá fljótt fyrir að engin þyrfti að óttast þá vá af þeirri einföldu ástæðu að ef því vopni yrði beitt, myndi ekkert mannlíf á jörðinni lifa það af. Sjálfur er ég á þeim aldri að mér var innprentað í æsku að fara vel með pappír, að nýta hann sem best. Kennarar sögðu okkur börnunum að skógar heimsins væru að eyðast og ekkert súrefni yrði til á jörðinni. Ég bý enn að þessu og skrifa öll bréfsnifsi upp til agna, þó farinn sé að nálgast ellilaunin meira en vilji er til.

Í dag eru börn hrætt af þeirri "ógn" að jörðin muni brenna upp, innan skamms tíma. Það getur vart verið uppörvandi að alast upp við slíka svartsýni. Enda lyfjanotkun barna orðin slík að í algert óefni stefnir. Það sem þó er kannski ógnvænlegast er að heil kynslóð fólks sem alið er upp við þennan ótta er komið á þann aldur að það er farið að taka að sér ýmis völd. Og jafnvel þó hafi þegar lifað það að spádómar um ragnarök standist ekki og það oftar en einu sinni, trúir það enn.

Eitt liggur augljóst fyrir að jörðin mun ekki farast á næstu árum, áratugum eða öldum, alla vega ekki vegna hlýnunar. Dýra og plönturíkið mun heldur ekki farast. Hugsanlega gæti orðið veruleg skerðing á stofni mannsins, þ.e. ef honum auðnast ekki að reyna að aðlaga sig að breyttum aðstæðum hverju sinni. Stærstu ógnir fyrir jörðina, fyrir utan auðvitað allsherjar kjarnorkustríð, eru risaeldgos, stórir loftsteinar og ísöld. Þessar ógnir gætu afmáð líf mannsins, án þess hann gæti rönd við reist. Það tæki í flestum tilfellum snökt af og því ekki ástæða til ótta.  Flest annað líf á jörðinni myndi hugsanlega lifa slíkt af.

Hættum að hræða börnin og tölum um allt það fagra sem lífið býður uppá. Kannski verður heimurinn þá betri.

 


mbl.is Kuldi og hálka læðast yfir landið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband