Færsluflokkur: Trúmál

Kosningaár

Árið 2024 verður sannkallað kosningaár hér á landi. Forsetakosning, biskupskosning og sífellt fleiri teikn um að kosið verði einnig til Alþingis.

Forsetakosning.

Forsetinn okkar fór að dæmi Danadrottningar og sagði starfi sínu lausu. Þegar hafa komið fram vonbiðlar til embættisins. Sá fyrsti sem bauð sig fram er reyndar genginn úr skaftinu, þar sem ekki gaus á þrettándanum. Fyrsta alvöruframboðið kom síðan stuttu síðar, er Arnar Þór Jónsson bauð sig fram í embættið. Aðrir minni menn hafa síðan tjáð þjóðinni vilja sinn til verksins, eins og Ástþór Magnússon, svona af venju og fleiri. Strax eftir að Arnar tilkynnti sitt framboð fór vinstri elítan af stað til leita að mótframboði. Þar hafa ýmsir varið nefndir, jafnvel að þeim forspurðum. "Óháður kosningastjóri" ruv er duglegur að bjóða fram forsætisráðherrann okkar í embættið, þó hún hafi ekki sjálf sýnt vilja til embættisins, a.m.k. ekki opinberlega. Líklegt er að nokkuð vel muni ganga að manna frambjóðendastöður vinstrivængsins og hugsanlega veit "kosningastjórinn" eitthvað meira en við hin og að Kata verði meðal þeirra. Því fleiri vinstri menn í boði, því betra. Þá deilast atkvæðin þeirra sem mest.

Arnar hefur hins vegar sýnt að hann ann sjálfstæði þjóðarinnar, ann málfrelsinu og ann því að við höldum yfirráðum yfir eigin málum. Það kom hins vegar nokkuð á óvart að hann skyldi bjóða sig fram til embættisins. Hefur verið duglegur að verja þessi gildi á vígvellinum sjálfum. Nú ætlar hann að færa sig af vígvellinum yfir í vörnina. Hugsanlega telur hann baráttuna tapaða og eina sem hægt sé til varnar þjóðinni að virkja varnaglann, þ.e. að geta tekið völdin af Alþingi og fært þau til þjóðarinnar. Hver svo sem ástæða Arnars er fyrir þessari tilfærslu sinni, þá treysti ég að hann hafi tekið rétta ákvörðun og mun sannarlega kjósa hann. Veit engan íslending annan sem getur breytt þeirri ákvörðun minni. Og allir þeir sem trúa á Ísland, sjálfstæði þess og gildi ættu að eiga auðvelt með að kjósa þann mann til forseta. Þeir sem láta samvisku sína ráða vita hvern skal kjósa.

Biskupskosning.

Um tvöhundruð sérvaldir menn munu kjósa nýjan biskup yfir landið. Reyndar eru enn færri sem velja hvaða frambjóðendur fá að vera í kjöri. Hvort þetta muni efla kristna kirkju hér á landi leyfi ég mér að efast stórlega. Vandi kirkjunnar er stærri en svo. Vissulega gæti nýr biskup aukið vegferð kirkjunnar og gert þjóðina hliðhollari henni. En það verður ekki gert með kosningu sérvaldra um frambjóðendur er enn færri velja. Sátt um biskup og þá um leið aukin vegferð kirkjunnar verður einungis með því að hver sá sem er skráður í þjóðkirkjuna fá að kjósa um hvern þann sem býður sig fram og er innan þjóðkirkjunnar.

Alþingiskosningar?

Sífellt fleiri teikn eru á lofti um að þjóðin fái að kjósa til Alþingis á þessu ári. Óánægja þingmanna stjórnarflokkanna verður sífellt sýnilegri þjóðinni. Þessi ríkisstjórn hefur til þessa verið nánast óstarfhæf, enda langt á milli pólitískra sjónarmiða tveggja flokka af þrem er mynda stjórn. Sá þriðji er hins vegar einstaklega slungin við að sigla þarna á milli, eða halda sig til hlés. Stjórninni tekst einstaka sinnum að sameinast um einstök verkefni, gjarnan utanaðkomandi vá fyrir landið. Þar má nefna alheimspest, jarðhræringar og eldgos og nú þykist hún vera sameinuð um að forða hér allsherjar verkföllum á næstu mánuðum.

Fáir efast þó um að dagar þessarar ríkisstjórnar eru taldir, reyndar löngu taldir. Það er einungis eitt sem heldur stjórninni saman, en það er einstakur vinskapur milli formanna þeirra tveggja flokka er eru á sitt hvorum enda hins pólitíska litrofs hér á landi, Bjarna og Kötu. Falli annað þeirra úr skaftinu er leik lokið og þjóðin fær að kjósa. Hins vegar eru einmitt þessir tveir flokkar sem koma verst út í skoðanakönnunum og eru samkvæmt þeim að þurrkast út. Því má gera ráð fyrir að þau Bjarni og Kata  þurfi að brýna sína þingmenn enn frekar, jafnvel ná sér í svipu til kattasmölunar, svo halda megi öndunarvél þessarar heiladauðu stjórnar gangandi.

En eins og áður segir eru teiknin sífellt fleiri sem segja okkur að kosningar séu í bráð. Bjarni hefur gefið í skyn að tími sé fyrir hann að breyta um starf. Vonbiðill og varaformaður flokksins tilkynnti undir lok síðasta árs, að hún væri reiðubúin að taka við keflinu. Það mun ekki verða flokknum til framdráttar en meira skiptir kannski máli að þar með slitna þau bönd sem halda stjórninni saman. Þá hefur, eins og áður segir, nafn Kötu verið sífellt endurtekið á ruv, sem næsti frambjóðandi vinstri elítunnar til Bessastaða.

Hvað sem hver segir þá eru líkur á Alþingiskosningum sífellt að aukast. Hver ástæða stjórnarslita verður mun koma í ljós. Hvort það verður óánægja þingmanna Sjálfstæðisflokks eða brottför annars eða beggja þerra enda er halda í líflínu ríkisstjórnarinnar, skiptir í sjálfu sér ekki máli. Þó er ljóst að afleiðingarnar geta orðið misjafnar fyrir báða þessa flokka, hver ástæðan er. Sjallar munu sannarlega umbuna þeim þingmönnum er standa í lappirnar og sýna að sjálfstæðið er ekki falt fyrir stóla.

Að lokum

Allir sannir unnendur sjálfstæðis Íslands, sameinist um að kjósa Arnar Þór Jónsson til forseta.

 


Trúboðar sannleikans

"Að vera eða að vera ekki". Þessi orð lagði Shakespere í munn Hamlets. Eins má segja hvað er rétt og hvað rangt.  Oftast er það þó svo að þegar tveir deila telja báðir sig hafa rétt fyrir sér. Þetta kemur sjaldnast að sök í daglega lífinu, jafnvel ekki heldur þegar fólk setur fram sínar hugsanir, hvort heldur er í tali eða riti.

Þetta er hins vegar nokkuð annað þegar að fjölmiðlun kemur. Einkareknir fjölmiðlar geta, innan ákveðinna marka, leift sér að skreyta sannleikann. Annað má gildir um ríkisrekinn fjölmiðil. Þar á ávallt að gæta fyllsta réttlætis. Starfsfólk slíks fjölmiðils hefur ekki heimild til að mynda sér opinbera skoðun um menn og málefni, verður ávallt að gæta þess að sem flestar skoðanir fái að heyrast. Hlustandinn getur ekki myndað sér skoðun á málum nema því aðeins að heyra allar skoðanir á hverju máli. Ekki bara þá sem fréttamenn vilja að fólk heyri.

Meðan stjórnmálaflokkar héldu úti fjölmiðlarekstri fór enginn í grafgötur um að fréttaflutningur var oftar en ekki mjög litaður af pólitík. Nú er enginn stjórnmálaflokkur lengur í fjölmiðlun, ekki nema í gegnum heimasíður á netmiðlum. Hins vegar eru sumir fjölmiðlar í eigu fólks sem tengist flokkum. Þar má enn sjá eima af þessum gömlu flokksblöðum. En svo höfum við ruv, "útvarp allra landsmanna". Stofnun sem haldin er uppi með nefskatti á alla landsmenn, hvort sem þeir nýta sér þjónustuna eða ekki.

Sennilega er enginn fjölmiðill eins hápólitískur og einmitt sú stofnun. Slær jafnvel gamla Þjóðviljann út, málgagn kommúnista og að ekki sé talað um stolt bænda, gamla Tímann.

Ekki einungis að ruv sé hápólitískt, heldur er þar farið frjálslega með staðreyndir. Vinsælast er þó meðal starfsmanna á þeim bænum er þó þöggun. Þöggun yfir því sem kemur starfsfólki, persónulega eða sem heild, illa. Jafnvel þó staðreyndir liggi á borðum. Þöggun um málefni sem þetta sama fólk telur sig meiga beita nánast hvaða vopnum sem er, "til að upplýsa sannleikann", þegar þau snúa að öðrum. Engin íslensk fréttastofa og sennilega erfitt að finna erlendar, hefur til starfa hjá sér fólk sem annað hvort er á sakamannabekk og bíður dómsmála eða hefur orðið upplýst af skattaundanskotum. Og þó er forstöðumaður stofnunarinnar fyrrverandi yfirmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögfræðingur að mennt.

Þegar kemur að pólitískri umræðu, þar sem enginn sannleikur finnst heldur einungis froðusnakk pólitíkusa sem vilja ganga í augu fólks, hallar svo á störf ruv að manni flökrar stundum. Þetta er augljósast í undanfar kosninga. Ekki einungis að sumir flokkar eigi betra aðgengi að ruv, heldur einnig hitt, hvernig fas og aðferðafræði stofnunin mismunar fólki með og hreinir þöggunartilburðir gagnvart sumum flokkum. Það mun sjálfsagt flestir eftir því "óhappi" er gleymdist að slökkva á hljóðnemum starfsmann, er verið var að raða í sæti fyrir kosningakappræðu. "Hvar á sá feiti að sitja" sagði þá einn starfsmaðurinn og átti þá við formann eins að stjórnmálaflokkanna. Þá þætti mér gaman að sjá einn fyrrverandi fréttamann, núverandi þingmann, taka á því að verða beittur sömu brögðum og hann viðhafði í stjórnmálaþætti, gegn öðrum formanni stjórnmálaflokks. Sá formaður stóð þá árás af sér, ekki víst að nýþingmaðurinn væri jafn hress með slíka meðferð í beinni útsendingu.

Það má lengi tala um ruv, en læt hér staðar numið á þeim vettvangi. Það er kannski táknrænt að íslenskur fjölmiðlamaður, sem starfar í stjórnum stærstu erlendra fjölmiðlanna, skuli árétta innan veggja ruv, mikilvægi þess að vanda skuli til frétta, að frétt sé frétt en ekki skoðun og að allir eigi að njóta réttmælis. Það er ekki vanþörf á í þeirri stofnun. En hugarfari verður ekki breytt. Mannaskipti verða að fara fram.

En aftur að upphafi pistilsins. Hvað er rétt og hvað er rangt. Það er ekkert endanlega rétt eða rangt. Hinn eini sannleikur er ekki til og verður aldrei til. Það sem eitt sinn þótti sannleikur þykir fyrra í dag. Staðreyndir eru einungis það sem við vitum í dag. Kannski vitum við eitthvað betur á morgun. Sá sem telur sig finna hinn eina rétta sannleik er kominn á annað stig, hefur öðlast trú. Trúi og sannleikur er sitt hvað og á sjaldnast saman.

Vísindi byggja fyrst og fremst á forvitni, að vilja vita meira en áður. Mannkynssagan er full af dæmum þess að slík forvitni hafi breytt almennri trú á sannleikann, en einnig full af dæmum þess hversu erfitt getur verið að breyta slíkri trú. Erfitt getur verið að koma fram með nýjan sannleik. Þeir vísindamenn sem segja að eitthvað sé endanlegur sannleikur eru ekki vísindamenn. Þeir hafa glatað forvitninni. Þeir eru trúboðar.


mbl.is Eru fjölmiðlar að fjalla um það sem skiptir máli?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnagælur og hafís

Nú, þegar veturinn virðist ætla að sýna sig, eftir einmuna veðurblíðu þetta haustið, er kannski rétt að minnast alvöru vetrarhörku.

Árið 1866 rak mikinn hafís að landinu og lagði firði og flóa. Manngengt var á ís frá Reykjavík upp á Kjalarnes.

Árið 1881 var mikill frostavetur og hafís mikill við landið. Flesta flóa og firði lagði. Hafísinn rak fyrst að norðurlandi en síðan niður með austfjörðum og allt til Eyrarbakka. Manngengt á ís frá Reykjavík upp á Akranes.

Árið 1887 rekur allmikinn hafís að norðurlandi og síðan niður með austfjörðum. Flóa og firði leggur  á þessu svæði.

Árið 1888 er mikið kuldaár, með hafís við norður og austurland. Höfnin í Vestmannaeyjum lokast af lagnaðarís.

1902 rekur hafís að norður og austurlandi. Lagnaðarís náði allt að 4 mílur út frá Reyðarfirði.

Árið 1918, kallað frostaveturinn mikli. Hafís rak að norður og austurlandi og mikill lagnaðarís um allt land. Firðir og flóar víðast lagðir með öllu. Breiðafjörður allur undir ís og manngengt frá Reykjavík upp á Akranes.

Eftir þetta tekur að hlýa nokkuð hratt, allt fram undir miðja öldina, en þá tók að kólna aftur, uns það kuldaskeið náði hámarki á árunum 1965 til 1970. Eftir það tóka aftur að hlýna.

Þó hafíslaust hafi verið að mestu sum árin á seinni hluta  19. aldar og fyrstu tveim áratugum þeirrar tuttugustu, voru sumur köld. Örfár undantekningar eru auðvitað til á því, en heilt yfir var veðurfar mjög kalt á þessum tíma. Þar sem veðurmælingar ná ekki mikið aftar, er einmitt þetta kuldatímabil notað sem grunnur að allri umræðu um hlýnun jarðar. Þó er vitað að slíkar sveiflur í veðurfari sem urðu á síðustu öld, hafa margoft komið fram áður. Jafnvel þó einungis sé skoðað tímabil mannsins á Íslandi, má sjá jafn miklar og jafnvel hraðari sveiflur en við lifum nú. Það má einnig sjá að slíkar sveiflur geta orðið mjög hraðar, hvort heldur er til kólnunar eða hlýnunar.

Það er ekkert sem kalla má kjör hitastig jarðar. Hitastigið er sveiflukennt og við því lítið að gera nema reyna að lifa við það. Hitastigið á seinnihluta nítjándu aldar var mun kaldara en það er í dag, um það er ekki neinum blöðum að fletta. Í annálum má lesa um nokkur hlýindi á fyrripart 19. aldar, þó eiginlegar staðreyndir séu kannski ekki til. Vitað er að samkvæmt mælingum var mjög heitt hér á landi um miðja síðustu öld og aftur nokkuð kalt undir lok áttunda aratugar þeirrar aldar. Nú er hlýtt en þó ekki hlýrra en svo að áður hefur hlýnað svo hér ´+a landi, frá því það byggðist. Þessi hlýindi eru hins vegar mikil þegar mið er tekið af hafísárunum.

Eitt er þó alveg víst að kuldinn er verri en hitinn, þegar horft er til búskilyrða. Á hafísárunum var nánast óbyggilegt hér á landi og hefði ekki þurft miklu meiri kulda til að byggð hefði lagst alveg af. Fjórðungur þjóðarinnar flutti brott af landinu á seinnihluta 19. alda. Í dag væri það sem að tæplega 100.000 manns myndi flýja land vegna veðurfars. Aftur flúði fjöldi fólks land undir lok áttunda áratugs síðustu aldar. Menn kenna þar um efnahagsástæðum, en hvers vegna versnuðu þær?

Það er ljótt að hræða börn. Þetta hefur mannkyni þó tekist einkanlega vel gegnum aldirnar. Hér á landi voru jólasveinar hrekkjóttir og grýla át börn. Þessu var haldið að börnum um langa hríð, auk auðvitað þeirra risa sem í fjöllunum bjuggu. Eftir miðja síðustu öld tók ný ógn við, vissulega sannarleg ógn, kjarnorkusprengjan. Það var miskunnarlaust notað á börnin og þeim haldið í ógn óttans. Þó lá fljótt fyrir að engin þyrfti að óttast þá vá af þeirri einföldu ástæðu að ef því vopni yrði beitt, myndi ekkert mannlíf á jörðinni lifa það af. Sjálfur er ég á þeim aldri að mér var innprentað í æsku að fara vel með pappír, að nýta hann sem best. Kennarar sögðu okkur börnunum að skógar heimsins væru að eyðast og ekkert súrefni yrði til á jörðinni. Ég bý enn að þessu og skrifa öll bréfsnifsi upp til agna, þó farinn sé að nálgast ellilaunin meira en vilji er til.

Í dag eru börn hrætt af þeirri "ógn" að jörðin muni brenna upp, innan skamms tíma. Það getur vart verið uppörvandi að alast upp við slíka svartsýni. Enda lyfjanotkun barna orðin slík að í algert óefni stefnir. Það sem þó er kannski ógnvænlegast er að heil kynslóð fólks sem alið er upp við þennan ótta er komið á þann aldur að það er farið að taka að sér ýmis völd. Og jafnvel þó hafi þegar lifað það að spádómar um ragnarök standist ekki og það oftar en einu sinni, trúir það enn.

Eitt liggur augljóst fyrir að jörðin mun ekki farast á næstu árum, áratugum eða öldum, alla vega ekki vegna hlýnunar. Dýra og plönturíkið mun heldur ekki farast. Hugsanlega gæti orðið veruleg skerðing á stofni mannsins, þ.e. ef honum auðnast ekki að reyna að aðlaga sig að breyttum aðstæðum hverju sinni. Stærstu ógnir fyrir jörðina, fyrir utan auðvitað allsherjar kjarnorkustríð, eru risaeldgos, stórir loftsteinar og ísöld. Þessar ógnir gætu afmáð líf mannsins, án þess hann gæti rönd við reist. Það tæki í flestum tilfellum snökt af og því ekki ástæða til ótta.  Flest annað líf á jörðinni myndi hugsanlega lifa slíkt af.

Hættum að hræða börnin og tölum um allt það fagra sem lífið býður uppá. Kannski verður heimurinn þá betri.

 


mbl.is Kuldi og hálka læðast yfir landið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grinch og gleðileg jól

Sagan af Grinch, eða Trölla eins og við köllum hann, fjallar um fígúru sem reynir að stela jólunum af fólki í ótilteknum smábæ, einhversstaðar í ævintýralandi. Honum verður ekki kápan úr því klæðinu, enda jólin stærri og meiri hátíð en svo að hægt sé að stela henni.

Einn ráðherra í ríkisstjórn okkar gerði tilraun til að feta í þessi fótspor Grinch, en vonandi verður afrakstur hans ekki betri, jafnvel þó sterkur svipur sé með þeim.

Gleðileg jól til allra bloggvina og annarra sem lesa það pár sem á þessari síðu má finna.

 

images_1372936.jpg


mbl.is Hefði átt að yfirgefa listasafnið strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sparka í liggjandi mann

Í tilefni þeirrar umræðu sem verið hefur um vanda bænda, ritar Margrét Jónsdóttir pistil í Fréttablaðið, þann 31. ágúst, síðastliðinn. Ekki kemur hún með neinar hugmyndir um lausn vandans, vill einfaldlega að bændur taki hann á sig og rúmlega það. Hún vill að beingreiðslum til bænda verði hætt að fulli. Ástæða þessa er að hennar trú er að sauðféð sé að éta upp landið okkar. Auðvitað má Margrét hafa sína trú og auðvitað má hún tjá sig um hana. En að koma með slík skrif núna, þegar bændur standa í ströngu við að leita sér leiða til að lifa af næsta ár, samhliða smalamennskum og réttum og því lítill tími til að svara trúboði Margrétar, er einna helst hægt að líkja við spörkum í liggjandi mann.

Allir vita að trúarbrögð ræna fólk of réttu ráði og ekki dettur mér til hugar að ég geti snúið Margréti og þeim sem henni eru samsinna, til rétts vegar. Nokkur atriði vil ég þó nefna, sem afsanna þessa trú.

 

Veðurfar

Við landnám var hlýrra hér á landi en nú og hafði verið svo um einhverjar aldir á undan. Upp úr 1200 fór að kólna og hélt svo áfram allt fram á tuttugustu öldina. Kaldast var frá sextándu öld og fram undir 1920. Það tímabil gjarnan nefnt litla ísöld. Frá lokum litlu ísaldar til dagsins í dag, hefur hlýnað. Það er ekki liðin ein öld síðan kuldinn hér á landi var svo mikill að hægt var að ganga milli Akraness og Reykjavíkur á ís!

Klárt mál er að meiri gróður var á landinu við landnám, enda við lok hlýtímabils á jörðinni, þó vísindamenn efist um að skógur hafi þakið landið milli fjalls og fjöru. Loftslag hefur mikil áhrif á gróður og því ekki undarlegt að honum hafi hrakað verulega á þeim öldum sem litla ísöld stóð yfir. Nú hefur gróður aukist aftur, samhliða hlýnandi loftslagi. Sem dæmi hefur sjálfsprottinn gróðurþekja, sem telst vera mikil þekja, aukist um 30% frá árinu 2002, á Skeiðarársandi.

Veðurfar er stór áhrifavaldur gróðurfars.

 

Eldgos

Frá landnámi hafa orðið 174 skráð eldgos á Íslandi. Sum stór önnur minni. Mörg þessara gosa hafa valdið miklum skaða á búpeningi og jafnvel fólki. Þar hafa Katla og Hekla verið duglegastar.

Tvö eldgos bera þó af í Íslandssögunni. Það fyrra varð árið 1362, í Hnappafellsjökli og lagði heila sveit í eyði, Litla Hérað. Þessi sveit var blómleg fyrir gos, fjölmenn og fjölbreyttur búskapur. Bar þó hæst mikil kornrækt í þessari blómlegu sveit, enda grasgefin milli fjalls og fjöru. Stór hluti búpenings drapst og fjöldi fólks fórst, í þessu eldgosi.

Þegar þeir sem eftir lifðu sneru til baka, til að byggja bú sín aftur, blasti við þeim auðn, öræfi. Sveitin hefur síðan borið nafnið Öræfasveit og eldfjallið sem eyðileggingunni olli, nafnið Öræfajökull.

Árin 1783-84 geisuðu Skaftáreldar. Þá sögu ættu allir Íslendingar að þekkja. Er þeim lauk, hafði 70% af búpening í landinu fallið og um 20% þjóðarinnar látist. Stór sá á gróðurfari um mest allt land og næst eldunum var hann ekki til

Eldgos er annar áhrifavaldur gróðurfars og saman með kólnandi veðurfari átti gróður hér á landi erfitt uppgangs.

 

Mannfjöldi, bústofn

Byggð var nokkuð fljót að komast á um allt land, efir landnám. Talið að fjöldi landsmanna hafi fljótlega náð einhverjum þúsundum. Lengi framanaf er talið að fjöldinn hafi legið á milli 10 og 20 þúsund manns, sveiflast eftir árferði og hvernig eldar loguðu.

Landnámsmenn fluttu með sér til landsins ær, nautgripi, hross, geitur, svín og hænsni. Nautgripir voru uppistaðan í kjötframleiðslunni, ásamt svínum, en ær voru lítið nýttar til þess, fyrst um sinn. Sauðfjárstofninn var lítill. Þegar tók að kólna varð svínabúskapur nánast útilokaður. Nautgripabúskapur varð erfiðari, en auðveldara var að halda sauðfé. Því jókst hlutur þess í kjötframleiðslu og nautgripir fyrst og fremst nýttir til framleiðslu mjólkur og mjólkurafurða. Talið er að frá Sturlungaöld fram að 19. öld, hafi sauðfé í landinu verið nálægt 50.000 fjár, sveiflast í hlutfalli við fólksfjölda.

Þegar líða tók á 19. öldina fjölgaði fólki og samhliða því búpeningi, þó ekki í sama hlutfalli. Undir lok 19. aldar og fyrstu tvo áratugi þeirrar tuttugustu, voru miklir kuldar, eldgos og fjárfellir. Þetta er talin vera helsta ástæða vesturfaranna. Þá var mannfjöldi í landinu kominn upp í 70.000 og talið að a.m.k. 15 til 20.000 manns hafi flutt búferlum vestur um haf.

Frá 1920 til dagsins í dag, hefur landsmönnum fjölgað mjög hratt, Samhliða því fjölgaði sauðfé í landinu, þó hægar og undir lok áttunda áratugarins náði fjöldi sauðfjár hámarki, um 800.000 fjár. Síðan hefur fé fækkað um rúmlega 40%.

Þegar skoðað er hvernig fjöldi fjár á Íslandi skiptist milli landshluta, kemur í ljós að flest fé er á vestan verðu norðurlandi, en fæst á eystri hluta norðurlands. Kannski finnst einhverjum þetta undarlegt, þar sem gróðurfar finnst vart betra í nokkrum landshluta en vestanverðu norðurlandi og að landfok er vart hægt hægt að finna meira á landinu en einmitt eystri hluta norðurlands. Rétt er að benda á að vestari hluti norðurlands hefur sloppið best gegnum þau 174 eldgos sem orðið hafa frá landnámi og því nær eingöngu þurft að berjast við kuldann á litlu ísöld, meðan eystri hluti norðurlands hefur þurft að glíma við báða þessa vágesti, gegnum aldirnar.

Mikið átak hefur verið unnið í landgræðslu. Þar eiga bændur stærstan heiðurinn, enda verið erfitt að sækja fé í ríkissjóðs til slíkra verka, gegnum tíðina. Það sem ríkið hefur lagt fram er fyrst og fremst stjórnun og utanumhald landgræðslu. Verkin og hráefni hafa bændur að mestu lagt fram og oftast í sjálfboðavinnu og fyrir eigin reikning

Það er ljóst að sauðfé á minnstan þátt í gróðureyðingu, enda fátt fé í landinu allt fram undir síðustu öld. Náttúruöflin spila þar stærstan sess. Auðvitað má einnig segja að koma mannskepnunnar til landsins spili þar eitthvað inní, sér í lagi fyrstu ár byggðar. Sjálfsagt hafa landnámsmenn sótt sér sprek í eldinn og unnið eitthvað timbur. 

Þó er erfitt að fullyrða að gróðurþekja landsins væri meiri, þó landið hefði aldrei byggst.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband