Verkamannabústaðir

Þær tillögur sem forusta ASÍ hefur nú kynnt um nýtt kerfi verkamannabústaða er hið besta mál.

Í viðtali á ruv í morgun taldi Gylfi Arnbjörnsson mikla þörf á að koma þessu kerfi af stað sem fyrst, enda væru sumar fjölskyldur að nota helming sinna launa til greiðslu á húsaleigu. Ekki kom fram í þessu viðtali hversu mikið það hlutfall myndi lækka við það kerfi sem hann boðar, en í fyrri fréttum um þetta mál má gera ráð fyrir að sú lækkun gæti verið einhverstaðar á bilinu 20 - 30%. Það munar um minna hjá fólki sem lítið hefur.

Vandi leigenda er vissulega mikill og lækkun húsaleigu mikil bót. En vandinn er ekki bara há leiga, heldur ekki síður lág laun. Þar ætti Gylfi að líta sér nær. Þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið í tíð hanns í stóli forseta ASÍ markast allir af láglaunastefnu, þar sem laun hafa ekki mátt hækka meir en svo að illa rekin fyrirtæki geti staðið undir launakostnaði. Þetta hefur vissulega skilað árangri, eins og sést nú, þegar hvert fyrirtækið af öðru skilar inn reikningum. Skuldastaða þeirra lækkar sem aldrei fyrr og er hún nú talin vera á svipuðu róli og þegar best hefur orðið til þessa. Allann desembermánuð síðastliðinn, meðan kjarasamningar stóðu sem hæðst, var helst að skilja að fyrirtæki landsins væru á horriminni og að ekkert borð væri fyrir báru um kjarabætur.

Það er gleðilegt að ASÍ skuli vinna að og fyrir kerfi sem gæti lækkað húsaleigu. Enn gleðilegra væri þó ef ASÍ stæði að því að laun fólks væru mannsæmandi. Það sorglega við málflutning Gylfa er þó að hann tengir þessar hugmyndir sínar við andstöðu við leiðréttingu lána þeirra sem eru að baslast við að eignast eigið húsnæði. Andstaða forseta ASÍ við þá aðgerð er ekki bara sorgleg heldur algerlega óviðunnadi. Honum finnst ekkert að því að fyrirtæki landsns fái fyrirgreiðslur upp á hundruði eða þúsundir milljarða króna, en þegar bæta skal heimilum landsins sitt tap, berst forseti ASÍ gegn slíku!!

Nýtt kerfi verkamannabústaða er þarft verkefni. Þeir sem boða það kerfi hafa þar málstað sem stendur fullkomlega fyrir sínu. Þeir þurfa ekki að réttlæta þetta kerfi með því að níðast gegn einhverju öðru, allra síst því er snýr að félögum innan ASÍ.

Annars var þetta viðtal við Gylfa frekar leiðinlegt, eins og flest viðtöl við þann mann. Það var einungis vegna efnisins sem hægt var að hlusta á hann og minnstu munaði að honum tækist að klúðra því einnig. Sjaldan hefur einn maður nefnt Danmörk eins oft í svo stuttu viðtali sem þessu og næsta undarlegt að Gylfi skyld ekki bara tala dönsku í viðtalinu. Ekki spurði fréttamaður Gylfa að því hvort svona kerfi gæti ekki orðið verðbólguhvetjandi, eins og hann gjarnan nefnir þegar hann hallmælir leiðréttingu húsnæðislána.

Það er vonandi að stjórnvöld taki vel í þessar hugmyndir ASÍ, jafnvel þó danskar séu. Fyrstu viðbrögð ráðherra lofa góðu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband