Skynsemi - grein Guðmundar Steingrímssonar

Guðmundur Steingrímsson, væntanlegur formaður ?flokksins ritar grein í Fréttablaðið. Þessi grein hans er nokkuð athyglisverð þó hún segi ekkert um áherslur hans í íslenskum stjórnmálum, þar skilur hann lesandann eftir í sömu óvissu og áður. Hann ritar hins vegar um ESB og hrifningu sína af því bandalagi, eitthvað sem öllum Íslendingum ætti að vera orðið kunnugt.

Guðmundur deilir á þann hóp sem kallar sig "skynsemi" og stendur nú fyrir undirskriftum um að aðildarumsóknin verði dregin til baka. Síðan spyr hann nokkurra spurninga.

Guðmundur spyr: "Getur verið að aðild efli íslenskar byggðir?" Svarið við þessari spurningu er einfallt og þarfnast ekki nánari rökstuðnings: Nei.

Guðmundur spyr: "Getur verið að samgöngur batni?" Hugsanlega, en þó ber þess að gæta að stuðningur ESB við vegagerð hefur fyrst og fremst legið í því að leggja hraðbrautir milli landa sinna. Þá hafa verið veittir styrkir til uppbyggingar einstaka stofnbrauta. Þar sem við erum eyja, nokkuð langt frá meginlandinu, er ekki um að ræða að við fáum hraðbraut til annara ESB ríkja, hugsanlega væri hægt að krýja út einhverja styrki til viðhalds og endurbóta á hringvegi eitt. Um aðra styrki er vart að ræða.

Guðmundur spyr: "Getur verið að vextir af lánum lækki?" Nú er það svo að vextir innan ESB ríkjanna eru misjafnir, enda endurspegla þeir hagkerfi hvers lands. Því er ljóst að vextir munu ekki lækka hér, nema við ætlum að lifa á því að auka erlendar skuldir þjóðarinnar. Til að vextir lækki þarf hagkerfið að leyfa slíkt og ESB aðild kemur því máli ekkert við.

Guðmundur spyr: "Er hugsanlegt að grundvöllur efnahagslífsins verði stöðugri?" Ekki átta ég mig á hvernig það ætti að geta gerst, ekki er beinlínis stöðugt efnahagslíf innan ESB landanna og reyndar mikill munur milli þeirra. Stöðugt efnahagslíf er skapað af stjórnvöldum hvers lands.

Guðmundur spyr: "Verður auðveldara að reka fyrirtæki?" Ekki þekki ég svo gjörla hvernig er að reka fyrirtæki, en bendi þó á að mörg fyrirtæki innan ESB landa berjast í bökkum. Síðast í dag komu fréttir af því að SAAB væri að fara í gjaldþrot.

Guðmundur spyr: "Getur verið að bændur muni hafa það betra, eins og reynslan sýnir víða?" Ekki veit ég hvað Guðmundur á við, hvar sú reynsla er fyrir hendi. Á hann við Finnskann landbúnað, þar sem búum hefur fækkað um meir en helming og laun þeirra bænda sem enn tóra lækkað enn meira, eða á hann við Danskan landbúnað, sem hefur fyrir nokkru misst megnið af vinnslunni úr landi og búum fer ört fækkandi. Ekki þó með því að þau sem eftir standa stækki, heldur er um beina fækkun bústofns í Danmörku að ræða.

Guðmundur spyr: "Getur verið að fagmennska í stjórnsýslunni aukist?" Hvað menn telja fagmennsu er afstætt. Ef hann á við það stjórnlag sem nú tíðkast innan ESB, þar sem tveir þjóðhöfðingjar taka allar ákvarðanir og hinir tuttugu og fimm verða að hlýða og Evrópuþinginu haldið algerlega utan allra ákvarðana, sé fagmennska í stjórnsýslu, þá mun hún vissulega batna. Flestir líkja þessu þó við einræði. Þá ætti Guðmundur að kynna sér Lissabonsáttmálann og hvaða áhrif hann hefur á smáþjóðir innan ESB, þar sem neytunarvaldið verður tekið af í ráðherraráðinu og vægi stærri ríkjanna aukið á kostnað þeirra minni á Evrópuþinginu. Verið getur að Guðmundi þyki það fagmennska.

Guðmundur spyr: "Getur verið að meiri agi komist á ríkisfjármálin?" Agi er eitthvað sem stjórnmálamenn temja sér, að halda að honum verði stjórnað ofanfrá er barnalegt. Þegar stjórnmálamaður gefur slíkt í skyn er hann í raun að segja fólki að honum sé ekki treystandi.

Guðmundur spyr: "Eykst framleiðsla og útflutningur?" Þetta þarf hann að útskýra nánar. Það er vandséð að markaður sem er minnkaður úr heimsmarkaði niður í markað tuttugu og sjö ríkja auki framleiðslu og útflutning. Allur útflutningur okkar út fyrir ESB mun þurfa að fara eftir þeim samningum sem sambandið hefur gert og mun gera. Þeir samningar sem Ísland hefur gert utan ESB munu falla niður. Það er þekkt vandamál þegar ESB gerir samninga við riki utan þess, að illa gengur að ná þeim í höfn. Áherslur og þarfir rikja ESB eru svo mismunandi. Það er ljóst að við slíka samningsgerð mun krafa Íslands verða lágt skrifuð.

Guðmundur spyr: "Eykst fjölbreytni í atvinnulífinu?" Fjölbreytni í atvinnulífun skapast af hugmyndaauðgi landsmanna. Þó má gera ráð fyrir að erfiðara verði fyrir frumkvöðla að koma sínum hugmyndum til framkvæmda, vegna miðstýringar frá Brussel.

Guðmundur spyr: "Batna lífskjör?" Á hvaða forsemndum ættu þau að batna? Lífskjör skapast af dugnaði okkar Íslendinga sjálfra, ESB kemur því máli ekkert við.

Þessum spurningum telur Guðmundur ekki hægt að svar nema fyrir liggi samningur. Staðreyndin er þó að ekki er í raun hægt að svar neinni af þessum spurningum með samningi, endanlegt svar fæst einungis með reynslu og reynslan fæst einungis með aðild. Kannski það verði næstu rök aðildarsinna, að ekki sé hægt að fella aðildarsamninginn nema reyna fyrst hver áhrif hans verða.

Það er hins vegar hægt að líta í kringum sig og skoða hvernig löndum innan ESB gengur. Eins og er, er vart hægt að hrópa húrra yfir því sem þar sést. Mín svör við spurningum Guðmundar er mín skoðun. Þá skoðun hef ég myndað mér með því að kynna mér málið og fylgjast með fréttum. 

Guðmundur forðast að nefna sjávarauðlindina. Hann forðast að nefna að líkur á að við missum stjórn á henni er veruleg. Undanþágur eru ekki fyrir hendi og þau lög ESB, sem Össur nefnir sem tryggingu okkar a þessu sviði, standast ekki. Þetta eru auk þess bara lög sem auðvelt er að breyta. Því er trygging okkar fyrir yfirráðum yfir okkar auðlind engin, auk þess sem svokallaðir flökkustofnar munu fara hér í gegn án þess að við getum neitt að gert.

Að lokum fer Guðmundur út í sandkassaleik, þegar hann líkir samtökunum "skynsemi" við önnur eldri með sama nafni.

Mesta skynsemin sem Guðmundur Steingrímsson gæti gert væri að upplýsa íslenskan almenning um hvað hann stendur fyrir í pólitík. Það eitt að vilja aðild að ESB er ansi fátæklegt sjónarmið, sérstaklega þegar ljóst er að það mál mun afgreiðast fyrr en seinna, vonandi fyrr.

Ef ESB er eina málefnið sem Guðmundur stendur fyrir gæti hann allt eins gengið í Samfylkinguna, þar er hann velkominn að sögn utanríkisráðherra. Þetta vill Guðmundur ekki, segir að sá flokkur henti sér ekki.

Því hlýtur Guðmundur að hafa einhverja aðra sýn á pólitík en bara ESB. Hver er sú sýn? Hvers vegna vill hann ekki gefa hana uppi?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband