Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Dýrt gæluverkefni

Mr. Mathiesen vill kenna því um að áætlanir hafi ekki verið í lagi þegar Alþingi samþykkti samgöngusáttmálann. Þess vegna séu svo miklar hækkanir í áætlunum nú. Svo sem engin ný sannindi, en hins vegar spurning hvort þessi sáttmáli hefði yfir höfuð verið lagður fyrir þingið, ef þær upphæðir sem nú eru ræddar hefði fylgt með honum.

Hitt er aftur rétt að benda á, að jafnvel þó sáttmálinn hafi verið hressilega vanáætlaður, verður ekki séð annað en að áætlanir Betri samgangna ohf. eigi erfitt með að standast. Hækka í sumum tilfellum um milljarða milli mánaða. Ekki beint merki um að þar sé hæft fólk í starfi. Sorgarsagan um Fossvogsbrúnna segir þar alla sögu.

Samgöngusáttmálinn, sem er að stærstum hluta um borgarlínuna svokölluðu, var samþykktur af Alþingi út frá ákveðnum forsendum. Ein aðal forsendan var að þessi sáttmáli myndi kosta um 160 milljarða króna og ber ríkið ábyrgð á 75% þeirrar upphæðar. Nú eru áætlanir komnar í um 300 milljarða króna, eða nærri tvöfaldast. Af þeirri upphæð þarf ríkið að taka á sig um 225 milljarða. Til að setja þetta í samhengi þá kostaði ríkissjóð, árið 2022: sjúkratryggingar, atvinnuleysistryggingasjóður, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, fæðingarorlof, barnabætur og húsnæðis og leigubætur, samtals um 170 milljarða króna. Vantar enn um 55 milljarða króna til að jafna kostnað ríkisins við samgöngusáttmálann, eins og hann reiknaðist út síðast. 

En þessu er ekki lokið. Sáttmálinn á eftir að hækka enn frekar. Ef við nefnum aftur Fossvogsbrúnna þá er talið að endanlegur kostnaður við hana verði mun hærri en nýjustu áætlanir segja til um, jafnvel helmingi hærri. Því er ekki ótrúlegt að ætla að samgöngusáttmálinn eigi einnig eftir að hækka í heild sér, kannski tvöfaldast eins og brúin.

Það yrði dýrt gæluverkefni. Hvenær er nóg, nóg. Alþingi samþykkti verkefni upp á 160 milljarða króna. Verðmiðinn stendur nú í 300 milljörðum og því í raun sáttmálinn fallinn. Hver endanlegur kostnaður verður er svo einungis skrifað í skýin.

 


mbl.is Áætlanir voru ekki í lagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NO farmers, NO food, NO future

Það hefur aldrei talist gæfuspor að gera bændur reiða. Yfirleitt er þessi stétt manna hæglát og friðsöm. Þegar þeir eru reyttir til reiði hika þeir ekki við að beita viðeigandi vopnum. Svara þeim sem reyta þá til reiði með því að drekkja þeim í skítalykt.

Um alla Evrópu, einkum innan landa esb, hafa nú staðið yfir mikil mótmæli bænda í nærri tvo mánuði. Lítið fer af þeim fréttum í íslenskum fjölmiðlum. Það er lengi búin að krauma reiði bænda þar ytra og í desember síðastliðnum sauð svo uppúr. Hámarki náðu svo mótmælin þegar þing esb kom saman.

Margir hafa verið að tjá sig í erlendum fjölmiðlum um málið og gjarnan er farið ansi grunnt í skýringar. Talað um að losun co2 í andrúmsloftið, um hækkandi kostnað við landbúnaðarframleiðslu, innflutning á landbúnaðarvörum og fleira í þeim dúr. Allt skýringar sem eiga sitt heimilisfang hjá áróðursmeisturum sambandsins Skýringin er hins vegar ofur einföld, eða eins og einn bóndinn þar ytra sagði í sjónvarpsviðtali; "regluverk esb er að drepa okkur. Sjálfur sit ég við skrifborð stórann hluta dagsins, vegna eylífra reglugerðabreytinga og skýrslugerða. Ég þarf því að ráða mann til að sjá um búið, bú sem ekki einu sinni skilar mér sjálfum tekjur." Þarna liggur vandinn.

Vissulega hafa bændur bent á að þeir einir geti ekki tekið á sig alla ábyrgð á loftslaginu. Bent á að til dæmis bændur í Hollandi, sem á að skera þá að mestu niður í nafni loftlags, skila álíka mikilli losun co2 út í andrúmsloftið á ári og Schiphol flugvöllur á nokkrum klukkutímum. Eða álíka og starfsmenn esb losa á öllum sínum flugferðum yfir nokkra mánuði. Þá hafa bændur bent á þá staðreynd að tuddinn ropa jafnt í Evrópu og Argentínu. Innflutta kjötið losar síðan enn frekar við flutning þess um hálfann hnöttinn. Kostnaður hefur sannarlega hækkað verulega fyrir bændur, en þeim svíður þó meir hvað sambandið vinnur duglega í að skerða styrkjakerfið. Þetta er allt satt og rétt, en megin ástæða fyrir þessum hörðu mótmælum bænda er óendanlegt regluverk esb. Þegar bændur vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér og varla hvaða reglur voru settar á í dag, er útilokað að stunda landbúnað. Þegar stór hluti vinnu bóndans liggur í því að færa skýrslur og yfirfara nýjar reglugerðir, er útilokað að stunda búskap.

Því miður eru svipuð vandamál í íslenskum landbúnaði. Innflutt kjöt keppir við íslenskt, kostnaður hækkar en styrkir lækka og kannski það sem meira er að regluverkið verður flóknara með hverju árinu. Þar hefur á einhvern ótrúlegan hátt tekist að vefja íslenskum landbúnaði inn í ees samninginn, sem hann þó á að vera utan. Þar hefur MAST tekist að fá inn ýmsar vel kryddaðar reglugerðir frá esb og hrellir bændur duglega með þeim. Bændur vart búnir að kosta miklar breytingar hjá sér vegna slíkra reglugerða, þegar þeir fá tilkynningu um enn frekari breytingar.

Þá hafa ráðherrar ekki hikað við að nota íslenska bændur í hrossakaupum á erlendri grundu. Gerður var samningur um ákveðið magn af innflutningi á landbúnaðarvörum, sem við sjálf getum framleitt mun hreinna en það erlenda. Þetta dugði þó ekki versluninni og ekki betur séð en þar hafi verið samráð um að bjóða sem lægst í tollkvóta við síðasta útboð. Þannig náðist verð á tollkvótum allt niður í eina krónu á kíló! Hef aldrei skilið þessa aðferð, að bjóða út toll?! Tollstjóri er með tollskrá. Frá henni getur enginn komist. En verslunin fær að bjóða hvað hún vill borga í toll, þegar kemur að innflutningi á kjöti!

Hvenær íslenskir bændur taki sér til fyrirmyndar mótmæli þerra frönsku, þýsku, pólsku, írsku, portúgölsku, spænsku, ítölsku, grísku og svo framvegis, er ekki gott að segja. Hitt er víst að ef ekkert er gert til varnar bændum munu þeir springa, rétt eins og þeir evrópsku. Þá gætum við séð skít sprautað á alþingishúsið, eða drullu sturtað fyrir framan dyr þess. Eða fjárhópa leggja undir sig miðbæ höfuðborgarinnar.

Það kostar að framleiða mat. Öll vestræn ríki velja að styrkja landbúnað, til að halda niðri verði á matvöru. Þar er styrkjakerfi Íslands langt frá því að vera hæst, er mun hærra t.d. í Bandaríkjunum. Hins vegar er sammerkt með Bandaríkjunum og esb að styrkjakerfið er að stórum hluta falið, flækjustig þess gerir það ógagnsætt, meðan það íslenska liggur alt uppi á borðum.

Hin leiðin er að hætta slíkum styrkjum og láta neytandann um að borga brúsann beint. Það kallar auðvitað á hærri laungreiðslur. Eitthvað sem atvinnurekendur eru kannski ekki tilbúnir til. Slík breyting verður hins vegar ekki gerð í einu landi, slík breyting þarf að vera samhljóma allra landa.

Fyrir bóndann skiptir í sjálfu sér ekki máli hvaðan peningurinn kemur. Þó má segja að hann yrði sjálfstæðari við slíka breytingu.

Engir bændur

Enginn matur

Engin framtíð

 

 


Hvenær er nóg, nóg?

Vitleysan og fjárausturinn varðandi borgarlínu ætlar engan endi að taka. Hvenær er nóg, nóg?

Brúin yfir Fossvoginn skrifast að öllu leyti á borgarlínuverkefnið. Þar fá engir að aka um nema vagnar borgarlínu. Að vísu mun gangandi og hjólandi umferð náðarsamlegast að fá að fara þarna um, en engin önnur umferð. Þetta verkefni er því borgarlínan í sinni tærustu mynd.

Þegar ákvörðun var tekin um stofnun sérstaks félags um byggingu borgarlínu, af Alþingi, lágu auðvitað einhverjar hugmyndir um hver kostnaður yrði við borgarlínuna. Þar var meðal annars gert ráð fyrir að bygging brúar yfir Fossvoginn myndi kosta um 2,25 milljarða. Dágóð upphæð. Í september á síðasta ári var þessi áætlun kominn upp í 7,5 milljarða króna og nú, einungis fjórum mánuðum síðar er áætlaður kostnaður kominn upp í 8,8 milljarða króna! Þrátt fyrir þessar ótrúlegu hækkanir á áætluninni hefur verið hætt við að nota ryðfrítt stál í brúnna, eins og fyrst var gert ráð fyrir og ákveðið að nota svart stál í staðinn, sem auðvitað mun kalla á margfalt meira viðhald og mun styttri endingartíma. Brúin mun einfaldlega ryðga niður á örfáum árum!

Þegar verkefni hækkar svo gríðarlega  sem hér sést, bendir til að eitthvað stórkostlegt sé að í stjórnun verkefnisins, að þar sitji ekki hæft fólk í starfi. Hækkun á áætlunum frá 2,25 milljörðum upp í 8,8 milljarða og þar af hækkun um 1,3 milljarða síðustu fjóra mánuði, er ekki merki þess að þetta fólk viti hvaða það er að gera. Enn eru nokkrir mánuðir í útboð, svo reikna má með að áætlunin hækki enn frekar fram að því. Sagan segir okkur að við sjálft útboðið mun kostnaður hækka enn frekar. Hver svo endanlegur verðmiði verður á þessari einu brú, sem ekki er ætluð til almennrar umferðar, á eftir að koma í ljós.

Betri samgöngur ohf. voru stofnaðar fyrir fimm árum síðan. Þar er eigandinn að stærstum hluta ríkissjóður, eða 75% og síðan deila sveitarfélögin sem borgarlína er ætluð að fara um 25% eignarhlut. Kostnaður mun sjálfsagt skiptast í sama hlutfalli við eign í þessu félagi. Fá ef nokkuð sveitarfélaganna hefur aura til að leika sér með og allra síst það þeirra sem er stærst. Ríkissjóður er einnig rekinn á lánum. Því liggur fyrr að allur þessu kostnaður mun verð fjármagnaður með látökum. Við einfaldlega höfum ekki efni á slíku bruðli. Þá er vandséð hvernig hægt er að réttlæta að ríkissjóður sjái um fjármögnun að þrem fjórðu hluta verkefnisins. Hvernig hægt er að réttlæta að landsmenn sem aldrei munu eiga þess kost að nýta sér þessi ósköp, vegna búsetu, þurfi að láta sitt fjármagn í verkefnið.

Ef sveitafélögin á höfuðborgarsvæðinu sjá sér hag af því að leggja borgarlínu um sitt svæði eiga þau bara að gera það sjálf. Ríkið getur liðkað til með lagasetningum, ef þörf er á, en á ekki að vera aðili að þessu ævintýri, hvað þá að bera ábyrgð á þrem fjórðu hluta þess.

Meðan ríkið er aðili að borgarlínu, hlýtur að vera krafa á ríkisstjórn að stöðva málið hið snarasta. Það getur ekki gengið lengur að eitthvað fólk fái að leika sér með skattpeninga okkar eins og því lystir!


mbl.is Ekki litið til verðs við valið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EES, hinn svarti samningur

Nú virðist tíska að tala um gullhúðun EES laga og reglna, sem sá samningur gerir okkur skylt að taka upp frá ESB. Að þegar slíkar tilskipanir koma til samþykktar Alþingis sé búið að gera þær strangari en til stóð. Erfitt eða útilokað er fyrir þingmenn að fylgja eftir sínu lögskipaða eftirliti við upptöku þessara tilskipana, þar sem þær eru gjarnan afgreiddar á færibandi síðasta dag hvers þings. Því er auðvelt fyrir embættismenn, jafnvel án samþykkis ráðherra, að bæta í þessar tilskipanir. Eftir að viðkomandi ráðherra hefur síðan fengið tilskipun samþykkta, með þeim breytingum sem bætt var við, tekur hann gjarnan sumar reglugerðir og færir þær til "fagaðila" til frekari útlistunar. Oftar en ekki hefur viðkomandi "fagaðili" hag af því að gera reglugerðina enn þyngri.

Nú vilja ráðamenn breyta þessu, vilja að tilskipanir um lög og reglugerðir frá ESB séu teknar eins og þær eru gerðar í upphafi. Að ekki sé verið að bæta í þær hér á landi. Eina leiðin til þess er að hver tilskipun sé tekin til málefnalegrar umræðu á Alþingi, þar sem þingmönnum verði gert fært að sannreyna hvort íslenski textinn sé samhljóða þeim upphaflega. Það færi þá sennilega lítið fyrir öðrum störfum þingsins og landið enn stjórnlausara en það er og má þar vart á bæta.

Nú er það svo að oftar en ekki dettur einstaka þingmanni í hug að bera saman þessar tvær útgáfur, þá er samin er í Brussel og þá sem embættismenn kokka fyrir ráðherrann sinn, til fyrirlagningar þingsins. Þegar þeir benda á misræmið, nú eða hættuna við samþykkt viðkomandi laga eða reglugerða, er sá strax úthrópaður sem öfga hægrisinn, gamalmenni eða jafnvel enn ljótari orð notuð.

Hvernig á því stendur að einhverjum datt til hugar að kalla þessa svikastarfsemi gullhúðun er svo aftur sérstakt rannsóknarefni. Mun nær að tala um svertun eða kolun tilskipana frá ESB.

Þá mætti með sanni segja: EES, hinn svarti samningur.


Vilja Grindvíkinga ber að virða

Náttúruöflin hér á landi eru ægileg. Þegar þau láta að sér kræla ber okkur skilda til að halda vel utanum það fólk sem fyrir verður. Þar duga ekkert yfirlýsingar ráðamanna um hversu duglegir við landsmenn séum, að við munum komast gegnum þetta, dugir ekkert "þetta reddast" hugarfarið. Það virðast þó ríkt í hugum þeirra sem stjórna landinu okkar á þessum viðsjárverðu tímum náttúruhamfara.

Trekk í trekk dynja ósköp yfir Grindavík og nú síðast hraunrennsli inn í bæinn og nýtt og enn viðsjárverðara sprungusvæði, sem var þó ærið fyrir. Og nú tala jarðfræðingar um að þetta sé í raun einungis byrjun á enn stærri atburðum, eða gætu veri það. Grindavíkurbær er þegar að stórum hluta óbyggilegur og enn eftir að fá úr því skorið hversu umfangsmikið sprungusvæðið er orðið. Því er óvíst hvort eða hvenær hægt verður að byggja upp aftur.

Engir eru dómbærari á það hvernig staðið skuli að aðstoð við íbúana, en þeir sjálfir. Einungis þeir hafa reynsluna og einungis þeir geta sagt hvernig skuli staðið að verki. Allir aðrir eru óhæfir til þess verks, allra síst stjórnmálamenn. Það er útilokað með öllu, fyrir nokkurn mann að setja sig í spor Grindvíkinga.

Nú hefur verið haldinn íbúafundur og vilji þeirra er skýr. Þeir vilja losna frá þessum hörmungum, vilja losna við hús sín, vilja geta hafið líf á nýjum stað. Þegar yfir lýkur munu sjálfsagt einhverjir sækja heim aftur, en það geta verið ár eða áratugir þar til slíkt verður framkvæmanlegt. Þessi vilji er skýr og sennilega fáir landsmenn sem setja sig upp á móti þeim vilja íbúana. Það er hins vegar stjórnvalda að hrinda þeirri framkvæmd í verk og þar duga hvorki vettlingatök né slóðaskapur. Þetta verk þarf að vinna hratt og örugglega, svo Grindvíkingar geti farið að horfa fram á veginn. Það er þegar búið að leggja meira á þá en góðu hófu gegnir.

En þar kemur babb í bátinn. Ekki einungis eru stjórnmálamenn hikandi, heldur er neikvæðni þeirra hrópleg. Gert meira úr kostnaði en efni eru til og yfirleitt sú lausn sem íbúar vilja töluð niður. Rætt um aðrar og jafnvel dýrari lausnir. Stjórnmálamenn telja sig vita betur hvernig Grindvíkingum lýður en þeir sjálfir, þykjast vita meira um vilja íbúanna en þeir sjálfir. Þetta kallast á vægu máli hroki.

Fjármálaráðherra kom fram með tölur á fundinum, sagði það kosta 120 milljarða að kaupa upp húseignir í Grindavík. Inn í þeirri tölu er innbú, sem í flestum tilfellum má enn bjarga. Því er upphæðin nokkuð lægri. Ekki er enn búið að meta öll tjón á húsum í bænum og ekki byrjað að meta það tjón sem kom upp í síðustu ósköpum. Því er ekki vitað hversu mörg hús þarf þegar að kaupa upp, en kostnaður við þau kaup dregst að sjálfsögðu frá þeim hundrað milljörðum sem ráðherra nefndi. Ekki nema hún telji vera hægt að komast hjá að bæta þau einnig. Því er endanlegur kostnaður við kaup á þeim húsum sem ekki dæmast ónýt, kannski ekki svo hár og sjálfsagt gæti ríkissjóður yfirtekið lán sem hvíla á mörgum þeirra og þannig dreift greiðslubyrgði yfir lengri tíma.

En það er ekki bara að sum húsin séu skemmd. Landið er stórskemmt og hættulegt. Það er ekki nóg að eiga heilt hús ef ekki er hægt að fara út fyrir dyr þess án þess að eiga á hættu að hverfa ofaní jörðina. Það fer enginn með börn inn á slíkt svæði, jafnvel þó sjálft húsið sé heilt. Ef umhverfið er ekki öruggt er húsið jafn ónýtt fyrir eigandann, þó ekki sjáist á því sprungur.

Það minnsta sem hægt er að gera í stöðunni í dag er að fara að vilja Grindvíkinga, að losa þá frá þeirri skelfingu sem þeir hafa búið við. Um það ætti ekki að þurfa að deila, jafnvel þó kostnaður sé einhver. Hann skilar sér fljótt aftur. Í það verkefni þurfa stjórnvöld að einhenda sér.

Úrtölur eða hroki er ekki til bóta í stöðunni nú.


mbl.is Forsíða Morgunblaðsins: Nístandi óvissa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin er aumkunarverð

Framkoma ráðherra ríkisstjórnarinnar er aumkunarverð, svo ekki sé meira sagt. Nú kveður sér hljóðs einn ráðherra Sjalla og segist bera fullt traust til Svandísar. Ekki langt síðan hún gerði stólpagrín af henni og nefndi þar einmitt framkomu Svandísar í því máli sem Umboðsmaður Alþingis hefur nú komist að niðurstöðu um. Þar var hann reyndar sammála þessum ráðherra Sjalla, um að Svandís hefði bæði brotið lög og ekki gætt að jafnræðisreglu. Eftir einn fund í ráðherrabústaðnum kemur Áslaug svo út brosandi út og segist styðja Svandísi! Hvers konar andsk..... aumingjaskapur er þetta?!

Nú hafa nokkrir óbreyttir þingmenn Sjalla verið nokkuð harðir í afstöðu sinn gagnvart þessu lögbroti Svandísar. Eðlilega, enda sjálfsögð krafa að ráðherra fari að lögum. Í réttarríki gengur annað ekki upp. Annars erum við ekki lengur réttarríki, heldur orðin að einræði. Það er alvarlegt ef aðrir ráðherrar skilja ekki þetta grundvallar atriði. 

Fyrir liggur, ef ekki verður tekið í taumana og Svandís látin yfirgefa ráðherrastól, muni verða lögð fram á Alþingi vantrausttillaga. Væntanlega á Svandísi eina en ætti auðvitað að vera á alla ráðherra, miðað við hvernig þeir tala og haga sér í málinu. Víst er að vantraust verið samþykkt á Alþingi, sitji þingmenn Sjalla hjá. Þá mun koma í ljós hvernig menn þeir hafa til að bera. Hvort þeir standi við stóru orðin eða hvort þeir fara að fordæmi fyrrum félaga síns sem át eigin orð upp til agna án þess að blikna, fyrir síðustu kosningar.

Tel líklegra að þeir muni verja Svandísi fyrir vantrausti, taki á sig sök hennar.


mbl.is „Ég hef borið traust til hennar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningaár

Árið 2024 verður sannkallað kosningaár hér á landi. Forsetakosning, biskupskosning og sífellt fleiri teikn um að kosið verði einnig til Alþingis.

Forsetakosning.

Forsetinn okkar fór að dæmi Danadrottningar og sagði starfi sínu lausu. Þegar hafa komið fram vonbiðlar til embættisins. Sá fyrsti sem bauð sig fram er reyndar genginn úr skaftinu, þar sem ekki gaus á þrettándanum. Fyrsta alvöruframboðið kom síðan stuttu síðar, er Arnar Þór Jónsson bauð sig fram í embættið. Aðrir minni menn hafa síðan tjáð þjóðinni vilja sinn til verksins, eins og Ástþór Magnússon, svona af venju og fleiri. Strax eftir að Arnar tilkynnti sitt framboð fór vinstri elítan af stað til leita að mótframboði. Þar hafa ýmsir varið nefndir, jafnvel að þeim forspurðum. "Óháður kosningastjóri" ruv er duglegur að bjóða fram forsætisráðherrann okkar í embættið, þó hún hafi ekki sjálf sýnt vilja til embættisins, a.m.k. ekki opinberlega. Líklegt er að nokkuð vel muni ganga að manna frambjóðendastöður vinstrivængsins og hugsanlega veit "kosningastjórinn" eitthvað meira en við hin og að Kata verði meðal þeirra. Því fleiri vinstri menn í boði, því betra. Þá deilast atkvæðin þeirra sem mest.

Arnar hefur hins vegar sýnt að hann ann sjálfstæði þjóðarinnar, ann málfrelsinu og ann því að við höldum yfirráðum yfir eigin málum. Það kom hins vegar nokkuð á óvart að hann skyldi bjóða sig fram til embættisins. Hefur verið duglegur að verja þessi gildi á vígvellinum sjálfum. Nú ætlar hann að færa sig af vígvellinum yfir í vörnina. Hugsanlega telur hann baráttuna tapaða og eina sem hægt sé til varnar þjóðinni að virkja varnaglann, þ.e. að geta tekið völdin af Alþingi og fært þau til þjóðarinnar. Hver svo sem ástæða Arnars er fyrir þessari tilfærslu sinni, þá treysti ég að hann hafi tekið rétta ákvörðun og mun sannarlega kjósa hann. Veit engan íslending annan sem getur breytt þeirri ákvörðun minni. Og allir þeir sem trúa á Ísland, sjálfstæði þess og gildi ættu að eiga auðvelt með að kjósa þann mann til forseta. Þeir sem láta samvisku sína ráða vita hvern skal kjósa.

Biskupskosning.

Um tvöhundruð sérvaldir menn munu kjósa nýjan biskup yfir landið. Reyndar eru enn færri sem velja hvaða frambjóðendur fá að vera í kjöri. Hvort þetta muni efla kristna kirkju hér á landi leyfi ég mér að efast stórlega. Vandi kirkjunnar er stærri en svo. Vissulega gæti nýr biskup aukið vegferð kirkjunnar og gert þjóðina hliðhollari henni. En það verður ekki gert með kosningu sérvaldra um frambjóðendur er enn færri velja. Sátt um biskup og þá um leið aukin vegferð kirkjunnar verður einungis með því að hver sá sem er skráður í þjóðkirkjuna fá að kjósa um hvern þann sem býður sig fram og er innan þjóðkirkjunnar.

Alþingiskosningar?

Sífellt fleiri teikn eru á lofti um að þjóðin fái að kjósa til Alþingis á þessu ári. Óánægja þingmanna stjórnarflokkanna verður sífellt sýnilegri þjóðinni. Þessi ríkisstjórn hefur til þessa verið nánast óstarfhæf, enda langt á milli pólitískra sjónarmiða tveggja flokka af þrem er mynda stjórn. Sá þriðji er hins vegar einstaklega slungin við að sigla þarna á milli, eða halda sig til hlés. Stjórninni tekst einstaka sinnum að sameinast um einstök verkefni, gjarnan utanaðkomandi vá fyrir landið. Þar má nefna alheimspest, jarðhræringar og eldgos og nú þykist hún vera sameinuð um að forða hér allsherjar verkföllum á næstu mánuðum.

Fáir efast þó um að dagar þessarar ríkisstjórnar eru taldir, reyndar löngu taldir. Það er einungis eitt sem heldur stjórninni saman, en það er einstakur vinskapur milli formanna þeirra tveggja flokka er eru á sitt hvorum enda hins pólitíska litrofs hér á landi, Bjarna og Kötu. Falli annað þeirra úr skaftinu er leik lokið og þjóðin fær að kjósa. Hins vegar eru einmitt þessir tveir flokkar sem koma verst út í skoðanakönnunum og eru samkvæmt þeim að þurrkast út. Því má gera ráð fyrir að þau Bjarni og Kata  þurfi að brýna sína þingmenn enn frekar, jafnvel ná sér í svipu til kattasmölunar, svo halda megi öndunarvél þessarar heiladauðu stjórnar gangandi.

En eins og áður segir eru teiknin sífellt fleiri sem segja okkur að kosningar séu í bráð. Bjarni hefur gefið í skyn að tími sé fyrir hann að breyta um starf. Vonbiðill og varaformaður flokksins tilkynnti undir lok síðasta árs, að hún væri reiðubúin að taka við keflinu. Það mun ekki verða flokknum til framdráttar en meira skiptir kannski máli að þar með slitna þau bönd sem halda stjórninni saman. Þá hefur, eins og áður segir, nafn Kötu verið sífellt endurtekið á ruv, sem næsti frambjóðandi vinstri elítunnar til Bessastaða.

Hvað sem hver segir þá eru líkur á Alþingiskosningum sífellt að aukast. Hver ástæða stjórnarslita verður mun koma í ljós. Hvort það verður óánægja þingmanna Sjálfstæðisflokks eða brottför annars eða beggja þerra enda er halda í líflínu ríkisstjórnarinnar, skiptir í sjálfu sér ekki máli. Þó er ljóst að afleiðingarnar geta orðið misjafnar fyrir báða þessa flokka, hver ástæðan er. Sjallar munu sannarlega umbuna þeim þingmönnum er standa í lappirnar og sýna að sjálfstæðið er ekki falt fyrir stóla.

Að lokum

Allir sannir unnendur sjálfstæðis Íslands, sameinist um að kjósa Arnar Þór Jónsson til forseta.

 


Viðbrögð ráðherrans

Niðurstaða á skoðun umboðsmanns Alþingis, á því hvernig matvælaráðherra stóð að verkum í upphafi sumars, er húm frestaði hvalveiðum með eins dags fyrirvara, ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart. Bæði lærðir og leikir sáu strax að þar fór ráðherrann hressilega yfir strikið. Braut lög og gætti ekki meðalhófs í ákvörðunum.

Það er hins vegar hvernig ráðherrann tekur á áliti umboðsmanns, sem kemur virkilega á óvart. Þar er ekki neina iðrun að sjá. Talar um að lögin séu gömul og úrelt. Engu að síður eru þau lög í gildi og ber öllum að fara eftir þeim, líka ráðherra.

Hún staglast á þessu í hverjum fréttatímanum af öðrum, að lögin séu úrelt og þeim þurfi að breyta. Að það sé nóg fyrr ráðherra sem brýtur lög að breyta þeim bara eftir brotið, af því þau lög eru ekki henni að skapi. Að þar með sé málið búið!

Hitt atriðið sem umboðsmaður fann að og skiptir kannski mestu máli, ekki síst fyrir það starfsfólk sem missti stórann hluta þeirra tekna sem það taldi sig hafa ráðið sig til, yfir sumartímann, brotið á meðalhófsreglunni. Hvernig ætlar hún að "leiðrétta" það brot sitt? Kannski bara leggja slíkar reglur af? Að koma hér á Stalínísku stjórnkerfi einræðisríkis? Það er ekki að ástæðulausu að talað er um meðalhóf í ákvörðunum ráðherra, eða annarra í stjórnsýslunni. Það er stór hluti þess sem við köllum lýðræði. Að ákvörðun stjórnvalds sé ekki af ætt einræðis, heldur skuli lýðræðisleg gildi ráða.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem Svandís Svavarsdóttir, í stól ráðherra, brýtur lög. Hún er orðin nokkuð sjóuð á því sviði. Enda viðbrögð hennar nú, strax nokkuð forhert. Lætur í léttu rúmi liggja þó hún hafi skapað ríkisjóð bótaskyldu upp á háar upphæðir.

Það var undarlegt val hjá formanni VG að velja Svandísi í ríkisstjórn, eftir forsögu hennar á því sviði. Nú, þegar séð er að Svandís hikar ekki við að halda uppi sömu tilburðum og lætur lög ekki þvælast fyrir sér, heldur hvernig henni finnst að lögin eigi að vera, hlýtur formaðurinn að endurskoða veru Svandísar á ráðherrastóli.

Þingflokksformaður Framsóknar er auðvitað efins um hvað skuli gera. Er í algerum stíl við sinn flokk, lætur vindinn einan ráða hver stefnan er. Þorir ekki að taka af skarið. Sjallar eru aftur nokkuð ákveðnari í sinni afstöðu, þ.e. nokkrir þingmenn flokksins, ennþá. Forustan lætur hins vegar ekkert uppi og mun sennilega kyngja stoltinu einu sinni enn. Skoðanakannanir eru ekki hagstæðar til kosninga fyrir flokkinn nú. Því mun sennilega eitthvað fækka þeim röddum þingmanna flokksins sem hafa kjark til að tjá sína skoðun á þessu máli, eins og svo mörgum öðrum.

Auðvitað hefði verið hreinlegast og eðlilegast að matvælaráðherra hefði sagt af sér, strax og niðurstöður umboðsmanns lágu fyrir. Það hefðu verið eðlileg viðbrögð og henni og flokk hennar til framdráttar. En úr því svo var ekki kemur það í hlut formanns VG að taka af skarið. Eða ætlar hún að storka enn frekar örlögum ríkisstjórnarinnar? Þar er vart borð fyrir báru.

 


mbl.is Telur ekki tilefni til að kalla saman þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrumið og kjarkurinn

Í dagbók Björns Bjarnasonar, sem hann hefur til sýnis hér á bloggvef moggans, þann 28. des, gerir hann tilraun til að skýra orðið "lýðskrum".  Nú er það svo að ágætar skýringar eru til á þessu orði, eða öllu fremur hugtaki. H.L Mencken skilgreindi lýðskrumara svo:  "það er maður sem predikar kennisetningar sem hann veit að eru rangar yfir mönnum sem hann veit að eru fávitar".  Á vísindavefnum er þetta hins vegar skilgreint örlítið öðruvísi, eða:  "það er notað um stjórnmálamann sem tekur afstöðu til mála eftir því úr hvaða átt vindurinn blæs meðal almennings eða aflar sér fylgis með því að beina kröftum sínum að lægstu hvötum kjósenda". 

Báðar eru þessar útskýringar keimlíkar, þó örlítill blægðarmunur sé á. Fyrri og eldri skýringin í þeim tíðaranda er ríkti áður fyrr, er stjórnmál voru mun lokaðri en í dag og fréttaöflun almennings bundin við prentmiðla, sem aftur voru gjarnan á höndum stjórnmálaflokka. Síðar greiningin er aftur kunnuglegri, enda vart sá stjórnmálamaður til sem ekki fellur undir hana. Það sést best á störfum Alþingis. Þegar eitthvað málefni kemur upp á götunni fara þingmenn á kostum í ræðuhöldum og kenna þá gjarnan andstæðingnum um. Ekki dettur nokkrum í huga að bíða eftir niðurstöðu rannsóknar eða dóms ef svo vill. Þegar svo í ljós kemur að upphlaupið var ástæðulaust, eða jafnvel skaðlegt fyrir sárasaklaust fólk, dettur ekki neinum ræðumanni Alþingis að biðjast afsökunar.

Skilgreining Björns Bjarnasonar er hins vegar nokkuð önnur á orðinu "lýðskrum". Í grein sinni tiltekur hann þrjá menn, sem dæmi um lýðskrumara. Einn erlendan sem kosinn var af meirihluta þjóðar sinnar til að stjórna landi þeirra og tvo íslenska menn sem hafa haldið uppi mikilli umræðu um vörð sjálfstæðis okkar og að vald yfir auðlindum landsins verði ekki ofurselt erlendum aðilum. Hans skilgreining á "lýðskrumi" er að hver sá maður er vill standa vörð um sjálfstæði þjóðar sinnar og vill að valdið sé okkar í sem flestum málum, einkum auðlindamálum, sé lýðskrumari. Að hver sá er setur spurningamerki við að völd séu sífellt meira færð yfir til erlendra afla sé lýðskrumari.

Samkvæmt þessari skilgreiningu Björns er ég lýðskrumari. Gott og vel, ég get vel borið þann titil fyrir Björn, ef það er honum einhver hugarró. Hef svo sem verið kallaður verri nöfnum fyrir mín skrif. Sjálfur tel ég það merki um kjark að þora að tjá sig gegn almenningsáliti, tel það kjark að reyna af litlum mætti að verja sjálfstæðið okkar og kalla það kjark að spyrja áleitinna spurninga.

Ef menn, sem skilgreina lýðskrum á sama hátt og BB gerir, hefðu verið ráðandi á seinnihluta nítjándu aldar og fyrri helming þeirrar tuttugustu, værum við enn undir stjórn Dana. Þeir kjarkmenn sem stóðu harðast að því að landið fengi sjálfstæði frá Dönum hefðu þó sennilega seint tekið inn kjarkleysinga í sinn hóp. Ekki hefði slíkum mönnum heldur verið boðið til stofnfundar Sjálfstæðisflokksins, þó allt mori af þeim þar í dag. Og ekki hefði kjarkleysi dugað til að stækka landhelgina, eða halda úti stríði gegn stórhernaðarveldi til að tryggja það, í þrígang. Saga okkar, allt frá landnámi, er full af kjarkmiklum einstaklingum sem hafa drifið fjöldann með sér og komið á bótum.

Samkvæmt skilningi Björns Bjarnasonar voru þeir þó einungis lýðskrumarar.

Reyndar má segja að lokaorð Björns í viðhengdri grein séu einmitt skýrt dæmi um lýðskrum, þar sem hann kastar fram fullyrðingu án skýringar.

 


Undarlegur málflutningur forstjórans

Það er undarlegur málflutningur forstjóra Landsvirkjunar. Talar um leka milli raforkukerfa.

Alþingi samþykkti, illu heilli, að gerast aðili að orkustefnu ESB. Þetta var gert með samþykkt þriggja  svokallaðra orkupakka, þ.e. safn laga og reglna sem sambandið setur upp, og í raun er farið að vinna samkvæmt orkupakka 4 hér á landi, þó Alþingi hafi ekki fengið að ræða þann pakka eða samþykkja.

Orkustefna ESB byggir á frjálsum viðskiptum með orku og frjálsu flæði hennar yfir landamæri. Við samþykkt op1, árið 2003, var Alþingi í raun að samþykkja að hér skyldi einnig gilda frelsi á markaði um orku. Fyrstu kynni almennings af þessu "frelsi" var að orkureikningum fjölgaði, þar sem op1 krafðist þess að skilið skyldi á milli framleiðslu, flutnings og sölu orkunnar. Þar með var lagður grunnur að frelsi með sölu orkunnar okkar, ekki bara hér innanland, heldur einnig milli landa. Enn er þó ekki komin tenging á okkar raforkukerfi til annarra landa, sem betur fer, þannig að í  raun er þetta frelsi einungis um sölu hér á landi.

Þetta segir að ekki megi gera skil á milli notkunar heimila og stóriðjunnar. Frelsið um söluna er ekki og má ekki vera með neinum höftum. Ef útlit er fyrir skort ber framleiðendum að framleiða meira og ef flutningur kerfisins er ekki nægur ber að bæta það. Og ef einhver vill leggja héðan raforkustreng til annarra landa, til að flytja orkuna okkar úr landi, ber Alþingi að samþykkja þá bón. Þessi atriði öll voru kyrfilega áréttuð í op3.

Þetta veit forstjórinn, en samt velur hann að koma fram með einhvern bull málflutning, eitthvað moð. Ekki er ástandið betra á löggjafasamkundunni okkar. Þar liggur fyrir frumvarp stjórnvalda sem mun sannarlega brjóta í bága við orkustefnu ESB, sem sama samkunda samþykkti fyrir hönd landsmanna fyrir rétt rúmum tuttugu árum síðan!

Ef það er vilji forstjórans og ef það er vilji Alþingis, að heimili landsins fá forgang að orkunni okkar er ekki nema eitt í stöðunni. Reyndar mjög einfalt að fara þá leið. Það er að segja upp samstarfi um orkumál við ESB, gegnum EES samninginn. Þannig fær ríkið aftur yfirráð um hvernig orkunni skuli ráðstafað og þannig fær forstjórinn aftur afsökun fyrir því að slugsast við að framleiða næga orku fyrir landið. Eins og staðan er í dag er víst að öll viðleitni til að stjórna því hver fær orkuna okkar til afnota, mun lenda fyrir dómstólum og ríkið mun tapa því máli. Slíkt verður ekki liðið meðan við höldum okkur við að láta stofnanir undir ESB stjórna markaðnum hér.

Grundvallarstefna ESB, sem við höfum tengt okkur við gegnum EES samninginn er fullt frelsi með sölu orkunnar. Þar skal markaðurinn einn ráða.

Er ekki komið nóg? Er ekki kominn tími til að vakna?


mbl.is Varar við leka á milli orkumarkaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband