Lýðskrumið og kjarkurinn

Í dagbók Björns Bjarnasonar, sem hann hefur til sýnis hér á bloggvef moggans, þann 28. des, gerir hann tilraun til að skýra orðið "lýðskrum".  Nú er það svo að ágætar skýringar eru til á þessu orði, eða öllu fremur hugtaki. H.L Mencken skilgreindi lýðskrumara svo:  "það er maður sem predikar kennisetningar sem hann veit að eru rangar yfir mönnum sem hann veit að eru fávitar".  Á vísindavefnum er þetta hins vegar skilgreint örlítið öðruvísi, eða:  "það er notað um stjórnmálamann sem tekur afstöðu til mála eftir því úr hvaða átt vindurinn blæs meðal almennings eða aflar sér fylgis með því að beina kröftum sínum að lægstu hvötum kjósenda". 

Báðar eru þessar útskýringar keimlíkar, þó örlítill blægðarmunur sé á. Fyrri og eldri skýringin í þeim tíðaranda er ríkti áður fyrr, er stjórnmál voru mun lokaðri en í dag og fréttaöflun almennings bundin við prentmiðla, sem aftur voru gjarnan á höndum stjórnmálaflokka. Síðar greiningin er aftur kunnuglegri, enda vart sá stjórnmálamaður til sem ekki fellur undir hana. Það sést best á störfum Alþingis. Þegar eitthvað málefni kemur upp á götunni fara þingmenn á kostum í ræðuhöldum og kenna þá gjarnan andstæðingnum um. Ekki dettur nokkrum í huga að bíða eftir niðurstöðu rannsóknar eða dóms ef svo vill. Þegar svo í ljós kemur að upphlaupið var ástæðulaust, eða jafnvel skaðlegt fyrir sárasaklaust fólk, dettur ekki neinum ræðumanni Alþingis að biðjast afsökunar.

Skilgreining Björns Bjarnasonar er hins vegar nokkuð önnur á orðinu "lýðskrum". Í grein sinni tiltekur hann þrjá menn, sem dæmi um lýðskrumara. Einn erlendan sem kosinn var af meirihluta þjóðar sinnar til að stjórna landi þeirra og tvo íslenska menn sem hafa haldið uppi mikilli umræðu um vörð sjálfstæðis okkar og að vald yfir auðlindum landsins verði ekki ofurselt erlendum aðilum. Hans skilgreining á "lýðskrumi" er að hver sá maður er vill standa vörð um sjálfstæði þjóðar sinnar og vill að valdið sé okkar í sem flestum málum, einkum auðlindamálum, sé lýðskrumari. Að hver sá er setur spurningamerki við að völd séu sífellt meira færð yfir til erlendra afla sé lýðskrumari.

Samkvæmt þessari skilgreiningu Björns er ég lýðskrumari. Gott og vel, ég get vel borið þann titil fyrir Björn, ef það er honum einhver hugarró. Hef svo sem verið kallaður verri nöfnum fyrir mín skrif. Sjálfur tel ég það merki um kjark að þora að tjá sig gegn almenningsáliti, tel það kjark að reyna af litlum mætti að verja sjálfstæðið okkar og kalla það kjark að spyrja áleitinna spurninga.

Ef menn, sem skilgreina lýðskrum á sama hátt og BB gerir, hefðu verið ráðandi á seinnihluta nítjándu aldar og fyrri helming þeirrar tuttugustu, værum við enn undir stjórn Dana. Þeir kjarkmenn sem stóðu harðast að því að landið fengi sjálfstæði frá Dönum hefðu þó sennilega seint tekið inn kjarkleysinga í sinn hóp. Ekki hefði slíkum mönnum heldur verið boðið til stofnfundar Sjálfstæðisflokksins, þó allt mori af þeim þar í dag. Og ekki hefði kjarkleysi dugað til að stækka landhelgina, eða halda úti stríði gegn stórhernaðarveldi til að tryggja það, í þrígang. Saga okkar, allt frá landnámi, er full af kjarkmiklum einstaklingum sem hafa drifið fjöldann með sér og komið á bótum.

Samkvæmt skilningi Björns Bjarnasonar voru þeir þó einungis lýðskrumarar.

Reyndar má segja að lokaorð Björns í viðhengdri grein séu einmitt skýrt dæmi um lýðskrum, þar sem hann kastar fram fullyrðingu án skýringar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Gunnar.

Ég tek undir með áliti þínu á Birni Bjarnasyni og varpa fram þeirri spurningu að auki, hvað nefna megi þann sem starfar við það að þefa uppi álit og skoðanir landa sinna í þágu erlends ríkis og hafi haft til þeirra njósna eigin skrifstofu í sendiráði þess í Reykjavík - ef satt reynist?

Jónatan Karlsson, 30.12.2023 kl. 01:38

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Sæll Gunnar.

Tek undir allt sem þú segir og er bara stoltur af því

að falla í hópinn sem lýðskrumari.

Það vita allir fyrir hvað BB stendur og það sem hann stendur með

er í Viðreisn. Þykist vera sjálfstæðismaður.!!!!!

Það er þá betra að vera lýðskrumari heldur en hópurinn sem hann

stendur með, sem eru ekkert annað en ÞJÓÐNÍÐINGAR.

Sigurður Kristján Hjaltested, 30.12.2023 kl. 11:48

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Björn Bjarnason er góður penni, reyndar svo góður að hann getur skrifað af mikilli sannfæringu um sama hlutinn frá gjörólíkum sjónarhornum. Hann hefur oft tjáð sig um fullveldismál þjóðarinnar bæði sem harður sjálfstæðis- og fullveldissinni en einnig sem eitilharður ESB-sinni. Þetta er ákveðinn snilld sem kæmi sér vel í öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum t.d. í Framsóknarflokknum. Ég hef ávallt verið mjög hrifinn að grein Björns í Mbl 23. mars 2018 þar sem hann skrifar af mikilli innlifun um orkumálin og 3. orkupakkann, ekki eins og Viðreisnar-Samfylkingarmaður,(eins og hann gerir í dag), heldur sem sannur sjálfstæðismaður og fullveldissinni. Mæli eindregið með þessari grein f. alla sem aðhyllast sjálfstæði í orkumálum Íslands: 
https://timarit.is/files/43902024#search=%2223%20MARS%20mars%20mars%20Bj%C3%B6rn%20Bjarnason%22   

Júlíus Valsson, 30.12.2023 kl. 16:03

4 Smámynd: Birgir Loftsson

Kjarkleysi af hendi Björns að leyfa ekki athugasemdir við "blogggreinar" sínar. Þorir hann ekki í lýðræðislega umræðu? En það er hægt að svara honum með blogggrein á móti. 

Birgir Loftsson, 30.12.2023 kl. 17:20

5 identicon

Sæll Gunnar frændi; sem og þið aðrir, ágætir innleggjarar

á frænda míns síðu !

Jónatan !

Öllum fjandanum; má trúa upp á Björn Bjarnason, sem

sagan sýnir, í gegnum tíðina.

Sigurður Kristján !

Ekki þörf á; að bæta nokkru við, sem þú ritar af kostgæfni.

Júlíus !

Það er orðinn langur vegurinn; frá Jóni Þorlákssyni heitnum

og öðrum forvígismönnum þessa flokks - sem orðinn er að 

maðkaveitu okurs og græðgi úr almennings vösum, ágæti drengur.

Birgir !

Við hverju bjóst þú; Björn er jú, einn meðlima Eimreiðar

fjelagsskaparins, sem hefur verið Íslendingum ámóta óþarft

fyrirbrigði - eins og Hamas ruzlararnir Palsestínumönnum,

svo:: vægt sje til orða tekið, Birgir minn.

Með beztu kveðjum; af Suðurlandi, sem endranær /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.12.2023 kl. 18:26

6 Smámynd: Birgir Loftsson

Gleðilegt ár Óskar og þið hinir.

Birgir Loftsson, 30.12.2023 kl. 20:16

7 identicon

Sælir; á ný !

Þakka þjer fyrir Birgir minn; en . . . . við skulum

sjá til, að kvöldi þess 31. XII. 2024, hversu gleðilegt

komandi ár reyndist vera.

Getum vonað það bezta; engu að síður.

Ekki síðri kveðjur Birgir - og til ykkar allra hinna /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.12.2023 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband