Kosningaár

Árið 2024 verður sannkallað kosningaár hér á landi. Forsetakosning, biskupskosning og sífellt fleiri teikn um að kosið verði einnig til Alþingis.

Forsetakosning.

Forsetinn okkar fór að dæmi Danadrottningar og sagði starfi sínu lausu. Þegar hafa komið fram vonbiðlar til embættisins. Sá fyrsti sem bauð sig fram er reyndar genginn úr skaftinu, þar sem ekki gaus á þrettándanum. Fyrsta alvöruframboðið kom síðan stuttu síðar, er Arnar Þór Jónsson bauð sig fram í embættið. Aðrir minni menn hafa síðan tjáð þjóðinni vilja sinn til verksins, eins og Ástþór Magnússon, svona af venju og fleiri. Strax eftir að Arnar tilkynnti sitt framboð fór vinstri elítan af stað til leita að mótframboði. Þar hafa ýmsir varið nefndir, jafnvel að þeim forspurðum. "Óháður kosningastjóri" ruv er duglegur að bjóða fram forsætisráðherrann okkar í embættið, þó hún hafi ekki sjálf sýnt vilja til embættisins, a.m.k. ekki opinberlega. Líklegt er að nokkuð vel muni ganga að manna frambjóðendastöður vinstrivængsins og hugsanlega veit "kosningastjórinn" eitthvað meira en við hin og að Kata verði meðal þeirra. Því fleiri vinstri menn í boði, því betra. Þá deilast atkvæðin þeirra sem mest.

Arnar hefur hins vegar sýnt að hann ann sjálfstæði þjóðarinnar, ann málfrelsinu og ann því að við höldum yfirráðum yfir eigin málum. Það kom hins vegar nokkuð á óvart að hann skyldi bjóða sig fram til embættisins. Hefur verið duglegur að verja þessi gildi á vígvellinum sjálfum. Nú ætlar hann að færa sig af vígvellinum yfir í vörnina. Hugsanlega telur hann baráttuna tapaða og eina sem hægt sé til varnar þjóðinni að virkja varnaglann, þ.e. að geta tekið völdin af Alþingi og fært þau til þjóðarinnar. Hver svo sem ástæða Arnars er fyrir þessari tilfærslu sinni, þá treysti ég að hann hafi tekið rétta ákvörðun og mun sannarlega kjósa hann. Veit engan íslending annan sem getur breytt þeirri ákvörðun minni. Og allir þeir sem trúa á Ísland, sjálfstæði þess og gildi ættu að eiga auðvelt með að kjósa þann mann til forseta. Þeir sem láta samvisku sína ráða vita hvern skal kjósa.

Biskupskosning.

Um tvöhundruð sérvaldir menn munu kjósa nýjan biskup yfir landið. Reyndar eru enn færri sem velja hvaða frambjóðendur fá að vera í kjöri. Hvort þetta muni efla kristna kirkju hér á landi leyfi ég mér að efast stórlega. Vandi kirkjunnar er stærri en svo. Vissulega gæti nýr biskup aukið vegferð kirkjunnar og gert þjóðina hliðhollari henni. En það verður ekki gert með kosningu sérvaldra um frambjóðendur er enn færri velja. Sátt um biskup og þá um leið aukin vegferð kirkjunnar verður einungis með því að hver sá sem er skráður í þjóðkirkjuna fá að kjósa um hvern þann sem býður sig fram og er innan þjóðkirkjunnar.

Alþingiskosningar?

Sífellt fleiri teikn eru á lofti um að þjóðin fái að kjósa til Alþingis á þessu ári. Óánægja þingmanna stjórnarflokkanna verður sífellt sýnilegri þjóðinni. Þessi ríkisstjórn hefur til þessa verið nánast óstarfhæf, enda langt á milli pólitískra sjónarmiða tveggja flokka af þrem er mynda stjórn. Sá þriðji er hins vegar einstaklega slungin við að sigla þarna á milli, eða halda sig til hlés. Stjórninni tekst einstaka sinnum að sameinast um einstök verkefni, gjarnan utanaðkomandi vá fyrir landið. Þar má nefna alheimspest, jarðhræringar og eldgos og nú þykist hún vera sameinuð um að forða hér allsherjar verkföllum á næstu mánuðum.

Fáir efast þó um að dagar þessarar ríkisstjórnar eru taldir, reyndar löngu taldir. Það er einungis eitt sem heldur stjórninni saman, en það er einstakur vinskapur milli formanna þeirra tveggja flokka er eru á sitt hvorum enda hins pólitíska litrofs hér á landi, Bjarna og Kötu. Falli annað þeirra úr skaftinu er leik lokið og þjóðin fær að kjósa. Hins vegar eru einmitt þessir tveir flokkar sem koma verst út í skoðanakönnunum og eru samkvæmt þeim að þurrkast út. Því má gera ráð fyrir að þau Bjarni og Kata  þurfi að brýna sína þingmenn enn frekar, jafnvel ná sér í svipu til kattasmölunar, svo halda megi öndunarvél þessarar heiladauðu stjórnar gangandi.

En eins og áður segir eru teiknin sífellt fleiri sem segja okkur að kosningar séu í bráð. Bjarni hefur gefið í skyn að tími sé fyrir hann að breyta um starf. Vonbiðill og varaformaður flokksins tilkynnti undir lok síðasta árs, að hún væri reiðubúin að taka við keflinu. Það mun ekki verða flokknum til framdráttar en meira skiptir kannski máli að þar með slitna þau bönd sem halda stjórninni saman. Þá hefur, eins og áður segir, nafn Kötu verið sífellt endurtekið á ruv, sem næsti frambjóðandi vinstri elítunnar til Bessastaða.

Hvað sem hver segir þá eru líkur á Alþingiskosningum sífellt að aukast. Hver ástæða stjórnarslita verður mun koma í ljós. Hvort það verður óánægja þingmanna Sjálfstæðisflokks eða brottför annars eða beggja þerra enda er halda í líflínu ríkisstjórnarinnar, skiptir í sjálfu sér ekki máli. Þó er ljóst að afleiðingarnar geta orðið misjafnar fyrir báða þessa flokka, hver ástæðan er. Sjallar munu sannarlega umbuna þeim þingmönnum er standa í lappirnar og sýna að sjálfstæðið er ekki falt fyrir stóla.

Að lokum

Allir sannir unnendur sjálfstæðis Íslands, sameinist um að kjósa Arnar Þór Jónsson til forseta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Ísland þarf fullveldissinna á Bessastaði!

Júlíus Valsson, 7.1.2024 kl. 23:42

2 Smámynd: Dominus Sanctus.

KJARNI MÁLSINS: 

 "Sátt um biskup og þá um leið aukin vegferð kirkjunnar

verður einungis með því að

hver sá sem er skráður í þjóðkirkjuna fá að kjósa

um hvern þann sem býður sig fram og er innan þjóðkirkjunnar".

------------------------------------------------------------------------------------

Eru ekki allar líkur á því að það muni verða "rússnesk" kosning,

tengt biskupskjörinu eins og verið hefur;

bara elítan megi velja?

----------------------------------------------------------------------------------

Auðvitað ætti ALLUR ALMENNINGUR  að eiga kost á því að geta

kosið sér sinn trúarleiðtoga í lýðræðislegri kosningu.

=Hver hefur mesta KRAFTAVERKA-MÁTTINN?".

Dominus Sanctus., 8.1.2024 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband