Green eða Grín
24.5.2025 | 18:02
Green economy, eða grænt hagkerfi mætti kannski frekar kalla grín hagkerfi.
Og út á hvað gengur svo þetta grín hagkerfi?. Jú, það er búin til einhver þörf og þeirri þörf þarf að svara. Í þessu tilfelli þörf á að minnka co2 í andrúmslofti og svar við því hvernig slíkt er hægt. Þessu tengdu er svo komið inn á umhverfismál, náttúruauðlindir og fleira, sem auðvitað er hið besta mál, flokkun sorps og fleira. Vandinn er bara að það nær ekki lengra en svo. Sorpið flokkað af neytendum og safnað saman í safnstöð þar sem því er pakkað til flutnings úr landi og notað þar sem eldsneyti, í eldsneytishrjáðum löndum þar ytra.
Ekkert af þessu skapar raunveruleg verðmæti, eru fjármögnuð að mestu með hærri sköttum á almenning. Ekkert af þessum verkefnum skilar tilætluðum árangri þrátt fyrir að miklum fjármunum sé eytt til þeirra. Nú síðast upplýst að Climeworks, fyrirtæki sem ætlaði að fanga co2 úr andrúmslofti, hefur haft uppi brellur til að halda verkefni sínu gangandi. Er búið að selja 380 þúsund tonn af kolefniskvóta en ekki getað afhent nema rétt rúmlega 1 þúsund tonn. Verkefnið er ekki að ganga upp og mun sennilega aldrei gera það. Það hefur þó ekki vantað aurinn sem þetta fyrirtæki hefur sót til sín, peningar sem alltaf lendir á almenningi að borga, með einum eða öðrum hætti.
Tengt þessu fyrirtæki er svo Carbfix, sem ætlaði að dæla niður innfluttu menguðu co2 sulli í jörð niður í Hafnarfirði. Íbúar bæjarins náðu að stöðva það æði, a.m.k. í bili. En Carbfix, eða réttara sagt Orkuveita Reykjavíkur, lætur ekki svoleiðis smámuni stoppa sig, fann sveitarfélag norður í landi sem fagnar þessum áformum og víst að þar mun skelfingin fá að ríða röftum. Þar skal dæla niður einhverju óhemju magni af einhverju glundri, flutt með skipum frá Evrópu, niður í berg sem er á jarðskjálftasvæði.
Allir muna Runnig Tyde ævintýrið, sem stóð sem betur fer frekar stutt. Tréflís var sturtað í miklu magni í sjóinn og átti hún að draga til sín co2 úr andrúmsloftinu. Allir menn sem einhverja menntun hafa á þessu sviði bentu á það augljósa, að það myndi ekki gerast, heldur þvert á móti myndi flísin sökkva til botns með tímanum, rotna og sleppa enn hættulegra gasi úr í andrúmsloftið, metani. Sennilega verið betra að leifa trjánum bara að standa vestur í Kanada og fanga co2 úr andrúmsloftinu, eins og trjám er gjarnt.
Önnur tilraun af sama meiði var ætlun Rastar að dæla vítissóta í Hvalfjörðinn. Það náðist að stöðva, í bili. Eigendur Runnig Tyde og Rastar eru Transition Labs. Sami eigandi.
Trjárækt er viðurkennd aðferð við föngun co2 úr andrúmslofti. Þar þarf þó að fara varlega, stundum betra að láta þann gróður sem fyrir hendi er sjá um verkið. Það eru nefnilega ekki bara grænu blöðin á trjánum sem vinna slíkt verk, allt grængresi og reyndar allur gróður gerir slíkt hið sama. Þess vegna er co2 svo nauðsynlegt fyrir líf á jörðinni, nauðsynlegra en súrefni, sem reyndar er einnig unnið út í andrúmsloftið af grænblöðungum. Vinna kolefniseininguna úr co2 og sleppa súrefninu frá sér. Stór mistök voru gerð í þessu fyrir nokkru, þegar sama sveitarfélag og nú vill taka á móti menguðu sulli frá Evrópu, gaf heimild til að plægja upp stórt gróið svæði til trjáræktar.
Samhliða þessu hefur verið tekin sú stefna að moka ofaní skurði, kallast endurheimt votlendis. Allir sem þekkja til votlendis vita að þar er gróður oftast rýr og oftar en ekki megn fýla af slíkum svæðum. Fýlan skapast af rotnun og sú rotnun framleiðir metan, hættuleg gastegund ef hún er í miklum mæli. Hins vegar vita hinir sömu að þurrkað land verður gjarnan mjög gróskumikið, Magn grænblöðunga margfaldast og getan til vinnslu co2 í sama mæli. Þá eru flestir framræsluskurðir hér á landi meira en hálfrar aldar gamlir. Þeir skurðir sem hefur verið viðhaldið eru einkum þeir sem snúa að ræktarlandi, aðrir eru flestir orðnir gagnlitlir eða gagnlausir til þurrkunar. Hvernig á því standur að mönnum datt þessi fásinna í hug er óskiljanlegt með öllu. Þarna er verið að vinn þvert gegn þeirri stefnu sem ætlað er.
Flokkun rusl er auðvitað hið besta mál, en einungis ef hægt er að treysta því að sú flokkun skili sér alla leið. Stjórnvöld hafa tekið upp Evrópu tilskipun á þessu svið, tilskipun sem reynist fámennri þjóð í stóru landi ansi dýr. Mörg sveitarfélög neyðast til að stór hækka gjaldtöku af íbúum, svo uppfylla megi tilskipunina, ef þau ætla að lifa af. Þessi flokkun er þó ekkert annað en sýndarmennska, þegar vel er gáð. Sem dæmi að ef á að flokka plast til endurvinnslu þarf að flokka það í sjö flokka, sex undirflokka plasts og þann sjöunda fyrir gerviplastið. Þetta er auðvitað ekki gerlegt fyrir heimili landsins, sjáum í hendi okkar að kostnaðurinn myndi verða enn meiri og tunnufjöldinn maður minn, við hvert heimili. Því er plast frá heimilum tekið óflokkað og sent til Svíþjóðar, þar sem það er nýtt sem eldsneyti á brennsluofna til framleiðslu orku. Er ekki betra að byggja slíka ofna hér heima og framleiða orku á köldum svæðum, losna þannig við dýran og mengunarmikinn flutning yfir hafið. Sama má gera fyrir pappann. Þannig værum við komin með háhitaofna sem gætu brennt allt okkar rusl, utan járns og gefið okkur bæði hitaorku og raforku, svona rétt eins og Svíarnir gera við okkar sorp. Einungis einsleitt plast frá stórnotendum, rúlluplast bænda og netadræsur skipa, er vinnanlegt og það er unnið hér á landi.
Töluvert er talað um umhverfismál í því sem kallast Green Economy, eða grín hagkerfi. Allar aðgerðir sem flokkast undir þetta grín eru þó þvert á þá stefnu.
Umhverfismál eru auðvitað mjög víðfeðmt hugtak en í sinni tærustu og einföldustu mynd má segja að umhversmál fjalli um að ekki skuli ganga meir á náttúruauðlindir en nauðsyn ber, ekki skuli menga meira en nauðsyn ber og er þar átt við alla mengun. Co2 er ekki mengun, heldur lífsandi jarðar. Og að nýta skuli það sem notað er eins lengi og hægt er.
Ef við byrjum á nýtingu hluta þá eru jarðarbúar þar einstakir sóðar. Hlutir eru gerðir meira og minna einnota, þannig að ef þeir bila er ekki hægt að laga þá og því keyptur nýr. Stefnan í rafvæðingu bílaflotans er eitt dæmi um sóðaskap við nýtingu hluta. Mönnum er gert auðveldara að kaupa nýja rafbíla, beinlínis til að koma eldsneytisbílum út af markaði. Nýlegum bílum er því hent, jafnvel þó séu í ágætis ástandi og auðvelt að halda þeim við. Þetta er beinlínis stefna grín hagkerfisins. Svona mætti lengi telja, nýting hluta, sem ætti að vera í hávegum haft til bjargar jörðinni, er talið hættulegt. Einnota hlutum er hampað.
Mengun af öllu tagi er slæm. Kolaorkuver er til dæmis mjög mengandi, þó aldrei sé talað um mengun frá þeim nema á einn veg, co2 losun. Co2 er ekki mengun, eins og áður segið, hins vegar er sót og fleiri þættir mjög mengandi fyrir jörðina. Vindtúrbínur eru einnig mjög mengandi fyrir náttúruna. Þar má fyrst nefna örplastið, sem sagt er hverfandi en þó slitna spaðarnir mjög hratt. Olíumengun er tíð frá vindtúrbínum, SF6 gas, sem sannarlega hefur áhrif á hitastig andrúmsloftsins, losnar töluvert. Jarðflæmi sem þarf fyrir hverja framleidda orkueiningu er meira en nokkurri annarri orkuframleiðslu, ef frá er skilin sólarorkan. Þá hafa nýlegar rannsóknir bent til að lágtíðnihljóð, sem mannseyrað nemur ekki en hefur slæm áhrif á heilsufar, sé mun víðtækara, bæði að magni til og fjarlægð frá vindorkuverum. Önnur nýleg rannsókn bendir til að vindorkuver hafi áhrif á loftslag á umhverfið, bæði með truflun á vindafari og einnig til hækkunar hitastigs. Þá liggur fyrir að vindorkuver hefur hvergi getað verið rekið með hagnaði, eru háð styrkjum og niðurgreiðslum.
Sólarorkuver eru sífellt að verða vinsælli og sérstakt átak nú hér á landi að koma þeim sem mest á koppinn. Þar er kannski mesta hættan hækkun á hitastigi. Sólarspeglar eru svartir og svart dregur til sín hita frá sólinni. Það þarf ekki snilling til að átta sig á hvað áhrif á lofthita sólarorkuver sem þekur nokkra hektara hefur.
Þá má nefna náttúruauðlindirnar. Þær geta bæði verið ofanjarðar sem neðan. Ef við byrjum á náttúruauðlindum ofanjarðar er auðvitað fyrst að nefna ósnortna náttúru. Þar er til dæmis hálendið okkar efst. Það ber okkur að vernda og ekki með nokkru móti megum við fórna því undir vindorkuver. Okkur ber skilda til að skila þeirri náttúru eins góðri og mögulegt er til afkomenda okkar. Erlendis hefur ósnortinn skógur verið ruddur í stórum stíl, til að koma fyrir vind og sólarorkuverum. Jafnvel tekin mikilvæg ræktarlönd úr matvælaframleiðslu, í þessum tilgangi. Þetta er hættuleg stefna sem jörðin okkar þolir alls ekki. Þá er ótrúlegt að erlendir aðilar geti komið hingað til lands og sótt jarðveg í stórum stíl. Einu sinni var sungið "jörðin fýkur burt", nú getum við sagt jörðin er flutt burt.
Neðanjarðar orkulindir geta verð margvíslegar, en eiga flestar sammerkt að vera takmarkaðar. Nú er orðið ljóst að sumar þessar auðlindir hverfa hratt, einkum vegna aukinna framleiðslu rafmótora og battería. Hvað tekur við þegar þær auðlindir klárast, hvernig ætlum við jarðargbúar að útskýra fyrir afkomendum okkar að ekki sé lengur hægt að framleiða einföldustu hluti, af því við kláruðum þau hráefni sem þarf? Sumir nefna endurvinnslu og allir segjast endurvinna. Það er þó bara brot af því sem notað er, brot af því sem þarf. Sumt er erfitt eða útilokað að endurvinna, annað svo dýrt að það borgar sig ekki og oftar en ekki eru þessir hlutir bara urðaðir, með tilheyrandi mengunarhættu. Tökum sem dæmi batterí í rafbíla. Endurvinnsla þeirra er í mýflugumynd. Þó fullyrða flestir framleiðendur rafbíla að öll batterí séu endurunnin. Fyrir örfáum dögum var frétt erlendis um bruna þar sem stæður að úreltum batteríum brann. Það skondna, eða skelfilega við þá frétt var að safnstöðin var skammt frá endurvinnslustöð, en of dýrt var að láta endurvinna þau. Því fór sem fór.
Green economy, eða grín hagkerfi skilar ekki neinum verðmætum. Lifir á skattheimtu almennings. Það mun aldrei geta gengið upp til lengdar, sjáum þegar mikla hrörnun hagkerfis Evrópu, sem telur sig leiðandi í gríninu. Ég er ekki neinn hagfræðingur, en veit þó að ef ekki verður verðmætasköpun mun fljótt síga á ógæfuhliðina. Að höndla með peninga manna á milli, eða eyða peningum í einhvern óþarfa, mun tæma budduna. Það þarf alltaf einhverja verðmætasköpun og hún finnst hvergi í grín hagkerfinu, þvert á móti.
Þessi pistill er orðinn lengri en góðu hófi gegnir, en gæti verið mun lengri. Meginmálið er að einblínt er á einn þátt, þátt sem jörðinni er nauðsynlegur. Algjörlega horft framhjá öllum öðrum þáttum, sem sannarlega þarf nauðsynlega að taka á. Frekar unnið gegn jörðinni í stað þess að vera að bjarga henni. Með sama áframhaldi mun mannkynið eyða sér fyrir næstu aldamót!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:24 | Facebook
Athugasemdir
Þessi pistill er alls ekki of langur,geta má nærri hve þú hefur lagt mikinn tíma í hann og þannig lagt af mörkum ómældar stundir fyrir þau okkar sem viljum og verðum að benda á hann.Þannig upplýsum við hvert annað og fáum t.d.fleiri(er umhugað um þá ungu) til að lesa pistilinn.
Helga Kristjánsdóttir, 24.5.2025 kl. 23:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning