Bráðabirgðabrú

Ekki dreg ég í efa þörfina á göngubrú á þessum stað. En þarf mannvirkið að vera svona dýrt? Þarna á að byggja færanlega göngubrú, á íslensku kallast það bráðabirgðabrú. Brú sem á að fjarlægja í fyllingu tímans. Þarf bráðabirgðabrú að vera svona tilkomumikil og dýr?

Það er nokkuð víst að útreikningar verktakans eru nær lagi en Vegagerðarinnar, miðað við forsendur verksins. Þar á bæ hefur mönnum reynst einstaklega erfitt að áætla verkkostnað. Oftast eru áætlanir langt undir eðlilegum kostnaði. Verst er þetta þó þegar Betri samgöngur koma einnig að borðinu. Þá fyrst verða áætlanir út úr kú.

Aftur spyr ég, þarf þessi brú að vera svona tilkomumikil? Er ekki hægt að byggja bráðabirgðabrú fyrir minni pening? Eða er allt sem snýr að Betri samgöngum svo yfirdrifið og fáránlegt?

Minnumst aðeins brúarinnar yfir Fossvoginn. Brú sem einungis er ætluð örfáum landsmönnum en kostnaður margfaldur miðað við aðrar sambærilegar brýr sem eru byggðar og öllum heimilt að aka um. Sennilega sett heimsmet í hækkunum áætlana við þá framkvæmd, sem þó er enn á teikniborðinu. Heimsmet sem sennilega verða ekki nokkurn tímann slegið, nema kannski í einhverjum framkvæmdum á vegum BS, í framtíðinni.


mbl.is Göngubrú boðin út að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér hefur lengi þótt undarleg sú árátta að kvarta hástöfum yfir að framkvæmdakostnaður sé hærri en áætlanir. Sérstaklega þegar áætlanir mega ekki gera ráð fyrir fjórföldun á verðbólgu, þriðjungs hækkun á launakostnaði, þreföldun á efniskostnaði og vöxtum sem engum hefði dottið í hug. En það má víst búast við öllu þegar hér á landi teljast það hóflegar hækkanir þegar laun hækka um fjórfalt meira en þætti ríflegt en viðráðanlegt í nágrannalöndunum og fólk velur sér lánategund haldandi að það sé hagkvæmara að borga krónu á þessu ári en tvær eftir fjöritíu ár. Með réttu ætti strax að afnema reglur og margfalda allar áætlanir, því krónutölu kostnaður mun örugglega margfaldast, og birta þær tölur. Menn geta þá fagnað lægri framkvæmdakostnaði en áætlanir gerðu ráð fyrir ef vextir og laun verkamanna hafa ekki tvöfaldast á verktímanum.

En það að setja orðið bráðabirgða fyrir framan eitthvað lækkar ekki endilega kostnað. Brýr þurfa að bera og þola það sama hvort sem þær eru fastar, færanlegar eða aðeins ætlað að standa stutt.

Heimsmetið verður svo auðveldlega slegið næst þegar hér verður óðaverðbólga og vextir, laun og hráefni margfaldast í verði. Sem sennilega verður bið eftir sem telst í árum frekar en áratugum, lagist núverandi ástand á örfáum árum.

Vagn (IP-tala skráð) 31.3.2024 kl. 14:25

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Við sem höfum unnið við áætlanagerð megnið af okkar lífi, heyrum oft að Ísland sé svo einstakt að hér sé ekki hægt að gera áætlanir. Vinn líka með fólki í öðrum greinum sem einnig fær rök fyrir því að sú menntun og þekking sem það hefur aflað sér virki bara alls ekki á Íslandi, því hér gildi allt önnur lögmál. Hærri verðbólga og að hluta til hærri vextir hérlendis er fyrst og fremst vegna getuleysis í efnahagsstjórn hérlendis. Sem betur fer hefur orðið miklar framfarir í opinberum fjármálum hjá ríkinu á síðustu árum og mun markvissari vinnubrögð. Sömu framfarir þurfa að vera innan sveitarfélaganna. Dæmi um mjög óvönduð vinnubrögð er áætlanagerð varðandi svokallaða Borgarlínu. Þar kemur í ljós að illa hefur verið staðið að málum, og hækkanir langt umfram verðlag. Það má vel vera að við viljum fá brú milli Kópavogs og Reykjavíkur sem jafnframt er listaverk. Dæmi um slík mannvirki er t.d. Harpan og Perlan. Eftirá styð ég byggingu þessara mannvirkja þó dýr hafi verið. Vegamálastjori fór nýlega yfir byggingu á brúnni milli Reykjavíkru og Kópavogs og verðið virðist vera mjög eðlilegt miðað við að um sé að ræða listhönnunarmannvirki. Hvort slít sé nauðsynlegt eða ekki þarf að taka ákvörðun um. Bara ekki skýra margföldun á rauntöolum að það sé svo erfitt að gera áætlanir. 

Sigurður Þorsteinsson, 31.3.2024 kl. 22:06

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þó seint sé ætla ég að benda þér á Vagn að þó þú leggir saman allar þær kostnaðarhækkanir er þú nefnir og margfaldir þær með tveim eða þrem, er eftir sem áður lang stærsti hækkunar áætlunar við gerð Fossvogsbrúar óútskýrður. Ekki gleyma því að Í öllu þessu ferli hefur verið tekin ákvörðun um að hætta við notkun á gæðastáli og valið að velja um það bil helmingi ódýrara í staðinn.

Varðandi göngubrúnna yfir Sæbraut þá verður hún vissulega að vera traust. Málið snýst ekki um það heldur hitt hvort hún þurfi að vera svona tilkomumikil. Hvort ekki sé hægt að byggja það mannvirki einfaldar og jafnvel öruggara. Þessi brú er jú byggð til bráðabirgða, á að fjarlægjast þegar Sæbraut hefur verið færð í stokk.

Gunnar Heiðarsson, 5.4.2024 kl. 07:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband