Bókun 35

Þegar EES samningurinn var samþykktur af Alþingi í byrjun tíunda áratug síðustu aldar, var ákveðið að láta bókun 35 sitja eftir. Að öðrum kosti var ekki hægt að samþykkja þennan samning. Hann vó þegar það nærri stjórnarskránni okkar, að með bókun 35 hefði Alþingi ekki getað samþykkt hann. Þó náðist einungis minnsti mögulegi meirihluti á þingi fyrir samþykktinni.

Þessi samningur var fyrst og fremst um svokallað fjórfrelsi, þ.e. frjáls vöru og þjónustuviðskipti, frjálsir fjármagnsflutningar, sameiginlegur vinnumarkaður og frjáls för fólks milli landa aðildarríkja samningsins. Samningurinn var gerður milli EFTA ríkja og Evrópubandalagsins, sem var bandaleg nokkurra Evrópuríkja um sömu málefni. Skömmu síðar var síðan bandalaginu breytt og stofnar Evrópusambandið, þar sem þau ríki er innan þess voru juku mjög stjórnmálaleg samskipti sín. Sú þróun hefur síðan haldið áfram og nú svo komið að ríki sambandsins geta hvorki hreyft hönd né fót án samþykkis sambandsins. EES samningurinn var þó aldrei tekinn upp og endurskoðaður, þó þessi eðlisbreyting hafi orðið á öðrum aðila hans.

Fljótlega eftir að sambandið var stofnað fór að bera á vilja þess til að Ísland innleiddi bókun 35. Lengi framanaf var þessu haldið niðri og borið við stjórnarskrá. Margar ríkisstjórnir höfðu tilburði til að gera breytingar á stjórnarskránni, svo innleiða mætti þessa bókun. Hæst náði þessi viðleitni er ríkisstjórn Jóhönnu sat við völd. En hafðist ekki, sem betur fer.

Það er síðan fyrir um ári síðan sem varaformaður Sjálfstæðisflokks og þáverandi utanríkisráðherra, vekur upp þetta ólánsmál. Við ráðherraskiptin síðasta haust færðist svo málið á borð formanns Sjálfstæðisflokks. Það sætir furðu að formaður og varaformaður þess flokks er kennir sig við sjálfstæði, skuli vekja upp þennan draug, skuli vinna að því að skerða sjálfstæði þjóðarinnar. Engar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni svo hægt sé að innleiða þessa bókun, heldur látið sem svo að þetta komi henni ekkert við. Stjórnarskráin okkar er þó enn í fullu gildi og bókun 35 brýtur enn jafn mikið í bága við hana og á upphafsárum EES samningsins. Þar hefur engin breyting orðið önnur en sú að þingmenn og ráðherrar telja stjórnarskránna ekki lengur skipta máli.

Þeir sem eru komnir til vits og ára muna sjálfsagt hvernig umræðan var í þjóðfélaginu, áður en Alþingi samþykkti EES samninginn. Mikil umræða var um hann og eðli hans og innihald. Margir bentu á að þessi samningur gengi of nærri stjórnarskrá meðan aðrir töldu það sleppa. Auðvitað voru netmiðlar af skornum skammti á þeim tíma og ekki almennir eins og í dag. Því þurfti að treysta á prentmiðla og meta umræður og kappræður um málið á ljósvakamiðlum. Fáa landsmenn fann maður sem mæltu með þessum samningi, fylgið við hann var fyrst og fremst í sal Alþingis, auk þess sem menntaelítan sá þarna einhverja kosti. Þessi umræða var á stundum nokkuð hatrömm og óvægin og átti ekki að fara framhjá nokkrum manni.

Sá ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem endurvakti bókun 35 hefur auðvitað sér til varnar að vera enn í leikskóla er þessi umræða fór fram og því kannski ekki mikið tekið eftir henni. Annað mál gegnir með formann Sjálfstæðisflokk. Hann var kominn á þrítugsaldur og þar sem hann var nú einu sinni erfðaprins flokksins, hlýtur hann hafa verið farinn að fylgjast með pólitíkinni á þessum tíma. Hann ætti því að þekkja umræðuna, vita hvers vegna bókun 35 var haldið frá samningnum, vita að þessi samningur var samþykktur með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi og vita það að ráðamenn þorðu ekki að leggja þennan samning fyrir þjóðina, vitandi að hann yrði kolfelldur, rétt eins og í Sviss. Það var eina EFTA ríkið þorði að láta samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu og það er eina EFTA ríkið sem stendur utan hans.

 EES samningurinn var aldrei hugsaður sem stjórnmálalegt samband við Evrópubandalagið, síðar Evrópusambandið. Þessi samningur var fyrst og fremst um fjórfrelsið og þá aðallega um frjálsa verslun við ríki innan EES/EB(ESB). Það hjákotlegasta við þetta er þó það að af fjórfrelsinu er það einmitt sá leggur er við vorum að sækjast eftir, frelsi með viðskipti, sem síst hefur staðist. Okkar útflutningsvörur eins og fiskur og matvæli er fjarri því að vera frjáls til sölu innan þeirra ríkja er að samningnum standa, eru reyndar mjög heft. Önnur atriði fjórfrelsisins eru hins vegar opnari en við getum ráðið við. Frjáls fjármagnsflutningur gerði landið gjaldþrota eftir að stórglæpamenn náðu höndum á bankakerfinu okkar og spiluðu rassinn úr buxunum. Frjáls för fólks er svo óheft að hingað koma hverjir þeir sem vilja, hvort sem við teljum þá velkomna eða ekki, Jafnvel stórglæpamenn í sumum tilfellum. Frjáls vinnumarkaður hefur sjálfsagt hjálpað einhverjum ævintýramönnum að fá vinnu erlendis, en á móti flæðir hingað ódýrt vinnuafl hvaðanæva úr Evrópu, oftar en ekki á vegum erlendra vinnumiðlara sem borga skammarleg laun.

Það sem þó verst er, er að ESB hefur sífellt verið að auka allskyns reglusetningar hér á landi, sem koma okkur í sjálfu sér ekki við en kosta okkur mikla peninga. Þar er af nógu að taka og of langt mál að telja. Þetta gerist þrátt fyrir að EES samningurinn hafi aldrei verið hugsaður sem stjórnmálaleg tengsl.

Verði þessi bókun samþykkt á Alþingi, eins og allt bendir til, mun sjálfstæði þjóðarinnar falla. Stjórnarskráin, sem á að verja okkur fyrir misvitrum þingmönnum, verður einskinýtt plagg. Alþingi verður stofnun sem tekur við tilskipunum frá ESB og gerir að lögum. Dómskerfið fer í uppnám.

Við verðum aftur hjálenda erlendra ríkja. Til hvers var þá barist fyrir sjálfstæði? Og hvers vegna var Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður?!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hverjum heilvita manni datt í hug að Sjálfstæðisfokkurinn væri sofnaður,má glettast smá? las þetta svona grútsyfjuð.

Helga Kristjánsdóttir, 27.2.2024 kl. 01:49

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það á kannski betur við, Helga.

Gunnar Heiðarsson, 27.2.2024 kl. 05:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband