Alveg ga, ga ....

Þegar Alþingi samþykkti samgöngusáttmálann við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og stofnaði í framhaldinu betri samgöngur ohf. lágu ákveðnar tölur fyrir um áætlaðan kostnað við verkefnið. Í þeim tölum var talað um að kostnaður við brú yfir Fossvoginn myndi kosta um 2,25 milljarða króna, eða svipað og brúin yfir Þorskafjörð. Að lagt hafi verið upp með að kostnaðurinn yrði um 5 milljarðar, eins og forstjóri Vegagerðarinnar heldur fram, er því hrein sögufölsun. Vel getur verið að á einhverjum tímapunkti hafi áætlanir um kostnað brúarinnar verið um 5 milljarðar, enda virðist þetta mannvirki hækka í hvert sinn sem minnst er á það. Sem dæmi voru áætlanir um kostnað brúarinnar um 7,5 milljarðar á haustdögum síðasta árs, en kominn í 8,8 milljarða eftir áramót.

Hækkun frá 5 milljörðum í tæpa 9 er mikil hækkun, en staðreyndin er hins vegar sú að hækkunin er frá rúmum 2 milljörðum króna upp í tæpa 9 milljarða nú. Og það er ekki enn farið að bjóða verkið út. Hver endanlegur verðmiði á þessari brú verður er enn skrifað í skýin, en þó ljóst að hann verður töluvert hærri en núverandi áætlun hljóðar uppá.

Brúin yfir Þorskafjörðinn er ætluð allri umferð, verður öllum opin. Brúin yfir Fossvoginn er hins vegar ætluð mjög litlum hluta fólks, eða einungis borgarlínuvögnum auk hjólandi og gangandi fólki. Ef bjartsýnustu spár rætast varðandi borgarlínu munu um 10 - 12% fólks sem ferðast um höfuðborgarsvæðið, ferðast með borgarlínu. Hversu stór hluti þess mun svo aftur fara um þessa tilteknu brú er ráðgáta. Öll umferð um sunnanverða Vestfirði mun hins vegar fara um brúnna yfir Þorskafjörðinn.

Því er spurning; hvers vegna er ríkið og vegagerðin að vasast í rándýrri framkvæmd sem kemur einungis örlitlum hluta landsmanna að gagni og einungis ef ferðast er á tiltekinn hátt. Allir þeir fjármunir er ríkið leggur til framkvæmda, ekki síst ef þeir fara gegnum einhverja undirstofnun þess, eiga að nýtast öllum. Að allir geti nýtt sér bót þeirrar framkvæmdar. Og allar framkvæmdir sem ríkið fjármagnar eiga að vera gerðar á þann hátt að öryggi sé framar fagurfræðinni. Ég er ekki að segja að Fossvogsbrúin uppfylli ekki skilyrði um öryggi, þekki það ekki. Hins vegar er ljóst að langstærsti hluti kostnaðar við brúnna kemur til af fagurfræði. Það er ekki ásættanlegt, þegar verið er að höndla með þá fjármuni sem okkur er skylt að leggja í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar, ríkiskassann.

Varðandi sjálfan samgöngusáttmálann, þá er hann fallinn, löngu fallinn. Þar hefur ekki ein einast framkvæmd staðist þann kostnað er upp var lagt með er Alþingi samþykkti hann. Reyndar langt frá því. Undrun sætir hvað þingmenn eru hljóðir. Virðist sem einungis einn flokkur á Alþingi láti sér þetta mál varða, standi vörð um hvernig okkar fjármunum er ráðstafað.

Samningur er samningur og ef annar aðilinn ekki stendur við sinn þátt þess samnings, fellur hann sjálfkrafa. Því er næsta verk Alþingis að slíta því opinbera hlutafélagi er það stofnaði, til að sjá um framkvæmd þess fallna samnings.


mbl.is Útlit brúarinnar kostar skildinginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér er fyrirmunað að skilja þessa þráhyggju valdhafa að allir sem setjast upp í bíl eða stætó hafi það eina markmið að fara á Austurvöll.  99,99% þeirra sem ferðast innan borgarmarkanna eru ekki á leiðinni á Austurvöll heldur á leið í vinnuna sem getur verið hvar sem er.

Þetta brúarskrípi virðist vera hannað fyrir alla 3 Kópavogsbúanna sem eiga erindi á Austurvöll.

Bjarni (IP-tala skráð) 25.2.2024 kl. 13:03

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Hvaða heilvita manni dettur í hug að reisa brú fyrir fleiri milljarða sem eingöngu er ætluð þein sem eru að viðra hundinn sinn á kvöldin? Er ekki bílahatrið dýru verði keypt? 

Júlíus Valsson, 26.2.2024 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband