Abrakadabra
27.10.2023 | 10:30
Það er sorgleg staðreynd að horfa upp á landbúnað leggjast af hér á landi. Honum blæðir út og ráðherra málaflokksins ætlar að skipa starfshóp! Hún telur hægt að leysa vandann með einhverjum göldrum. Ætla ekki að segja hér hvaða viðurnefni slík kvendi hafa.
Bráðavandinn nú er hrópandi og verður ekki leystur á annan hátt en þann er nágrannalönd okkar gera, með auknum greiðslum til matvælaframleiðslunnar. Engin önnur leið er til lausnar bráðavandans.
Stóri vandinn er hins vegar nokkuð flóknari, eða hvað? Nei, stóri vandinn í matvælaframleiðslu hér á landi er í raun sára einfaldur. Það þarf engan starfshóp til að sjá hver vandinn er, einungis örlitla skynsemi í kollinn. Og rétt eins og með bráðavandann verður stóri vandinn ekki leystur með því einu að ráðherra kyrji í sífellu abrakadabra. Sama hversu fjölkyngjuð hún er.
Það kostar að framleiða matvæli. Þá staðreynd þarf að viðurkenna. Þá er hægt að huga að lausnum, ekki fyrr. Þar eru í raun einungis tvær leiðir. Sú að fara sömu leið og nágrannaþjóðirnar og niðurgreiða matvæli til neytenda, eða fara hina leiðina, að láta neytendur greiða þann kostnað úr eigin vasa.
Fyrri leiðin kallar á viðurkenningu þess að búskapur er landinu nauðsynlegur. Ástandið í heiminum í dag kallar á að hver þjóð sé sér eins trygg um eigið matvælaöryggi og framast verður. Stjórnmálamenn nefna þetta gjarnan við hátíðleg tækifæri, þó minna sé um sjálfan skilning þeirra á eigin orðum. Matvælaöryggi er ekki bara falleg orð á blaði, matvælaöryggi fæst einungi með því að bændum sé gert mögulegt að framleiða mat.
Eins og áður segir þá hafa nágrannaþjóðir okkar valið þá leið að greiða niður mat til neytenda. Þar þarf Ísland að vera á sama báti, sömu niðurgreiðslur þarf hér, að lágmarki. En það dugir þó ekki eitt og sér. Rekstrarumhverfi hér þarf einnig að vera sambærilegt eða betra en í nágrannalöndunum. Í dag er himinn og haf þar á milli, þar sem regluverk hér á landi hefur farið algerlega úr böndum.
Allan innflutning á matvöru, sem hægt er að framleiða hér á landi, á að banna. Einungis flytja inn þá matvöru sem ekki hægt að framleiða hér og þá einungis frá þeim löndum sem gera sömu kröfur til matvælaframleiðslu og vinnslu og hér er. Annað mun aldrei getað skilað árangri í marvælaframleiðslu hér á landi. Meðan fluttar eru inn erlend matvæli, framleidd við mun minni kröfur en hér, eru bragðbætt með ýmsum "hjálparefnum" s.s. hormónum og pensillíni, er ljóst að stjórnmálamenn meina lítið með orðum sínum um matvælaöryggi. Það er útilokað að íslenskum bændum sé mögulegt að keppa á svo skökkum markað.
Kannski sést best hversu skökk þessi samkeppni er í því að þegar minnsti vafi er um hvort byrgðir lambakjöts dugi til næstu sláturtíðar, er heimilaður flutningur á lambakjöti yfir hálfan hnöttinn til Íslands. Verslun og þjónustu er í lófa lagið að búa til slíkan ímyndaðan skort, með því einu að leigja nokkra frystigáma í upphafi sumars. Ætla ekki að halda því fram að það hafi verið gert, en vissulega er það auðveld aðgerð. Til þess eins að flytja inn gamalt kjöt yfir hálfann hnöttinn, kjöt sem hægt er að fá fyrir nánast ekki neitt erlendis og selja á uppsprengdu verði hér á landi. Enginn efast um hag verslunar og þjónustu af slíkum innflutningi, þó víst sé að verðið erlendis muni fljótt hækka ef sauðfjárrækt leggst af hér á landi.
Verði ekki gripið strax í taumana og ráðist af fullum krafti í lausn vandans, fyrst bráðavandans og í kjölfarið hinn raunverulega vanda, ef bændum verður ekki gert fært að framleiða matvæli hér á landi, munum við brátt sjá alla kjötframleiðslu leggjast af. Mjólk verður áfram framleidd en allar aukaafurðir mjólkur mun leggjast af. Örfá stór mjólkurbú munu standa eftir, sem næst helstu þéttbýliskjörnunum, til að framleiða einungis mjólk fyrir landann.
Gleymum ekki þeirri staðreynd að íslenskar landbúnaðarafurðir eru þær hreinustu í öllum heimi. Hér er hægt að auka framleiðsluna og bæta fjölbreytni hennar. Innflutningur gæti þess vegna minnkað verulega, með tilheyrandi sparnaði á gjaldeyri, gjaldeyri sem við erum svo háð.
En til þess verðum við að viðurkenna að það kostar að framleiða matvæli og til að svo megi vera þarf að gera bændum kleyft að rækta sín bú af stolti, gera bændum kleyft að geta tekið á sig skammvin áföll eins og t.d. okurvaxtatilburði stjórnvalda. Sá bráðavandi er nú he3jar að bændum, vegna þeirrar okurvaxtastefnu, er nefnilega bein afleiðing hins raunverulega vanda sem hefur aukist stig af stigi síðustu hálfa öld, eða svo.
Vandinn að fólk telur matinn verða til í hillum verslana, vandinn að þjóðin þekkir ekki hin raunverulegu verðmæti og auðvitað sá vandi að jafnvel ráðherrar hafa ekki meiri skilning á málinu en svo að telja bændur vera hobbýista!
Það er sama hversu fjölkyngjuð ráðherra landbúnaðarmála er, hún mun ekki getað galdrað vandann burtu, jafnvel ekki með aðstoð einhvers starfshóps.
Ríkiskassinn verður ekki opnaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.