Stórmennskan söm við sig

Það hefur aldrei skort stórmennskuna í okkur landsmenn. Eitt sinn áttum við mestu og bestu fjármálasnillinga heims. Landinn dýrkaði þessa menn sem nýja guði, stjórnmálamenn, listafólk, menntafólk og bara hver sem vildi láta að sér kveða, kepptust við að komast í mjúkinn hjá þessum snillingum. Erlendis var hlegið að okkur, enda vissu menn þar að þetta gæti aldrei gengið upp. Það fór líka svo, þessir snillingar voru bara alls engir snillingar. Voru bara skúrkar sem komust yfir bankakerfið og öll stærstu fyrirtæki landsins, sem landsmenn höfðu byggt upp í sveita síns andlits. Þessu offruðu hinir svokölluðu snillingar og settu landið nánast á hausinn. Ætla mætti að þetta hefði kennt okkur eitthvað. Svo er þó ekki að sjá.

Stórmennskan er enn söm. Að vísu fer minna fyrir fjármálasnillingunum, sem fórnuðu auð landsins. Þeir vinna nú á bak við tjöldin, eru hægt og sígandi að leggja undir sig því sem bjargað var og byggt upp, af því sem þeir sóuðu. Þá eru þessir menn duglegir við landsölu til erlendra auðmanna, og ráðast þar gegn sjálfri náttúrunni.

En stórmennskan er víðar á ferð. ekki hvað síst innan stjórnmálastéttarinnar. Þar er okkur landsmönnum talin trú um að við getum verið svo ofboðslega mikið leiðandi og góð fyrirmynd á erlendri grundu, í því verkefni að bjarga heimsbyggðinni! Ráðherrar keppast við að lofa því sem útilokað er að standa við, væntanlega til að koma sér í mjúkinn hjá einhverjum erlendum stórmennum. Sendar eru fjölmennir hópar fólks til útlanda að taka þátt í hinum ýmsu ráðstefnum. Þar telur þetta fólk sig hafa einhver áhrif. Enn á ný verðum við aðhlátursefni á erlendri grundu.

Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að við erum örþjóð sem býr á afskekktri eyju við ystu mörk þess byggilega? Hvenær ætla ráðamenn að skilja það að við eigum nóg með okkur sjálf, getum ekki fórnað neinu til erlendra afla nema því aðeins að herða sjálf verulega sultarólina? Þar er ekki mikið borð fyrir báru hjá almenningi!

Við eigum nóg með okkur. Gætum lifaða ágætu lífi hér á landi ef stórmennskunni er hafnað. Þekking er almennt ágæt, en fjarri því að við getum verið að segja að við höfum einhverja afburða þekkingu, umfram aðrar þjóðir. Þjóð sem skilar stórum hluta barna út úr skyldunámi, ólæsu, getur ekki státað sig af afburðaþekkingu á einhverjum sviðum. Og ekki er menntakerfið neitt sérlega hátt metið á alþjóðavísu, þegar að framhaldsmenntun kemur. Háskólar hér komast vart á blað í þeim samanburði. Allt sem við þekkjum og vitum er vitað erlendis. Það er fyrir löngu búið að finna upp hjólið.


mbl.is „Við erum og getum verið öflug fyrirmynd annarra þjóða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband