Það er betra að sólin sýni sig
2.10.2023 | 17:37
Borgarfulltrúi heldur því fram að Norðmenn geti framleitt allt að 3,3 Terawöttum rafmagns með sólarorku, einungis með því að setja slíkar sellur á þök sín. Ef við gefum okkur að þetta sé rétt, þá ættum við landsmenn að geta framleitt tæplega kvart terawatt á okkar þökum. Norðmenn eru jú nærri 5,5 milljónir talsins, meðan við Íslendingar teljum tæp 400 þúsund hræður.
Líklegra er þó að borgarfulltrúinn hafi eitthvað ruglast á tölum eða táknum. Sólarselluframleiðendur gefa flestir upp framleiðslugetu á hvern fermeter sólarsellu, um 300 Wött. Sumir halda því fram að þetta muni aukast í framtíðinni, að ný og betri tækni sé handan við hornið! Þessar tölur miðast við lönd þar sem sól skín skærar en hér á Íslandi. Fara þarf nokkuð norður fyrir Þrándheim til að komast á sömu breiddargráðu og Reykjavík er á.
Ok., gefum okkur nú að Norðmenn geti framleitt 3,3 TW af rafmagni með sólarsellum á húsum sínum. Það segir að hver einstaklingur í Noregi hefur yfir höfði sér um 2000 fermetra af þaki, fjögurra manna fjölskylda um 8000 fermetra. En það segir þó ekki alla söguna. Ef gott ris er á þakinu, sem svo gjarnan er á norskum húsum, nýtist ekki nema helmingur þess til orkuöflunar. Þá þarf fjögurra manna fjölskyldan að hafa um 16000 fermetra yfir höfði sér!
Ekki veit ég hvort reiknað hafi verið hver meðal fjöldi fermetra af þaki tilheyri hverri persónu eða fjölskyldu hér á landi. Það er ekki mikið og fer lækkandi vegna þéttingarstefnu Reykjavíkurborgar, þar sem hús eru nú byggð upp í loftið, hvert ofaní öðru, til að fá sem flestar íbúðir á hvern fermeter lands. Kannski má ætla að í Reykjavík sé þetta kannski að meðaltali 50 fermetrar á hverja fjögurra manna fjölskyldu, sennilega nokkuð vel áætlað. Það segir að hægt væri að framleiða með þessum hætti 0,0000105 TW, þegar sólin skín. Kannski eitthvað meira en meiri líkur á að það yrði minna.
Varla mun það breyta miklu, hvort heldur er til orkuskiptanna eða í vasa húseigenda. Auðvitað munu þeir sem svo vel búa að eiga stór einbýlishús geta framleitt mest, meðan leigutakar í austantjaldsbyggingum sem nú eru byggðar eru af miklum móð, njóta einskis.
Ég verð að segja að ég tel þá ríku alveg geta greitt sjálfir fyrir að elta sólina, ríki eða borg þarf ekkert að styrkja þá.
Þegar eitthvað hljómar of ótrúlegt til að geta verið satt, er það yfirleitt ekki satt.
Gæti annað allri orkuþörf heimila | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.