Kringlótta Kjalarnesið

Ætla að hafa jákvæðnina í fyrirrúmi og ræða fyrsta kosti þessarar veglagningar. Í upphafi var kynnt að þarna skyldi lagður svokallaður 2+1 vegur, það er tvær akreinar í aðra áttina og ein í hina. Niðurstaðan varð hins vegar 1+1+2+2+1+1, þ.e. þjóðvegurinn sjálfur verður með tvær akreinar í hvora átt og beggja vegna hans hliðarvegir með einni akrein í hvora átt. Nokkuð vel í lagt en alveg hreint með ágætum, enda fráleitt að endurbyggja þennan veg, þar sem umferð eykst með hverju ári, sem 2+1 veg.

Þá kemur neikvæðnin, eða göllum þessarar framkvæmdar. Þar er fyrst að nefna öll hringtorgin. Fátt er eins mengandi og hringtorg, sér í lagi af umferð stórra bifreiða. Að hægja bíl frá 90 km hraða niður í nánast ekki neitt og vinna síðan bílinn aftur upp í hámarkshraða, til þess eins að hægja hann niður aftur, mun valda slíkri mengun að fátt í nútímanum mun toppa það. Á þessum vegkafla sem verið er að klára núna er eitt hringtorg, en tvö á þeim kafla sem unnið verður að síðar. Samtals munu því hringtorgin á Kjalarnesinu verða þrjú og spurning hvort það fjórða bætist síðan við þegar Sundabraut tengist veginum. Hvergi í veröldinni, ekki einu sinni Frakklandi, vöggu hringtorganna, er hringtorg sett á þjóðveg. Hringtorg eru umferðamannvirki sem hægt er að nota innanbæjar, til að liðka um umferð og gjarnan einnig sett við aðkomu að þéttbýliskjörnum, til að hægja á umferð. Að setja hringtorg á þjóðveg þar sem umferð getur verið hindranalaus, er fráleitt.

Það sem gerir þó þessi hringtorg enn fráleitari er að á þeim kafla sem nú er að klárast eru tvö aksturs undirgöng og alls verða þau fjögur. Hliðarvegir verða með þjóðveginum allt frá Kollafirði að vegamótum til Hvalfjarðar.

Ekki einu sinni hefði það verið skynsamlegra, heldur einnig mun ódýrara, að nýta þessi undirgöng sem mislæg gatnamót. Einungis þurft að bæta við að og fráreinum við þau, tengja þau við sjálfan þjóðveginn. Þá hefði verið hindrunarlaus og mun minna mengandi umferð eftir sjálfum þjóðveginum. 

Hvers vegna þessi leið er valin, að setja niður algerlega óþörf og mengandi hringtorg á veg sem svo auðvelt var að hanna án hringtorga, er mér hulið. Komu skipulagsyfirvöld sveitafélagsins eitthvað þar að máli?  Í það minnsta er næsti kafli vegarins, frá Hvalfjarðargöngum til Borgarness hannaður án slíkra mengunarvalda. Þar er annað sveitarfélag og önnur skipulagsnefnd. Í þeirri hönnun, sem sjá má á vef Vegagerðarinnar, eru einungis tvö hringtorg og þau á hliðarvegum. Ein mislæg gatnamót eru ætluð þar en vonandi verða umferðaþyngstu gatnamótin einnig verða gerð mislæg í stað té gatnamóta.  En þetta er saga framtíðar, sem þó segir okkur að það virðist skipta máli hvaða sveitarfélag þarf að fara um. Í nútíma erum við enn stödd á hálfu og fljótlega kringlóttu Kjalarnesinu.

 


mbl.is Opna veginn um Kjalarnes í júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Vegir guðs eru órannsakanlegir, svo er spurning hvort það hefur eitthvað hringlað úrskeiðis á milli eyrnanna á einhverjum lattelepjandi og Kjalarnesið þá hringlótt en ekki kringlótt eftir allt saman.

Magnús Sigurðsson, 12.5.2023 kl. 16:46

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

 Hringla e[a kringla, /a[ er spurning Magnús.

Gunnar Heiðarsson, 12.5.2023 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband