Anað stjórnlaust út í fenið

Það er hverju orði sannara að grípa þarf til aðgerða gegn verðbólgunni. Hvað skal gert og af hverjum, er aftur stór spurning.

Það sýnt sig að aðgerðir Seðlabankans eru ekki að virka, reyndar frekar að auka vandann og búa til snjóhengju sem mun síðan falla með skelfilegum afleiðingum. Ástæðan er einföld, hin séríslenska mæling verðbólgu. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er kostnaður vegna kaupa og leigu húsnæðis hluti þessarar séríslensku mælingu, eitthvað sem ekki þekkist hjá samanburðarlöndunum. Þetta gerir mælingu verðbólgu hér mun hærri en ytra.

Vaxtahækkanir leiða til hækkunar á húsnæði, einföld staðreynd. Því leiðir vaxtahækkun til aukinnar verðbólgu. Einnig einföld staðreynd. Seðlabankinn horfir hins vegar til þess að aukin sala húsnæðis auki verðbólgu. Vissulega er staðreynd þar einnig að baki, en einungis ef ofþensla er í byggingu íbúðahúsnæðis. Þegar skortur er á húsnæði, virka vaxtahækkanir öfugt. Þá leiðir skortur á húsnæði til þess að verð hækkar enn frekar. En vaxtahækkanir minnka sannarlega umsvif í þjóðfélagin, einkum byggingar á húsnæði. Þegar skortur er til staðar þegar vaxtahækkunum er beitt, leiðir það til enn frekari skorts.Snjóhengju sem mun falla.

Fólk þarf einhversstaðar að búa. Fyrir ekki svo löngu benti seðlabankastjóri á að fólk gæti búið lengur hjá foreldrum sínum. Staðan er hins vegar orðin sú að oftar en ekki þurfa barnabörnin einnig að lifa inn á foreldrum foreldra sinna og styttist í að barna barna börnin þurfi að auki að búa í húsum foreldra foreldra foreldra sinna. Þetta er auðvitað fráleit nálgun seðlabankastjórans. Að koma í veg fyrir að ungt fólk geti komið sér upp heimili og að fasteignaviðskipti milli fólks, er engin lausn verðbólgunnar.

Því þarf Alþingi að breyta lögum á þann veg að peninganefnd Seðlabankans noti sambærilega verðbólgumælingu og aðrar þjóðir, að kaup og leiga á húsnæði verði afnumin úr mælingunni. Seðlabankinn þarf einnig að fara hóflegar í að setja hömlur á bankana til að lána fyrir slíkum kaupum. Það er alveg sérstakt umhugsunarefni að hægt sé labba inn í næstu bílaverslun og kaupa þar bíl með stóran hluta verðsins tekinn að láni, láni sem er afgreitt á staðnum gegnum síma, meðan fólk getur ekki keypt sína fyrstu fasteign nema eiga margar milljónir inn á bók. Að hægt sé að kaupa járnarusl sem verður verðlaust á örfáum árum en er meinað að kaupa sér fasteign sem eikur verðgildi sitt. Þetta er náttúrulega galið.

Þá er vandséð hvernig vaxtahækkun á þegar útgefin lán geti unnið gegn verðbólgunni. Lán sem fólk tekur í góðri trú og er borgunarhæft fyrir, samkvæmt þeirri stöðu sem ríkir er lánið er tekið. Það getur ekki hætt við lánið, nema með því einu að selja fasteignina. Aðgerðir Seðlabankans koma hins vegar í veg fyrir það, svo þetta fólk sér ekki fram á neitt annað en gjaldþrot. Vaxtahækkanir til að halda niðri verðbólgu mega aldrei gilda á önnur lán en þau sem tekin eru eftir að vaxtahækkunina. Þarna þurfa stjórnvöld einnig að koma inn í með lagasetningu. Að treysta á samfélagsábyrgð bankana er eins og að treysta á Satan til að komast gegnum gullnahliðið.

Stjórnvöld hæla sér hins vegar að því að hafa hækkað húsaleigubætur. Það er þeirra framlag og ekkert annað. Hækkun húsaleigubóta hefur ætíð sýnt sig í hækkun húsaleigu og þar með aukinni verðbólgu. Virkar þver öfugt.

Stjórnvöld þurfa auðvitað fyrst og fremst að draga úr sínum rekstri. Leggja áherslu á að halda grunstoðunum gangandi en hætta öllu öðru.
Þar má af mörgu taka, sumu smáu eins og látlausum ferðalögum ráðamanna til annarra landa, öðru stærra eins og minnkun  eð öllum þeim nefndum, stofnunum og blýantsnögurum ríkisbáknsins sem ekkert gera nema sjúga fjármuni úr ríkissjóð. Skila engum verðmætum til baka.

Þegar í harðbakkann slær, eins og nú gerist hér á landi með því að verðbólgan er hærri en við viljum sjá, er grundvöllurinn að skoða hvað veldur og reyna að taka á því. Kaup og leiga á húsnæði er ekki vandamál þjóðarinnar, eða ætti ekki að vera það. Sá vandi er algerlega heimatilbúinn. Vandinn liggur fyrst og fremst vegna utanaðkomandi aðstæðna og svo í kjölfarið hækkanir á öllu hér á landi í framhaldi af því. Nú fer verð vöru og þjónustu lækkandi erlendis með tilheyrandi lækkun verðbólgu. Það er mikilvægt að þessar lækkanir skili sér hingað til lands. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er fá vara framleidd hér á landi sem er ekki háð erlendum aðföngum. Meðan erlend aðföng lækka ekki til samræmis við lækkun erlendis, mun ekki vera hægt að taka á verðbólgunni hér á landi. Þetta er einföld staðreynd sem jafnvel seðlabankastjóri skilur. Að treysta á einhverja samfélagslega ábyrgð innflytjenda hefur ætið sýnt sig vera draumórar.

Aðgerðir Seðlabankans hafa hins vegar skilað bankakerfinu gífurlegan gróða. Aðgerðir stjórnvalda hafa fitað leigusala meira en þeim er hollt. Og aðgerðaleysi stjórnvalda hafa fitað þau fyrirtæki sem hafa getað nýtt sér þetta ástand til að sjúga fé af fólki.

Þegar vaðið er út í fenið er einungis um tvo möguleika að ræða, að halda áfram og sökkva til dauðs, eða snúa til lands og finna betri leið. Þetta þurfa stjórnvöld og peningastefnunefnd að gera upp við sig. Ætla þau að halda áfram út í fenið, eða snúa til baka og finna betri leið?


mbl.is „Grípa þarf strax til raunverulegra aðgerða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er mjög góður pistill.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 9.5.2023 kl. 10:57

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Þar sem sífellt er verið að tönglast á að ríkisstjórnin geri aldrei neitt þá er mér spurn hvaða aðgerðir þetta séu

"Aðgerðir stjórnvalda hafa fitað leigusala meira en þeim er hollt"

Grímur Kjartansson, 9.5.2023 kl. 11:06

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Frábær pistill.

Sérstaklega þetta hér: "Þá er vandséð hvernig vaxtahækkun á þegar útgefin lán geti unnið gegn verðbólgunni. ..."

Nýlega var forsætisráðherra spurð á Alþingi: Hvaða áhrif hafa hækkanir vaxta þegar tekinna lána á peningamagn í umferð?

Rétt svar er auðvitað engin, en svarið frá ráðuneytinu var svona:

"Hækkun vaxta veldur að jafnaði hækkun vaxta á sparnaði og útistandandi skuldum á breytilegum vöxtum. Þannig er dregið úr vilja og getu heimila og fyrirtækja til að stofna til meiri skulda um leið og ýtt er undir meiri sparnað og hraðari uppgreiðslur útistandandi lána. Hærri vextir hafa einnig óbein áhrif þar sem efnahagsumsvif verða minni og ráðstöfunartekjur lægri. Áhrif þessara þátta eru að öðru óbreyttu til þess að draga úr vexti peningamagns í umferð og létta á undirliggjandi verðbólguþrýstingi."

Sem er alls ekki svar við því sem var spurt um.

Einnig var spurt: Hvaða áhrif hafa lánveitingar lífeyrissjóða á peningamagn í umferð?

Við þessu fékkst reyndar mun betra svar en við hinni:

"Þegar innlánsstofnun veitir lán verður samtímis til nýtt samsvarandi innlán og þannig eykst peningamagn. Það sama á ekki við þegar lífeyrissjóður veitir lán þar sem sú fjárhæð sem er lánuð var áður hluti af innlánum lífeyrissjóðsins eða bundin í öðrum fjárfestingum. Útlán lífeyrissjóða hafa þannig ekki sömu beinu áhrif á peningamagn og þegar innlánsstofnun veitir lán."

Þarna er semsagt komin frábær leið til að minnka verðbólguna (sem réttu nafni heitir útþensla peningamagns - "inflation of the money supply"). Allir landsmenn sem eru með húsnæðislán frá banka ættu nú þegar að endurfjármagna þau með sjóðfélagalánum frá lífeyrissjóðum (langflestir eiga lántökurétt í einhverjum slíkum). Við það myndi verða skarpur samdráttur á peningamagni í umferð og verðbólga hjaðna, án þess að það þurfi að kosta almenning mikið. Bankarnir myndi reynda verða af talsverðum vaxtatekjum en þeir hafa nú þegar fengið miklu meira en nóg af þeim. Í staðinn færu þær vaxtatekjur til lífeyrissjóða og yrðu þannig sjóðfélögunum (almenningi !) til góða í framtíðinni.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.5.2023 kl. 17:30

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Að ekki sé minnst á lokaorð hans félagar.

"Aðgerðir Seðlabankans hafa hins vegar skilað bankakerfinu gífurlegan gróða. Aðgerðir stjórnvalda hafa fitað leigusala meira en þeim er hollt. Og aðgerðaleysi stjórnvalda hafa fitað þau fyrirtæki sem hafa getað nýtt sér þetta ástand til að sjúga fé af fólki.

Þegar vaðið er út í fenið er einungis um tvo möguleika að ræða, að halda áfram og sökkva til dauðs, eða snúa til lands og finna betri leið. Þetta þurfa stjórnvöld og peningastefnunefnd að gera upp við sig. Ætla þau að halda áfram út í fenið, eða snúa til baka og finna betri leið?".

Þetta er eitthvað svo augljóst að maður er hugsi yfir að þurfa lesa þessi orð eftir skarpgreinda menn í netheimum, en þeir sem stjórna okkur og leiða, virðast fyrirmunað að orða eitthvað í líkingu við þetta.

Aðeins innantómt blaður á sjálfsstýringu.

Hafðu mikla þökk fyrir Gunnar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.5.2023 kl. 19:30

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Vextir í útlöndum hækka líka.  Sömu afleiðingar.  En það batar, vegna þess að ég veit ekki betur en að allt Íslenska kerfið, líka megnið af sveitarfélögunu séu rekin á lánum.

Og færri og færri vilja lána Íslenskum bönkum, og sennilega líka ríkinu og sveitarfélögunum.

Það verður áhugavert að sjá hvað þeir gera þegar þeir fá engin lán, og allir vilja fá greitt til baka.

Þetta er ekki IceSave núna.  Þetta er dáldið annað.

Ásgrímur Hartmannsson, 9.5.2023 kl. 20:07

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka ykkur athugasemdirnar.

Ástandið er alvarlegt, svo ekki sé meira sagt. Fjármálaráðherra er duglegur við að tala um að vanskil í bönkum séu lítil. Það er ekki mælikvarði, þar sem flestir láta afborganir af lánum fyrir húsnæði ganga fyrir og skera allt annað niður fyrst. Ef bíða á eftir að vanskil aukist er vandinn kominn í þær hæðir að viðsnúningur verður vart til staðar. Fjöldi fjölskyldna mun þá lenda á götunni.

Leiguhafar eru þó í enn verri stöðu, þar sem engar hömlur virðast vera á hvað leigusalar geti hækkað sína leigu. Þegar fólk er farið að borga hátt í þrjú hundruð þúsund krónur á mánuði fyrir íbúð sem er um 70 fermetrar, er eitthvað stórt að. Það fólk mun seint geta safnað fyrir útborgun til húsnæðiskaupa.

Á fundi hjá efnahags og viðskiptanefnd í gær, sagði seðlabankastjóri að hann sæi þversögnina í því að hækka vexti meðan skortur væri á húsnæði. Beindi því til sveitarfélaga að ráða þar bót á. Það er gott að hann sjái þversögnina, en hvernig geta sveitafélög lagað það? Þau deila út lóðum og mættu vissulega vera duglegri við það. En þegar vextir eru hækkaðir breytir það litlu, reyndar þegar komin upp sú staða að sveitarfélög losna ekki við byggingalóðir. Ástæðan er auðvitað sú að erfitt er að fá lánsfé og það sem fæst er á okurvöxtum. Það gerir húsnæðið enn dýrara, í ofanálag við markaðsskortshækkanir.

Þversögn er þversögn og hún verður aldrei löguð nema með því að taka það burtu sem myndar þversögnina. Eins vel ættaður og þokkalega gefinn og seðlabankastjóri er, ætti hann að átta sig á þeirri staðreynd.

Gunnar Heiðarsson, 10.5.2023 kl. 07:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband