Blekkingar á blekkingar ofan

Þá er yfirferð umhverfisráðherra um landið hafin. Ferð til að sá sem mestum blekkingum í huga fólks, svo liðka megi fyrir stórmengandi og algjörlega óafturkræfum vindorkuverum. Þar skiptir ekki sannleikurinn máli, einungis blekkingar.

Fyrst þegar ráðherra kynnti skýrslu starfshóps síns, fann hann það út að Ísland væri 30 til 50 árum á eftir öðrum þjóðum í nýtingu vindorkunnar. Þó er ekki orð um þá fullyrðingu ráðherrans í sjálfri skýrslunni. Nú nefnir hann að staðsetning vindorkuvera skipti mestu máli og vissulega má segja að staðsetning hafi komið fram í skýrslunni. Engin afstaða var þó tekin til þess máls í henni, frekar en öðrum atriðum. Og fráleitt að segja að staðsetning eigi einhvern stórann hlut í afurð stýrihópsins.

En þetta skiptir þó minnstu máli. Að við séum á eftir öðrum þjóðum í nýtingu vindorkunnar gefur okkur þann kost að læra af mistökum annarra. Um staðsetninguna þarf vart að ræða, enda vart til sá blettur á Íslandi þar sem vindorkuver mun ekki sjást, hvort heldur er frá byggð eða einstökum náttúruperlum okkar. Mun í öllu falli rýra okkar fallega land og rýra þá stoð hagkerfis okkar sem við köllum ferðaþjónustu.

Það sem mestu skiptir í umræðunni um vindorkuver er hvort vindorka sé hrein og afturkræf. Hvorugt stenst skoðun. Vindorkuver er mjög mengandi orkukostur. Augljóslega er sjónmengun þeirra mikil,  örplastmengun frá þeim er gífurleg, skaðlegar gastegundir eru mjög miklar, olíumengun er viðvarandi, auk þess sem rekstrakostnaður þeirra er mun meiri en vatnsorkuvera. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að vindorkan er mjög óstöðug, jafnvel svo að uppsett afl þeirra þarf að vera 60 - 70% hærra en nýtanleg orka, Og landsvæðið sem vindorkuver þarf til rekstrar er allt að 90% meira en landsvæði fyrir vatnsorkuver, með uppistöðulóni. Það er ekki með neinum hætti hægt að réttlæta vindorkuver, meðan vatnsorka er í boði.

Ég er enn að velta fyrir mér fullyrðingu ráðherrans um 30-50 árin. Hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir að ekkert hafi verið um það rætt í sjálfri skýrslunni.

Ef við skoðum söguna, þ.e. beislun vinds til raforkuframleiðslu, kemur í ljós að fyrsta vindtúrbínan var reist fyrir 136 árum síðan, af Charles F Brush. Þetta var nokkuð stórt fyrirbæri en orkuframleiðslan lítil. Þetta þróaðist þó upp í að farið var að framleiða litlar vindtúrbínur við sveitabæi og náðu nokkrar slíkar að komast hingað til lands. Þær voru vægast sagt óstöðugar og varla hægt að treysta á þær á neinn hátt.

Það var svo Palmer Cosslett Puttman sem fyrstur kom fram með vindtúrbínu sem hafði yfir 1 MW uppsett afl. Má segja að það hafi verið upphafið af þeirri þróun sem nú á sér stað. Þetta var fyrir 82 árum síðan. Þessi vindtúrbína Puttmans gekk þó ekki nema um 1000 tíma, þar til spaðarnir rifnuðu af henni og þar með lauk þeirri tilraun.

Næstu fjörutíu ár þar á eftir skeði ekkert í nýtingu vindorkunnar, utan auðvitað til þurrkunar á þvotti. Það er því ekki nema um 42 ár síðan byrjað var fyrir alvöru að virkja vind til raforkuframleiðslu. Því skítur nokkuð skökku við að ráðherra telji okkur vera allt að 50 árum á eftir öðrum þjóðum í nýtingu vindorkunnar.

En blekkingaleikur á ekkert skylt við staðreyndir. Þar gilda allt önnur lögmál. Sem dæmi um blekkingaleikinn, utan þess sem að ofan er talið, má nefna hvernig orðræðan er. Það er talað um vindmillur og vísað þar í litlar og sætar kornmillur á örkum Hollands og fleiri ríkja. Allar aðrar þjóðir gera greinarmun á vindmillum og vindtúrbínum, enda eðli þeirra gjör ólíkt og stærð, umfang og sjónmengun fjarri því sambærileg. Þá er gjarnan talað um vindlundi, eða vindgarða, þegar blekkingum er haldið fram. Þetta á ekkert skylt við lundi eða garða, heldur er um að ræða risastór vindorkuver sem taka yfir stór og mikil landflæmi. Afturkræfni er gjarnan nefnd í þessum blekkingum, en fráleitt er að skila aftur viðkvæmu hálendinu til sama vegar, þegar vindorkuverið hefur lifað sína daga. Jafnvel þó lagt yrði í þann gífurlega kostnað að brjóta upp og eyða undirstöðum vindtúrbínanna og fjarlægja allt það sem fylgir hverju slíku mannvirki, mun taka landið sjálft hundruð ára að verða samt aftur. Að ekki sé talað um þá gífurlegu losun co2 við slíka hreinsun.

En, eins og áður hefur komið fram, blekkingarleikur á ekkert skylt við staðreyndir. Hitt er alvarlegra, þegar ráðherrar ganga fram fyrir skjöldu og stunda slíkan blekkingaleik fyrir mis gæfulega ævintýramenn, gjarnan erlenda. Síðast þegar stjórnmálamenn og stjórnvöld stunduðu slíkan blekkingaleik fór landi nánast á hausinn og fjöldi fjölskyldna lenti á vergangi. Og enn á að fórna landi og þjóð!

 


mbl.is Staðsetningin helsta álitamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er ljótur leikur Gunnar, -og sennilega verður ekkert til bjargar annað en eldgos, eða þá aðrar  hamfarir að völdum náttúrunnar.

Umhverfisáhrif vindorkuveranna verða gríðarleg og engan veginn afturkræf, -bara steinsteypan í undirstöðu  einnar vindtúrbínu er 500-1000 tonn.

Vindspaðinn er að mér skilst um 80 m langur. Vegirnir sem þarf að byggja til að flytja steypu og vindrellu á fjöll eru gríðarlegir, -og þurfa að liggja að hverri einustu rellu.

Bara núna, hér á Héraði, eru þungatakmarkanir á vegum sem koma í veg fyrir að hægt sé að flytja steypu í nýjan kamar inn við Hengifoss og krana að nýrri brúarbyggingu við Gilsá.

Steypusílóið okkar var inn við Hengifoss seinnipartinn í vetur, lá þar á hliðinni, núverandi kamar var lokaður vegna frosta, það var frosið í klósettinu.

Þegar við fengum sílóið þaðan til að steypa í fyrstu hlákunni í lok mars þá var það hálf fullt af mannaskít, því einhverstaðar verða blessaðir túristarnir að gera þarfir sínar.

Svona til að setja allan þennan skít í eitthvað samhengi þá þarf álíka mikla steypu í þjónustuhús við Hengifoss, sem stendur við fulluppbyggðan veg með bundnu slitlagi, -og undir hálfa vindrellu.

Magnús Sigurðsson, 24.4.2023 kl. 18:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband