Zephyr og Qair

Þegar umræðan snýr að vindorkuframleiðslu og tengdum iðnaði, hér á landi, koma sömu fyrirtækin gjarnan upp, norska fyrirtækið Zephyr og franska fyrirtækið Qair. Þessi tvö fyrirtæki virðast vera að ná algjörum heljartökum á stjórnmálamönnum þessa lands og eru að yfirtaka landið okkar.

Norska fyrirtækið Zephyr er fyrst og fremst á sviði vindorkuvera. Er þegar með starfandi vindorkuver í Noregi með samtals uppsett afl upp á 550 MW og áætlanir um aukningu á framleiðslu. Þar vegur kannski þyngst stórfelld vindorkuframleiðsla á sjó, utan Oslóafjarðar. Hér á landi eru áætlanir þessa fyrirtækis nokkuð stærri og meiri. Bara eitt vindorkuver, Klausturselsvirkjun, á að vera með uppsett afl upp á 500 MW, eða nærri jafn mikið og allt uppsett afl fyrirtækisins í öllum vindorkuverum þess í Noregi. Auk þess er fyrirtækið með áætlanir um vindorkuver víða um landið og má nefna Brekkukamb, Langanes, Mýrar, Á suðurlandinu og samkvæmt heimasíðu Zephyr einnig í Meðallandinu, en sennilega eru þau áform komin í hendur Qair.

Þá er Zephyr einnig með starfsemi í Svíþjóð en enn sem komið er fer sú starfsemi öll fram við skrifborðið, þó áætlanir fyrirtækisins séu að koma þar fyrir vindorkuverum, í framtíðinni.

Zephyr er sagt í eigu norskra sveitarfélaga en það er eins og að segja að SS sé í eigu bænda. Vissulega stofnuðu bændur SS á sínum tíma og þegar illa gengur hjá fyrirtækinu þurfa bændur að blæða. En þegar bóndi hættir búskap fær hann ekkert fyrir sinn hlut í SS. Svipað fyrirkomulag er með eignarhald á Zephyr. Þá er þetta fyrirtæki einna þekktast fyrir að standa í deilumálum, heima fyrir, sem gjarnan lenda fyrir dómstólum. Oftar en ekki eru það sveitarfélögin, sem sögð eru eigendur, sem deila við fyrirtækið.

Franska fyrirtækið Qair er aftur nokkuð flóknara. Á heimasíðu þess má sjá að nánast allt sem hægt er að kalla einhverskonar græna orkuvinnslu, er þar í boði. Þegar nánar er skoðað kemur þó í ljós að þetta fyrirtæki hefur einkum verið á sviði sólarorku. Er með slík orkuver víða, þó einkum í suður Evrópu, norðanverðri Afríku og Brasilíu. Vindorka er hverfandi hjá fyrirtækinu og enn ekki hafin vinnsla á vetni. Þó er fyrirtækið með áætlanir um lítilsháttar vetnisframleiðslu í Frakklandi, í tengslum við fljótandi vindorkuver á Biskayja flóa, einhvertímann í framtíðinni. Í Brasilíu eru auk sólarorkuvera einstök vindorkuver og er ætlunin að auka þá framleiðslu upp í 600 MW uppsett afl. Þetta fyrirtæki er meira fyrir ásýndina en raunveruleikann, sýndarveruleikinn þar allsráðandi.

Hér á landi er Qair kannski þekktast fyrir að kaupa upp hugmyndir annarra á vindorkusviðinu. Hefur þannig eignast nokkrar hugmyndir eins og stórt vindorkuver á Laxárdalsheiði, í landi eiginkonu eins ráðherrans okkar. Þá keypti Qair ónýtar vindtúrbínur í Þykkvabæ og hefur stórar hugmyndir þar. Eins og áður segir er nokkuð líklegt að þetta fyrirtæki hafi keypt hugmyndir Zephyr í Meðallandi, en þar hyggst Qair reisa stórt orkuver. Eins og staðan er í dag eru hugmyndir Qair um vindorkuframleiðslu hér á landi, komnar yfir 1000 MW uppsett afl, vítt um landið. Þó er eins og einhver afturkippur sé hjá fyrirtækinu, þar sem eitt stærsta vindorkuverið þeirra hér á landi, á Melrakkasléttu, er komið í uppnám. Sveitastjórnin þar þykir  monsjur Tryggvi hafa sig afskipta og leita annarra aðila í verkið. Kæmi ekki á óvart að þar kæmi Zephyr að borði.

Áætlanir á sviði rafgreiningar og framleiðslu á vetni eru farnar að heyrast nokkuð hér á landi. Fyrir austan er Zephyr komið í samstarf við danskt fyrirtæki, sem ætlar að reisa slíka verksmiðju niður á fjörðum. Sá böggull fylgir þó skammrifi að hún er fasttengd því að Zephyr fái að reisa risavindorkuver í Klausturseli, orkuver að stærðagráðu sem hvergi annarstaðar þekkist á landi. Qair virðist hins vegar ætla að sjá um þennan lið sjálft, með því að reisa rafgreiningarverksmiðju á Grundartanga. Sú verksmiðja er einnig tengd áætlunum fyrirtækisins í vindorku.

Rafgreining á vetni er í sjálfu sér góð hugmynd og mun hjálpa til við orkuskipin hér, að ekki sé talað um þá möguleika sem slík framleiðsla býður uppá í annarri framleiðslu, eins og áburði á tún bænda. Þessar tvær rafgreiningarverksmiðjur eru hins vegar af þeirri stærðargráðu að ljóst er að verið er að horfa til fleiri markaða en hér innanlands. Þessar verksmiðjur eru dýrar í byggingu og kosta sitt í rekstri. Því er mikilvægt að starfstími þeirra sé sem stöðugastur, að ekki þurfi að keyra þær eftir duttlungum vindsins. Það er með ósköpum að nokkur skuli trúa því að forsenda slíkrar verksmiðja sé vindorka og nánast móðgun að setja slíkt fram.  Ætla mætti að leikurinn sé til þess gerður að liðka fyrir því að vindorkuver fáist reist.

Áætlanir um vindorkuframleiðslu á Íslandi eru orðnar svo gígatískar að útilokað verður að stýra raforkukerfinu hér á landi. Þegar blæs munu túrbínur framleiða á fullu og ekkert þess á milli. Ekkert fyrirtæki er tilbúið að starfa við slíkar aðstæður. Það er því einungis ein leið til að hafa einhverja stjórn að raforkukerfinu okkar, komi þessi áform til framkvæmda, en það er sæstrengur til meginlandsins. Þá er hægt að send yfir hafið orku meðan blæs og slökkva á strengnum í logni.

En málið er þó ekki svo einfalt. Alþingi samþykkti orkupakka 3, sem fjallar fyrst og fremst um flæði orku yfir landamæri og stjórnun þess flæðis. Meðan enginn strengur er, eru áhrif þessa orkupakka ekki mikil. Komi til strengur tekur þessu tilskipun gildi að fullu, hér. Þá mun vindur ekki ráða hversu mikla orku við sendum til meginlandsins, heldur mun ACER ráða þar för og horfa frekar til þarfar meginlandsins á hverjum tíma. Þetta gæti valdið enn frekari sveiflum á orku hér á landi.

Hitt er líka ljóst að verð orkunnar mun hækka verulega, verða í takt við það sem þekkist í Noregi, ef ekki hærra. Verst er þó að vald okkar yfir fyrirsjá í vatnsbúskapnum mun verða af okkur tekið. Það gæti leitt til þess að miðlunarlón væru nánast tóm í upphafi vetrar, með tilheyrandi framleiðsluskerðingu vatnsorkuveranna. Þá verðum við upp á náð og miskunn meginlandsins um orku TIL landsins og vart hægt að hugsa þá hugsun til enda ef eitthvað kæmi fyrir strenginn. Bilun í sæstreng er ekki löguð á örfáum klukkutímum, frekar hægt að tala þar um vikur og mánuði.

Í landi sem er ríkt af orku er fráleitt að ætla að fórna náttúrunni undir risa vindorkuver, í fleirtölu!


mbl.is Bæta við fjórum vetnisstöðvum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér pistilinn Gunnar.

Ég heyrði af norskum sjónvarpsþætti fyrir skemmstu, þar sem var farið ofaní saumana á eignarhaldi vindbarónanna í Norge með þeirri skilvirku aðferð wollow the money, og endaði sú slóð öll á aflands eyjum.

Hefurðu nokkuð frétt af því hvort fjölmiðlarnir okkar hafi hugsað sér slíkan eltingaleik leik?

Magnús Sigurðsson, 13.2.2023 kl. 18:56

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk Magnús.

Ég geri ekki ráð fyrir að fjölmiðlabörnin hér á landi fari að leita neinna upplýsinga, hvorki um eignarhald vindbaróna né hagsmunatengsl ráðherra og þingmanna við þetta ævintýri.

Gunnar Heiðarsson, 13.2.2023 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband