Bara ef það hentar mér
7.7.2022 | 00:25
"Bara ef það hentar mér" sungu Stuðmenn um árið. Þessi setning kom upp í hugann er ég las frétt á visir.is, um nýja túlkun ESB á orkugjöfum. Nú telst orka sem unnin er með gasi eða kjarnorku til grænnar orku.
ESB hefur verið duglegt að setja fram hinar ýmsu kvaðir á íbúa aðildarlanda sinna. Reyndar smitast þetta út fyrir ESB, því EES samningurinn virðist vera spyrtur við flestar kvaðir ESB. Loftlagsmál hafa verið fyrirferðarmikil í þessari herferð sambandsins gegn þegnum sínum. Þar hefur offorsið verið slíkt að það sem sannarlega er undirstaða lífs á jörðinni er nú skilgreint sem eitruð lofttegund, þ.e. co2.
Það er vissulega af hinu góða að berjast gegn mengun, hvaða nafni sem hún nefnist. En þá þarf að skilgreina hvað er mengun og hvað ekki. Co2 er til dæmis ekki mengun, heldur grundvöllur lífs á jörðinni, enda hefur alla jarðsöguna verið hærra hlutfall Co2 í andrúmslofti en nú. Hins vegar er klárlega hægt að tala um mengun í útblæstri, bæði bíla en þó einkum frá verksmiðjum. Reyndar eru flest mannanna verk mengunarvaldur, þó andardrátturinn sé það ekki, jafnvel þó fátt sé eins mikil uppspretta Co2 en einmitt hann. Samhliða því að fólksfjöldi jarðar hefur nærri áttfaldast frá lokum nítjándu aldar til dagsins í dag, er ljóst að mengun frá fólki hefur stór aukist. Gegn því þarf að sporna.
Undir lok tuttugustu aldar kom fáviss fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna fram með þá bábilju að Co2 væri valdur þess að hlýnað hafi á jörðinni. Vitnaði hann m.a. í tilraun sem gerð hafði verið í lokuðu tilraunaglasi, nærri öld áður. Einnig vitnaði hann í borkjarnarannsóknir vísindamanna. Loftslag jarðar er flóknara en svo að hægt sé að koma öllum breytum þess fyrir í tilraunaglasi. Og jafnvel þó vísindamenn hafi reynt af mætti að benda þessum fyrrverandi varaforseta á að þó leitni væri milli magns Co2 í andrúmslofti og hitastig þess, þá væru mun meiri líkur á að hlýnun leiddi til aukinnar losunar á Co2, frekar en hitt. En það var ekki hlustað á vísindamenn, varaforsetinn hafði talað. Brátt var svo komið að fáir þorðu að mótmæla hinum nýju fræðum, enda hætta á að missa vinnuna. Fræðunum var því kastað fyrir hina nýju trú!
Reyndar var bæði hitastig jarðar og magn Co2 í andrúmslofti í sögulegu lágmarki, undir lok nítjándu aldar, svo lágu að líf á jörðinni var komið í hættu. Jörðin stóð á þröskuldi ísaldar.
En aftur að fréttinni frá ESB. Vegna stefnu sambandsins í þessum málum var ljóst að til tíðinda myndi draga, fyrr en seinna. Orkuskortur var farinn að segja til sín löngu áður en Pútín réðst inn í Úkraínu. Covid var þá kennt um. Covid jók þó ekki eftirspurn eftir orku, þvert á móti minnkaði orkunotkun meðan á faraldrinum stóð. Hins vegar jókst hún aftur eftir að hjólin fóru að snúast aftur, þó ekki mikið meira en áður hafði verið. Orkan var hins vegar ekki til staðar, rétt eins og ráðamenn gerðu ráð fyrir að covid ástand yrði eilíft. ESB hafði einblínt á framleiðslu vind- og sólarorku. Orkugjafar sem útilokað er að treyst á sem stabíla orkugjafa. Þá er ljóst að fáar aðferðir til orkuframleiðslu eru meira mengandi en einmitt vindorkan, jafnvel þó einungis sé þar talin einn mengunarvaldur af mörgum, örplastmengun.
En nú er ESB sem sagt búið að skilgreina gas og kjarnorku sem græna orku. Það er vissulega gott. Áður var gas skilgreint sem grá orka. En það er fleira skrítið sem frá ESB hefur komið, eins og skilgreining þess á að tjákurl skuli skilgreint sem græn orka. Þetta getur átt við þegar trjákurl sem fellur til við timburframleiðslu, einkum í nánd við orkuverin, er nýtt til orkuframleiðslu í stað þess að urða það. En þegar raunveruleikinn er sá að skógar eru hoggnir í stórum stíl, vítt um heimsbyggðina og trén kurluð niður, flutt í skip með stórum flutningabílum og siglt með það um heimsins höf til Evrópu, svo framleiða megi þar orku, er ljóst að fátt umhverfisvænt er hægt að finna í þeim leik!
Vonandi verður þessi nýja tilskipan ESB, jafnvel þó hún minni á lagið sem Stuðmenn fluttu, til þess að vindmilluævintýrin taki enda. Eitt lítið kjarnorkuver getur framleitt stöðuga orku sem tæki þúsundir vindmilla að framleiða, þegar vindur blæs!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 00:31 | Facebook
Athugasemdir
Fréttin á visir.is er röng. Og co2 er ekki skilgreint sem eitruð lofttegund. Sá ekki ástæðu til að lesa lengra því framhaldið er sennilegast í sama gæðaflokki.
Það er vissulega gaman að búa til sögur um ESB, og margar skemmtilegar í gangi. En það sem er ennþá skemmtilegra er þegar menn taka röngum þýðingum, frjálslegum túlkunum, skáldskap og gríni sem heilögum sannleik og ná ekki upp í nefið á sér fyrir hneykslun á ESB.
Vagn (IP-tala skráð) 7.7.2022 kl. 01:58
Þú ert alveg ágætur Vagn
Gunnar Heiðarsson, 7.7.2022 kl. 05:01
CO2 og vatn, eru lífsnauðsynleg efni. Það er mér því nýlunda ef CO2 er skilgreint sem eitur, væri fróðlegt að sjá einhverjar heimildir fyrir því.
Allt er best í hófi, hiti og kuldi, þurrkur og raki. Ef eitthvað af þessu fer yfir ákveðin mörk þá getur það orðið lífshættulegt. Það sama á við um CO2.
Fréttir utan úr heimi þessa dagana minna á þessa staðreynd. Ofsarigningar og flóð eru í Ástralíu og víðar. Samtímis berast fregnir af ofsahitum á N-Ítalíu svo að jöklarnir hrynja niður af Dólómítaölpunum og Pósléttan, þessi frægi aldingarður, er að skrælna af meiri þurrki heldur en menn hafa haft spurnir af í þúsund ár. Skógar í Þýskalandi eru líka að skrælna, þ.á m. yfir 200 ára gamlir lystigarðar Friðriks mikla í San Souci.
Einhvern tíma á 19. öld var sýnt fram á með tilraun að CO2 hafi gróðurhúsaáhrif. Þó að tilraunin hafi verið gerð fyrir hálfri annari öld þá hefur hún ekki verið hrakin. Hún heldur því enn sínu fulla gildi.
CO2 er gróðurhúsalofttegund sem veldur hlýnandi loftslagi. Hlýnandi loftslag veldur bráðnun íss og jökla og hlýnun hafsins. Hafið inniheldur margfalt meira CO2 heldur en andrúmsloftið, en við hlýnun þess streymir það upp í andrúmsloftið og við það aukast gróðurhúsaáhrif þess. Þetta eru víxláhrif, svo kölluð keðjuverkun. Þau fara vaxandi með auknu hitastigi. Þetta er m.a. það sem flestir loftslagsfræðimenn óttast mest. Þar skiptir skoðun einhvers fyrrv. varforseta engu máli.
Hörður Þormar, 7.7.2022 kl. 19:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.