Metum verk stjórnmálamanna, ekki kosningaloforð þeirra

Sigmundur Davíð nefnir að skortur á vitlegri umræðu komi ríkisstjórnarflokkunum til góða. Það er rétt hjá Sigmundi, en það eru jú að koma kosningar, sá tími sem stjórnmálamenn virðast flestir tapa glórunni.

Það skortir ekki kosningaloforðin. Keppnin stendur þó ekki um efni þeirra, þar virðast flestir sammála. Keppnin snýst um hversu hátt menn geta hrópað. Efnisleg umræða er fjarri þessu fólki, enda ekki vænleg til atkvæðaveiða. Hitt er talið vænlegra, að geta hrópað nógu andskoti hátt.

Og fyrir þessu falla kjósendur. Þeim er slétt sama um efnislega umræðu, trúa áfram gatslitnum kosningaloforðum sem aldrei virðist vera hægt að standa við. Þeir sem eru nógu duglegir að koma sér á framfæri og hrópa nógu hátt, falla að krami kjósenda.

Hvernig væri, þó ekki nema til tilbreytingar, að meta verk stjórnmálamanna, í stað kosningaloforða. Hvernig væri að skoða hvernig stjórnmálamenn og flokkar þeirra hafa hagað sér þegar þeir komast að völdum. Til dæmis að skoða hvernig þetta fólk hefur hagað sér síðasta áratug, eða svo.

Varla geta vinstri flokkarnir hælt sér af sinni aðkomu að stjórn landsins, eftir að nokkrir íslenskir glæpamenn höfðu nánast sett landið á hausinn. Sumir þeirra meira að segja komnir á þing. Vinstri flokkarnir tveir, Samfylking og VG, voru kosnir vegna loforða um að slá skjaldborg um heimili landsins, meðan komist væri gegnum þann vanda sem þessir glæpamenn höfðu skaðað landið okkar. Hvað skeði? Skjaldborgin var slegin utanum bankakerfið, sem strax á fyrsta ári fór að sýna ævintýralegan hagnað.

Þúsundir fjölskyldna voru bornar út af heimilum sínum, dómur Hæstaréttar var hundsaður með afturvirkum lögum, svokölluðum Árna Páls lögum, lífeyrir til aldraðra og öryrkja var skertur meira en nokkur önnur ríkisstjórn hafði áður afrekað og í ofanálag miðuðust allar aðgerðir stjórnvalda til "hjálpar" heimilum, að því að bankakerfið fengi sitt. Enn eru fjölskyldur sem eiga um sárt að binda frá þessum tíma. Fjölskyldum landsins var fórnað á altari Mammons.

Formaður hagsmunasamtaka heimilanna er nú í framboði til Alþingis. Hún hefur verið dugleg að halda uppi málflutningi um þennan tíma og afleiðingar aðgerða þáverandi ríkisstjórnar á heimili landsins, verið góður málsvari heimilanna. Nú virðist sem flokkurinn sem hún er í framboði fyrir ætli að láta þá flokka sem þá voru við völd, véla sig til samstarfs!

Munum icesave. Þeir samningar komu á færibandi. Sá fyrsti leit dagsins ljós vegna þess að samningamaður ríkisstjórnarinnar nennti ekki að standa í þessu lengur. Sá samningur var skotinn út af borðinu. Næsti icesave samningur var samþykktur af Alþingi, þrátt fyrir hetjulegrar baráttu einstaka þingmanna gegn honum. Forsetinn vísaði hins vegar þeim samning til þjóðarinnar, sem stóð einhuga gegn honum. Þá kom þriðji samningurinn. Þar fór eins, hann var samþykktur af Alþingi, en þjóðin hafnaði honum. Þarna var meðal nokkurra valinkunnra manna, í forsæti gegn þessum samningum, þáverandi formaður Framsóknar.

Aldrei í sögu lýðveldisins hafa verið settir jafn margir skattar á launþega en einmitt þegar þessi vinstri stjórn sat. Enn er verið að vinda ofanaf þeirri skelfingu og verður að segjast að það verk gengur hægar en burðir eru til. Það virðist auðveldara að setja á skatt en taka hann af. 

Kvöldið fyrir kosningar, vorið 2009, afneitaði formaður VG ESB aðild í þrígang. Samt stóð hann að aðildarumsókn, korteri eftir kosningar. Þar var auðvitað farin sneypuför. Fólki var talið trú um að um eitthvað væri að semja og að kjósendur fengju síðan að kjósa um þann samning. Kunnuglegt stef sem hefur heyrst nokkuð oft í kosningabaráttunni nú. Staðreyndin er einföld og það komst þessi ríkisstjórn fljótlega að. Umsóknarríki verður að aðlaga sig að ESB, ekki öfugt. Ekki er um neinn samning að ræða, einungis hægt að fá frest á framkvæmd einstakra mála, þó ekki málaflokka. Þegar kom að sjávarútvegi og landbúnaði sigldu viðræðurnar í strand.

Sneypuleg var för þessarar ríkisstjórnar í stjórnarskrármálinu. Ætt var af stað með þvílíkum flumbrugang að Hæstiréttur sá sig knúinn til að grípa inní. Ekki var þó hlustað á hann, heldur haldið áfram. Þjóðinni bauðst síðan að segja álit sitt efnislega um örfáar greinar þess plaggs og hvort nota ætti það sem grunn að breytingu stjórnarskrárinnar. Enn er til fólk sem heldur því fram að ný stjórnarskrá hafi verið samin og þjóðin fengið að kjósa um hana. Það fólk á bágt, enda greinilegt að eitthvað skerðir mynni þess. Það var aldrei samin nein stjórnarskrá, einungis drög og það var aldrei kosið um neina stjórnarskrá, einungis hvort nýta mætti þessi drög til breytingar á gildandi stjórnarskrá. Enda hefði annað verið brot á núverandi stjórnarskrá, þar sem skýrt er tekið á um hvernig breyting hennar skuli framkvæmd.

Það  má lengi skrifa um óhæfuverk hinnar einu tæru vinstri stjórnar, sem hér sat frá 2009 til 2012 og síðan í eitt ár til viðbótar sem áhrifalaus minnihlutastjórn. Skemmst er frá að segja að í kosningum vorið 2013 var dómur þjóðarinnar á þessari ríkisstjórn harður. Máttu þáverandi stjórnarflokkar þakka fyrir að halda manni á þingi. Sigurvegari þessara kosninga var hins vega Framsóknarflokkur. Þar kom einkum tvennt til. Formaðurinn og nokkrir þingmenn flokksins höfðu verið einarðir í andstöðu við icesave samningana, alla. En einnig kom til að margir treystu því að það sem formaður flokksins sagðist ætla að gera, að láta kröfuhafa greiða 300 milljarða til ríkissjóðs, til að losna undan höftum þess fjármagns sem þeir höfðu komist yfir í kjölfar hrunsins, einkum með samningum við þáverandi fjármálaráðherra en einnig eftir öðrum leiðum, væri gerlegt.

Og það tókst. Formaður Framsóknar náði þessum 300 milljörðum sem hann sagðist ætla að ná og reyndar gott betur, endaði í um 600 milljörðum. Þeir sem höfðu gagnrýnt hann mest fyrir kosningarnar og sagt hann vera loddara, sagt þetta svo vitlaust sem mest gæti verið og með öllu óframkvæmanlegt, stukku nú fram og ásökuðu formann Framsóknar um að hafa tekið of lítið af kröfuhöfum búanna! Þvílík hræsni!! Skömmu eftir þetta afrek formanns Framsóknar var hann hengdur í beinni útsendingu ruv. Æran var tekin af honum. Magnað hvað tímalínan var þarna nákvæm.

Færum okkur nær í tíma. Í síðustu kosningum kom fyrrverandi formaður Framsóknar fram með eigið framboð. Spár fjölmiðla voru að hann myndi ekki ná neinu fylgi. Sumir frambjóðendur annarra framboða lýstu yfir andstöðu sinni við þetta nýja framboð. Úrslit kosninga voru hins vegar skýr, Miðflokkurinn varð fjórði stærsti flokkur landsins, varð stærri en Framsóknarflokkur.

Á þessu kjörtímabili hafa verið nokkur stór mál til umfjöllunar. Stærstu þeirra kannski orkupakkamálið og hálendisþjóðgarðurinn. Í báðum þessum málum stóð Miðflokkurinn einn í baráttunni gegn þessum málum. Orkupakkamálið tapaðist og ekki enn séð hvaða afleiðingar það mun hafa fyrir okkur sem þjóð, þó líkindin megi kannski sjá hjá frændum okkar í Noregi. Víst er þó að erlendir vindmillubarónar telja sig vita hvað hér á eftir að gerast, enda ásælast þeir hvaða hól sem finnst á landinu. Sumir í samstarfi ráðherra! Hálendisþjóðgarð tókst að tefja nægjanlega til að hann næði ekki fram fyrir þinglok. Reyndar verður starfandi umhverfisráðherra búinn að taka stóran hluta hálendisins undir þjóðgarð án aðkomu Alþingis og án aðkomu kjósenda, en það er annað mál sem sjálfsagt verður kannaður lögfræðilegur grundvöllur fyrir.

Læt hér staðar numið, þó enn megi margt segja.

Megin málið er þó að kjósendur ættu að skoða verk stjórnmálamanna. Þau verða ekki hrakin. Kosningaloforðin eru hins vegar haldlítil, enda sum orðin ansi slitin og ofnotuð. Ef þjóðin vill að við höldum sjálfstæði okkar og reisn, forðast hún þá flokka sem vilja selja landið undir ofurafl erlendra aðila og ef þjóðinni er annt um heimili sín og afkomu, forðast hún vinstri afturhaldsöflin. Þau hafa sýnt hvað í þeim býr!!

 

 


mbl.is Skortur á umræðu hjálpar ríkisstjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir greingóðan pistil.

Þörf upprifjun og tek heils hugar undir orð þín

X-M

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 23.9.2021 kl. 10:54

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Vil líka þakka fyrir pistilinn. Um leið minnist ég þess hvað það tók mig tíma að skilja þessa dæmalausu eyðslu í "ekkert",virkaði eins og heyrist svo oft að við séum rík þjóð.En Miðjuformaðurinn skirði hvernig mönnum var hrúgað í nefndir á launum8- (annski góðum) og voru marga mánuði stundum ár að komast að hvar,hvernig ætti að framkvæma viðfangsefnið,hvort þa var hús, eða breyting eða allt annað.Mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 23.9.2021 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband