Loftslag
22.8.2021 | 00:55
Engum blöðum er um það að fletta að það hefur hlýnað hér á skerinu okkar síðustu áratugi. Þeir sem muna veðurfarið á áttunda áratug síðustu alda og reyndar nokkuð fram á þann níunda, kætast yfir þessari breytingu í veðri. Minni snjór, hlýrri vetur og jafnvel sumstaðar hlýrri sumur er eitthvað sem flestir ættu að gleðjast yfir. Hvað veldur er erfitt að segja til um, en varla er þar að kenna co2 einu um. Sjálfsagt á mannskepnan einhvern þátt í þessari hlýnun.
Nú telja sumir að ég hafi glatað þeirri litlu glóru sem til var, enda slík "hamfarahlýnun" bara af hinu slæma. IPCC segir það. Segir reyndar líka að þetta sé allt manninum að kenna og samkvæmt fréttastofu ruv má ætla að þar séu Íslendingar helsti sökudólgurinn. Beri höfuð og herðar yfir allar aðrar þjóðir í því að hita upp andrúmsloft jarðar! Hvorki meira né minna!
Nýjasta skýrsla IPCC var opinberuð um daginn, upp á rétt um 4000 blaðsíður. Ekkert nýtt kom þar fram, nánast samhljóða skýrslunni í fyrra, árið þar á undan og árið þar á undan og... Á heimasíðu IPCC sést að þegar er hafist handa við skýrsluna fyrir árið 2022 og gera má ráð fyrir að hún verði samhljóða þeirri sem nú var opinberuð. Skemmst er frá því að segja að erfiðlega gengur fyrir IPCC að láta spádómana rætast. Enda er enn notast við sama spáforrit, enn notaðar sömu forsendur og því verður niðurstaðan jafn vitlaus og áður.
Það þarf svo sem ekki neinn snilling til að átta sig á að losun co2 af mannavöldum getur ekki verið sá þáttur sem mestu ræður. Magn co2 í andrúmslofti hefur aukist úr um 300 ppg í um 400 ppg. Þetta gerir aukningu um rúm 30%. Losun co2 af mannavöldum er talin vera nálægt 3% af heildarlosun í andrúmsloftið. Það sér því hver maður að þarna spilar eitthvað annað inn í, sennilega það nærtækasta, hlýnun jarðar. Þegar hlýnar minnkar sífreri í jörðu og við það sleppur gífurlegt magn af gösum út í andrúmsloftið. Því er líklegra að að losun co2 sé afleiðing hlýnunar en ekki orsök.
En aftur að fréttastofu ruv. Hún hefur sannarlega svarað kalli viðhlæjendur sinna í pólitík og berst nú á hæl og hnakka við gera skýrslu IPCC að kosningamáli hér. Síðasta "fréttin" þeirra fjallar um hversu miklir umhverfissóðar Íslendingar eru og vísar þar til skýrslu frá ESB, því heilaga fyrirbæri!
Það er þó margt að athuga við þá frétt. Sem von er þá notast ESB við þá aðferð að reikna mengun á haus í viðkomandi landi. Ef mengun er ástæða hnattrænnar hlýnunar á auðvitað að reikna mengun hvers lands á það landsvæði sem það ræður yfir, ekki fjölda íbúa. Við sem búum í stóru landi, sem að stórum hluta er óbyggilegt, getum aldrei komist nærri öðrum þjóðum í samanburði ESB. Það er einfaldlega útilokað. Þetta er því ekki frétt heldur áróður. Í öðru lagi er talið til gróðurleysi sem okkar sök. Gróðurleysi stafar af því að síðustu aldir voru þær köldustu frá síðustu ísöld, en nú stendur það væntanlega til bóta, með hlýnun. Losun vegna landnotkunar er þarna líka talin okkar sök, þó hún sé til þess eins að framleiða matvæli. Magn vegna þessa er stórlega ofmetið, enda stuðst við spálíkön að mestu, ekki mælingar. Þá er ljóst að aðrar þjóðir telja þetta ekki með, a.m.k. ekki Svíþjóð, miðað við það magn af heildarlosun sem þeir gefa upp.
Hvers kyns mengun er auðvitað af hinu slæma og koma á böndum á hana. Það kemur þó ekkert hlýnun jarðar við. Þar eru aðrir hlutir sem við ráðum lítið við, sem ráða för. Og jafnvel þó maður legði trúnað á að losun mannsins á co2 sé sökudólgurinn, er útilokað að hægt sé að minnka það um það magn sem þá þarf. Jafnvel þó við færum aftur um tvær aldir í þróuninni, fórnuðum öllum tölvum, símum og öllu því sem gerir líf okkar að því sem það er, myndi það ekki duga. En það má samt alveg koma böndum á almenna mengun jarðar.
Eitt er það sem enginn hefur nefnt, en er þó örugglega mun viðsjárverðara fyrir jörðina en öll önnur mengun mannsins, en það er svokallað Starlink. Þetta fyrirbæri er ætlað að tengja saman alnetið gegnum gervitungl og er hugarsmiðja Elon Musk. Hann ætlar að senda 45.000 gervitungl á sporbraut um jörðu, mun nær en önnur gervitungl eru, eða einungis í um 550 km hæð og munu ferðast þar á 28.000 km/klst. Þessi gervitungl hafa líftíma upp á 3 til 5 ár, en þá þarf að senda annað til skiptanna. Það tekur um 10 ár fyrir þau að falla til jarðar og vonast menn þá til að þau brenni upp. Gerist það ekki erum við vægast sagt í slæmum málum! Þetta segir að senda þarf 10 - 11.000 gervitungl upp á hverju ári og eftir tíu ár má búast við að jafn mikill fjöldi falli til jarðar. Það verður sannarlega sjónarspil! Á þeim tíma munu um eða yfir 100.000 gervitungl sveima um himingeiminn, í einungis 550 km hæð. Þetta er þá einungis á vegum Elon Musk. Heyrst hefur að Kínverjar séu að skoða þessa leið, einnig ýmsar aðrar þjóðir. Þá gæti fjöldinn orðið ævintýralegur.
Hvaða áhrif þetta hefur á jörðina veit enginn. Enn er einungis verið að tala um hversu slæm áhrif þetta hefur á stjörnuskoðun frá jörðu, einstaka menn velta fyrir sér hvort geimferðir leggist af vegna þessa, þar sem ekki verði komist gegnum þetta net. En hvað með áhrif á jörðina? Mun þetta net gervitungla virka sem gardína fyrir sólina til jarðar? Eða mun þetta net gervitungla virka sem spegill til endurvörpunnar sólarljóss af jörðu? Mun kólna? Mun hlýna?
Ef eitthvað mannlegt ógnar jörðinni er það Starlink og sambærileg fyrirbæri frá fleiri þjóðum.
Saga mannsins á jörðinni er stutt. Talið að Homo sapines hafi komið fram fyrir um 200.000 árum. Risaeðlurnar ríktu á jörðinni í 160 milljónir ára. Víst er að við munum hverfa af yfirborði jarðar fyrr en flestar aðrar skepnur. Því verður ekki forðað. Þau svokölluð hlýindi sem nú eru sögð ógna jörðinni eru ekki meiri en svo að enn er með því kaldasta á jörðu. Það viðmið sem notast er við, undir lok litlu ísaldar, segir flest sem segja þarf. Engu að síður þurfum við að ganga vel um jörðina.
Stjórnmálamenn telja sitt hlutverk að breyta veðurfari á jörðinni. Til þess notast þeir við skattlagningu. Ef eitthvað er fáránlegt er það að ætla að kaupa sér annað veður en náttúran vill. Hlutverk stjórnmálamanna er að vinna að þeim bótum sem þarf til að takast á við þann vanda sem veðurfarsbreytingar valda. Slíkar breytingar hafa ætið verið og munu áfram verða. Það er ekkert eitt loftslag rétt á jörðinni, það segir sagan okkur. Jörðin hefur frosið póla á milli, hlýnað svo að regnskógar hafa náð til póla hennar og allt þar á milli. Slíkar sveiflur hafa verið nokkrar, þó reyndar einungis tvisvar hafi jörðin frosið alveg póla á milli. Í jarðsögulegu tilliti lifum við eitt kaldasta skeið frá síðustu ísöld, á kaldasta hlýskeiði jarðar.
Við skulum því ekki óttast hlýnun, færi að kólna væri tilefni til ótta!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 01:06 | Facebook
Athugasemdir
Magn co2 í lofthjúpnum hefur aukist úr 280 ppg í 415 ppg. Þetta gerir aukningu um rúm 48%.
0,01% vínandi í blóði gerir þig röflandi fullan og þú heldur að 3% co2 sé svo lítið að það geti ekki haft mikil áhrif á hitastig lofthjúpsins.
Heildar flatarmál Starlink gervihnattanna er eins og tæplega sjö fótboltavellir og fjarlægðin milli gervihnattanna um 600 kílómetrar. Að setja tæplega þrjá og hálfan fótboltavöll milli jarðar og sólar hefur sama og engin áhrif. Og geimferðastofnanir sem geta lent geimfari með örfárra metra skekkjumörkum á Mars ættu ekki að vera í vandræðum með að skjóta gegnum ramma rétt fyrir ofan sig sem er 600x600 kílómetrar.
En það er mikið hægt að skrifa þegar fáfræðin er mikil, rökhugsun takmörkuð, misskilningur árátta og traust á færustu vísindum ekkert. Og ekki sparar þú blekið.
Vagn (IP-tala skráð) 22.8.2021 kl. 04:15
Ef losun hefur aukist um 48% er það enn frekari sönnun þess að aukningin stafar ekki af mannavöldum. Til að svo megi vera þarf losun af mannavöldum að vera meiri en 3%, reyndar margfalt meiri. Þetta er einfaldur hlutfallsreikningur og sama hvernig reiknað er, aukningin getur aldrei verið af mannavöldum.
Svo ættir þú að kynna þér aðeins betur Starlink verkefni Musk. Reyndar herma nýjustu fréttir að þetta sé að fara í vaskinn hjá honum, þar sem erfiðlega gengur að fjármagna þetta. Jafnvel þó afnotagjöldin séu með því hæsta sem þekkist í USA og verð móttökudiska svo hátt að annað eins þekkist varla þar úti, dugir það ekki fyrir nema broti af kostnaðinum verkefnisins.
Kannski er þetta upphafið að falli veldis Elon Musk?
Gunnar Heiðarsson, 22.8.2021 kl. 05:00
Um 1980 voru 10 milljarðar tonna af CO2 losaðir út í andrúmsloftið. Árið 2018 var þessi tonnatala komin upp í 37 milljarða.
Það að fullyrða að loftslagshlýnunin stafi ekki af mannavöldum má einna helst líkja við að halda því fram að jörðin sé flöt.
Hlýnunin hefur verið staðfest með ótal mælingum og yfirgnæfandi meirihluti sérfræðinga um loftslagsmál, í heiminum, er fullviss um orsökina, enda byggja þeir á vísindalegum staðreyndum.
Ekki ætla ég að færa þessar staðreyndir fram, enda ekki fær um það. Ég ætla því að vísa til sjónvarpsþáttar eins frægasta vísindamanns Þýskalands, eðlisfræðiprófessorsins, Haralds Lesch sem hefur verið með fjölda þátta um vísindaleg efni. Þátturinn heitir: "Misskilningur um loftslagsbreytingar skýrður". Þessi þáttur er á þýsku, en nálgast má sæmilega skiljanlega tölvuþýðingu á textanum á flestum tungumálum, þ.á m. Íslensku. Missverständnisse zum Klimawandel aufgeklärt | Harald Lesch
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 22.8.2021 kl. 16:20
Að tala um losun og aukningu eins og um sama hlutinn sé að ræða er misskilningur, eða vísvitandi tilraun til blekkinga. Aukningin er það sem gróður og höf ná ekki að taka til sín. Losunin er allt sem losað er og er ótengt upptökunni. Viðbót okkar við náttúrulega losun nær ekki öll að vera tekin úr lofthjúpnum og því hækkar co2 í lofthjúpnum á hverju ári. Hækkunin er minni en okkar losun en er samt hluti af okkar losun. Náttúran ræður við alla sína losun og hluta af okkar losun, en ekki alla. Án okkar væri engin hækkun.
Hvað kemur fjárhagur Elon Musk og framtíð og verðlagning Starlink, sem engin áhrif hafa á lofthjúpinn og veðurfar, málinu við?
Vagn (IP-tala skráð) 22.8.2021 kl. 19:20
Hörður, orsök eða afleiðing, um það deila vísindamenn.
Gunnar Heiðarsson, 22.8.2021 kl. 20:19
Enn og aftur Vagn, kynntu þér betur Starlink verkefnið!
Gunnar Heiðarsson, 22.8.2021 kl. 20:19
Gunnar Hreiðarson.
"Orsök og afleiðing, um það deila vísindamenn" Gott væri nú að fá nánari skýringu á þessu.
Hefur þú, t.d. eitthvað að athuga við skoðun Haralds Lesch á orsök og afleiðingu, almennt, auk þess sem hann hefur til mála að leggja varðandi mannleg áhrif á loftslagshlýnun?
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 22.8.2021 kl. 20:55
Hörður, þú ættir kannski að lesa pistil minn áður en þú tjáir þig. Þar kemur fram að ég velti því upp að sjálfsagt eigi mannskepnan einhvern þátt í hlýnun jarðar. Þetta vita menn bara ekki fyrir víst, þó sumir svokallaðir sérfræðingar telji svo vera.
Hins vegar er það staðreynd að sérfræðingar í loftlagsfræðum deila um hvort aukning á co2 í andrúmsloftinu sé orsök eða afleiðing hlýnunar. Það er vitað að með aukinni hlýnun gefur sífreri eftir á norðlægum slóðum, sem veldur mikilli losun ýmissa gastegunda sem gjarnan hafa verið nefndar gróðurhúsagastegundir. Þetta er staðreynd.
Það er líka staðreynd að flest hlýskeið jarðar hafa verið mun hlýrri en nokkurn tíman hefur orðið á því hlýskeiði er við lifum, sem reyndar er nær því að vera ísaldarskeið en hlýskeið. Það er einnig vitað að á fyrri hlýskeiðum jarðar var magn co2 margfalt meira en nú. Hvort það var ástæða þeirra hlýnunar eða afleiðing hafa menn deilt um. Kannski var það bara eðlilegt ástand, en ástandið í dag óeðlilegt, þ.e. að magn co2 sé allt of lítið.
Harald Lesch er mikið menntaður maður, en hefur þó ekki menntun á sviði loftlagsfræða.
Gunnar Heiðarsson, 22.8.2021 kl. 21:53
Gunnar Hreiðarsson.
Þetta virðist nú vera gagnkvæmt, ég hef víst ekki lesið pistil þinn nógu vandlega og þú hefur greinilega ekki kynnt þér sjónvarpsþátt Haralds Lesch, en þar fjallar hann einmitt um gróðurhúsalofttegundir á fyrra skeiði jarðsögunnar.
Harald Lesch er að vísu prófessor í stjarneðlisfræði, en hann er sennilega þekktasti þáttastjóri í þýsku sjónvarpi um vísindaleg efni. Þar hefur hann verið með marga þætti um loftslagsmál. Ef hann hefði farið þar með eitthvert fleipur, þá er ekki vafamál að hann hefði fengið það aftur framan í sig. Ég efast því ekki um þekkingu hans á þessum málum.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 22.8.2021 kl. 23:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.