Kári er Kári
7.7.2020 | 08:07
Kári er Kári, ólíkindatól og engum líkur. Fyrir um mánuði móðgaðist hann við ráðherra og lá ekki á skoðun sinni þar, nú er sama staða komin upp aftur. Hótar að hætta aðkomu að skimun ferðafólks til landsins. Jafnvel sósíalisti eins og Kári gerir sér grein fyrir að fyrirtæki verða ekki rekin af manngæsku einni saman. Það þurfa að koma til tekjur.
Hitt er ljóst að ríkið er fjarri því að vera í stakk búið til að taka við keflinu af Kára. Á þeim bæ gengur allt á hraða snigilsins. Þó ÍE hafi tekist á einni viku að koma sér upp aðstöðu til skimunar er barnalegt af Kára að halda að ríkinu sé slíkt mögulegt. Þar á bæ þarf fyrst að fita sérvalda einstaklinga í nokkra mánuði í nefnd við að skoða og skipuleggja málið. Þá tekur við karp um kostnaðinn, hvernig hægt sé að láta hann líta sem best út. Að því loknu er loks hægt að huga að framkvæmdum og þar sem áætlanir ríkisins standast nánast aldrei, mun verkið verða mun kostnaðarsamara en ætlað var og taka mun lengri tíma. Corónaveiran mun verða komin í sögubækur þegar loks allt er klárt til skimunar.
Einfaldast, skilvirkast og best er að ríkið semji við Kára og greiði ÍE fyrir verkið. En þar stendur hnífurinn í kúnni, skoðanasystir hans, sósíalistinn Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, getur ekki með neinu móti kyngt því að greiða fyrir aðkeypta þjónustu einkafyrirtækis. Það er svo sem í lagi, í hennar huga, að þiggja slíka hjálp ókeypis, en að greiða fyrir hana er andstætt pólitískum hugsanahætti hennar.
Reyndar ætlaði ég ekki að skrifa um Kára, Svandísi eða þeirra sósíalísku hugsjónir, þó vissulega fróðlegt sé að bera þær saman. Pistillinn átti að vera um viðtengda frétt af mbl.is. Fréttamaður býr til heila frétt um tíst einhverra misviturra manna á Tvitter, eins og þar sé öll vitneskja heimsins geymd. Í fyrirsögninni spyr hann hvort Kári sé on eða off og vitnar þar til tísts eins kollega síns.
Kári er hvorki on né off, Kári er bara Kári.
![]() |
Er Kári on eða off? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.