Kjarkleysi stjórnvalda

Það er ljóst að stjórnvöld eru að glata landinu í eymd, vegna aumingjaskapar, kjarkleysis og þægð við esb!

Vegna samninga um byggingu orkufreks iðnaðar á landinu, um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, hófst stórsókn í orkuframleiðslu á Íslandi og upphafið að dreifikerfi um allt land hófst. Þetta var einungis hægt vegna samninga um byggingu álvers á landinu, fé fékkst ekki til framkvæmda að öðrum kosti. Því má með sanni segja að álverið í Straumsvík hafi lagt grunn að því þjóðfélagi sem nú þrífst hér á landi, rafmagn á hverju heimili og öll sú velsæld sem því fylgir.

Samhliða þessu var Landsvirkjun stofnuð og um hana sett eigendastefna. Í henni var skýrt tekið fram að verð orkunnar til einstaklinga ætti að endurspegla rekstur fyrirtækisins, með öðrum orðum að eftir því sem skuldir lækkuðu ætti að gefast möguleiki á að lækka verð orkunnar. Allt frá upphafi hefur stóriðjan fengið orkuna á lægra verði en einstaklingar, sem er auðvitað eðlilegt. Stór orkukaupandi, jöfn notkun yfir 24/7/365  og dreifing orkunnar einföld. Þetta er öllum ljóst sem vilja skilja. Þrátt fyrir það er það fyrst og fremst sala á orku til stóriðjunnar sem hefur greitt niður lán vegna bygginga orkuvera, enda stóriðjan langstærsti orkukaupandinn. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að af stóriðjunni hefur fjöldi fólks sitt lífsviðurværi, allt frá verkafólki upp í mikið menntað fólk. Einhver þúsund einstaklinga vinna beint innan þessara fyrirtækja, mun stærri hópur hefur tekjur óbeint af þeim.

Blikur birtust á himni í upphafi þessarar aldar, þegar misvitrir og kjarklausir stjórnmálamenn létu véla sig til samþykkis þess að orka yrði skilgreind sem vara og því hluti EES samningsins. Þegar orkupakkar eitt og tvö voru samþykktir var gullfyrirtækið okkar landsmanna, Landsvirkjun, skipt upp í einingar, orkuvinnslu og dreifingu. Eigendastefna fyrirtækisins féll úr gildi og ekki var hugsað til þess að endurnýja hana. Nú er engin eigendastefna um Landsvirkjun lengur og stjórn fyrirtækisins ásamt misvitrum forstjóra, haga sér eins og þeim sýnist og hugsa hvorki um þjóð né þjóðarhag. Horfa vonaraugum yfir hafið og bíða. Þau fyrirtæki sem lögðu grunnin að Landsvirkjun og hafa skapað vöxt þess, eru ofsótt af forstjóranum, sem ekki virðist skilja verkefni sitt.

Það er þó ekki við stjórn eða forstjóra fyrirtækisins að sakast, heldur liggur sökin alfarið hjá stjórnvöldum. Þau eiga að sjá til þess að til sé eigendastefna yfir fyrirtækið og að henni sé hlýtt. Stjórnvöld og Alþingi skipa stjórn þess og stjórnin ræður forstjórann. Þegar þetta fólk sýnir slíkan vanþroska í samskiptum við þá aðila sem halda í þeim lífi, sem forstjórinn undir handleiðslu stjórnar LV hefur sýnt, ber stjórnvöldum tafarlaust að grípa inní. Þetta átti að vera búið að gera fyrir löngu síðan.

Verði ekkert að gert hið bráðasta, mun hér leggjast eymd yfir landið. Stóriðjan leggst af, þúsundir fólks missir sitt lífsviðurværi, gjaldeyristekjur munu skerðast langt niður fyrir það sem gerlegt er og Landsvirkjun missir um 80% af sölu raforku, sem sennilega mun setja það fyrirtæki á hausinn!

Í framhaldinu munu þeir feysknu innviðir landsins sem enn standa, endanlega bresta. Landið verður óbyggilegt!

Forstjóri Landsvirkjunar hefur farið mikinn í fjölmiðlum að undanförnu og haldið því fram að verð á orku til stóriðju sé sambærilegt hér á landi og í Evrópu. Fyrir það fyrsta fer hann þar með rangt mál, orkan hér er dýrari og sýnt hefur verið fram á það. Í öðru lagi er staðsetning okkar lands með þeim hætti að jafnvel þó orkuverð hér væri sambærilegt við Evrópu þá dugir það ekki til. Það hefur alla tíð verið vitað að hér þarf það að vera ívið lægra vegna legu landsins.

Menn geta haft mismunandi skoðun á stóriðjunni en það breytir ekki þeirri staðreynd að hún er ein af grunnstoðum okkar þjóðfélags. Skapar hér mikla vinnu, bæði beint og óbeint, skapar hér gjaldeyri sem okkur er nauðsynlegur og er undirstaða þess að hér var hægt að byggja upp og reka orkukerfi öllum landsmönnum til hagsbóta. Þessum staðreyndum verður ekki breytt, hvað svo sem menn segja. Ekki er hægt að sækja meira í sjávarútveginn, hann er fullnýttur og ferðaþjónustan er fallvölt og viðkvæm. Gætum allt eins verið að sjá þar tímabundið hrun á þessu ári, vegna mannskæðrar veiru frá Kína.

Stjórnvöld verða því að grípa inní strax. Kjarkleysið sem einkennt hefur stjórnmálamenn er ekki lengur í boði!!


mbl.is Rio Tinto meinar undirskrift nýs kjarasamnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband