Vatnshausar og vindhanar
30.8.2019 | 08:25
Það er hreint með ólíkindum að hlusta þingmenn og suma fræðimenn ræða un orkupakka 3. Það er eins og þeir skilji ekki, eða vilji ekki skilja eðli málsins. Öll rök andstæðinga op3 er afskrifuð, sama hver eru. Ýmist eru þau talin rugl, stundum að þau skipti ekki máli og einstaka menn reyna að halda því fram að sem sjálfstæð þjóð þá munum við ávallt hafa síðasta orðið. Þetta á sérstaklega við þegar rætt er um frum ástæðu þess að ESB samdi þessa tilskipun, flutning á orku milli landa. Þar hafa menn gengið svo langt að telja til hafréttarsáttmálann, sér til stuðnings.
Eðli tilskipunar ESB um 3 orkupakkann er einfalt, eins og með allar tilskipanir frá ESB. Eðlið er að framselja eða deila valdi. Um það snúast allar tilskipanir ESB. Þær eru settar fram til að samræma hluti milli aðildarlanda ESB/EES og slíka samræmingu er ekki með nokkru móti hægt að ná fram nema öll aðildarlöndin deili sjálfstæði sínu um viðkomandi málaflokk, um það sem tilskipunin segir. Þetta á einnig við um op3. Öll lönd ESB geta sótt um undanþágu frá hluta slíkra tilskipana, þó sjaldnast slíkar undanþágur séu veittar. Lönd EES hafa einnig möguleika á slíkum undanþágum gegnum sameiginlegu EES nefndina. Öll löndin þurfa þó að gera þetta eftir ákveðnu kerfi, ESB löndin við samþykkt tilskipunarinnar á Evrópuþinginu og EES löndin gegnum sameiginlegu EES nefndina. Ekkert land getur sett sér sjálft lög um einhverjar undanþágur, enda væri ESB þá fljótt að flosna upp.
Af sömu sökum eru lög og reglugerðir ESB æðri öðrum lögum einstakra aðildarlanda og sama gildir um þau lög og reglur sem sett eru í löndum EES vegna tilskipana sem þau samþykkja. Að þingmenn skuli ekki skilja þessa staðreynd, sem reyndar hefur svo oft reynt á, bæði hér á landi sem og í öðrum löndum ESB/EES, stappar furðu!
Þegar þjóð framselur, deilir eða afsalar sér einhverju valdi, hefur hún ekki lengur sjálfstæði á því sviði. Þetta er deginum ljósara og ætti að vera öllu sæmilega vitibornu fólki ljóst.
Með orkupakki 3 afsala þær þjóðir sem hann samþykkja yfirráðum yfir orkuflutningi milli landa. Það segir sig sjálft að þar er verið að færa valdið um hvort eða hvenær sæstrengur verði lagður til tengingar Íslands við Evrópu verði. Alþingi mun engu ráða og það mun ekki koma Hafréttarsáttmálanum við á nokkurn hátt. Alþingi hefur þá framselt, deilt eða afsalað sér (eftir því hvaða orð menn vilja nota) þeirri ákvörðun. Til að framfylgja þessu var stofnað sér embætti innan ESB, eins konar orkustofnun ESB eða ACER. Sú stofnun mun einungis þurfa að svara framkvæmdarstjórn sambandsins. Í hverju landi er síðan settur á stofn Landsreglari, Orkustofnun mun verða breytt í Landsreglara hér á landi, sem einungis þarf að svara ACER, reyndar gegnum ESA í löndum EES. ESA hefur hvorki þekkingu né vald til að gera athugasemdir við skipanir frá ACER, mun einungis koma þeim áfram.
Ef deilumál kemur upp um framkvæmd tilskipunarinnar, mun sú deila verða leyst á sama vettvangi og önnur lög hér á landi, sem til eru komin vegna tilskipana frá ESB, fyrir efta dómstólnum. Það er eðlilegt, þar sem við höfum jú framselt, deilt eða afsalað okkur valdinu yfir málinu, líka dómsvaldinu.
Að stjórnvöld skuli halda til streitu þessu máli er hreint með ólíkindum. Þau segjast ætla að setja fyrirvara, að taka einungis upp hluta tilskipunarinnar, en samt að samþykkja hana alla! Er ekki allt í lagi í kollinum á þessu fólki?! Ef það er virkilega vilji til að fá undanþágur, þá að sjálfsögðu á að fara þá leið sem fær er, einu réttu leiðina og senda pakkann aftur til sameiginlegu nefndarinnar. Þar er vettvangurinn til að sækja undanþágur, ekki Alþingi Íslendinga, né nokkuð annað þjóðþing þeirra ríkja sem undir tilskipunina falla.
Það er virkilegur efi í huga manns að stjórnarliðar meini virkilega það sem þeir segja, að þeir viti að heimatilbúnar undanþágur eru ekki pappírsins virði. Hvenær hafa þessir þingmenn verið spurðir um hug sinn til sæstrengs? Aldrei. Þó hafa sumir ráðherrar talað fjálglega um að slíkur strengur gæti orðið þjóðinni til heilla. Hvernig? Það hefur enginn getað sagt.
Því styrkist sá grunur að stjórnvöld séu vísvitandi að samþykkja op3 til þess eins að koma á sæstreng. Það er allt klárt til slíkrar lagningar og búið að fjármagna hana. Víst er að sumir ráðherrar og kannski einhverjir þingmenn munu hafa beinan hagnað af tengingu Íslands við hinn stóra og "góða" raforkumarkað í Evrópu.
Þegar þeir hrökklast af þingi, í næstu kosningum, munu sumir fá viðurnefnið vatnshausar og aðrir vindhanar.
Umræðum um þriðja orkupakkann lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Maður kemst ekki hjá þeirri hugsun HVORT ÞEIM ÞINGMÖNNUM, SEM SAMÞYKKI ORKUPAKKA ÞRJÚ HAFI VERIÐ LOFAÐ GÓÐUM STÖRFUM ÚTI Í BRÜSSEL. Þv´það er nokkuð ljóst að þetta lið þarf að fara að leita sér að annarri vinnu eftir næstu þingkosningar. Því ekki trúi ég því að nokkur fari að kjósa þetta lið yfir sig aftur.....
Jóhann Elíasson, 30.8.2019 kl. 09:06
Allt mikið rétt Gunnar og það ætti að dreifa þessum pistli þínum til þingheims, kannski sleppa þessu með vindhanana, menn geta stundum orðið sárreiðir sannleikanum.
Magnaður pistill sem ég ætla að fá að vitna í í athugasemdarkerfi mínu.
Hafðu þökk fyrir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.8.2019 kl. 10:24
Það er spurning Jóhann. Kannski einhver rannsóknarblaðamaður skoði þetta í framtíðinni.
Gunnar Heiðarsson, 30.8.2019 kl. 10:45
Þér er sjálfsagt að dreifa þessu pári mínu Ómar.
Varðandi vatnshausana og vindhanana þá fór ég nokkuð fínt í það og nefndi engin nöfn, þó vel væri hægt að gera slíkt. Ef einhver móðgast, segir það eitt að viðkomandi hafi eitthvað á samviskunni.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 30.8.2019 kl. 10:49
Hér er um einstaklega skýra, skipulega og upplýsandi grein að ræða, Gunnar Heiðarsson, og væri alveg fullverðug t.d. fyrir sjálfan Arnar Þór Jónsson héraðsdómara að skrifa slíka grein eða hinn ofurgreinda Bjarna Jónsson rafmagnsverkfræðing, sem þekkir betur til löggjafar- og reglugerða Evrópusambandsins á þessu sviði en flestir íslenzkir pólitíkusar, en honum hættir þó til að vera einum of ýtarlegur í umfjöllunum og nær ekki alveg þessu sláandi skýra yfirliti þínu, sem mætti hreint út sagt vera skyldulesning í framhaldsskólum landsins, svo vel leiðir hún okkur inn í allt þetta stóra samhengi við Evrópusambandsmálin.
Eins og sá ágæti Ómar Geirsson beiðist ég leyfis til endurbirtingar efnisins, á góðum stað og áberandi, ekki aðeins að hluta, heldur í heild, og læt þér frjálst að ákveða, hvort lokasetningin (sem ég amast raunar ekki við) fái þá að fylgja með.
Jón Valur Jensson, 31.8.2019 kl. 07:14
Sæll Jón Valur.
Þó ég sé kannski ekki mikill penni þá er það svo að þegar manni ofbýður vilja fingurnir hlaupa um lyklaborðið. Að sjálfsögðu máttu deila þessu að vild, teljir þú það hafa tilgang.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 31.8.2019 kl. 07:26
Hjartans þakkir, Gunnar!
Jón Valur Jensson, 31.8.2019 kl. 07:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.