Mannamatur?
2.8.2019 | 07:57
Framkvæmdastjóri samtaka verslunar og þjónustu fer mikinn þessa daganna. Krefst hann rannsóknar á sláturleyfishöfum og gefur jafnvel í skyn að eitthvað samráð sé milli þeirra, nefnir jafnvel lögbrot, þar sem verslun milli þeirra með lambahryggi hefur átt sér stað. Slík verslun er jú nauðsynleg til að sinna þörfum verslana.
Hitt er rétt að skoða, hvort sláturleyfishafar hafi farið offari í sölu á hryggjum úr landi, eða hvort einungis hafi verið seldir smáhryggir, sem verslanir hér hafnar.
Enn frekar ætti þó að rannsaka verslanir. Heyrst hefur að þær hafi tekið til sín mun meira magn af hryggjum síðustu mánuði og spurning hvort markvisst hafi verið unnið af því, af hálfu verslana, að búa til skort á hryggjum. Þetta er auðvelt, einungis þarf að skoða bókhald þeirra og bera saman pantað magn við selt. Ljóst er að verslanir hafa nægt frystipláss, úr því þær geta pantað til landsins 55 tonn af hryggjum frá Ástralíu/Nýja Sjálandi. Einnig þarf að skoða, út frá lögfræðilegu sjónarmiði, hvort verslunum sé yfirleitt heimilt að panta kjöt til landsins, áður en heimild frá ráðherra liggur fyrir.
Verið er að flytja inn kjöt þvert yfir heiminn, kjöt sem komið er á þriðja ár, eða frá sláturtíð 2017. Sláturtíð andfætlinga okkar er jú á þeim tíma er lömbin fæðast hjá okkur, svo þetta kjöt er væntanlega að verða tveggja og hálfs árs gamalt. Þetta skýtur nokkuð skökku við þar sem illa hefur gengið að fá verslunina til að kaupa kjöt af íslenskum sláturhúsum, sem orðið er eins árs. Væntanlega hafa verslanir fengið þetta kjöt með góðum afslætti, þar sem fyrir hefur legið að farga því.
Þetta kjöt á samt að setja í verslanir hér á landi og það ekkert smá magn, 55 tonn. Þarna er nokkuð vel skotið yfir markið. Í fyrri tilmælum ráðgjafanefndar um inn og útflutning á landbúnaðarvörum var talað um að skortur gæti orðið á hryggjum fram að sláturtíð og nefnt þar mánaðarmótin ágúst september. Sláturtíð hefur hafist hér á landi um miðjan ágúst um nokkurra ára skeið, þannig að ekki virðast nefndarmenn vita mikið um það málefni sem þeir eiga að gefa ráðgjöf um og kannski rétt að skoða hana líka. En hvað um það, nefndin talaði um skort í allt að einn mánuð og á það hengja SVÞ sig. Í venjulegu árferði er neysla á lambahryggjum hér á landi innan við 10 tonn á mánuði, eða innan við einn fimmti af því magni sem pantað var erlendis frá. Þetta er náttúrulega galið, sér í lagi þegar verið er að tala um svo gamalt kjöt að það hentar best til moltugerðar!
Hverju megum við neytendur svo búast? Fram til þessa hefur maður getað tekið lambakjötið í verslum beint í körfuna, höfum ekki þurft að taka upp pakkninguna, setja á okkur gleraugun og finna í smáletrinu upprunalandið, eins og þarf að gera við kaup á svínakjöti, kjúklingum og nautakjöti. Maður hefur gengið að því vísu að lambakjötið er Íslenskt. Nú mun það breytast, eða hvað? Verður kannski ekkert upprunaland sett á pakkningarnar? Ekki mun verð segja til um hvort það er íslenskt eða erlent, jafnvel þó það sé tollað. Þar ræður fyrst og fremst að grunnverð á eldgömlu kjöti hlýtur að vera mjög lágt, ef þá eitthvað.
Því er það áskorun á sláturleyfishafa og íslenska kjötvinnslu að merkja rækilega allt íslenskt lambakjöt. Þannig mun verða hægt að forða fólki frá að éta eldgamalt kjöt sem að öllu jöfnu væri ekki talið mannamatur.
Kjötið fer í búðir á fullum tolli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Matur og drykkur, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:01 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þetta Gunnar.
Stór-Verslunarmenn og einokunarlið þess í dreifilið hérlendis sem og erlendis (þ.e. ESB-mafían, en ekki kaupmenn) geta ekki beðið eftir því að fá að geta valið úr erlendu stóriðnaðar-landbúnaðar-rusli til að flytja inn og selja Íslendingum á uppsprengdu verði.
Hér heima hefur aldrei verið framleitt landbúnaðarrusl né sjávarafurðarusl, það hefur því verið ófáanlegt. Þess vegna iða þeir í skininu eftir að geta tekið Íslendinga í afturendann með innfluttu rusli. Þetta lið er einungis framhaldið á gömlu nýlendukúguninni.
Við fengum smjörþefinn um daginn, þegar fluttar voru inn ónýtar kartöflur sem ekki voru mannamatur og seldar hér á uppsprengdu verði. Þetta var bara erlent dýrafóður og öskuhaugamatur.
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 2.8.2019 kl. 09:25
Góður pistill og vel rökstuddur, hafðu bestu þakkir fyrir. Hefur enginn neitt spáð í það hversu góðan aðgang framkvæmdastjóri FA virðist hafa að fjölmiðlum, fyrir sinn "botnlausa ESB áróður"??????
Jóhann Elíasson, 2.8.2019 kl. 12:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.