"Þér er ekki boðið"
8.6.2019 | 11:20
Svo mælir formaður Framsóknarflokksins. Kannski ætti hann að líta sér nær. Það skiptir í sjálfu sér litlu máli þó ruglaður formaður stjórnmálaflokks vilji ekki bjóða formanni annars stjórnmálaflokks að borði sínu. Hitt skiptir meira máli hvað kjósendur velja, hvort þeir velja að bjóða stjórnmálamönnum að alsnægtaborði Alþingis. Nokkuð er víst að torsótt verður fyrir núverandi formann Framsóknar að sækja sér slíkt umboð, við næstu kosningar.
Að kalla formann Framsóknar ruglaðan er kannski stór fullyrðing, en þó. Skoðum aðeins hvernig þessum manni hefur vegnað við að standa við orð sín, frá því honum tókst með klækjum og hjálp óvandaðra manna að ná stöðu sinni.
Strax um sumarið 2016 var dregið í land með kröfur á svokallaða vogunarsjóði, sem á þeim tíma áttu landið okkar, með manni og mús, kröfur sem fyrirrennari SIJ hafði barist fyrir í kosningum 2013 og unnið að framkvæmd á. Það leiddi til þess að ný ríkisstjórn, sem stofnuð var þá um haustið átti enn auðveldara með að gera þessum sjóðum til góða.
Fyrir síðustu kosningar, haustið 2017, voru mikil loforð gefin. Reyndar var þá lítið rætt um op3, enda honum enn haldið að mestu leyndum fyrir kjósendum, en hins vegar var mikið rætt vegamál. Ástæða þess var að þáverandi samgönguráðherra Sjálfstæðisflokks hafði dottið sú snilldarlausn að skattleggja ætti landsmenn enn frekar í því nafni. Óhófleg skattlagning er eitthvað sem maður hélt að vinstri flokkar og þá einkum VG ætti einkarétt á, eða svo er okkur kjósendum talin trú um.
Í þessum anda spilaði SIJ enda málið vægast sagt heitt meðal kjósenda. Auka skattar vegna vegaframkvæmda væru bara alls ekki til umræðu og myndu aldrei verða ef kjósendur gæfu honum umboð sitt. Eftir kosningar var ljóst að Framsókn yrði í ríkisstjórn, jafnvel þó kjósendur hefðu gefið flokknum rautt spjald. Rétt fyrir jól var svo ný ríkisstjórn komin á koppinn, Framsókn komin með ráðherra vegamála og margir önduðu léttar, allar hugmyndir um vegaskatta voru úr sögunni. Í fyrsta viðtali við hinn nýja ráðherra, milli jóla og nýárs, áréttaði hann þetta. En eitthvað fór áramótagleðin illa í þennan nýja ráðherra, því strax eftir áramótin kom annað hljóð úr skrokknum, nú skildi leggja á vegaskatta og jafnvel enn meiri en fyrirrennari hans hafði þorað að nefna. Nú er unnið hörðum höndum í útfærslu þessa nýja skatts.
Að framsögðu og fleira má svo sem tína til, má að ósekju segja að ráðherrann sé eitthvað ruglaður, í það minnst á hann erfitt með að muna hvað hann sagði deginum áður.
En aftur að fréttinni sem þetta blogg hengist við.
Þar vænir hann sinn höfuðandstæðing, fyrrum félaga og samflokksmann, um að stunda innihaldslaust málþóf á Alþingi. Stórt sagt af manni sem sveik samherja sinn, samherja sem þó hafði treyst honum. Framsóknarflokkur var ekki beysinn haustið 2008 og ef ekki hefði verið fyrir nýjan og ferskan formann, er líklegt að flokkurinn hefði þurrkast út vorið 2009. Þá hefði Sigurður Ingi Jóhannsson aldrei orðið þingmaður.
Líklegt er að ráðherrann hafi lítið hlustað á ræður Miðflokksmanna á þingi. Hafi hann gert það ætti honum að vera ljóst að margir nýir fletir hafa komið upp í þeirra málflutningi, fletir sem ekki komu fram í upphafi umræðunnar, meðan ráðherra nennti að fylgjast með. Þessir nýju fletir hafa orðið til þess að enn fleiri lögfræðingar og spekingar sem ríkisstjórnin vísar til, í sínum málflutningi, hafa neyðst til að koma í fjölmiðla til að leiðrétta stjórnvöld.
Steininn tekur þó úr þegar ráðherra velur að ljúga að samherjum sínum og segir að op3 muni engu breyta nema að eftirlit Orkustofnunnar verði betra og að hagsmunir neytenda verði betur tryggðir!
Á hvaða leið er ráðherrann?! Vissulega telur hann sig þurfa að beita þeim brögðum sem hægt er, til að róa sína kjósendur. Landsþing hafði jú bannað með öllu að þingmenn flokksins stæðu að því að orka færi úr landi, en að grípa til lyga?! Það er nokkuð sem menn gera í örvæntingu, þegar allar aðrar leiðir eru ófærar. Þetta skilar þó aldrei árangri.
Op3 er um frjálst flæði orku milli landa, ekkert annað. Inn í það spilar að Orkustofnun verði gerð sjálfstæð frá stjórnvöldum en sett þess í stað undir ESA sem aftur tekur við fyrirmælum frá ACER. Sjálfstæðið eykst ekkert við þetta, þvert á móti. Og vald þjóðarinnar verður ekkert.
Hagmunir neytenda munu vissulega batna, þ.e. neytenda á meginlandinu. Hagsmunir íslenskra neytenda mun sannarlega versna.
Ekki er deilt um að þegar strengur hefur verið lagður munu hagsmunir neytenda hér á landi versna mjög mikið. Heimili munu þurfa að greiða hærra gjald fyrir orkuna, en verra er þó að fæst minni og meðalstór fyrirtæki eru í stakk búin til að taka á sig slíka stökkbreytingu á orkuverði. Því munu fyrirvinnur heimilanna missa vinnu í stórum stíl í ofanálag við hærra orkuverð.
Hins vegar hafa menn deilt um hvar valdið liggur við ákvörðun um sæstreng og hvort fyrirvarar, sem reyndar finnast ekki enn í gögnum, haldi. Um þetta þarf ekki að deila, því strengur mun koma. Bara spurning um hvenær.
Liggi valdið hjá Alþingi og haldi tíndu fyrirvararnir, þá erum við upp á Alþingi komin með ákvörðun um streng. Alþingismenn koma og fara og margséð er að þeim er sjaldnast treystandi. Því mun sæstrengur koma eftir sem áður.
Staðreyndin er hins vegar skýr, enda op3 til þess ætlaður, að valdið mun ekki liggja hjá Alþingi, jafnvel þó fyrirvararnir finnist. Þeir eru gagnslausir.
Valdið liggur hjá ESB, sem sendir tilkynningu til ACER sem aftur tilkynnir ESA að Orkustofnun Íslands skuli samþykkja lagningu á slíkum streng. Hin leiðin er að einkarekið fyrirtæki, t.d. Atlantic Super Connection, en í þeirra plönum er ætlunin að hefja sölu um strenginn árið 2025, eða eftir sex ár, leggi fram umsókn um streng. Þeim liggur á og eru sjálfsagt búnir að semja sína umsóknina, bíða bara eftir að Alþingi samþykki op3. Sú umsókn verður send til Orkustofnunar og ef stjórnvöld eða Alþingi ætla eitthvað að skipta sér að því, fer málið einfaldlega til eftirlitsstofnunnar ESA. Ef það ekki dugir mun málið lenda hjá EFTA dómstólnum, sem getur einungis dæmt eftir sjálfri tilskipuninni. Heimatilbúnir fyrirvarar munu þar lítt gagnast, sér í lagi þegar þeir finnast ekki.
Atlantic Super Connection ætlar að flytja út gífurlegt magn af orku, meira en menn almennt gera sér grein fyrir og um svo langan streng verður mikið orkutap. Samkvæmt áætlunum ASC mun orkutapið eitt sér nema sem næst þeirri orku sem Elkem Ísland, á Grundartanga notar, töluvert meira en fyrirhuguð Hvalárvirkjun mun geta framleitt. Umframorka í kerfinu er lítil sem engin, a.m.k. hafa garðyrkjubændur og aðrir stórnotendur sem óska eftir slíkri orku, ekki getað fengið hana keypta. Því má áætla að byggja þurfi sem svarar tveim Kárahnjúkavirkjunum til að fóðra strenginn. Það magn sem keyra á um þennan eina streng samsvara nærri þriðjungi þeirrar orku sem við framleiðum í dag!!
En einn strengur mun aldrei verða látinn duga. Að lágmarki þarf tvo, þó ekki sé nema vegna afhendingaröryggis. Fjöldi strengjanna mun þó væntanlega ráðast af því hversu mikla orku mun verða hægt að totta út úr íslenskri náttúru. Allt tal um verð orkunnar miðast við afhendingarverð. Engum hefur dottið til hugar að nefna verð hennar hérna megin strengsins. Víst er að ASC mun vilja fá sinn kostnað greiddan og ríflega það og eitthvað mun viðhald á strengnum og búnaði honum tengdum kosta. Því er ekki víst að orkufyrirtækin hér á landi fái mikið í sinn vasa. En verð til íslenskra neytenda mun þó ekki ráðast af verði á orkunni hérna megin strengsins, heldur því verði sem evrópskur markaður greiðir, þ.e. því verði sem á hinum enda strengsins.
Þó ég segi að formaður Framsóknar sé ruglaður, í upphafi þessa pistils, er fjarri því að ég telji hann heimskan. Hann veit allt um tilskipun ESB, svokallaðan op3. Hann er fullkomlega meðvitaður um afleiðingar þessa pakka og jafnvel þó hann telji eitthvað hald í fyrirvörum sem ekki finnast, þá veit hann að Alþingi mun ekki verða fyrirstaða við lagningu sæstrengs. En hann velur að ljúga að samflokksmönnum sínum. Hann er kominn upp við vegg, hann veit sök sína og reynir í örvæntingu að ljúga sig frá henni. Það mun ekki takast.
Sigurður Ingi "þér er ekki boðið" til Alþingis í næstu kosningum!!
Þér er ekki boðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gunnar.
Alveg sammála þér um innræti Sigurðar, en sorglegast þótti mér að sjá Guðna Ágústsson glaðbeittan á fremsta bekk á fundinum.
Jónatan Karlsson, 8.6.2019 kl. 12:13
Sá dagur er kominn, að sá sem faldi sig að baki Sigmundar Davíðs og stakk hann svo með rýtingi í bakið, að nú er sá hinn sami og afbrýðisami Sigurður Ingi að beina öllum spjótum að sjálfum sér. Ekki vegna þess hversu vitgrannur hann er að eðli, heldur vegna heiftar, haturs og afbrýðisemi í garð.Sigmundar Davíðs sem hóf flokkinn til margfalt meiri hæðar en smámennið Sigurður Ingi mun nokkurn tíma geta þolað. Svo lágt liggur hann í flór eigin flatneskju.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 8.6.2019 kl. 13:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.